Ísbjörn og lopapeysa

Nú streyma ferðamennirnir til landsins og kannski má búast við að innan skamms opni lundabúðirnar aftur með gore-tex ísbirni við innganginn og asískar lopapeysur á boðstólunum. Sennilega verður minna um grímulaus viðskipti handverksfólks við túristana eins og þegar það sat auðum höndum fyrst eftir "hið svokallað hrun", sælla minninga.

Það var einn sumarmorgunn í Sólhólnum á Stöðvarfirði um árið að Matthildur mín hafði sett út prjónelsið sitt til viðrunar, lopapeysur og fleira, að það kom þýskur ferðamaður að forvitnast. Hann keypti eina peysu og Matthildur kallaði svo í mig og bað mig um að tala við manninn því hann væri að spyrja um eitthvað sem hún væri ekki viss um að geta svarað. Maðurinn var að spyrja um opnunartíma á sjoppunni upp á morgunnhressingu.

Þar sem klukkan var ekki orðin átta og langt í að yrði opnað, þá bauð ég honum inn í kaffi. Þegar við fórum að spjalla þá sagði hann vera nýkomin frá Grænlandi og hefði þurft að millilenda á Íslandi. Hann sagðist hafa tekið skyndiákvörðun um að stoppa í nokkra daga en það hefði ekki verið planið. Til Íslands hafði hann komið 4 sinnum áður, en aldrei á Austfirðina og þessa daga ætlaði hann að nota til að skoða þá.

Hann sagðist vera atvinnuljósmyndari, sem hefð verið ævistarfið til þessa, og þegar ég spurði hann hvort það væri ekki gott starf til að ferðast, -þá sagðist hann vera atvinnulaus. Hann sagði að þangað til fyrir nokkrum árum hefði starfið boðið upp á mikil ferðalög s.s. þegar hefði þurft að gera auglýsingaefni fyrir nýjar árgerðir af bílum þá hefði jafnvel bíll verið fluttur alla leið til Íslands.

Myndtökumenn hefðu fylgt með bílnum og lifað við lúxus til að gera sem flottast auglýsingaefni með myndum af nýjustu árgerðinni í framandi umhverfi. Nú væri svoleiðis vinna framkvæmd af forriturum í tölvu, þar í heiminum sem launin væru lægst. Síðan hefði hann farið að vinna fyrir STO í múrefnageiranum.

Þar sem ég hafði farið í starfsþjálfun til Þýskalands hjá STO árið 1989, þá var þarna komin áhugaverður umræðugrundvöllur. Svo ég spurði hvort STO væri ennþá með höfuðstöðvar í S-Þýskalandi. Hann sagði svo vera, alla vega þegar hann vann síðast. En nú væru fyrirtæki í byggingageiranum farin að gera allt sitt auglýsingaefni í ódýrum tölvum þannig að hann hefði notað tímann til að ferðast og hefði hann farið til Grænlands þetta sumarið.

Ég spurði hvort hann hefði ekki náð góðum myndum á Grænlandi, -og kannski af ísbjörnum. Þá tók hann upp símann sinn og sýndi mér myndir í honum. Þetta voru ekki góðar myndir og satt best að segja átti ég erfitt með að átta mig á hvað væri á þeim í fyrstu, að öðru leiti en þær voru teknar úti á berangri, í móum með snjó í bakgrunni.

Þegar hann stækkaði mynd kom í ljós ísbjörn sem sat í litríkri hrúgu sem voru rústir eða rifrildi af tjaldi. Hann sagði mér að þetta væri tjaldið hans. Hann hefði vaknað snemma morguns og fengið sér göngutúr en þegar hann kom aftur í sjónfæri við tjaldið hefði ísbjörn verið að snuðra í kringum það og rifið svo gat á það, og þarna á myndunum væri hann að gæða sér á nestinu. Allur ljósmyndabúnaðurinn hafði verið í tjaldinu og hann aðeins með snjallsímann til að ná myndum af ráni ísbjarnarins.

Þegar ísbjörninn var búinn að borða morgunnmatinn og farinn, hafði hann tekið saman dótið sitt. Hann sagðist ekki hafa gist fleiri nætur í tjaldi á Grænlandi, heldur keypt sér gistingu með morgunnmat.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Flott saga af Ísbirninum.  Yfirleitt  virðis fólk ekki gera sér almennilega grein fyrir hversu hættuleg dýr Ísbirnir eru, eins og kom í ljós þegar Ísbirnir gengu á land á Skaga og öll umræðan sem var í kjölfarið........

Jóhann Elíasson, 4.5.2021 kl. 08:43

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Jóhann, já þeir eru margslungnir ísbirnirnir. Mér skilst að Grænlendingar viti hvernig á að umgangast þá án þess að þeim stafi hætta af. Það sé með ísbirni eins og flestar aðrar dýrategundir að þeir séu hættulegastir þegar að þeim steðjar ógn.

Annars las ég áhugaverða frásögn af því að í N-Þingeyjarsýslu hafi verið óbifanleg trú manna að það væri hið mesta óhappaverk að ráðast á ísbjörn. Þar var sagt frá ísbjarnardrápi á Melrakkasléttu við Grjótnes 1881, sem þótti tilefnislaust. 

Ísbjörn kom snuðrandi heim að bænum, en hafísinn hafði lónað frá landi þannig að bjössi var ráðvilltur. Þrír menn snöruðust út með byssu til að drepa björninn, en hann lagði strax á flótta og stefndi til sjávar horfandi í átt að ísjaðrinum.

Þeir náðu að særa björninn þannig að hann lagði blóðugur til sunds í átt að ísnum og áfram skutu þeir á dýrið. Þegar ísbjörninn var kominn um hálfa leið að ísnum reisti hann sig helsærður upp úr sjónum áður en hann hvarf svo alveg.

Nokkrum mánuðum seinna fóru sömu menn á sjó í blíða logni þegar vitað var af mikilli fiskigengd. Þegar síðast til þeirra sást voru þeir á nákvæmlega sömu miðum og ísbjörninn. Þrátt fyrir mikla leit í blíðskaparveðri fannst hvorki tangur né tetur af bát né mönnum.

Mér duttu einmitt æfingarnar á Skaga í hug þegar ég las þessa frásögn. Þó svo að það lið hafi fyrst og fremst ætlað að láta bera á sér í beinni vegna góðverks, þá var á endanum ísbjörninn drepinn í öllu atinu.

það má segja að þetta lið hafi fengið að súpa seyðið af óhappaverki nokkrum mánuðum seinna. Ráðherfan í síða pelsinum mistti stólinn og auðróninn, sem ætlaði að flytja búrið fyrir björninn á einkaþotu, missti æruna.

Segi svo hver sem vill að þjóðtrúin viti ekki sínu viti.

Magnús Sigurðsson, 4.5.2021 kl. 13:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband