Vísdómur hrafnsins

Það kemur fyrir að ég glugga í bók daganna og lít á gömul skrif. Haustið 2012 vann ég hjá Murbygg í Harstad. Við höfðum verið að vinna allt sumrarið norður í nesi finnanna. Það virtist vera heldur dauft fram undan varðandi múrverk hjá Murbygg þannig að ég hafði orð á því við Mette framkvæmdastýru hvort ég ætti ekki að taka mér vetrarfrí. Hugsanlega gæti hún samt lánað mig til Mortens múrarameistara í Finnsnesi.

Þessar hugmyndir blés Mette samstundis út af borðinu og sagði að það væri verkefni framundan í Evensmarka þar sem ætti að endurhlaða samískt fjós. Hún hefði hugsað sér að ég yrði í þessu verki ásamt öðrum hvorum norðmannanna Rune eða Allan til að byrja með, en síðan Sudananum Juma. Því Rune og Allan hefðu hvorugur áhuga fyrir verkefninu.

Við Mette og Rune fórum til að kanna þetta verk í desember. Þetta var hátt uppi í skóginum, undir háu fjalli, staðurinn heitir Gállogieddi. Eigandi bæjarins bjó niður við þjóðveginn um sveitina og átti að vera okkur til halds og traust meðan á verkinu stæði, með snjómokstur upp hlíðina og þess háttar. Annars var Samasetrið Vardobáiki með umsjón og fjármögnun verksins, þetta voru sem sagt fornminjar.

Þeim félögum mínum, ásamt eigandanum, leyst þannig á, að þetta væri illvinnanlegt verk. Hvað þá að vetrarlagi. Fjósið var hlaðið úr grjóti undir heyhlöðu og stóð þannig í brekkunni að farið var inn í hlöðuna af jafnsléttu að ofan, en neðri hlið fjóssins var öll ofanjarðar og með gluggum. Það var veggurinn sem snéri upp í brekkuna sem var að hruni kominn og hafði verið stífaður með plönkum með minna en meters millibili þvert yfir fjósið í neðri langvegginn.

Þegar við losuðum stein úr veggnum þá hrundi úr bakkanum inn í fjósið og voru flestir á því að öll brekkan kæmi inn í fjósið þegar losað yrði um stífurnar. Ég fór út og gekk hringinn í kringum húsið og sá að klöpp stóð upp úr götunni rétt upp við hlöðu dyrnar. Sunnan við fjósið og hlöðuna var svo smá klappar horn upp úr veginum. Þá rann það upp fyrir mér hvernig þessum stóru steinum, sem voru í veggnum, hafði verið fyrir komið, en þeir stærstu voru um 300 kg.

Þegar ég kom inn aftur sagðist ég vera viss um að það væri ekki mikill jarðvegur sem myndi hrynja úr bakkanum inn í fjósið, því það stæði upp við klett og þegar steinunum var hlaðið í vegginn hafi þeir verið látnir síga fram af klettinum. Þetta fannst öllum furðuleg staðhæfing og þó svo að ég fengi þau út til að sjá klapparnibburnar þá áttu þau erfitt með að sjá þetta fyrir sér. Það væri ekkert sem benti til þess að þetta væru ekki bara steinar sem stæðu upp úr. Ég bauðst til að teikna þetta upp og þá sæist hvernig í þessu lægi og hvernig væri best að standa að þessu verki.

Um kvöldið dundaði ég mér við að teikna fjósið, hvernig það stóð upp við klettinn áður en jarðvegurinn hafði verið fylltur að hliðinni þar sem hlöðudyrnar voru. Morguninn eftir hafði ég teikninguna með mér í vinnuna. Mette sagði strax að nú væri þetta auðskilið og þessa teikningu ætlaði hún að leggja fyrir skrifstofu Samanna í Vrdobáiki svo þau gætu tekið ákvörðun um hvort þau tæku áhættuna af því að fara í verkið að vetrarlagi.

Þess er skemmst að geta að við Juma vörðum vetrinum fram í mars við múrinn í fjósinu á Gállogieddi. Allt reyndist eins og ég hafði teiknað. Það sem meira var að bakkinn fyrir ofan hús beinfraus í bleytutíð þegar komið var fram í janúar. Þannig að ekki hrundi korn inn í fjósið, sem gerði verkið mun auðveldara. Þann jarðveg sem við þurftum að losna við urðum við að meitla burt með rafmagnsbrothamri.

Juma gat því frætt mig á fjölmörgum sögum úr heimahögunum. Sagði mér m.a. frá því þegar hann var smali kindahjarðar föður síns, hvernig þeir ferðuðust með hjörðinni yfir gresjuna mánuðum saman og létu hana ráða hvar nótt nam undir kolsvörtum afrískum stjörnuhimni. Aldrei hræddust þeir ljónin, enda tóku þau aldrei kind, en hælbítandi hýenurnar voru varasamar.

Áætlað var að verkið tæki tvo mánuði og stóðst það upp á dag. Við lok verks barst Murbygg þakkar bréf frá skrifstofu Samasetursins Vardábaiki og í framhaldinu var óskað eftir að fyrirtækið tæki að sér annað minja verkefni upp í Bláfjöllum á Vilgesvarre í Sandmarka.

IMG_2921

Þetta hafði ég skráð í bók daganna að verki loknu: 

Hinn sterki Súdani, Juma frá Darfur, ásamt mér gamla safnvíkingnum erum búnir að koma björgunum fyrir í múrinn. Eftir að hafa rifið niður 120 ára fallandi fjósmúrinn á samíska safninu á Gallogiedde og staflað honum upp aftur, -erum við sammála um að tækninni í byggingalist fer aftur í hárnákvæmu samræmi við það hvað menntun múrara fleytir fram. Það má sjá best á því að með öllum tæknibúnaði og þekkingu dagsins í dag hafa múrarar aldrei verið eins langt frá því að geta reist mannvirki á við pýramídana. Þess vega erum við bara nokkuð ánægðir með að hafa getað farið aftur í tímann við að endurhlaða fjósmúr Samana og teljum okkur þannig hafa komist 120 árum nær því að geta reyst pýramída.

Annars vorum við báðir farnir að hafa orð á því í lokin að réttast væri að treina sér jobbið. Það væri lúxus að klappa steinunum upp í fjallshlíðum, sötra kaffi þess á milli og virða fyrir okkur sveitina niður í dalnum, meðan ernirnir hnituðu hringi í uppstreyminu fyrir ofan fjallsbrúnina. Elgirnir voru að vísu fyrir löngu búnir að naga það sem þeir náðu í úr trjánum í túnfætinum og farnir í aðra haga. En í þeirra stað mættu hrafnarnir til þinghalds, svo þá gafst mér færi á að láta ljós mitt skína varðandi visku hrafnsins. Jafnvel fara með vísuna um krumma sem krunkar úti og kallar á nafna sinn.

Ég gat frætt Afríkumanninn á hrikalegri greind hrafnsins. Hvernig hann hefði fundið Ameríku fyrir víkingana langt á undan Kolumbusi. Einn daginn að loknum fjósverkum stóð Juma fyrir framan fjósdyrnar tilbúinn til heimferðar og beið eftir að ég drattaðist upp túnið, en ég hafði farið í ljósmyndaleiðangur niður að girðingu. Þá renndi hrafn sér niður hlíðina, þegar hann var rétt fyrir ofan höfuðið á Juma snéri hann sér á bakið í fluginu og skellti í góm með bjölluhljóm. Svo þegar hann kom yfir mig nokkrum vængjatökum neðar gerði hann nákvæmlega það sama, nema þá snéri hann sér á hinni hliðinni. Ég þurfti ekki að sannfæra Súdanann frekar um það að hrafninn væri fjölkunnugur fugl.

IMG 3232


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband