Grasætur og veganistar

Hruni

Það var skoðun gamla fólksins að gulrófur hefðu flust til landsins með landnámsmönnum. Og víst var það að það kunni með rófurnar að fara, ræktaði sitt eigið fræ og geymdi rófur óskemmdar fram á vor. Rófugarðar voru við hvern bæ. Í harðæri varð oft lítill eða enginn undirvöxtur en kálvöxtur gat samt verið góður. Kálið var árvisst en rófur eigi, og garðarnir kölluðust því alltaf kálgarðar. Það mátti segja vegna fræræktar að hver bær hefði sitt eigið rófukyn.

Undir eins þegar kálið var sprottið var byrjað að taka það til matar, eitt blað af hverri rófu og þann veg yfir allan garðinn svo var farin önnur ferð á sama hátt, ef kálið þoldi. Kálið var þvegið vel og saxað í súpur, grauta og skyr. En að haustinu var allt kálið tekið, stórbrytjað og látið í súr og étið með honum yfir veturinn.

Haugarfi og heimula spratt snemma og var notað eins og kál að sumri en ekki í súr. Hvanngarðar voru víða um land og hjá einum bæ í Breiðdal var hvannstóð, hafi þeir verið algengir hefur það verið löngu liðið. Fíflablöð voru notuð að sumri en þó eigi almennt.

Breiðdælir voru fyrrum miklar grasætur en þó lagðist grasneyslan niður og mun það hafa verið vegna betri efnahags og mikillar vinnu við grasnotkun. Notkun þýfisgrasa, fjallgrasa, í blóðmör og lifurmör hélst lengur og svo í rúgbrauð. Líklega hefir almennt grasaát verið úr sögunni um aldamótin 1900.

Það er hverjum manni ljóst nú að neysla ætigrasa er nauðsyn heilsunnar vegna. Þegar ætigrös hurfu af matborðinu þá var það stórt skref aftur á bak. (Heimild kk fæddur 1902 (Breiðdalshreppur) sarpur.is)

stort-grodruhus

Ég set þessa skemmtilegu heimild hér inn svo ég tíni henni ekki aftur, en einhvertíma hef ég punktað þetta hjá mér í tölvuna þegar yfir stóð athugun á því hvernig landinn hafði grænmeti til matar fyrr á tímum. Þessi frásögn úr Breiðdal er greinilega höfð eftir 19. aldar fólki af 20. aldar manni, -og er nú allrar athygli verð á tímum 21. aldar veganisma, -og gengdarlauss innflutnings á matvælum.

Vil samt taka það fram að ég er hvorki sérleg grasæta, -hvað þá veganisti. En það er samt mikið um vagan fólk í nánasta umhverfi og margar góðar þannig máltíðir sem ég hef torgað. Grasætu áhuginn er heldur ekki mikill, að öðru leiti en því að njóta heilsusamlegs lækningamáttar íslenskrar náttúru.

Veganismi hefur reyndar lítið með grænmeti að gera, annað en það telst vegan. Veganismi gengur út á að sniðganga dýraafurðir. Sjálfur set ég mörkin við að versla ekki innfluttar dýrafurðir og þær sem til verða með verksmiðjubúskap eða gæsabringuveiðum. Sem sagt dýraníði inn á verksmiðjubúum og sálarlausum umhverfissóðaskap úti í villtri náttúru.

Það hefur eitthvað látið standa á sér vorið hérna á Héraði síðustu 10 dagana eða svo, grátt í rót og jafnvel alhvítt hvern morgunn og nú þegar komið vel fram á sumar samkvæmt gamla íslenska tímatalinu. Trausti veðurfræðingur kallar þetta þráviðri, sem er náttúrulega bara þrautleiðinlegur norðaustan þræsingur.

Ég er því ekki farin að gæða mér á heimulu ennþá, sem nú til dags er aldrei kölluð annað en njóli, og fátt sem nýtur álíka óvinsælda annað en lúpínan. Sama á við fífla, hundasúrur og hvönn, en þetta hefur fylgt vorkomunni sem heilsusamlegt fæði á mínu matborði. Og mikið er ég farin að bíða eftir að geta slitið upp fyrstu fíflana.

Fíflar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikt V. Warén

Einn fagran vordag fyrir mörgum árum sagði Sigga mín.

Það er allt fullt af fíflum í garðinum okkar.

...sagði ég... er bæjarstjórnin í heimsókn?

Benedikt V. Warén, 10.5.2021 kl. 11:43

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þetta er fíflaleg saga núna í maíhretinu Pelli, -fíflar eru ekki það sama og fífl.

Bæjarstjórnarmenn eru löngu hættir að láta sjá sig heima við hús, rétt eins og fíflarnir þetta vorið.

Nú er í mesta lagi hægt að koma auga á einn og einn gulan grasasna með hjálm á hjóli.

Magnús Sigurðsson, 10.5.2021 kl. 13:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband