14.5.2021 | 06:00
Snilldar handverk
Af heimilislífinu á þessum bæ um veturinn er fátt eitt að segja. Sambýlið var svo gott sem best getur hugsast, bæði á karl- og kvenhönd. Að mér teknum voru karlar úti við gegningar gripa myrkranna á milli og fram á vökur. Konur litu varla upp úr tóvinnu, enda veitti ekki af, til þess að halda á sér hita, því ekkert eldfæri eða neins konar hitagjafi var til í bænum, nema ef vera skildi hlóðasteinar frami í eldhúsi. En önnur ástæða var til kappsins við ullarvinnuna.
Á Fljótsdalshéraði klæddust menn á þeim tímum ekki öðru en ullarfötum, og hvert heimili varð að halda við fatnaði heimilismanna sinna. Þegar fram um eða yfir miðvetur kom, var farið að setja upp vefi af þræði, er konur höfðu spunnið. Spunnu þær þá ívafið jöfnum höndum við þráð í næstu vefi. Allar kvöldvökur skammdegisins kembdu karlmenn og / eða tóku ofan ull eftir ástæðum, til stuðnings tóskapnum.
Þegar dag fór að lengja, hófst vefnaðurinn af sama kappi sem önnur tóvinna, enda þá meira tóm frá gegningum. Þetta var tóvinna með allt öðru sniði og unnin með miklu meiri alvöru og kappi en ég hafði þekkt á Vestur- eða Suðurlandi. En miklu meiri var þó munur vinnunnar. Ég hafði vanist mosa- eða hellulituðum. Hér voru aftur eingöngu notaðir suðalitirnir, samkembdir í margskonar litbrigðu, mjög smekklegum, allt tvíkembt, nauðhært, svo ekki sást toghár á hinum vandaðri fötum, sparifötunum.
Hallgrímur biskup hafði komið á Héraðið sumarið áður (1890). Sagði hann mér meðal annars að hann hefði aldrei á landi hér séð svo prúðbúið og jafnbúið fólk sem þar, og allt heimaunnin ullarföt, og allir bændur í yfirfrökkum úr því sama. Dáðist hann mjög af þessu.
Konur gengu þar með herðasjöl, þríhyrnur og skakka, er svo var nefnt, heimaunnið og prjónað, með allskonar útprjóni. Allt var þetta úr nauðhærðu þeli, í suðalitunum, samkembt, með svo nákvæmum litasamsetningum (sjatteringum) að hrein meistaraverk voru. (Úrdráttur úr texta um vetur í Þingmúla, af heimilislífi og tóvinnu II bindi bls 142)
Þetta má lesa í Endurminningum sr Magnúsar Bl Jónssonar um veturinn 1891-1892, þegar fjölskyldan var nýflutt úr Reykjavík að Þingmúla í Skriðdal. Þá bjó hann ásamt konu sinni Ingibjörgu Pétursdóttir Eggerz og börnum, félagsbúi í Þingmúlabænum með fólki sem var þar fyrir, en um veturinn var Þingmúlaprestakall óvænt sameinað Vallanesprestakalli. Þannig að í Vallanes fluttu þau vorið 1892. Textinn er mun ýtarlegri um allt fólk sem kom við sögu á bænum.
Magnús segir einnig frá því í endurminningum sínum, að seinni kona hans Guðríður Ólafsdóttir Hjaltested hafi einsett sér þegar hún fluttist á Héraðið að verða ekki eftirbátur bændakvenna í sínum hannyrðum. Hún lærði af þeim og óf sér sjal sem þótti slíkt snilldarverk að hún tímdi ekki að nota það sjálf. Örlög sjalsins urðu þau að það var sent á sýningu til Reykjavíkur og þaðan til útlanda á aðra sýningu um íslenskt handverk, þar sem það var selt á rúmlega tvöföld árslaun vinnufólks þess tíma í peningum.
Flokkur: Landsins-saga | Breytt s.d. kl. 06:08 | Facebook
Athugasemdir
"....úti við gegningar gripa myrkranna á milli og fram á vökur. Konur litu varla upp úr tóvinnu..." Þetta var þrældómur, sneyddur gleði, þægindum og ánægju, sem gekk út á það eitt að lifa af.
Ólafur Arason (IP-tala skráð) 15.5.2021 kl. 03:06
Sæll Óli já þetta var örugglega ekkert sjálfskipað sjósund né World Class marathon á þessum tímum, hvað þá göngutúr á Everest. En þá var reyndar styttra myrkranna á milli yfir háveturinn en nú í raflýsingunni.
En það gat verið misjafnt hvar í þrældómnum fólk fann sig og eitthvað varð það að hafa fyrir stafni því ekkert var sjónvarpið til slaka á með bjór og snakk yfir boltanum.
Endurminningar sr Magnúsar Blöndal gefa mjög góða innsýn í það hvernig lífið gekk fyrir sig korteri áður en Íslendingar stukku út úr hálfhrundum moldarkofunum inn í steinsteyptan nútímann.
Ég var reyndar að vonast eftir steypu þegar ég hóf lestur á þessu sjöhundruð síðna riti, því stórvirki úr steypu tel ég mestu afrek Magnúsar.
En viti menn! þeim sem gáfu út Endurminningarnar árið 1980, löngu eftir deilur og daga sr Magnúsar fannst ekkert til steypu koma og slepptu því að setja þær frásagnir á prent. En fyrir mig er þessi frásögn af snilldarhandverki því hey í harðindum.
Annars ættirðu að hlusta á hann afa þinn segja frá þessum tíma því fræðimönnum bar gæfa til að taka hann óritskoðaðan upp á band. Hann var m.a. hjá séra Magnúsi í Vallanesi. Kemur inn á það auk margs fleira áhugaverðs, sem gefur okkur hugmynd um hvers vegna við liggjum nú yfir boltanum fram á nætur með snakk.
https://www.ismus.is/i/person/uid-66c10564-f340-4d55-b90f-25939ef0096f
Magnús Sigurðsson, 15.5.2021 kl. 08:00
Það má til sanns vegar færa að ákveðinn hluti þess tíma sem notaður var til vinnu hafi verið nýttur til afþreyingar þar sem ekkert annað stóð til boða. En þessir forfeður okkar unnu út í eitt og enginn afsláttur gefinn. Hjú voru réttlaus með öllu og var uppálagt að vinna á meðan stætt var. Það var ekkert annað en þrældómur.
Ég hef margsinnis hlustað á Snjólfsson og haft mikla ánægju af.
Takk Maggi fyrir skemmtileg og fræðandi skrif.
Ólafur Arason (IP-tala skráð) 15.5.2021 kl. 08:27
Ég átti svo sem ekki von á öðru Óli, en þú hefðir hlustað á afa þinn. Við vorum báðir svo heppnir að heyra hann segja frá i beinni en þá kannski ekki alveg áttaðir á hverju hans kynslóð afrekaði.
Sigurbjörn Snjólfsson kemur inn á réttleysi vinnufólks og fátæklinga í þessum ismus upptökum og ég hef oft hlustað á þær eftir að ég fékk áhuga á hvernig lífinu var háttað á Héraðinu fyrir okkar tíma.
Þakka þér fyrir þakkirnar, -og lesturinn.
Magnús Sigurðsson, 15.5.2021 kl. 09:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.