20.9.2021 | 05:45
Séra Sigurjón og dularfulla sólarupprásin
Í 10 daga leið mér eins ég hefði verið hafður að fífli, eins og hver annar skýjaglópur. En eins og kom fram í pistli um daginn þá var höfð af mér sólaupprás í glampandi sól. Mig var meir að segja farið gruna um tíma að jörðin væri komin að því að umpólast. Ég leitaði mér aðstoðar hér á síðunni til að komast út úr fíflaganginum án árangurs.
Þannig var að dagsetning stemmdi ekki við sólina hjá fræðimönnum, um það hvenær hún væri dyrum Dyrfjalla. Eins og kannski einhver hefur tekið eftir þá eru Dyrfjöllin líkust riffilsigti og þegar sólin fer fyrir skarðið þá er miðið fullkomið. Um tímasetningu þessa sjónarmiðs hafði fræðimaðurinn Ármann Halldórsson þessi orð Í neðra og efra;
"Þeir sem staddir eru á Kirkjubæ í Hróarstungu aðfaranótt 9. september í björtu veðri við sólarupprás eiga þess kost að sjá sólina ganga fyrir Dyrnar og mun vera ógleymanleg sýn. Hið sama gerist 25. mars klukkan 7 að morgni. Út af þessu fyrirbæri lagði séra Sigurjón Jónsson í nafntogaðri ræðu er hann flutti á 100 ára afmæli Kirkjubæjarkirkju árið 1951. Þessi ræða er prentuð í predikunarsafni séra Sigurjóns sem hann nefndi Undir Dyrfjöllum".
Í stuttu máli þá stóðst þetta ekki 9. september s.l., um þann sálarháska má lesa í Hnattræn sjónarmið. Mér fannst samt með ólíkindum ef fræðimaður eftir fræðimann flaskaði á þessu atriði og hefðu fólk að fíflum um hábjartan dag. Svo þegar leið á vikuna fór mig að gruna að maðkur væri í mysunni. Sennilega hefði læðst prentvillupúki í predikunina, sem hver fræðimaðurinn spann svo upp á eftir öðrum, vegna þess hve vel þeir treystu séra Sigurjóni til að fara með sannleikann.
Þegar þetta kom upp hafði ég reiknað þessar dagsetningar út í huganum og talið þær rökréttar. S.l. föstudagskvöld ákvað ég að gera það á blaði með því að fara í sitthvora áttina frá vetrarsólstöðum og fann þá mismun upp á 10 daga. Á tölunni 10 er auðvelt að flaska í huganum, jafnvel á tommustokk. Á laugardaginn reiknaði ég þetta í sitthvora áttina frá sumarsólstöðum þá kom upp 8 daga mismunur.
Þar sem fræðimenn tímasetningarinnar eru þrír og vitringar jólaguðspjallsins þrír og þar að auki sagt að sólin setjist um kyrrt í þrjá daga á vetrarsólstöðum ákvað ég að veðja á að prentvillan væri 9. Sannleikur tímasetningarinnar er vissulega bara einn, því hefði í stað 9 átt að standa 19 í prédikunarsafni séra Sigurjóns.
Um leið og ég vaknaði fyrir birtingu í gær, sunnudag 19. september, sagði ég við Matthildi mína að nú skildum við drífa okkur út í Kirkjubæ og sjá ógleymanlega sýn, en hún hefur fylgst með þessum sálarháska mínum vegna sólarupprásarinnar að hætti skilningsríkrar eiginkonu. Enda var komið að þriðju ferðinni minni til að sjá sólarupprásina í Kirkjubæ fyrir allar aldir.
Hún hafði reyndar nærfærnislega á orði að úfið skýjafarið væri með þeim hætti þennan morguninn að ekki væri mikil von með að sjá sólina. Ég maldaði í móinn og sagði að samkvæmt spálíkani veðurfræðinganna ætti að vera skafheiðskýrt í Dyrfjöllum klukkan sjö og hún gæti þá bara misst af því ef hún vildi.
Það var ákveðið að tjalda því sem til var og sest upp í Grand Cherokee. Þeyst út í Kirkjubæ og mætt á kristilegum tíma. Við sólarupprás hófst ólýsanlegt sjónarspil og ekki vantaði andaktina og helgisöngvana. Gæsir og þrestir sungu samkór með rollunum um leið og sólin breiddi út geisla sína til þeirra hægri, vinstri, efra og neðra í gegnu dyr fjallanna.
Þarna stóðum við út í guðsgrænni náttúrunni eins og agndofa óvitar í þakklæti til almættisins fyrir að fá að líta þessa ógleymanlegu sýn. Horfðum á sólina síga fyrir dyrnar á tveim mínútum og upplifðum eilífðina í eitt augnablik, og kom ekkert gáfulegra í hug en tauta -já góðan daginn.
19.09.2021 / 06:54
19.09.2021 / 07:01
Athugasemdir
Í mínum huga ert þú, meistari Magnús, beintengdur við almættið. Svo einfalt er það.
Takk fyrir að fá hér á bloggsíðu þinni, að fylgjast með þeim augnablikum þegar almættið birtist þér, með Matthildi í för.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 20.9.2021 kl. 14:45
Blessaður Magnús.
Hvað getur maður sagt??
Jú; "já góðan daginn".
Fleiri orð ekki þörf.
Nema kannski að benda á að Skáldið veit sínu viti.
Sólar og jafn framt vindkveðjur úr neðra.
Ómar Geirsson, 20.9.2021 kl. 16:44
Þakka þér fyrir innlitið og höfðinglega athugasemdina Pétur Örn. Ég þarf sem betur fer ekki að leita langt yfir skammt til að eiga augnablik með almættinu.
Þessi -must see- sólarupprás var orðin að þráhyggju eftir einstakt sólarsumar og vissulega þakkarvert að almættið skyldi sjá aumur á mér.
Orðspor séra Sigurjóns lifir enn vel á Héraði, þó svo að engin virðist hafa tekið eftir skekkjunni hvað sólarupprásina varðar í grennd við haustjafndægur, sem mér þótti merkilegt því ég spurðist fyrir um þetta hjá mönnum úr Sigurjóns sókn og vissu þeir af fyrirbærinu og töldu dagsetningarnar réttar, -rétt eins og fræðimennirnir.
Séra Sigurjón var bæði rétt- og framsýnn maður og kunni að koma fyrir sig orði í andakt, sem hita og þunga dagsins, og eru marga vísur hans fullgildur boðskapur í dag.
Einu sinni frétti hann af því að nágrannar hans hefðu gert með sér kaupsamning á jörð í Hróarstungu og fannst þeir meta eignina ansi hátt sem yrði engum til heilla þegar lengra liði. Þá varð honum þetta á orði;
Glópur hitti glóp á ferð
glópur beitti skrúfu
glópur keypti á geipiverð
græna hundaþúfu
Um það fólk, sem byggði þann bæ sem ég bý í, þar sem fyrstu húsin voru byggð í grennd við gamlan aftökustað, sem heitir Gálgaás, gerði hann vísu, sem gæti t.d. allt eins átt við um fjöl- og samfélagsmiðla nú á dögum.
Glatt er á Gálgaás
Gróa á hverjum bás
það er nú þjóð legur staður
engin af öðrum ber
efalaust þaðan fer
til andskotans annar hver maður
Magnús Sigurðsson, 20.9.2021 kl. 16:47
Já góðan daginn Ómar, eftir einmuna blíðu sem við höfum mátt búa við hér í efra og neðra þetta sumarið er varla von á öðru en maður fái á heilann það sem skiptir raunverulegu máli, -sólarupprásin og aukinn yndishagur.
Mér hefur stundum verið hugsað til formálans, sem ég hafði að pistli daginn fyrir sumarsólstöður, þetta sumarið.
Fari það svoleiðis norður og niður í rauðglóandi helvítis helvíti. Nú er einn dagur í sumarsólstöður og eftir morgunndaginn fer að halla í hina áttina. Flissandi fábjáni sagði á svipuðum tíma og veðurfræðingurinn aflýsti sumrinu að nú væri að birta yfir landinu á meðan farfuglar til fjalla frusu á hreiðrunum og blessuð litlu lömbin skulfu á beinunum í norðan næðingnum.
Þarna má finna hreina íslenska að hætti forfeðranna, og svo merkilega vill til að eftir að hún var höfð í frammi hef ég mátt búa við aukin yndishag mánuðum saman, -bæði í efra og neðra.
Í lok svona sumars er ekki hægt að segja annað en, , , -já góðan daginn.
Með bestu kveðju úr blíðunni é efra.
Magnús Sigurðsson, 20.9.2021 kl. 17:04
Árstíðaárið er í raun og veru um 365,2422... dagar, á fjórum árum þarf að bæta 0,9688 af degi inn.
Við bætum þá of mörgum dögum inn og verðum þá að fella einhver hlaupár niður til að leiðrétta það.
Hlaupár, þá er 29 febrúar settur inn, og þá ýtast næstu dagar fram um einn dag.
Hlaupárið, verður dagurinn í dag, dagurinn í gær.
Þess vegna er alltaf hringl með fyrsta sólarupprisu daginn á Seyðisfirði, og þá annarsstaðar líka, mest á hlaupári, 1 dagur.
Það smá breytist á milli hlaupára, ca. 1/4 dagur, 6 klst á ári.
Þann 28 febrúar á hlaupári hafa dagarnir ekki fyllt upp í árin, og þá þarf að bæta einum inn til að leiðrétta miðað við sólarganginn.
Einhvern tímann var ég að reikna eitthvað á blogginu, og sá að rangt var reiknað og ætlaði að laga seinna, en gleymdi og man nú ekki hvaða reikningur það var, og get þá ekki lagað.
Egilsstaðir, 23.09.2021 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 23.9.2021 kl. 01:08
Þakka þér fyrir að minna þetta Jónas. Við höfum hlaupárin til að rétta að mestu af þennan mismun.
Gamlistíll - Júlianska tímatalið, sem var forveri þess Gregoríska sem við höfum nú var með enn meiri mismun sem var leiðréttur í heilu lagi með því að taka upp það Gregoríska og munaði þá orðið 11 dögum ef ég man rétt.
Þetta var nýlega rifjað upp í sambandi við höfuðdaginn og vonuðu þá margir vestlendingar að það myndi birta til 9. september úr því að það gerði það ekki 29. ágúst. En misskilningurinn var náttúrulega sá að höfuðdagurinn var upphaflega með sömu sólarhæð og 29. ágúst.
Gamla íslenska tímatalið var að flestu leiti mun nákvæmar hvað svona viðburðum viðkemur.
Magnús Sigurðsson, 23.9.2021 kl. 06:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.