17.11.2021 | 06:04
Aum þjóð - hýdd og smánuð
Það mætti ætla að alþýða landsins hafi verið svo varnarlaus og aum að valdsmenn hafi vaðið yfir fólk að vild með lögin ein að vopni. Þar til komu fjölþjóðlegir mannréttinda dómstólar, sem fólk gat áfrýjað órétti sínum í gegnum lögfróða, og fengið uppreist æru eftir dúk og disk. Í þjóðsögunum má samt finna frásagnir af því hvernig alþýðu fólk lét valdsmenn finna fyrir því á þann hátt að aumt hefði þótt til afspurnar.
Í þjóðsagna safni Sigfúsar Sigfússonar segir frá Bjarna Einarssyni sem bjó á 18. öld á Bárðarstöðum í Loðmundarfirði, Austdal í Seyðisfirði og á Krossi í Mjóafirði og jafnvel víðar. Í þjóðsögunni er Bjarni sagður eiga Snjólaugu systir Hermanns í Firði, en í Ættum Austfirðinga er kona Bjarna talin Guðný dóttir Péturs Nikulássonar á Breiðavaði og Snjófríðar systur Hermanns í Firði.
Bjarni var talinn göldróttur sjónhverfingamaður og greina sagnir Sigfúsar flestar frá því hvernig hann leyndi suðaþjófnaði hvað eftir annað, m.a. með því að fá þann sem hann stal frá til geyma sauðina.
Sigfús segir svo frá viðskiptum Bjarna við Jón Arnórsson sýslumann á Egilsstöðum, sem sennilega hefur þá verið það sem kallað var lögsagnari Hans Wium sýslumanns. Nokkurskonar sýslufulltrúi dagsins í dag, sem í þá daga rannsakaði mál, gaf út ákæru og dæmdi, auk þess að sjá um að dómi væri fullnægt.
Það var á fyrri árum Bjarna í Austdal að sagnir segja það að Jón sýslumaður Arnórsson hafi dæmt frændkonu Bjarna til hýðingar fyrir ólöglegan barnsgetnað. Hún var í Mjóafirði og þótti mörgum of harður dómurinn. Bjarni bauð að gjalda fé fyrir hana en við það var alls eigi komandi og kom sá orðrómur í ljós að óþarflega harður þætti dómurinn.
En hvað sem í því var satt lét sýslumaður fullnægja dómnum og var stúlkan hýdd vægðarlaust. Þetta sveið Bjarna mjög. Svo segja menn að þegar sýslumaður reið upp yfir frá hýðingunni með fylgjara sínum þá sat Bjarni fyrir honum. Bjarni gerði fylgdarsvein sýslumannsins aðvaran um það að heillavænlegast væri fyrir hann að fara leið sína. Trúði hann að svo mundi vera og hélt áfram nokkurn spöl og beið þar. En Bjarni greip annarri hendi fyrir brjóstið á sýslumanni og spyr um málsúrslit.
Hann sagði sem var og heimtar að Bjarni sleppi sér. -"Nei," sagði Bjarni, "en hafið þér nú gert rétt í þessu gagnvart mannúðarskyldu yðar." - "Lögin heimila það," segir sýslumaður, "eða hvað viltu, kotungurinn, kenna mér réttarganginn?" - Eigi vil ég það en rétt minn og minna vil ég hafa af yður sem öðrum," segir Bjarni, "og eigi óþarfa harðbrýstni. Menn batna ekki við hana." - "Ég dæmi rétt lát mig lausan," segir sýslumaður og ætlar að slíta sig frá honum, en það tjáði eigi. - "Ekki nenni ég að sleppa yður svo að ég geri yður eigi áður áminningu," segir Bjarni, "og mun ég nú dæma yður á líkan hátt og þér dæmduð lítilmagnann. Skuluð þér nú reyna hversu sú hýðing er mjúk. Þér eruð ekki saklausari en stúlkan."
Eftir þetta kippti hann sýslumanni af baki og hætti eigi fyrri en hann hafði hirt hann á sama hátt og hann hafði látið hirta frændkonu Bjarna áður. Skildu þeir svo og er sagt svo að sýslumaður rétti þar aldrei hlut sinn. (Þjóðs. Sigfúsar Sigfússonar V bindi bls. 328-329)
Flokkur: Landsins-saga | Breytt s.d. kl. 06:09 | Facebook
Athugasemdir
Blessaður Magnús.
Kom ekki inn þegar ég las meitlaða afstöðu þína af hverju þú þáðir ekki bólusetningu.
Það er ekkert heilt við að mismuna fólk eftir afstöðu þess gegn bóluefnum sem í raun enginn veit hvernig virka til lengri tíma, nema núna er vitað að þau virka aðeins til skamms tíma, þó fáir spyrji sig þeirrar spurningar að sú meinta virkni, sem er í raun lygi harðskeyttra markaðsmanna, er ekki forsenda mismunar og útilokunar.
Þess vegna skil ég ekki þessa færslu þína Magnús.
Ertu virkilega að afneita staðreyndum??
Hvaða annað vopn höfum við smáfuglarnir??
Kveðja að neðan úr næstum því sól, ef blessað Búlandið væri ekki fyrir.
Ómar Geirsson, 18.11.2021 kl. 16:57
Sæll ómar.
Það er kannski hálf ankannanlegt að skýra þetta, ef torskiliðið hefur verið, við blogg um viðskipti Bjarna Einarssonar og Jóns Arnórssonar vegna kaghýddrar frænku Einars í Mjóafirði á 18. öld. En ég held að afstaða mín í pistlinum skýri sig alveg. Hún er af fleirum en einum toga, eins og ég taldi mig hafa skýrt nokkuð vel.
Í fyrsta lagi þá trúi ég ekki á góðgerðir lyfjafyrirtækjanna. Í öðru lagi nota ég náttúruleg meðul úr nánasta umhverfi til að byggja upp mitt ónæmiskerfi, þetta kenndi móðir mín mér í uppeldinu með skeið af þráu lýsi og dísætu sanasol á eftir, fékkst hvoru tveggja í KHB, auk fjallagrasa ofl. Svo kom ég inn á að ég hefði ástæðu til að óttast skaðsemi bóluefnanna hvað mig varðar.
Ég er samt ekki fanatískur bóluefnaandstæðingur og hef aldrei verið nema það að ég vil fá að hafa mitt ónæmiskerfi í friði á meðan það virkar eins vel gegn flensum og kvefpestum í gegnum tíðina og það hefur gert.
Ég hugleiddi það meir að segja fram á vor að fara í bólusetningu, svona til að sinna þegnskyldunni ef það mætti verða til þess að þessi draugur yrði kveðinn niður. En þegar ég fór að sjá hvernig bólusetningadagar fóru í suma vinnu félagana þá tímdi ég ekki að fórna svo mikið sem einum degi af vori, hvað þá sumri, í þegnskylduna.
Síðan hefur það styrkt afstöðu mína að blóðtappar og hjartabólga hefur verið viðurkennd sem sjaldgæfar aukaverkanir bóluefnanna auk þess sem þau virðast ekki virki til þess sem þau voru upphaflega ætluð. En auðvitað er það bara mín hræðsla við að sinna þegnskyldunni eins og hver annar víkingur.
Með bestu kveðjum úr móskunni í efra.
ps. Svo því sé haldið til haga þá er ég alfarið á móti hverskonar mismunun þegnanna þegar bólusetning er annars vegar, jafnvel þó svo að þær hafi stóraukið álagið á heilbrigðiskerfið og þar að auki sé ekkert sem bendi til annars en smitum fari fjölgandi í kjölfar þeirra. þá eiga hvorki bólusettir né óbólusettir að gjalda þess.
Magnús Sigurðsson, 18.11.2021 kl. 19:25
Blessaður Magnús, núna skrifum við báðir úr myrkri sem tunglið mun reyna að lýsa upp þegar líður að nóttu.
Allt sem þú skrifar hér að ofan, það er í athugasemd þinni, er hverju orði sannarra, það er þegar við fjöllum um það sem pistill þinn er að vitna í.
Við erum ekki aum þjóð, hýdd og smánuð þó Skáldinu á síðustu öld hafi þótt það, þá var lýsing þess aðeins til þess eins að undirbyggja ljósið og frelsunina í austri.
Rétmæt afstaða einstaklingsins þó hann fari gegn fjöldanum, rétmæt andmæli gegn mismunun, skýrt mat á áhættu, og rétturinn til að fá að vera maður sjálfur, EKKERT af því réttlætir að telja hina smáða eða hýdda, hvað þá auma.
Virðingin þarf nefnilega að vera gagnkvæm, sem og staðreyndum haldið til haga.
Aðeins þá fær tíst smáfuglsins vægi, aðeins þá myndar hann flokk sem stórfuglinum stendur stuggur af.
Breytir kannski engu, en ég hef samt ítrekað séð ránfugla hörfa undan hópi skógarþrasta.
Og svo því sé haldið til haga, þá er það ekki ránfuglinn sem ræður þeirri samstöðu, nema á þann hátt sem tilvera hans skýrir.
Nema kannski í mannheimum.
Kveðja að neðan úr kófinu sem ljósastaurarnir afhjúpa, annars væri það aðeins myrkrið sem augun nema út um stofugluggann.
Það er víða kófið.
Ómar Geirsson, 18.11.2021 kl. 22:02
Blogg Bjarna Jónssonar um eflingarsprautu á 4 mánaða fresti er áhugaverð. Ekki skrýtið að sumum finnist sem núverandi ríkisstjórn hafi verið á vafasömum slóðum úr því að bóluefnin virka ekki sem skyldi.
En hver er virðingin fyrir fólkinu og þjóðinni að leggja útí tilraunastarfsemi?
En ránfuglarnir í mannheimum er ekki fólkið sem þiggur bólusetningarnar, öðru nær.
Íslendingar ættu einmitt að vera friðsamir skógarþrestir sem láta ránfuglana hörfa. Vona að svo verði. Icesafe sýndi það og sannaði að það var hægt.
Ingólfur Sigurðsson, 19.11.2021 kl. 01:04
Þegar fálkarnir syngja á seiðhjallinu ættu smáfuglarnir ekki að mæta til að tísta með, það reynist sjaldnast vel.
Fyrirsögn og efni þessa pistils hefur ekkert að gera með athugasemdirnar hér, þær eru við annað blogg.
https://magnuss.blog.is/blog/magnuss/entry/2271885/#comments
Magnús Sigurðsson, 19.11.2021 kl. 06:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.