14.8.2021 | 06:09
Bláber
Fyrir nokkrum árum sagði ég frá verslunareiganda sem setti miða í gluggann á búðinni sinni sem á stóð "lokað í dag - farinn í berjamó". Þetta var fyrir mörgum áratugum síðan, þegar ég var enn á barnsaldri. Sumir vildu meina að hann væri alls ekki í berjamó, heldur væri hann blindfullur heima. Hvort sem verslunareigandinn var blindfullur í berjamó eða ekki, þá sýnir tilkynningin hvað tíðarandinn hefur breyst í tímans rás. Þó svo hvorki þá né nú sé auðvelt að að tína ber fullur, þá þótti góð berjaspretta eðlileg afsökun fyrir því að loka sjoppu.
Þetta sumariðið eru brekkurnar bláar af berjum en sárafáir í berjamó, og mér til efs að nokkurri sálu hafi dottið í hug að loka sjoppu vegna góðrar berjauppskeru. Við Matthildur mín skríðum nú um lautir og lyng við að plokka bláber og er þetta sennilega sjötta sumarið í röð sem ég get sagt að aldrei hafi þúfurnar verið eins bláar, ekki hægt að leggjast á hnéin án þess að skilja eftir berjasultu í slóðinni.
Nú kann einhverjum að koma í hug sú sígilda spurning “hvar finnið þið ber”? Svarið er einfalt, -með því að fara í berjamó. Að vísu þarf bæði að líta upp úr símanum og beygja sig því ber verða ekki tínd með appi frekar en á blindafylleríi, en það er á við heila útihátíð og ranghverfa smitrakningu að liggja eins og barn í blárri brekku við hjalandi læk og tína ber, -svo ekkert sé minnst á andlega íhugun.
Sennilega er berjatínsla orðin jafn ókunn fólki og raun ber vitni vitni, vegna þess að henni hefur ekki verið gerð skil í sjónvarpi, né verið boðið upp á berja app í snjallsímann, það er ekki einu sinni hægt að fá snjallúr með berjateljara. En það væri örugglega jafn áhugavert, -skilst mér af facebook, -að sýna t.d. beinar útsendingar af fólki í berjamó og Íslandsmótinu í golfi.
Enn þann dag í dag hefur tæknin ekki náð þeim hæðum að hægt sé að tína ber rafrænt með fjarfundarbúnaði, hvað þá að frá berjamó hafi verið streymt í beinni líkt og var með brekkusönginn á Þjóðhátíðinni í Eyjum um s.l. verslunarmannahelgi.
Einn félagi minn í steypunni sagði um þá miklu menningarframför, að sennilega yrði "gamla góða" kojufylleríið hafið til vegs og virðingar ný.
Athugasemdir
Var það ekki utan berjatímans sem miðinn kom upp á hurðina.
vonandi verður frostlaust framm í miðjan sept þannig að ég komist í aðalberjamó, andskoti að vera úti á sjó á hábjargstímanumm.
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 14.8.2021 kl. 22:21
Það mátti alltaf tína ber í gamla daga Hallgrímur, ef þau voru ekki tínd á berjatímanum þá voru bara tíndir skorpnaðir muðlingar.
En aðalbláber er betra að gefa sér tíma til að tína um hábjargræðis tímann.
Magnús Sigurðsson, 14.8.2021 kl. 22:41
Kojufyllirý er bezt.
Þorsteinn Siglaugsson, 15.8.2021 kl. 00:12
Alltaf er jafn gaman að koma inn á síðuna þína......
Jóhann Elíasson, 15.8.2021 kl. 09:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.