Það var eins gott að þú komst

Goðinn

Það er stundum svo með áhrifavalda að þeirra gætir meira en í fljótu bragði má greina. Þannig er það með frænda minn sem nýlega kvaddi þetta jarðlíf. Þegar ég fékk fréttina um fráfall hans flaug æði margt í gegnum hugann. En þó hæðst sú hugsun að allt hefði farið að óskum að kvöldi sólríks dags undir lok einstaks sumars í öræfadalnum, sem fékk honum viðurnefnið Goðinn í Grágæsadal.

Mér varð líka hugsað til þess hvenær ég kynntist fyrst þessum manni, sem kallaði mig frænda.Ég mun hafa verið í kringum 5 ára aldurinn þegar hann kom á Hæðina og byggði húsið sitt yfir stórfjölskylduna. Nýkomin út í morgunnsólina klifraði ég upp á undirslátt gólfplötu efri hæðarinnar þar sem sjá mátti Lagarfljótið lognstyllt liðast allt inn undir Snæfell, og dáðist að steypustyrktarstálinu í ósteyptri gólfplötunni. Maðurinn þar uppi spurði mig hvar ég ætti heima, og sagði að fengnu svari, -þá erum við frændur.

Völundur Jóhannesson - fæddur í Haga Aðaldal 23. ágúst 1930 - varð bráðkvaddur að kvöldi 30. ágúst s.l. í Grágæsadal, innst á Brúaröræfum inn undir Vatnajökli. „Hans heitasta ósk var að kveðja einmitt á þessum stað“, skrifaði Harpa dóttir hans á facebook síðu sína þegar hún tilkynnti andlát föður síns.

Völundur var vörslumaður hálendisins og hlaut viðurkenningu Sigríðar í Brattholti í tilefni dags íslenskrar náttúru árið 2015. Í rökstuðningi dómnefndar kom fram að Völundur hljóti viðurkenninguna fyrir einstakt ræktunarstarf á hálendi Íslands í 640 metra hæð. Meðal annars hafi honum tekist að fá birki til að þrífast auk um 200 tegunda á svæði sem áður var talið ómögulegt til ræktunar.

Þá hafi Völundur barist fyrir vernd hálendisins og sýnt framsýni í uppbyggingu skála og salernisaðstöðu á fjölförnum leiðum á hálendinu. Hann nýti sér einnig sjálfbæra orkugjafa og hafi með þrautseigju breytt hugmyndum um hvað sé mögulegt í ræktun á hálendi Íslands.

Völundur var byggingameistari og varði bróðurparti starfsævinnar við byggingu stærstu bygginga Kaupfélags Héraðsbúa á Egilsstöðum, sem voru byggðar þegar hann veitti Trésmiðju KHB forstöðu. Þau eru því mörg; bæði stór og smá minnismerkin sem Völundur skilur eftir sig á langri og töfrandi ævi.

Þessi pistill yrði allt of langur ef ég ætti að rifja upp kynni mín af þessum einstaka manni, en endurbirti þess í stað pistilinn Völundarhús frá því, 16. september 2016.

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -

Upp úr 1970 og árunum þar á eftir var komið fyrir fjölda húsa á öræfunum norðan Vatnajökuls. Þessi hús voru af sumum kölluð Völundarhús. Þetta hefur verið rifjað upp núna í sumar þegar ég fór í fyrsta skipti um þessi öræfi, en mörg þessara húsa og eftirmyndir þeirra standa enn út í auðninni ferðafólki til handa nú sem fyrr til þess að þjóna kalli náttúrunnar.

IMG_9013

Völundarhús við Dreka, Snæfellið gnæfir yfir öræfunum hvítt í fjarska

Völundarhús, voru fyrstu húsin sem ég fékk greiðslu fyrir að taka þátt í að byggja. En allt frá bernskudögum hafði kofasmíði verið líf mitt og yndi. Því lá beinast við um 12 ára aldurinn að spyrjast fyrir um vinnu við húsbyggingar hjá Völundi Jóhannessyni, sem var yfirsmiður hjá Trésmiðju Kaupfélags Héraðsbúa. Við vorum nágrannar á Hæðinni undir Hömrunum á Egilsstöðum, þar sem Trésmiðja KHB var til húsa. Lóð sem lengi var óbyggð ská á móti íbúðarhúsi Völundar við Hjarðarhlíðina hafði verið helsti starfsvöllur okkar hæðarstráka við kofasmíði, svo hann þekkti til mín, auk þess eigum við saman ættir að rekja norður í Aðaldal hvort svo sem varð til þess að ég var strax ráðinn.

IMG_8952

Nýjasta gerð í Krepputungu, með nútíma þægindum

Fyrsta Völundarhúsið mun hafa verið byggt í kringum 1970 og er nú í Grágæsadal. Völundur sagði mér þegar ég heimsótti hann heim í dalinn í sumar, að yfirsmiður þess húss hafi verið Halldór heitinn Sigurðsson listasmiður og smíðakennari á Miðhúsum, aðstoðarsmiður var Eiríkur Þorbjarnarson húsasmiður á Egilsstöðum og Jónas heitinn Pétursson f.v. alþingismaður, síðar tilraunastjóri á Skriðuklaustri fékk að vera með vegna áhuga síns á framkvæmdinni; "svona sem sérlegur aðstoðarmaður, eða nokkurskonar handlangari. En þetta er náttúrulega bara kamar, sjáðu". 

Það leynir sér samt ekki hvað Völundur er ánægður með "kamarinn", á því hvernig hann staðsetur hann í skrúðgarðinum sem hann hefur komið upp lengst inn á öræfum. Þegar Lára Ómarsdóttir og Ómar Ragnarsson heimsóttu hann til að ná af honum tali í Ferðastiklum RUV kom vel fram hvernig hver og einn sem heimsækir garðinn verður að ganga hálfhring í kringum listaverk þeirra smiðanna og alþingismannsins, eins og má sjá hér í stiklunni Grasagarður í meira en 600 m hæð.

IMG_7779

Völundur við fyrsta öræfa náðhúsið í garðinum í Grágæsadal 

Heimsóknin í sumar til Goðans í Grágæsadal bar upp á 19. júlí, en svo er Völundur stundum nefndur og jafnframt talinn vörslumaður hálendisins og var hann heiðraður á degi íslenskrar náttúru árið 2015. Þann 19. júlí er ævinlega flaggað í hálfa stöng í dalnum. Völundur sagði að svo væri vegna þess að þann dag árið 2002 hefðu stjórnvöld skrifað undir viljayfirlýsingu við Alcoa vegna byggingar álvers í Reyðarfirði og þá ljóst orðið að til yrði Hálslón þar sem hluta víðernanna norðan Vatnajökuls yrði sökkt. Einhverjir sveitastjórnarmenn á Austurlandi hvöttu til þess opinberlega, að austfirðingar flögguðu þennan dag til að fagna tímamótum í austfirskri atvinnuuppbyggingu.

Aftur á móti flögguðu unnendur víðernanna þann dag í hálfa stöng, við skála ferðafélaganna og hvar sem því var við komið á hálendinu. Einn landvörður, sem flaggaði þá í hálfa stöng, var kostaður af ríkinu og varð hann snarlega atvinnulaus. Völundur fór árið eftir með flaggstöng og gaf nýjum landverði ríkisins hana, en sagði honum jafnframt að hann yrði bara að passa sig á því að taka frí í vinnunni rétt á meðan hann flaggaði. Síðan þá hefur verið flaggað í hálfa stöng þann 19. júlí ár hvert í Grágæsadal, þó svo að sá siður sé nú aflagður í öðrum fánastöngum hálendisins norðan Vatnajökuls.

IMG_7787

Í Grágæsadal leynir sér ekki hvaða húsgerð hefur átt hug og hjarta Völundar

Ég hef alla tíð búið að því að hafa fengið vinnu hjá Völundi 12 ára gamall og vinna undir hans stjórn hvert sumar til 17 ára aldurs eða þangað til að steypan heltók hugann. Vinnan hjá Völundi var reyndar mest við mun stærri byggingar en Völundarhúsin því á þessum árum voru sumar stærstu steinsteyptu byggingar KHB reistar af starfsmönnum trésmiðju kaupfélagsins undir styrkri stjórn Völundar. Er mér það til efa að í annan tíma hafi eins stórt hlutfall ungra drengja fengið vinnu við eins mikil mannvirki, þá voru oft ekki margir fullorðnir í drengjahópnum, stundum Hermann Eiríksson smiður og Reynir Kjerúlf þeir einu sem komnir voru af táningsaldri. Þegar kom að viðhaldi mannvirkja KHB í seinni tíð s.s. sláturhúss, bakarís og mjólkurstöðvar leitaði Völundur til okkar Djúpavogs drengja með að klæða veggi og gólf með epoxy steypu.

En það er ekki aðallega vinnan sem ég hef búið að með kynnum mínum af Völundi, heldur virðingin sem hann sýnir náttúrunni og tilverurétti alls lífs á sínum forsemdum. Fræg varð gæsin í Hvannalindum sem Vegagerðin lét stjórna hvenær hálendisvegir norðan Vatnajökuls yrðu opnaðir að undirlægi Völundar. Og sem dæmi get ég nefnt að þegar nýja mjólkurstöðin á Egilsstöðum var í byggingu hafði máríerlan verið árrisulli en vinnumennirnir og komið sér upp hreiðri í uppslættinum, þá kom ekkert annað til greina en að láta þau steypumót bíða þar til hún hafði komið upp ungunum sínum, "enda nóg annað gera í stóru húsi drengir".

IMG_0147

Þetta kvenna og karla náðhús var lengi við Hafnarhólmann á Borgarfirði eystri, sennilega hafa Borgfirðingar sjálfir séð um smíðina en það leynir sér ekki hvert andagiftin við hönnunina hefur verið sótt 

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -

Það er úr vöndu að velja með hvaða orðum ég á að kveðja Völund frænda minn, en að endingu koma mér efst í huga sömu orð og hann við hafði þegar ég heimsótti hann síðast sólbjartan morgunn í Grágæsadal sumarið 2019. Það var eins gott að þú komst, , , það eru þá ekki allar ferðir til einskis, það má nú segja.

 

andlat_29757.pdf


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Takk fyrir þennan fína pistil.

Þorsteinn Siglaugsson, 11.9.2021 kl. 21:44

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Yndislestur, takk Magnús.

Kveðja að neðan.

Ómar Geirsson, 12.9.2021 kl. 16:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband