24.9.2020 | 06:09
Haustmánuður
Nú lengjast skuggar og kular um kaun þegar krafsar í mann kuldinn. Bara allt í einu komið hrímkalt haust. Jafndægur var fyrir tveimur dögum og nóttin er nú lengri en dagurinn þó svo að ekki sé komin nein myrkurtíð hefur sumarið nú þegar frosið á framrúðunni.
Þessi árstími tekur meira í með hverju árinu sem liður. Gömlu grónu meiðslin, sem safnast hafa á skrokkinn í gegnum árin, segja til sín með kala eftir að hafa legið í dvala bjartsýninnar á hlýju sumri. Steypa dagsins þyngri þraut en torf og verkir vaka langar nætur fram á dimma morgna, -jafnvel þó vinnudagur sé örstuttur hjá hrumu hrói.
Haustmánuður er sjötti og þar með síðasti sumarmánuðurinn samkvæmt gamla norræna tímatalinu, sem deilir árstíðinni í tvennt, -sumar og vetur. Haustmánuður var einnig talin vera 12. mánuður ársins. Hann hefst alltaf á fimmtudegi í 23. viku eða 24., ef sumarauki er, þ.e. 21.-27. september. Haustmánuður er nefndir svo í Snorra Eddu, en hefur einnig verið kallaður garðlagsmánuður, því þessi tími árs þótti hentugur til að bæta túngarða, engigarða, haga- eða skjólgarða og grannagarða.
Samkvæmt gamalli venju er nú tími að plægja land það sem sáð skal í að vori. Vatnsveitingaskurði er gott að stinga svo ekkert vatn geti staðið yfir landi á vetrum heldur að það súra vatn fái gott afrennsli. Jarðarávexti skal nú upp taka og láta nokkuð þorrna, grafa þá síðan niður hvar frost má ei að þeim koma. Um þennan tíma fellir melur fræ, má nú safna því áður og sá strax í sendið land og breiða mold yfir, kemur upp næsta vor. Hvannafræi og kúmeni má nú líka sá þar sem menn vilja þær jurtir vaxi síðan.
Sumri og vetri er samkvæmt gamla tímatalinu skipt í tvær jafnlangar árstíðir. Haustmánuður byrjar nálægt jafndægri að hausti og er yfir tíma þar sem nóttin er lengri en dagurinn, ætti því samkvæmt gangi sólar að tilheyra vetrinum. Þar sem Harpa er fyrsti sumarmánuðurinn, sem hefst í kringum 20. apríl, telst Haustmánuður sjötti mánuður sumars.
Það sýnir vel hvað gamla tímatalið var vel ígrundað, að það tók ekki einungis mið af afstöðu sólar við miðbaug, einnig tók það mið af lofthita og gangi náttúru jarðar sem er mun hagstæðari fyrsta mánuð eftir haustjafndægur heldur en á fyrstu vikum eftir vorjafndægur, sem eru um 20. mars.
Undanfarin sumur hef ég jórtrað íslenskt ofurfæði, því ég nenni ekki lengur að setja niður kartöflur. Langt er síðan ég fékk áhuga á að kanna hversu hollar villtar jurtir væru úr íslenskri náttúru. Flóran sem ég hef prufað er orðin fjölbreitt má þar helst telja; bláber, fjallagrös, njóla, fífla, hundasúrur, hvönn, melfræ, beitilyng, blóðberg og nú síðast í haust hvannarfræ. Rabbabarinn ruglast með þó hann teljist ekki til villijurta ennþá eins og njólinn og hvönnin, sem upphaflega var garðagróður ræktaður til matar og lækninga.
Fyrir veturinn söfnum við Matthildur mín því sem hægt er að geyma af lystisemdunum. Í frosti eru það bláber og rabbabari. Fjallgrösin eru auðveld í geymslu og núna í haust bættist við fræ af hvönn. Það hefur varla liðið dagur síðustu 5-6 árin sem eitthvað úr villtri náttúru hefur ekki verið á borðum. Meir að segja er það orðið svo, um það bil þrjá mánuði yfir sumartímann, að uppistaða matmálstíma er úr flóru landsins.
Það má segja að undanfarin ár hafi verið farið út um þúfur og lagst í berjamó upp úr verslunarmannahelgi. Hreyfingin og upplífgandi útiveran innan um fugla himinsins gefur miklu meira en hálfa hollustuna. Um síðustu helgi var punkturinn settur yfir i-ið á þessu sumri í aðalbláberjamó við lognstylltan Mjóafjörðinn og á vindasömu grasafjalli á heiðum Vopnafjarðar.
Það má vel vera að ég birti hér á blogginu einn daginn lokaritgerð um lækningamátt íslensks illgresis, en læt það vera að sinni, því betra er að æra ekki óstöðugan þegar löggilt læknanna ólyfjan er annars vegar.
Allt fram streymir endalaust,
ár og dagar líða.
Nú er komið hrímkalt haust,
horfin sumarblíða.
Kristján Jónsson
Heimildir;
https://is.wikipedia.org
http://natturan.is/samfelagid/efni/7426/
Athugasemdir
Heill og sæll Magnús.
Hér á Skaganum og í nágrenni er kominn vetur. Merki þess sá ég í morgun, á leið til vinnu. Þá mætti ég snjóruðningstæki.
Veður var að vísu ágætt, frekar kalt með örlítilli rigningu. Engin hálka var og því síður hægt að sjá snjó. Kannski bílstjórinn hafi bara veri á leið í kaffi!
Kveðja
Gunnar Heiðarsson, 24.9.2020 kl. 08:16
Sæll Gunnar og þakka þér fyrir innlitið og veðurfréttir af Skaganaum, veðrið er jú mál málanna á öllum árstímum.
Þið eruð sjálfsagt ekki óvanir því að veturinn hjá ykkur sé snjóléttur í norðaustan og stjórnendur snjóruðningstækjanna hafi tíma smá fyrir kaffi, svona allavega í september.
Hérna á Héraðinu var alhvít jörð þennan morguninn og hann á norðan úr öllum áttum til að byrja með, krapinn á götunum vel í ökkla, það mikill að ég lagði ekki í hann á hjólinu, hvað þá strigaskónum.
Það er varla til verri vindátt á Héraði en norðaustan, með úrkomu í kringum frostmarkið. Þannig að mér þykir þetta full snemmt, en það á nú að hlýna eitthvað á morgunn. Svo það er ekki alveg útséð með síðsumarið ennþá.
Með kveðju af Héraði, eða úr Múlaþingi eins og gárungarnir segja.
Magnús Sigurðsson, 24.9.2020 kl. 12:46
Blessaður Magnús.
Það kom nú einu sinni hret hérna fyrir austan í júlí, sönnun er mynd af ruðningstækjum á Hellisheiði eystri þegar Vigdís var að vísitera fyrst eftir kjör sitt.
Reyndar haustaði snemma það sumar, kartöfluuppskeran var ekki góð.
Síðan eru liðin ár og áratugir, minning er frá því að pabbi fór út með okkur bræðrum í fyrstu vikunni í sept til að taka upp kartöflur, í snjóhríð. Svo snjóaði aftur í nóvember að mig minnir, en reyndar haust veður og stilla í okt.
Hretin hafa alltaf komið, en síðust mörg ár hefur mismikil einmuna blíða fylgt í kjölfarið, sönnun er Ímastaðir, frá því að ég gat rétt úr bakinu uppúr 2010, þá hefur öll málningarvinna, að ekki sé minnst á múr og steypuvinnu, átt sér stað í sept-okt, þó misjafnt eftir árum.
En það er sómi af Ímastöðum í dag, þökk sé haustblíðunni.
Það er reyndar hlýrra á haustin við sjávarsíðuna, þá fer loksins blessuð hafáttin að telja til góðs, stillurnar eru meir með kulda uppá Héraði.
En þetta var ekki erindið, veit eins og er að veðrið og veðurleysan kemur á víxl, og ennþá er það mér hulin ráðgáta hvernig eitthvert líf þrífst þarna hjá ykkur í kuldanum í efra.
En ef Halldór væri að safna gögnum, heimildum og andrúmslofti, þá hefði þessi málsgrein fundið sér farveg í Sjálfstæðu fólki.
"Þessi árstími tekur meira í með hverju árinu sem liður. Gömlu grónu meiðslin, sem safnast hafa á skrokkinn í gegnum árin, segja til sín með kala eftir að hafa legið í dvala bjartsýninnar á hlýju sumri. Steypa dagsins þyngri þraut en torf og verkir vaka langar nætur fram á dimma morgna, -jafnvel þó vinnudagur sé örstuttur hjá hrumu hrói.".
Enn og aftur takk fyrir yndislegan pistil, hlakka til að lesa mér til um gagnsemi illgresis og annarra ónytja á heilsu og geð miðaldra.
Á meðan er það kveðja úr rigningunni í neðra.
En samt að austan.
Ómar Geirsson, 24.9.2020 kl. 13:13
Sæll Ómar og þakka þér fyrir innlitið og athugasemdina.
Já það getur víst snjóað í öllum mánuðum á Íslandi þó svo að við höfum verið heppin hvað það varðar undanfarin ár.
Það er náttúrulega eins og í lognstylltum norsku fjörðunum hjá ykkur í neðra á þessum árstíma, að hann á það helst til að hlæja af norðan úr öllum áttum.
Það er ekki ólíklegt að eigi eftir að fara fyrir okkur, eins og frændum okkar í Noregi, að sakna hamfarhlýnunarinnar, en þeir voru í hálfgerðu sjokki 2019 yfir því að fá ekki hitabeltisnætur í norðan nepjunni það sumarið og ekki leist þeim á öll hretin núna í sumar.
Ég get staðfest það að Ímastaðir eru til sóma og rúmlega það. Við Matthildur komum í Vöðlavíkina í þoku fyrir nokkrum árum og snarstoppuðum við þetta listaverk.
Ég spurði svo Björgvin í Vélsmiðju Eskifjarðar, hver ætti heiðurinn af Ímastöðum og fékk greið svör. Vélsmiðjan hans verður 100 ára eftir örfáa mánuði og hefur hann sýnt henni þá virðingu að hún verður Eskfirðingum til sóma á 100 ára afmælinu. Stórmerkileg vélsmiðja.
Þú kannast sjálfsagt vel við það að kaunin taka í þegar kólnar, svona svipað og ganga harkalega á vegg, og ekkert skáldlegt við það bara verkir og vonska.
Mér varð á fyrsta kalda daginn í magnvana bræði, af mæði og steypuæði að atyrða vinnufélagana. Spurði þá hvort þeir ætluðu bara að horfa á steypuna þorna, hvort ekki stæði til að hjálpa mér að jafna um hauginn.
Það er alveg merkilegt hvað þessir öðlingar þola mér, sennilega er það vegna þess að þeir skilja ekki helminginn af því sem ég læt mér um munn fara.
Það flutti einu sinni einn nágranni minn á Djúpavogi að hauslagi í efra og leist ekki á. Ég sagði honum að það væri ekkert að marka efra nema á ársgrundvelli.
Hann þakkaði mér heilræðið nokkrum árum seinna þá komin á Seyðisfjörð, en nú er Seyðisfjörður líka í efra, þó sumir vilji meina að hann sé í N-Kongó og aðrir í uppsveitum Borgarfjarðar.
En það er best að fara að venja sig við, -með bestu kveðu úr Múlaþingi.
Magnús Sigurðsson, 24.9.2020 kl. 15:27
Þú verður nú samt áfram Héri fyrir því Magnús, en vissulega er það rökrétt að benda þessum örfáum innbyggjum á Seyðisfirði, að fyrst þeir vildu ekki göng í Mjóa og síðan hingað, og þar með verða hluti af Fjarðabúum, að þá eru þeir í raun hluti af samfélagi sem kenna má við Norður Kongó.
Björgvin granni minn, bæði sá eldri sem og hinn yngri, bera ábyrgðina á sumarhúsabyggð fyrir neðan Vaðlabæinn, og leitun er af annarri eins snyrtimennsku og hjá þeim feðgum.
Við Ímastaðabændur erum hins vegar fyrir innan Vöðla, vorum í den hjáleiga inní landi frá höfuðbólinu við sjávarsíðuna, en svo fór sauðfé að telja meir en þorskur í hafnleysu, og í dag eru minjar um alvöru landbúnað á Ímastöðum, stór hlaða og tún, sem vart eða ekki er fundið á Vöðlum.
En Vaðlabærinn stendur, að hruni kominn, en Ímastaðir ytri eru stæltari í dag en þegar afi bjó þar. Fyrir innan á er svo sumarhús Gísla frænda, sem er sonur Ingu frænku minnar og Hárkarla Guðjóns sem var alinn upp á Karlskála yst í Helgustaðahreppi (Reyðarfirði norðanverðum).
Stórfjölskylda mín ber ábyrgð á viðspyrnunni sem forðaði Ímastaðabænum að verða rústir einar, en af öðrum ólöstuðum þá var pabbi minn, Geir Guðnason hjartað í þeirri endurreisn með styrkri aðstoð Guðna bróður.
En pabbi eltist, og það fór að sjá á bæði bæ og útihúsum.
En í öfugu hlutfalli við að mér tókst að rétta hægt og rólega úr mér, haustblíðan skýrir svo Sómann, sumarið fór jú í fótboltann, og þær skyldur að vera til taks.
Fyrir steypuefni sem krafðist 5 gráðu lágmarkshita, þá var gæfumunurinn næturhitinn við sjávarsíðuna, þegar lognið á Héraði hleypti hitanum niður og nær frostmarki.
Haustin hafa verið hlýrri undanfarin ár, oftast, mér er minnistætt haustið eftir skelfilega sumarið 2015(að mig minnir), þá kom fyrsta sunnanáttin 5 september, megnið af sumrinu var annar áttleysa, með góðu veðri í efra, en hafátt og súld í neðra, alla vega hérna í Norðfjarðarflóanum.
Það var gott haust, og Ímastaðagrafreiturinn bar þess ekki bætur, að fara frá því að vera ónýtur yfir á að vera á vetur setjandi, og er eins og nýr í dag.
En það komu líka haust sem maður var heppinn að snjóa ekki inni, núna síðast í fyrra.
Þeir segja veðurspámenn sem lesa gögn af strimlum ofurtölva, að komandi vetur verði kaldur.
Það má vera, en ég spái samt góðu hausti.
En ég er lélegur spámaður,
Kveðja úr síðdegissólinni úr neðra.
Ómar Geirsson, 24.9.2020 kl. 16:30
Þakka þér fyrir fróðleiksmolana úr Vöðlavík Ómar. Mér hefur lengi þótt þetta merkilegt svæði, á milli Reyðarfjarðar og Norðfjarðar, og mætti gera sögu þess betri skil, því hún er örugglega jafn athygliverð og annarsstaðar á landinu.
Mér finnst alltaf þjóðsögurnar gefa gleggsta mynd af daglegu lífi fólks í fyrndinni, svona ef maður hefur skyggnigáfu til að lesa á milli línanna. Þjóðsögurnar eru ekkert sérstaklega margar frá þessu svæði en þó eru til sögur af Sandvíkur-Glæsi.
Það sem við alþýðumenn í nútímanum gerum okkur sennilega ekki nægilega vel grein fyrir er að þær sögur sem við kunnum úr okkar samtíma verða þjóðsögur framtíðarinnar svo framarlega sem þær varðveitast. Þess vegna eru svona upplýsingar á við þær sem þú imprar á úr Vöðlavík mikilvægar.
Er var og verð Héri segirðu. Ég hef reyndar átt skráð lögheimili í Reykjavík, Egilsstöðum, Neskaupstað, Búlandshreppi, Djúpavogshreppi, Reykjavík, Austur-Héraði og Fljótsdalshéraði. Ekkert þessara sveitarfélaga eru lengur til nema Reykjavík.
Auk þess hef ég inn á milli átt lögheimili í Harstad í Noregi og Þórshöfn í Færeyjum. Ef ég á að segja það alveg eins og er þá hefur sólin ekki komið upp réttu megin við rúmið nema hérna fyrir austan, jafnvel þó svo að ég hafi verið borinn og barnfæddur Reykvíkingur.
Þó ber að geta þess að móðir mín var að norðan og faðir minn að austan og því merkilegt hvað ég þoli norðaustan áttina illa, ekki til verri vindátt á Héraði og svoleiðis var það líka á Neskaupstað ef ég man rétt.
Með kvöldslydduskúraleiðingum úr efra.
Magnús Sigurðsson, 24.9.2020 kl. 19:12
Ætli gamla íslenska jafna skiptingin í sumar og vetur sé ekki bara forn auglýsingamennska, svona svipað og nafnið á Grænlandi? Í markaðsmálum vill sannleikurinn stundum fara hallloka.
Þorsteinn Siglaugsson, 25.9.2020 kl. 14:50
Sæll Þorsteinn, þakka þér fyrir innlitið og þetta er mjög góð spurning.
Það er eins og vor og haust hafi verið óþörf hugtök í gamla tímatalinu þess vegna finnst okkur merkilegt að í köldu landi hafi sumarið verið talið jafn langt og veturinn, að vísu með haustmánuð sem síðasta sumarmánuðinn og má ætla að af honum sé orðið fengið sem er á Latínu autumana og ensku autumn, og það orð notað hjá flestum vestrænum þjóðum yfir nokkurra mánaða árstíð.
Gamla tímatalið hafði ekkert sem kallaðist vor, nema ef vera skildi sumarmál, sem voru 5 dagar, hafi verið ígildi vorsins. Það má því ætla að íslenska tímatalið sé ekki af latneskum uppruna eins og það gregoríska sem notað er í dag og er ættað frá Rómarvaldinu.
Það er athyglisverður kafli í bókinni "Betur vitað" eftir Gísla Hallgrímsson, sem heitir Íslenska tímatalið. Það var ekki fyrr en ég las þennan kafla, sem ég fékk einhvern botn í þetta gamla íslenska tímatal.
En áður var ég búi að rekast á að í Afganistan er enn þann dag í dag notast við tímatal sem er líkara því gamla íslenska en Rómar tímatalinu. En sennilega gæti það Afganska átt rætur að rekja til Kína án þess að ég viti nokkuð um það.
En hvað var svo hugsanlega verið að auglýsa?
Ég held að gamla tímatalinu hafi, auk þess að taka mið af gangi himintunglanna, verið ætlað að kenna fólki á gróanda jarðar. Eftir að ég fór að jórtra villta íslenska flóru hef ég komist að því að njólinn var áður kallaður fardagakál vegna þess að þá mátti yfirleitt ganga að honum vísum.
Ég hef líka komist að því, að um sumardaginn fyrsta passar að fara að líta eftir njóla og hvönn, og yfirleitt eru þessar jurtir að byrja að spretta þá. Berin frjósa svo oftast í námunda við mánaðarmót haustmánaðar og þá er orðið fátt um fína aðdrætti úr moldu jarðar, annað en rætur og jarðávexti, sem ekki er gott að bíða með að verða sér út um þar til eftir fyrsta vetrar dag.
Hérna er kaflinn um Íslenska tímatalið í bók Gísla.
https://magnuss.blog.is/blog/magnuss/entry/2184356/
Magnús Sigurðsson, 25.9.2020 kl. 16:15
Blessaður Magnús.
Það er svo margt sem maður ber ekki ábyrgð á, og þú ert Héri, alveg eins og SímaGummi frændi minn, borinn og barnfæddur Norðfirðingur, Fjarðabúi langt aftur í ættir.
Héri fyrir því.
Diffinn felst í væntumþykjunni, óðnum sem þið yrkið, eða ortu í tilfelli frænda míns, með orðum ykkar og störfum.
Hvort þetta sé til hrós eða vansa, veldur sá sem heldur, en þó ég rífist við margt Magnús, eins og þú þekkir vel til, þá rífst ég ekki við beinharðar staðreyndir, og Austfirðir væru aðeins útstöð, verstöð, ef hin blómlega byggð á Héraði væri ekki hluti af fjórðungi okkar.
Sem gerir okkur að heild sem er sjálfbær, og að ég held, seinna meir sé þess virði að sé minnst sem dæmi um að fegurðin geti líka átt sér heimkynni í hinu smáa.
Það er rétt að allar sögur sem við kennum við þjóð, ýkju, fornar eða eitthvað sem tjáir efa um fortíðina, voru einu sinni samtíma sögur. Og sem dæmi þá efa ég ekki, því ég náði í skottið á eldra fólki af Viðfjarðarkyninu, að sagan af honum Glæsi var saga um mann sem fann ekki sinn grafreit þar sem fólkið hans hvíldi.
Og það munu verða sagðar sögur af þeim feðgum, Björgvin eldri og Björgvin yngri, annálaðri snyrtimenni eru vandfundin, nema kannski á innri bænum hjá Gísla frænda mínum. Líkindin á slíku, í einni eyðivík, eru minni en þau sem mæla líkur á að mannkynið nái að fjötra Fernisúlf aftur í tíma.
Norðaustan áttin, norðaustan áttin, er svona líkt og gömul hálftannlaus frænka sem var alltaf að toga í eyrað á manni til að leggja áherslu á umvandanir sínar. Hún er vissulega "ekki" skemmtileg, en hluti af tilverunnu, uppá Héraði er hún áttin sem ætti að banna alla heimaleiki Austurlands á Fellavelli.
Frostkuldinn hins vegar, eða þessi eilífa næða í sólaráttinni sem við kennum niðri á Fjörðum við Suðvestan átt, menn hafa flutt til Ameríku og gerst Mormónar af minna tilefni.
Diddi mágur minn, fluttur hreppaflutninga uppá Hérað af skörungnum sem tók hann ungan í fóstur, segir hins vegar verst að sjá ekki sjóinn, og skil ég það vel.
EN, fallegt er Héraðið sem og mannlífið, og blíðan sem ræðst á garrann, þannig að hann verður aðeins minning eftir nokkra klukkutíma þó þrálátur hafi verið einhverja daga og vikur þar á undan.
Líkt og holtasóleyin sem ég sá í blómstra í um 800 metra hæð á Skúmhettinum innan um grjót og klungur. Fjöllin og sjórinn, samofið sálu okkar og vitund, og þó búsældarlegt sé að horfa yfir blómlegan matjurtargarð, þá breytir það ekki að rósin sem blómstrar, eða silfurreynirinn sem laufgar, gefur lífinu lit.
Þannig er Héraðið í mínum huga og haustkveðjur til ykkar í efra.
Strákarnir mæta Breiðablik á Dalvík á sunnudaginn, í undanúrslitum. Hvernig sem fer þá rættist draumur að fá að spila þann leik.
Því draumar snúast ekki um sigur, þeir snúast um að vera.
Að fá að dreyma.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 25.9.2020 kl. 17:04
Sæll Ómar, þetta er næstum fegurri óður en hægt er að ætlast til af innfæddum, hvað þá að hann komi úr neðra, ekki einu sinni hann afi minn, sem meir að segja lét vera að bölsótast út í norðaustanáttina á Héraði seinni árin, hefði gert betur. Veit ekki hvort Guðmundur frændi okkar komst svo langt.
Auðvitað á Austurland allt gott skilið, þar á meðal búsældarlegt Hérað.
Það er nú samt svo að hér í efra hefur atvinnulífið ekki náð sér á strik frá því sem var fyrir hrun. Kaupfélagið og fleiri máttarstólpar hurfu af sjónarsviðinu án þess að annað kæmi í staðin, að vísu hirtu einhverjar vildarvina kennitölur það sem þeim þóknaðist. Ef ekki væri fyrir það að heilu rútunum væri keyrt á hverjum morgni niður í neðra auk allra þeirra sem þangað keyra á sínum einkabílum þá væri ekki björgulegt í þeirri órækt sem sumir kalla skórækt.
Það vill stundum gleymast að Héraðið er landbúnaðarhérað á hverfanda hveli. Manni svíður á sumrin að keyra um sveitir sem maður man búsældarlegar. Saknar tíma þegar var hægt að fá allar tegundir af KHB jógúrt úr Héraðs kúnum. Nú fer mjólkin u.þ.b. einn hring í kringum landið ef hún kemur aftur heim í Hérað úr þeim fáu beljum sem enn fyrir finnast. Allt í nafni hagræðingar og sjálfbærni á kostnað kolefnissporsins.
En nú geta bæði Diddi frændi þinn og ég glaðst yfir því að sjórinn sést í efra, allavega í sveitarfélaginu. Hún er óvíða víðfeðmari og fegurri sjávarsýnin en í mínum gamla heimabæ Djúpavogi. Þar skín sólin meir að segja á vetrasólstöðum og norð-norðaustan áttin hreinsar loftið. Svo á eftir að koma í ljós hvort þið í neðra eigið eftir að stuðla að tekjum hafnarsjóðs í efri eins og verið hefur á Seyðisfirði og Djúpavogi.
Við skulum rétt vona að Austurland eigi aftur eftir að verða samofið, en á það hefur mér fundist skorta eftir að kjördæmið var lagt niður, Hornfirðingar fluttu suður og ekki er enn útséð með það hvort Vopnfirðingar flytji norður. En Fljótsdælingar standa alltaf fyrir sínu þó svo að gárungunum hafi þótt við hæfi að skýra Héraðið Fljótsdalshérað um tíma að þeim fjarverandi og var það ósmekklegra en Múlaþing.
En á meðan ég man megi ungu Austurlandi ganga vel á móti Breiðablik á Dalvík um helgina því allir draumar snúast í grunnin um að vera.
Með kveðju úr efra.
Magnús Sigurðsson, 25.9.2020 kl. 19:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.