16.10.2021 | 19:01
Vinur er sá er til vamms segir
Ungur var eg forðum,
fór eg einn saman:
þá varð eg villur vega.
Auðigur þóttumst
er eg annan fann:
Maður er manns gaman.
Hrörnar þöll
sú er stendur þorpi á.
Hlýr-at henni börkur né barr.
Svo er maður
sá er manngi ann.
Hvað skal hann lengi lifa?
Sumar heilræðavísur Hávamála eru þannig orðaðar að þær smella inn í nútímann svo ekki þarf að leita orðskýringa, þannig er fyrri vísan og vísar til ávinnings vináttunnar.
Sú seinni er öllu snúnari en hún tekur í raun til hins sama og sú fyrri, samt með öðrum formerkjum. Einstæðingurinn hversu lengi skal hann lifa? -er spurt.
Ætla má að vináttan eða vinaleysið komi til með að ná út yfir gröf og dauða. Þöll er visin trjábolur sem enn stendur uppi, þorp er stundum túlkað sem berangur eða jafnvel haugur (grafreitur), manngi = engin, -eða jafnvel margir engir. Já hversu lengi verður þess minnst sem engin ann.
Flestir afla sér vina snemma á lífsleiðinni og stundum endist sú vinátta út lífið, en oftast er það svo að vinunum fækkar eftir því sem á ævina líður. Því er mikilvægt að hlúa að vináttunni og eiga gott samband við fjölskyldu, hvort sem er lifað lífinu eða í minningunni.
Athugasemdir
Ég var að "flakka" á milli sjónvarpsstöðvaí gærkvöldi og meðal annars datt ég inn á RÚV, þar var þátturinn hans Gísla Marteins í gangi. Ég hefði ekki stoppað þar við nema fyrir það að Helgi Seljan var gestur þar. Hann sagði meðal annars frá því að setið hafi verið um heimil hans og honum veitt eftirför. Ég hugsaði með mér að það væru engin takmörk fyrir því hversu lágt Þorsteinn Már getur lagst við að ná sér niður á Helga og að það hlyti að vera sérstakur staður í HELVÍTI fyrir menn eins og Þorstein Má. Ég hef aldrei heyrt um það heldur að hann eigi nokkra VINI, hann á víst marga "viðhlæjendur" en ég veit ekki til að hann eigi VINI. Ég óska Helga alls hins besta í framtíðinni en ég verð að segja að mér var svolítið brugðið þegar ég sá hann í gærkvöldi. Ég vona að Helgi eigi marga góða vini sem hann getur leitað til og ég efast ekki um það eitt augnablik og eigi eftir að sjá hversu góðir vinir eru mikils virði.....
Jóhann Elíasson, 16.10.2021 kl. 21:47
Ég hygg að Helgi eigi vini Jóhann, og að honum standi góð fjölskylda.
Það er snúið að afla sér vina með auðæfum, bæði er það að sá sem með auðinn fer getur átt erfitt með að átta sig á hver er sannur vinur, en ekki bara vinur auðsins, og ekki síður að sá sem sölsar undir sig auð gerir það oft á annarra kostnað. Eins er þekkt að auðug erfðamál eiga það til að splundra fjölskyldum.
Það er því alls ekki útilokað að auðurinn sé mörgum helvíti.
Bú er betra, þótt lítið sé. Halur er heima hver; -segja Hávamál.
Magnús Sigurðsson, 17.10.2021 kl. 05:42
Sæll Magnús.
Þú segir réttilega að manngi merki engi(nn)
Með öðrum orðum þá tilheyrir orðið flokki fornafna;
er ekki nafnorð.
Og þá sérðu hvernig með skal fara.
Húsari. (IP-tala skráð) 17.10.2021 kl. 23:22
Sæll Húsari og takk fyrir innlitið og athugasemdina.
Það er svo sem ekki erfitt miðað við samhengið í vísunni að ætla merkingu manngi / enginn. Svo fékk ég það staðfest á netinu. Það er mín hugsmíð að merkingin geti hafa verið stigmögnuð sem margir engir.
Það er kannski ekki sjálfgefið að skýringar séu alltaf réttar t.d. gjörbreytist merkingin á manvit þegar rithættinum er breytt yfir í mannvit, -úr fyrri tíma merkingu, hyggjuvitið er ekki hátt skrifað í dag miðað við menntaða sérfræðina.
Magnús Sigurðsson, 18.10.2021 kl. 06:27
Blessaður Magnús.
En það hyggjuvit að íhuga og útskýra, setja sig inní eldri hugsunarhátt, það er eilíft, klassískt, verður hvorki í aska látið, eða selt á afsláttarkjörum menntunarmarkaðarins.
Doktor Sigmundur, þá háskólarektor, maður sem enginn frýjar vits, sagði einu sinni við mig, "ég hef áhyggjur af menntun samtíðarinnar, hún snýst svo mikið um að tileinka sér þekkingu, á kostnað hugsunar og skilnings".
Reyndar orðaði hann þetta öðruvísi, vísaði í að þó krakkarnir sem hann var að kenna og mennta (sirka 1987), væru skýr og klár, þá var eins og þau vissu minna en áður, væru verr menntuð.
Skýringuna gaf hann að þegar hann var að afla sér fjár til háskólamenntunar þá fór hann á togara, þar kynntist hann að því sem hann upplifði, hámenntuðum mönnum, reyndar togarasjómönnum, en þeir voru lesnir, bæði í fornsögum sem og heimsbókmenntum.
En unga kynslóðin þá, las varla bók fyrir utan skylduna.
Þú hins vegar Magnús fékkst kennslu í steypu, og að steypa.
Það menntaða vit þitt vekur umhugsun, fær mann til að lesa, íhuga, spá í og reyna að skilja það sem vísað er í.
Ekki aðeins hyggjuvit, heldu fyrst og fremst Djúpvit.
Dagarnir í dag eru kannski ekki svo mjög gáfaðir.
Kveðja að neðan úr aðeins minni rigningu en þeirri sem hrakti Seyðfirðinga úr húsum sínum.
Ómar Geirsson, 18.10.2021 kl. 16:31
Sæll Ómar og þakka þér fyrir þessa athugasemd.
Ég held að dr Sigmundur rektor hafi haft nokkuð til síns máls þegar hann talaði um togarasjómennskuna. Steypa er - var og verður- aftur á móti steypa.
Mér hefur oft dottið í hug nú í seinni tíð, að það séu helst húsmæður, sjómenn og bændur sem búa yfir víðtækri þekkingu.
Rétt eins og heilræði Hávamál kenna þá snýst tilveran um samhengi en ekki sérfræði.
Með kveðju úr hauströkkrinu að ofan.
Magnús Sigurðsson, 18.10.2021 kl. 18:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.