Lofoten

IMG_0523

Á góðu ferðalagi ætti upphafið eða áfangastaðurinn ekki að vera málið, því gott ferðalag á sér hvorki annað upphaf né endi en heima. Það eru aftur á móti slæm fyllerí sem eiga sér upphaf og endi. Fyrir 10 árum lenti síðuhöfundur á vergang, fór til Noregs til að steypa, enda lítið að gera, -og launin lág, fyrir iðnaðarmann á landinu bláa.

Til stóð að Matthildur mín fylgdi í kjölfarið, en svo fór að hún átti lengst af við heilsubrest að stríða árin þrjú sem ég var í Noregi og kom því þangað einungis í heimsóknir og dvaldi þá mislengi. Ég aftur á móti fór þrisvar á ári heim til Íslands og skipti þá sumarfríinu mínu á milli vors og hausts, auk þess að vera heima hjá fjölskyldunni um jól.

Hver einasta króna þessarar Noregsdvalar fór í að friða gjaldþrota banka vegna persónulegrar ábyrgðar sem við hjónin höfðum skrifað okkur fyrir vegna atvinnurekstrar í íslenskri steypu. Þar að auki fóru sumarfríin í að halda utan um stökkbreytt skuldahalahúsnæði fyrir bankann, sem leigt var til vetrargeymslu hjólhýsa og húsbíla.

Það lenti svo á Matthildi minni að taka á móti þungbrýndum stefnuvottunum á meðan ég naut mín í norsku steypunni. Svo tókum við saman á móti brosandi fólki í sumarskapi á leiðinni í og úr fríi.

Þegar ég var búin að vera handan við hafið í heilt ár og þrauka niðdimman norður-norskan vetur, langt fyrir norðan heimsskautsbaug með örbylgjuofn og skaftpott að vopni upp á hanabjálka, búandi í starfsstöð fyrirtækisins, fór ég að velta því fyrir mér hvar ég væri staddur og komst fljótlega að því að ég væri í rauninni á nyrstu og stærstu eyju Lofoten eyjaklasans.

IMGP5733

 Robuer (gamlar verbúðir) hafa gengið í endurnýjun lífdaga á Lofoten og eru leigðar út sem lúxus gististaðir fyrir ferðamenn

Mette framkvæmdastýra Murbygg hafði margboðið mér sumarið áður að nota bíla fyrirtækisins til að skoða mig um, en því hafði ég alveg sleppt. Hún spurði mig þá hvers vegna ég hefði ekki áhuga á að nota tækifærið og ferðast um fallegasta hluta Noregs þessi ár sem útlegðin stæði, en við höfðum samið um að ég yrði í 3 – 5 ár. Ég sagði henni að göngutúrar í heimabænum Harstad dygðu mér alveg fyrsta árið.

Þegar Matthildur kom sumarið 2012 höfðum við fjölþjóðlegi múrarflokkurinn verið sendir norður í nes Finnanna til að hlaða og pússa veggi næstu 4 mánuðina og bjuggum þar á tjaldstæði, en fórum heim um helgar. Matthildur var þar með okkur og svo fórum við sunnudagsrúnta á vinnubílunum í boði Mette þegar við vorum heima í Harstad, auk þess sem hún lánaði okkur bílinn sinn í sumarfríinu sínu.

Það var þá sem við fórum heila helgi niður allan Lofoten og gistum í robuer, -aflögðum verbúðum sem hafa verið snilldarlega endurnýttar sem lúxus gististaðir fyrir túrista. Þegar við vöknuðum að morgni vorum við komin út á bryggju um leið og útidyrnar voru opnaðar, eitthvað fyrir hana Matthildi mína sjómannsdótturina úr sjávarplássinu þar sem lífið snerist í kringum bryggjuna.

Ég ætla ekki að lýsa Lofoten öðruvísi en með þessum myndum sem fylgja færslunni og svo myndbandinu hér að neðan, -þegar Matthildur dældi myndaum á það sem fyrir augu bar út um framrúðuna á meðan bíllin brunaði suður Lofoten með mig við stýrið og sígild Íslensk dægurlög í spilaranum. Þeir sem frekar vilja ferðast í lofti um Lofoten í fyrirsjáanlegu dróna myndbandi með örlagasinfóníu um eina mestu náttúruperlu Noregs ættu að klikka hér.

 

IMG_0562

Skreiðarhjallar úr trönum og spírum, fast við verbúðir eru víða að finna syðst á Lofoten og er litið með stolti á þessar byggingar sem menningarverðmæti, auk þess sem fiskur og hausar eru ennþá þurrkaðir í þeim á veturna, -eitthvað sem mátti sjá víða á Íslandi fyrir ekki svo löngu síðan

 

 IMG_0579

Eitt af því sem einkennir strendur Lofoten er að þar er víða skjannahvítur sandur

 

IMG_0252

"Ó hve gott á lítil lind leika frjáls um hlíð og dal". -Já það mætti ætla að dægurtextinn "Sem Lindin tær" hafi orðið til á Lofoten. -"Að öllu skyldi kveða óð um unað, ást og trú sem aldrei bregst en hugga lætur"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: FORNLEIFUR

Þakka fyrir góða grein. Ég væri fyrir löngu farinn til Lofóts væri ég múrari og jafnvel frímúrari. En er hvorugt.

FORNLEIFUR, 1.5.2021 kl. 09:57

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Fornleifur og þakka þér góð orð í minn garð.

Það vill reyndar þannig til að það er góður jarðvegur fyrir fornleifafræðinga í grennd við Lófót, reyndar yfir á meginlandinu. Við múrarnir frá Súdan og Íslandi vorum sendir ásamt öldnum Sama í skóg sem heitir Sandmörk, upp í Bláfjöllum til að halaða upp gamalt hálfhrunið jarðhýsi. Þar bjuggum við í Samískum torfbæ sem Samarnir kalla gamma.

Það hvorki gekk né rak með endurhleðsluna, enda þurftum við að getað lyft  öllum heila hólnum auk þess að koma hnullungunum aftur fyrir í veggjunum. Þó svo að við værum vel að Guði gerðir, með blátt víkingablóð í æðum, jötunmóð af Afríkönsku vúddúi og Samískan galdur blandaðan heilablóðfalli, hvorki gekk né rak.

Þegar við Súdanski höfðinginn komum af fjöllum var aldrei þessu vant byrjaður að vinna hjá Murbygg ungur og öflugur Norðmaður, en þeir eru sjaldséðir fuglar í múrverki þarna norðurfrá. Þegar ég spurði hann hverju sætti, þá sagðist hann hafa glapist á fornleifafræði og væri því atvinnulaus. En hann hefði í bernsku látið sig dreyma um að verða nýr Indiana Jones.

Ég sagði honum að hann væri akkúrat á réttum stað og að fyrir lægi verkefni sem hefði ekkert með múrara að gera, enda hafði Saminn sýnt mér fleiri jarðhýsi sem þörfnuðust endurhleðslu. En hann ætlaði að bíða með að sýna Samísku minjaverndinni þau því að þetta væri langtíma buisness hjá sér. Því ekkert þarna norður frá væri eins vel styrkhæft og Samískar fornminjar.

Saminn sagði að þessi jarðhýsi hefðu ekkert með Sama að gera, þau væru mörg hundruð, , , jafnvel þúsundum ára fyrir þeirra búsetu í Bláfjöllum jafnvel alveg frá dögum Múmínálfanna, og miðað við handbragðið gæti ég einmitt trúað að svo sé, enda sótti verulegur óhugnaður að okkur öllum við að gramsa í grjótinu.

Þess er skemmst að minnast að Indiana Jones junior trúði ekki orði af því sem ég sagði honum og gerðist fljótlega lagermaður hjá flutningafyrirtæki. Þú minntir mig á að ég þarf að skrifa pistil um sumarfríið 2013 við tækifæri.

Baráttukveðjur í tilefni dagsins.

Magnús Sigurðsson, 1.5.2021 kl. 14:06

3 Smámynd: FORNLEIFUR

Skemmtileg viðbót um fjölmenningarteymi þitt norður í Þrumu. Mér var eitt sinn (1996) boðið að vera með í rannsókninni á Borg á Lóftóti, en afþakkaði því ég fékk styrk á Íslandi til áframhaldandi rannsókna á Stöng. Sé dálítið eftir því að hafa ekki reynt að hliðra einhverju til svo ég kæmist.

Hann hefur ekki heitið Dennis Moos, hinn ungi Indiana Jones? Sjá: https://munin.uit.no/handle/10037/5525 og einnig hér https://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/1379433/ ?

FORNLEIFUR, 2.5.2021 kl. 05:29

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ég get trúað að þú hafir verið í svolitlum vanda staddur með að þurfa að velja á milli Borgar Stangar. Ég lét loks verða að því að fara í Borg undir það síðasta, og varð hugfanginn við að máta mig inn í það umhverfi sem þar hafði verið endurskapað.

Nei ekki hét hann Dennis ég hefði sennilega þá munað það og strax sett hann á harða diskinn sem Dennis Jones. Ef ég man rétt þá var hann kallaður hinu frumlega nafni Tore.

Þó skömm sé frá að segja þá hef ég ekki ennþá heimsótt Stöng en það hefur staðið til í nokkuð mörg ár. Við vorum á hraðferð síðast þegar við fórum um Suðurland og ég fylgdi þá Sturlungaslóðinni og lét Keldur nægja. 

Mér hefur alltaf þótt Stöng og Þjórsárdalurinn þurfa sér ferð með nægum tíma.

Magnús Sigurðsson, 2.5.2021 kl. 08:11

5 identicon

Harstad er auðvitað ekki hluti af Lofoten enda á meginlandinu og Finnsnes einnig. Eyjan þarna fyrir utan er Senja, næststærsta eyja Noregs og er í Troms, talsvert norðar en Lofoten, sem tilheyrir Nordland.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 2.5.2021 kl. 15:28

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það er rétt hjá þér Torfi að Harstad er auðvitað ekki hluti af Lofoten, enda segi ég það hvergi.

Harstad er stærsti bærinn á Hiinnoya í Troms, sem er stærsta eyja við Noregs strendur, Tjeldsundið slítur hana frá meginlandinu. Hynoya tilheyrir tveimur fylkjum nyrst Troms sunnar Norland.

Ef þú lest með nægilegri athygli þá stendur í pistlinum að ég hafi komist "fljótlega að því að ég væri í rauninni á nyrstu og stærstu eyju Lofoten eyjaklasans"

Norðan við Hynnoya er Senja, og það er skarplega athugað hjá þér að með "nes Finnanna" á ég við Finnsnes, sem er á meginlandinu, við brúarsporðinn út í Senja, sem er nærst stærsta eyjan við Noregs strendur.

Á milli Senja og Hinnoya er Vogsfjorden sem tengist Vestfjorden, sem liggur austan við Lofoten. Vestfjorden tengist svo Vogsfjorden með Tjeldsund.

Þannig verður Hynnoya að eyju sem liggur nyrst í sama eyjaklasa og Lofoten.

En það eralveg hárrétt hjá þér, að það tíðkast hvorki að Harstad, né sá hluti Hinnoya sem er í Troms, teljist til Lofoten. 

Magnús Sigurðsson, 2.5.2021 kl. 16:05

7 identicon

Jamm. Reyndar vissi ég ekki að Harstad væri á eyju - og að þetta væri stærsta eyja Noregs (fyrir utan Svalbarða). Séð frá Senju (Stonglandet, þar sem ég bjó um tíma), virðist Harstad vera á meginlandinu (enda hef ég aldrei komið þangað)! 

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 3.5.2021 kl. 07:00

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Torfi þar hef ég skýringuna á því hvað þú áttaðir þig vel á Finnsnes, það þarf staðkunnugan mann til að átta sig á því hvar nes Finnanna er.

Það er ekki breytt Tjedsundið svo það er ekki gott að átta sig á hvar Hinnoya liggur.

Mér var reyndar sagt það strax að Harstad væri á stærstu eyju við Noregs strendur, einungis Svalbarði væri stærri, en hann er jú ekki við ströndina.

Senja gefur Lofoten ekkert eftir í náttúrufegurð og vildi ég hafa haft mun betra tækifæri til að skoða hana, en raun varð á.

Ég setti samt inn blogg hér á síðuna um fegurð Senju fyrir ári síðan.

https://magnuss.blog.is/blog/magnuss/entry/2250522/

Magnús Sigurðsson, 3.5.2021 kl. 13:05

9 identicon

Takk fyrir þetta frá Senju, Magnús. Flottar myndir. Reyndar var ég ekki eins hrifinn af eyjunni og þú, fannst miklu fallegra að aka frá Finnsnes og niður með ströndinni (í áttina að Harstad). einhvert fallegasta svæðið í Troms sem þó er mjög fallegt landsvæði.
Á Senju er fjörður sem heitir Dyrfjord sem minnir mig á örnafnakenningu Þórhallar Vilmundarsonar um Dýrafjörð (þ.e. Dyrafjörð), enda greinileg dyr á Dýrafirði þegar komið er sjóleiðina.
Stong(landið) á suðurhluta Senju minnir reyndar á annað íslenskt nafn, Stöng (í Þjórsárdal). Hef fulla trú á að einhverjir landnámsmannanna hafi komið frá Senju!

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 4.5.2021 kl. 20:21

10 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir þessar skemmtilegu vangaveltur um Dyrfjord og Dýrafjörð Torfi. Ekki ósennileg tenging þarna á milli.

Já það er gaman að velta fyrir sér tengslunum á milli N-Noregs og Íslands, manni leið svolítið eins og tíndi sonurinn kominn heim þarna norðurfrá.

Á Vogsfirðinum milli Senju og Hinnoya er Bjarkey Þar bjó höfðinginn Tore hund, eða Þórir hundur eins og Snorri kallaði hann í Stiklastaða bardaga. Hann á að vera einn af þeim sem veitti Ólafi helga Noregs konungi banasár.

Tore er í miklu uppáhaldi hjá Harstad búum, þeir kunna frá honum að segja. En myndu sennilega ekki hafa hugmynd um að hann hefði verið til nema fyrir ritsmíðar Snorra í Reykholti.

Eins sagði mér einn samlandi okkar, sem bjó um tíma í Harstad og síðar á Lofoten, að Grettir Ámundarson hafi verið veturlangt, sennilega í Kapelvåg á Lofoten.

Jú og mikið rétt, ef maður les Grettissögu þá stemmir það, hann fór norður í Voga og drap þar bjarndýr.

Magnús Sigurðsson, 4.5.2021 kl. 22:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband