7.12.2021 | 05:47
Aðventusaga - níu líf kattarins og kraftaverk flugunnar
Það þarf ekki alltaf að vera svo að hrakföll leiði til ófarnaðar. Á þetta var ég minntur fyrir skemmstu þegar vinnufélagi á táningsaldri í steypunni hafði hringt á mánudagsmorgni og boðað forföll. Hann hafði lent í óhappi kvöldið áður, hafði missti stjórn á bíl í krapa með þeim afleiðingum að bíllinn þeyttist út af veginum, endastakkst og kútveltist áður en hann lenti svo aftur á hjólunum. Sjálfur hafði vinnufélaginn flogið út um hliðarrúðuna og lent mjúklega í sinumóa, stóð upp til að slökkva ljósin á bílnum og hringja eftir aðstoð.
Hann sagði þegar hann hringdi í vinnuna að það amaði ekkert að sér, en þau á sjúkrahúsinu vildu halda honum inni til öryggis, en hann vonaðist til að geta mætt þegar liði á daginn. Þó svo að hann hafi ekkert mætt þennan mánudag var hann mættur galvaskur fyrir klukkan átta daginn eftir alveg órispaður að sjá og kannaðist ekki við að neitt væri að sér, að vísu væri hann aðeins aumur í hnénu, en það væri vegna þess að hann hefði verið að eltast við rollur á laugardeginum.
Við gömlu steypukallarnir ræddu það hvort það væri gæfa eða gjörvileiki sem skildi á milli, eða jafnvel hvoru tveggja. Sá sem yfirleitt hittir naglann á höfuðið sagði; svona sleppa menn ef þeir ná því að vera eins og fluga. Ég spurði hvað hann meinti. Hann sagði að flugan gæti stoppað tímann. Þegar það ætti að slá hana, flygi hún undan högginu akkúrat á því augnabliki sem hún hefði átt að verða að klessu. Þetta gerðist vegna þess að flugur sæju atburða rásina fyrir fram, ramma fyrir ramma og næðu að hugsa hvernig best væri að bregðast við á meðan tíminn stæði í kyrr á milli ramma. Ungi félagi okkar hefði séð að best væri að láta sig svífa út um hliðargluggann á hárréttu augnabliki til að geta haldið áfram að lifað lífinu.
Ég hef stundum haft þá speki yfir ungum vinnufélögum á andaktinni, að þeir verði að hafa það á bak við eyrað að mannslíkaminn toppi á tuttugasta og níuna aldurs ári. Eftir það liggi leiðin niður á við og ef einhver líf af níu lífum kattarins séu eftir 29 ára aldurinn taki hvert líf sinn toll. Sá sem best hittir naglann á höfuðið skýtur þá stundum inn í, að hugurinn haldi áfram að vera 29 ára fram undir sjötugt, þannig að svona speki sé nú til lítils. En af eigin reynslu þekki ég það að endastingast á hjóli eða mótorhjóli, jafnvel fara flikk-flakk og heljarstökk er ekkert tiltökumál fram undir þrítugt, án þess að hálsbrotna. En eftir það verður voðinn vís.
Fyrir 30 árum var ég á ferð í Lóni á samskonar bíl og ungi vinnufélagi minn, léttum og sprækum pikcup á túttum. Þá var einbreitt bundið slitlag víða á hringveginum, m.a. í Lóni. Vegna augnabliks andvarleysis lenti bíllinn með hjólin öðru megin út fyrir slitalagið með þeim afleiðingum að hann fór að rása. Framundan var einbreið brú þannig að ég gaf allt í botn til að keyra bílinn upp úr því að rása. Það gekk að hitta brúna og ég taldi mig í eitt augnablik hólpinn. Framundan var smá beygja og brekka, en þar affelgaðist framdekk með þeim afleiðingum að bíllinn endastakkst og sveif hátt í 15 metra, -eftir því sem ég komst að seinna, -áður en hann kom niður á skúffu gaflinn í vegkantinum.
Það kom sem sagt ekki til af góðu þegar þetta uppgötvaðist með 29 árin, níu líf kattarin og að flugan yrði ein til bjargar eftir þrítugt. Ég var að flýta mér heim frá Reykjavík eftir vinnutörn og átti eftir hálftíma heim á Djúpavog á stjörnubjörtu kvöldi og nýju tímameti, þegar bíllinn fór þetta heljarstökk með þeim afleiðingum að ég fór út í gegnum framrúðuna og niður í götu. Mín síðasta hugsun, meðan tíminn stóð kyrr á milli ramma, og rétt áður en ég setti hausinn í gegnum framrúðuna, var sú að þetta væri ekki búið ég væri ekki kominn heim til Matthildar minnar og barnanna. Allt sem ég ætti eftir að gera rann í gegnum hugann í algjörri kyrrð.
Þegar ég stóð upp af malbikinu úti í stjörnubjartri desembernóttinni, sá ég bílinn í fjarlægð fyrir utan veg upp undir klettum eins og upp lýstan. Ég gekk að bílnum en komst ekki lengra inn, en til að liggja í gólfinu við símann, þar þraut mig allan kraft. Þegar ég ætlaði að hringja heim náði ég fyrstu stöfunum í númerinu, en svo hvarf síminn í blóði ásamt sjóninni. Það svaraði maður á Hornafirði. Þá mundi ég ekki lengur hvar ég var, en taldi að ég væri rétt fyrir sunnan Höfn, og vonaði að maðurinn héldi ekki að ég væri blindfullur. Hann lét tengdamóður sína hafa símann, fór út og hafði samband við lögreglu. Konan talaði við mig þangað til að ég allt í einu mundi að ég var við Reyðará í Lóni, talsvert fyrir norðan Höfn. Hún lagði þá á til að geta hringt og látið vita.
Þetta var áður en símar voru í hverjum lófa, í bílnum var Dancal NMT og því hundaheppni að símasamband var þar sem bíllinn stóð upp undir klettum talsvert fyrir utan veg. Áður en sjúkrabíll og lögregla komu á staðinn hafði fólk frá Djúpavogi komið að slysinu, farið svo heim að Reyðará og fengið teppi til að breiða yfir mig þar sem ég lá úti í frostkaldri nóttinni. Ég heyrði þau tala saman en sá ekki neitt og hafði ekki mátt til að tala.
Síðan tók við flugferð til Reykjavíkur aftur, og erfiðasti sólahringur sem ég hef lifað, með klesst andlit, brotinn haus, slitna öxl og samfallna hryggjarliði. Fyrstu klukkutímana var ég sjónlaus með blæðandi úr eyra og heyrði sagt "við erum að missa hann" en það var mikill misskilningur því í mínum huga var það alveg á hreinu að ég var á leiðinni heim til alls þess sem ég átti og ef þau voru að missa eitthvað þá voru það sjúkrabörurnar. Þar að auki var ég á leiðinni til þeirra óþrjótandi verkefna sem í jólavinnutörninni urðu að lukkast til að halda sýslumanninum rólegum. Það var svo skítið með sýslumenn að þeir ærðust á aðventunni á þessum árum.
En á þessari aðventu upplifði ég kraftaverkið. Á öðrum degi á Borgarspítalanum var ég farin að finna batamerki, sérstaklega eftir að sérfræðingarnir á háls, nef og eyrna komu til að kíkja á mig með gorm, svipaðan og er notaður til að beygja rafmagnsrör, tróðu honum upp i nasirnar á mér þangað til að ég fann fyrir honum lengst niður í koki, rugguðu svo til nefinu svo gnast í og spurðu svo; geturðu nú andað með nefinu. Foxillur með samanbitna skolta kinkaði ég kolli. Þeir höfðu á orði þegar þeir stormuðu frá rúminu að á þennan þyrfti að kíkja betur. Það væri öruggt að hann sæi tvöfalt og að bitið væri skakkt þannig að það þyrfti að raspa af tönnunum og rétta stefnuna á blóðsprengdum glyrnunum.
Tveimur dögum seinna var komið til að flytja mig í hjólastól niður á háls, nef og eyrna. Þangað var mér trillað og sagt að bíða. Þar var mikið um að vera. Úr litlum sofandi polla voru rifnir hálskirtlarnir, hann réttur í fangið á foreldrunum um leið og blóðugir kirtlarnir glumdu í rusladallinum. Mér varð hugsað til frásagnar vinnufélaga míns af svipuðum atburði, sem ég hafði ekki trúað, en sá nú að var sannleikanum samkvæm. Eins var ungur maður með skakkt nef sagt að leggjast upp á bekk og nefið skoðað varfærnislega áður en töng, sem falin var aftan við bak - svipuð og notuð er við útigrill, -var eldsnöggt skellt á nefið og snúið upp á þangað til small í með tilheyrandi angistarveini unga mannsins. Sérfræðigarnir skoðuðu síðan mig og sögðu sín á milli; -nei hann er ennþá of bólginn.
Það var eftir heimsóknina á háls nef og eyrna sem kraftaverkið gerðist. Eftir þá heimsókn stóð ég upp úr hjólastólnum, fór í símann og hringdi í hana Matthildi mína til að biðja hana um að koma með skósíða svarta frakkann, ég hefði verið útskrifaður. Hún hafði verið búin að gera sig klára til að yfirgefa börn og bú, leggja upp í langferð þvert yfir landið til að heimsækja mig og færa mér slopp á spítalann.
Þegar Matthildur mín kom og var búin að leggja svarta frakkann yfir axlirnar á mér, tilbúnum til brottfarar, stóð gamall maður fram á ganginum við sjúkrastofudyrnar, og studdi sig við stöng á hjólum, sem hafði að geima poka með næringu í æð og súrefni, hann sagði við Matthildi; -jæja, svo þú ætlar bara að fara heim með víkinginn þinn, -gangi ykkur vel. Ég hef alltaf síðan verið einstaklega ánægður ef ég er heiðraður með víkings nafnbótinni. Þetta var aðventusaga kattarins frá því árið 1991, og í dag eru akkúrat 30 ár síðan ég varð fluga.
Athugasemdir
Númer eitt, tvö og þrjú, víkingur eða fluga, þá ertu fyrst og fremst einstakur maður, meistari Magnús. Og kannt svo sannarlega að segja frá.
Takk fyrir pistilinn.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 7.12.2021 kl. 13:09
Sæll Pétur Örn og þakka þér fyrir innlitið og lesturinn.
Fyrirsögnin á þessum pistli hefði allt eins geta verið Aumingi vikunnar.
En eins og ég kom inn á í upphafi þá er, -sem betur fer, -ennþá til ungt fólk sem ekki hefur áhuga á því hlutskipti.
Þakka þér kærlega fyrir athugasemdina mér þykir vænt um hana, hún er höfðingleg eins og þín var von og vísa.
Magnús Sigurðsson, 8.12.2021 kl. 05:13
🥺❤️
Snjófríður Kristín (IP-tala skráð) 18.12.2021 kl. 07:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.