Vits er þörf þeim er víða ratar

Mig dreymdi þann draum að ég gengi niður stigahús fjölbýlishúss. Þegar niður kom steig ég til hliðar, í stað þess að stíga fram og út um aðalinnganginn, -fór ég í gegnum dyr, niður eitt þrep inn á langan gang lokaðan í endann.

Á ganginum var hvorki bjart né myrkt, ljós né skuggar. Til hægri voru rökkvuð skúmaskot með rekkum af starfsmannaskápum sem var gengt á milli. Til vinstri var veggur með gluggum hátt á þar sem grá skíma dagsbirtunnar tírði inn í gegnum glerið.

Þarna var einungis gráa súpu að fá og sjá; gerða úr burt flognum hænsnum, steiktum spýtum og teiknuðum kartöflum.

Hefði ég valið aðalinnganginn gekk ég út í litríkan daginn, í brennandi sól eða grimmdar frosti, -þar lá efinn.

Í stað þess gekk ég örugga leið á eftir einlitri gulrótinni er asnann dregur, sem var það eina er gaf ganginum lit.

Skyldi það vera að "draumur lífsins" væri appelsínugul viðvörun?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Þū  hefur líklega drukkið of mikið grasaseyð fyrir svefninn

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 3.10.2021 kl. 23:40

2 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Þú  hefur líklega drukkið of mikið grasaseyð fyrir svefninn

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 3.10.2021 kl. 23:41

3 identicon

Sæll Magnús.

Allt orkar tvímælis þá gjört er
en með sjálfum sér verður hver lengst að fara
eins og Þorkell mælir í Gíslasögu Súrssonar, því
er betra að stilla sjálfsgagnrýni í hóf en
gera þess meira með það sem er nú og þau
tækifæri sem kunna að leynast þar.

Húsari. (IP-tala skráð) 4.10.2021 kl. 00:20

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það er alls ekki ólíklegt Hallgrímur, nema þá að ég hafi vaknað of snemma í lýsið.

Tek heilshugar undir með ykkur Þorgeiri Húsari.

Magnús Sigurðsson, 4.10.2021 kl. 06:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband