Hvaðan kom nafnið?

IMG_4725

Það getur verið forvitnilegt að vita hvernig nafngift varð til og hvað hún merkir. Þetta þekkja flestir varðandi eigin nöfn. Í barnaskóla var Guðmundur heitinn Magnússon kennari og síðar sveitarstjóri á Egilsstöðum oft með skemmtilegt námsefni, eins og að setja það fyrir sem heimaverkefni að finna út hvað nöfnin okkar þýddu. Ég varð yfir mig ánægður þegar ég fann það út að mitt nafn merkti "hinn mikli". Þó svo ég vissi að það hafi ekkert með nafngift mína að gera, heldur það að afi minn hét Magnús.

Í minningunni áttu kennarar það til að leifa krakkahópnum að ráfa um fjallahringinn í huganum og geta sér til um hvernig nafngiftir hæstu tinda væru til komnar. Það má segja að frá þessum barnskólaárum hafi þörf verið til staðar að vita hvað nafnið merkir og hvernig það er til komið. Snæfellið er eitt af einkennum Fljótsdalshéraðs sem ber nafn sem maður skildi ætla að ætti að vera auðskilið hverju mansbarni hvers vegna.

Snæfellið er fjallið, sem Björg amma fékk sér kvöldgöngu inn fyrir bæ, til að sjá, -því það sást ekki úr gluggum íbúðarhússins á Jaðri í Vallanesinu. Ef ekki bar ský í Snæfellið að kvöldlagi sagði þjóðtrúin að heyskaparþurrt yrði daginn eftir. Snæfellið blasti við úr stofuglugganum á mínu æskuheimili á Hæðinni á Egilsstöðum. Og enn í dag er það fyrsta og síðasta sem ég lít í áttina að kvölds og morgna frá Útgarðinum til að taka veðrið. Í mínum huga hafði í gegnum tíðina ekki farið á milli mála hvernig nafnið var til komið, fjallið bæri það hreinlega utan á sér í heiðríku.

En fyrir nokkrum árum fóru ský efasemda að draga upp á hvolfið í höfðinu á mér við upplýsingar frá Sigurði Ólafssyni á Aðalbóli, áður Siggi Óla í Útgarði eða réttara sagt Búbót. Hann býr mun nær Snæfellinu en ég og hafði verið á ferðalagi á eynni Mön, þar hafði hann einnig séð Snæfell sem er hæsta og eina fjall Manar. Einhvern veginn hef ég ekki náð að sjá sama Snæfellið eftir að Siggi sagði mér frá þessu og jafnvel talið að okkar gæti verið  falsað. Mig fór að gruna Arnheiði nokkra Ásbjörnsdóttur um verknaðinn. Þannig að ég ákvað að lesa Droplaugarsonasögu aftur. Jú einmitt, sagan byrjar á því að segja frá landnámsmanninum Katli þrym í Fljótsdal, sem kaupir ambáttina Arnheiði af Véþormi vini sínum í Jamtalandi sem nú er í Svíþjóð.

Í tilhugalífi þeirra Ketils trúði Arnheiður honum fyrir því að hún væri höfðingjadóttir úr Suðureyjum en þeir Ormar, Grímur og Guttormur bræður Véþorms víkings í Jamtalandi hefðu drepið faðir hennar Ásbjörn skerjablesa ásamt öllum karlmönnum á hennar heimili en selt kvenfólkið mansali. Þegar Ketill hafði gengið frá kaupunum á Arnheiði af Véþormi vini sínum sigla þau til Íslands og setjast að í Fljótsdal að Arnheiðarstöðum, gegnt Atla graut bróður Ketils sem setti sig niður austan við Lagarfljótið í Atlavík. Það eitt að Arnheiðastaðir hafi borið nafn þessarar konu í meira en þúsund ár bendir til að hún hafi átt því að venjast að hafa sitt fram.

Þegar hér var komið sögu leitaði ég ásjár heilags gúggúls, bæði himins og jarðar. Lausnarorðið sem ég sendi var „skerjablesi“ og viti menn upp kom saga Manar. Þar hafði verið uppi höfðingi sem hét Ásbjörn skerjablesi laust fyrir árið 900 sem er sagður hafa verið drepin af skyldmennum Ketils flatnefs, norsks hersis sem haldið hafði til á Suðureyjum í áratugi þar á undan. Í gúggúl jörð setti ég svo inn Snaefell, og viti menn hæsta fjall Manar heitir einmitt Snaefell. Eins heitir gata í nágrannaborginni Liverpool Snaefell avenue. Snæfells nöfnin er reyndar fleiri á þessum slóðum á Bretlandseyjum.

Börn Ketils flatnefs, forvera Ásbjörns skerjablesa á Suðureyjum, settust mörg hver að á vestanverðu Íslandi, svo sem Auður djúpúðga og Björn austræni. Björn austræni er sagður landnámsmaður á Snæfellsnesi og Auður í grennd við hann í Dölunum. Það er ekki ósennilegt að nafn á nesið og þess hæsta kennileiti Snæfellsjökul hafi orðið til um landnám.

Þannig er nú farið að ég er ekki lengur viss um að Snæfell sé nefnt eftir snævi þöktum  hlíðum þess, það geti allt eins verð eftirlíking af felli sem sjaldan festir í snjó á Bretlandseyjum. En eitt er víst að Snæfellið var haft í öndvegi í stofu æskuheimilisins og ef það sást ekki út um gluggann vegna skyggnis þá var annað hangandi upp á vegg málað af meistaranum sjálfum, Steinþóri Eiríkssyni.

Snæfell SE

ps. pistillinn hefur birst áður hér á síðunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Óhemju skemmtileg lesning og framsetningin alveg stórkostleg.  Ég hafði ekki lesið pistilinn þegar hann birtist í fyrra skiptið og hefði ég ekki séð eftir því að lesa hann aftur ef því hefði verið að skipta......

Jóhann Elíasson, 5.2.2021 kl. 11:12

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir lesturinn Jóhann, og gaman að heyra af því þegar fólki líkar.

Ég hafði gaman af þessum vangaveltum á sínum tíma því mér þótti þetta merkilegt með Snæfellið á Mön, en þar er víst ekki bara Snæfell, heldur einnig Þingvöllur. 

Eins sagði mér sjómaður sem var á síld í Norðurjónum upp úr 1970 að þegar þeir hefðu komið til Hjaltlandseyja þá hefði verið skjaldarmerki í grennd við höfnina og á því hefði staðið "Með lögum skal land byggja".

Þegar íslensku sjómennirnir spurðu innfædda um þetta þá sögðu þeir þeim að þetta væri skjaldarmerki Hjaltlandseyja en þeir hefðu ekki hugmynd um hvað textinn þýddi, þetta væri víst einhver eldgömul enska.

Svo má bæta því við að ef Snæfellið er sett upp á norsku sem "Snefjell" í heilagan gúggúl þá skilar hann auðu.

Magnús Sigurðsson, 5.2.2021 kl. 14:50

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þessi saga frá Hjaltlandseyjum, er alveg meiriháttar "skondin".....

Jóhann Elíasson, 5.2.2021 kl. 16:10

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það eru líka Þingvellir þarna í Helgafellssveit, svo það nafn er þarna í næsta nágrenni. Hvort þeir þingvellir urðu til á undan hinum einu sönnu veit ég ekki.

Jón Steinar Ragnarsson, 6.2.2021 kl. 10:38

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Guðmundur vinalausi var einmitt að selja þá jörð fyrir 170 milljónir.

Jón Steinar Ragnarsson, 6.2.2021 kl. 10:39

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir innlitið og athugasemdirnar Jón Steinar.

Já þetta er oft spurningin um hvort kom á undan eggið eða hænan.

Ég hef allavega grun um að í Hjaltlandseyja skjaldarmerkinu hafi textinn, -allavega stafsetningin, -verið seinni tíma gjörningur, fengin að láni úr íslensku.

Magnús Sigurðsson, 6.2.2021 kl. 10:50

8 identicon

Sá þetta skjaldarmerki Hjaltlands þegar við fjölskyldan vorum á ferð á Skotlandi fyrir mörgum árum síðan . En það er líka til rit þar sem segir frá því að fólk frá Írlandi og skotlandi hafi flutt til eyjar norður í hafi sem bar nafnið Thule. Þetta var á 3ju öld eftir krist.

Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 6.2.2021 kl. 16:41

9 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir innlitið og athugasemdina Jósef. Gaman af svona reynslusögu.

Það er ábyggilega ekki allt sem sýnist þegar landnámið er annars vegar.

Magnús Sigurðsson, 6.2.2021 kl. 18:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband