Ísrael

Mikið hefur gengið á í landinu helga undanfarna daga. Þar sem ég átti því láni að fagna að starfa um stund í Ísrael á árunum 1997 og 1998, þá hef ég reynt að venja mig af því að hafa skoðun á málum í margslungnu landinu, því þar var fæst eins og sýndist í fréttum fjölmiðlanna. Áður hafði ég sveiflast eins og pendúll eftir fréttunum og haldið með Ísrael og Palestínu til skiptis. En eftir þessa dvöl áttaði ég mig á því hvað erfitt er að halda með öðru en venjulegu fólki. -hvernig sem er í pottinn búið.

Ég skýrði frá því hér í bloggi s.l. desember að ég hefði farið niður í geymslu og fundið gamlar hugleiðingar, þar á meðal dagbók frá því í landinu helga. Þar er reyndar meira um að ræða dagbókarslitrur því ég hef ekki enn fundið öll blöðin sem ég man þó eftir að hafa párað á, en þau voru flest um epoxy steypu. Ég ætla samt að setja hérna inn fjóra daga frá því 1998 en þá var það helst á seyði að Saddam heitinn Hussen hafði í hótunum. En þá eins og nú var Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels.

3. febrúar# - Fórum á Bethaemek í hádegismat. Það var svipað og koma heim. Útsýnið yfir arabísku nágrannaþorpin og út á Haifa flóann heillaði. Ruggustólakvöldin í 30 stiga hita með syngjandi kryppur og köll til bæna í moskum arabísku þorpanna, tunglið fullt yfir Carmelfjalli og pípan tottuð, -alt rifjaðist þetta upp.

Við hittum Jaron vin okkar eftir matinn og spurðum hann hvort eitthvað óöryggi væri í Miðausturlöndum vegna Saddam Hussen. Hann hló og sagðist ekki hafa heyrt fréttir í dag, en utanríkisráðherra USA hefði ekki getað ábyrgst í fréttaviðtali í gær, hvort og þá hvernig sprengjum yrði varpað á Bagdad.

Hann sagði að vissulega væri ástandið viðkvæmt í þessum heimshluta. Þar sem Arafat væri orðinn gamall og lasburða, Hassan Sýrlandsforseti á sjúkrahúsi og Saddam í Írak. Menn vissu hvaða leiðtoga þeir hefðu í nágrannalöndunum en ekki hverja þeir fengju í staðin ef þessir féllu frá.

Það var mikill hávaði frá orrustuþotunum í dag og þær flugu lágflug yfir landinu. Á akri fyrir ofan Haifa voru eldflaugavagnar með eldflaugarnar í stöðu til himins. Hermenn voru víða eins og alltaf.

4. febrúar# - Veðrið gott eins og í gær, 20 stiga hiti og sól. Sláttuvélarnar komnar í gang hjá innfæddum og byrjað að snyrta beð og garða. Eyddi deginum á hnjánum eins og undanförnum dögum, farið að verkja í. Hringdi heim, kalt heima, sjómannaverkfall, engin loðna og lítil vinna. Strákarnir í verki á Dalvík í norðan stórhríð, ég vildi ekki skipta við þá.

5. febrúar# - Á leiðinni í vinnu voru miklar tafir á hraðbrautinni milli Yoqneam og Haifa. Lögreglan var alvopnuð við vegtálma með naglabretti og stoppaði suma bíla, aðra lét hún nægja að líta inn í, svo var með okkur.

Á akrinum sem við sáum eldflaugarnar um daginn var nú engar flaugar lengur að sjá, kannski komnar inn á milli trjánna. Ofan við veg þar sem arabarnir voru með sölutjöldin sín þar er hægt að fá appelsínur og allskonar ávexti keypta, -en þeir voru ekki þar í morgunn. Kassar og annað drasl var þar á hreyfingu í hlýrri austan golunni.

Við töluðum um að ástandið virtist viðkvæmt um leið og orrustuþyrla skreið yfir hraðbrautina og hvarf yfir næstu hæð. Veðrið var hlýtt og gott yfir daginn. Gummi kominn með flensu svo við hættum kl 5, þetta er annar dagurinn síðan við komum sem við hættum í björtu.

Síðdegissólin skein á lauftrén, ávaxtaakrana þar fyrir innan og byggðina fyrir ofan. Mikil friðsæld er í andrúmsloftinu á svona fallegu síðdegi. Þegar við komum heim á Ramat HaSofet var kvöldgolan orðin þægilega svalandi í myrkrinu.

6. febrúar# - Lítil umferð á leiðinni til vinnu. Vegtálmi með naglabrettum. Stoppaðir aftur í Nahariyya fyrir of hraðan akstur. Gott veður og mikið af fólki í miðbæ Nahariyya. Í dag er föstudagur og frídagur hjá flestum gyðingum, svipað og laugardagur heima.

Í kvöld borðurðum við á Betahemek í boði Jarons vinar okkar. Það var verið að halda upp á nokkurs konar sumardaginn fyrsta, með söng og góðum mat. Minnti svolítið á Pesra apríl síðastliðinn, nema þá var dagskráin mun lengri.

Það er alltaf jafn þægilegt að koma í Betahemek, Jaron og Dina eins og góðir fjölskylduvinir og buðu okkur að sitja við borð fjölskyldunnar í matsalnum. Þetta er í annað sinn sem við erum staddir á hátíð gyðinga og Jaron skýrir serimoníuna. Í apríl s l var verið að halda upp á það þegar Mose fór með Ísraela frá Egiptalandi og mig minnir að þá hafi einnig verið dagar hinna ósýrðu brauða. Gyðingar kalla það Pesra, en á ensku “pass over”.

Eftir matinn sátum við úti við leikvöllinn, þar sem krakkarnir léku sér í hlýrri kvöldkyrrðinni. Dina sagði okkur hversu gott væri að búa á samyrkjubúi fyrir konur með börn, sameiginlegt þvottahús og mötuneyti, því nægur tími til að sinna börnunum. Hún taldi að það væru helst þær konur, sem ekki hefðu búið annarstaðar, sem ekki kynnu að meta þennan lífsmáta.

Jaron sagði okkur að hann kynni vel við kristnu arabana í nágrannaþorpunum, sem við verslum við og gott væri að eiga viðskipti við þá. Hann sagði að ef múslímar næðu yfirráðum í þessu landi hefðu þessir kristnu arabar meira að óttast en gyðingar.

Einnig taldi hann, að ef Írak gerði árás á Ísrael færu Ísraelsmenn í stríð. Hann gerði lítið úr eldflaugavögnunum sem við höfðum séð á akrinum og sagði þá eðlilega ef litið væri til ástandsins. Yfirleitt gera Ísraelar mjög lítið úr ástandinu, svona eitthvað svipað og Siglfirðingar úr snjóflóðahættu.

Að koma við í búðinni hjá kristnu aröbunum í Kafr Yasif var svipað og venjulega, viðmót og augnaráð svipað og maður kannast við heima og maður hefur á tilfinningunni að þetta fólk sé með svipaðan þankagang og maður sjálfur. Það var hlýtt kvöldið þegar við komum heim á Ramat HaSofet söngur í froskum og kryppum í næturkyrrðinni.

Ps. Við vinnufélagarnir frá Íslandi vorum yfirleitt þrír, og dvöldum á samyrkjubúum, 1997 Betahemk og 1998 á Ramat HaSofet. Samyrkjubúin voru þá á hverfanda hveli, en framan af höfðu þau verið kjarni Ísraelsríkis, -að okkur var sagt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Flottur pistill og dagbókarskrifin eru alveg ómetanleg heimild um lífið þarna.  Ég hef aðeins bloggað um ástandið þarna ég styð Ísrael að mestu leyti nema ég er mjög mótfallinn landnemabyggðunum að öðru leyti er ég fylgjandi þeirra málstað.  Mér finnst umræðan um þessi mál vera full svart/hvít og full mikið um alhæfingar, en  ég viðurkenni alveg að ég þekki málið ekki nógu og vel.................

Jóhann Elíasson, 21.5.2021 kl. 07:26

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Jóhann og takk fyrir athugasemdina. Já ég verð að segja það eftir að hafa fengið pínu litla nasasjón af landinu helga að það er í raun ekki hægt að halda með neinum og í þessu landi voru engin skýr landamæri á milli gyinga og araba, nema ef vera skilidi Gasaströndin. En þangað fór ég aldrei.

Þegar ég var þarna þá komu margir Palestínu arabar á morgnanna og unnu fyrir gyðinga og þannig kynntist maður nokkrum smá svona eins og gengur á vinnustað. Boðið upp á arabakaffi í pásu og forvitnast um þá gulu eins og þeir kölluðu okkur framandi glókollana.

Mér fannst kristnu arabarnir búa í meira nábýli við gyðinga en oftast í sér bæjum eða bæjarhlutum á sínu landi, muslimarnir voru meira sér en samt sá maður svo ekki skýr skil á milli Ísrael og Austur bakkans. 

Það hlýtur að hafa verða flókið mál fyrir SÞ að stofna Ísraels ríki til að friðþægja vesturlönd á landsvæði þar sem eignarhald hafði verið araba og vissulega að einhverju leiti gyðinga í gegnum tíðina.

Við nutum þess að vera Íslendingar á meðal gyðinganna sem við unnum fyrir og sumir þeirra kunnu nokkuð um söguna af því hvernig Íslendingar lögðu þeim lið í SÞ á sínum tíma, þar kom nafnið Thors við sögu, eins og sjá má í Reykjavíkurbréfi.

https://www.mbl.is/greinasafn/grein/662059/

Magnús Sigurðsson, 21.5.2021 kl. 13:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband