29.6.2020 | 06:39
Vel valið
Múlaþing er vel valið nafn á hið nýja sveitarfélag á Austurlandi, sem samanstendur af Borgarfirði eystri, Seyðisfirði, Fljótsdalshéraði og Djúpavogshrepp. Sveitarfélögin sem nú sameinast hafa svo flest hver verið sameinuð úr enn fleiri hreppum í gegnum tíðina. En eiga það öll sameiginlegt að hafa til skamms tíma tilheyrt Múlasýslum, þ.e. Suður-Múlasýslu og Norður-Múlasýslu.
Drekabyggð er einnig nokkuð góð hugmynd að nafni á þetta nýsameinaða sveitarfélag enda er það á yfirráðasvæði drekans sem er landvættur Austurlands. En þess ber að geta að ekki eru allt það svæði sem undir þann landvætt heyrir innan sveitarfélagsins, s.s. höfuðból drekans Vopnafjörður. Svo er nafnið Drekabyggð langsóttara í tíma en Múlaþing.
Um drekann er svo sagt í Heimskringlu, að þegar sendimaður Haralds Gormssonar danakonungs fór til Íslands í hvalslíki til að kanna aðstæður tóku á móti honum vættir landsins;
Haraldur konungur bauð kunnugum manni að fara í hamförum til Íslands og freista hvað hann kynni segja honum. Sá fór í hvalslíki. En er hann kom til landsins fór hann vestur fyrir norðan landið. Hann sá að fjöll öll og hólar voru fullir af landvættum, sumt stórt en sumt smátt. En er hann kom fyrir Vopnafjörð þá fór hann inn á fjörðinn og ætlaði á land að ganga. Þá fór ofan eftir dalnum dreki mikill og fylgdu honum margir ormar, pöddur og eðlur og blésu eitri á hann. En hann lagðist í brott og vestur fyrir land, allt fyrir Eyjafjörð.
Fór hann inn eftir þeim firði. Þar fór móti honum fugl svo mikill að vængirnir tóku út fjöllin tveggja vegna og fjöldi annarra fugla, bæði stórir og smáir. Braut fór hann þaðan og vestur um landið og svo suður á Breiðafjörð og stefndi þar inn á fjörð. Þar fór móti honum griðungur mikill og óð á sæinn út og tók að gella ógurlega. Fjöldi landvætta fylgdi honum. Brott fór hann þaðan og suður um Reykjanes og vildi ganga upp á Víkarsskeiði. Þar kom í móti honum bergrisi og hafði járnstaf í hendi og bar höfuðið hærra en fjöllin og margir aðrir jötnar með honum. (Ólafs saga Tryggvasonar 33. kap.)
Múlaþing hlutskarpast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.