Svarti víkingurinn og why Iceland viðundrið

Undanfarið hef ég verið að lesa bókina "Leitin af svarta víkingnum". Þetta er bók þar sem Bergsveinn Birgisson rithöfundur og norrænu fræðingur segir frá því hvernig hann fór að því að skrifa sögu Geirmundar heljarskinns. Eins leyndardómsfyllsta landnámsmanns Íslandssögunnar. Geirmundur var sagður dökkur og ljótur, með mongólska andlitsdrætti af konunglegum uppruna, "göfugastur landnámsmanna" samkvæmt Landnámu, og á að hafa riðið um sveitir Íslands með áttatíu vígamenn, átt mörg stórbú þar sem hann hélt mörg hundruð þræla. Lítið meira er til um hann í fornum heimildum, en Bergsveinn grófst fyrir eftir krókaleiðum um hver maðurinn var og ritaði sögu hans fyrir nokkrum árum sem kom upphaflega út 2013 á norsku undir heitinu "Den svarte viking", en árið 2015 á íslensku sem "Saga Geirmundar heljaskinns".

Án þess að ég ætli að tíunda frekar hér hvers Bergsveinn varð áskynja um Geirmund, þá má segja í stuttu máli að þrælaveldi Geirmundar við norðanverðan Breiðafjörð, á Vestfjörðum og á Hornströndum var tilkomið vegna rostunga. En tó úr rostungaskinni og lýsið þótti í þá tíð nauðsynleg heimsmarkaðsvara til gerðar og viðhalds víkingaskipa. En það sem mér þótti ekki minna athyglivert var hvernig höfundurinn lýsti þrælahaldi á upphafstímum Íslandsbyggðar og hvernig það má sjá óslitin þráð allt til okkar daga. Það má segja að þrælahaldið hafi gengið undir ýmsum nöfnum í gegnum tíðina s.s. mansal, vistarband, verðtrygging, mismunandi eftir því hvort þrælahöfðinginn sá um fæði og húsnæði í skiptum fyrir vinnuframlag.

Bergsveinn segist vera kominn í 30. lið af Geirmundi, reyndar setti ég sjálfan mig inní Íslendingabók og komst að því sama. En það sem ekki síður er merkilegt í bók Bergsveins er það sem hann segir frá sinni fjölskyldu sem bjó í landnámi Geirmundar s.s. af búsetu afa síns og ömmu í Hrappsey á Breiðafirði.

"Hér bjó móðurfjölskylda mín frá 1940-1945; foreldrar móður minnar, Magnús og Aðalheiður með börnin sín tíu; þau urðu þrettán í allt. Fjölskyldan hefur einatt verið fámál um árin í Hrappsey og smásaman hefur mér orðið ljóst hversvegna. Einar einn móðurbræðra minna, sagði síðar ef ekki hefði verið fyrir byssu afa míns, hefðu þau haft lítið sem ekkert að borða. Leigan fyrir að búa í Hrappsey var nefnilega 24 kg af hreinsuðum æðardún – sem var nákvæmlega það sem eyjan gaf af sér. Á tilteknum tíma árlega átti að afhenda dúninn Magnúsi á Staðarfelli, en hann var forsvarsmaður Háskóla Íslands, sem þá var orðinn eigandi þessa eggvers. Eitt árið náðu þau ekki að safna 24 kílóum. Ekki fóru menn í mál við þau af þessum sökum, en af heimildum að dæma lá þeim við refsingu. Afi fór margsinnis í land og reyndi að semja um að fá leiguna lækkaða en allt kom fyrir ekki.,,,Afi og amma voru því tekjulaus á meðan þau bjuggu í Hrappsey. Allt vinnuframlag þeirra gekk upp í leigukostnað."

Í bók Bergsveins kemur fram að á dögum Geirmundar heljarskinns voru dæmi þess að þrælar við Breiðafjörð hefðu keypt sér lausn með þriggja ára launum af vinnu sem þeim til féll samhliða þrældómnum. "Afi Magnús hefði hefði hinsvegar aldrei náð að kaupa sér lausn frá Hrappsey ef hann hefði verið þræll þar".

Hvers vegna erum við í fangelsi þegar dyrnar standa galopnar? 

Flestir kannast við það að þegar þeir eru í fríi þá líður tíminn hratt og eyðslan miðar að því að peningarnir endist út fríið, svo framarlega sem "draumaferð í krúser" um karabíska hafið hefur ekki verið valin. Oftast er tilhlökkunin fyrir næsta fríi og hugsanir skjóta upp kollinum á fyrstu vinnudögum eftir frí "þarf þetta að vera svona". Nú á dögum þegar það er til of mikið af öllu má segja að það sem helsta vantar sé lítið.

Það eru nokkur ár síðan að ég neyddist til að fara víking til Noregs, í þriggja ára útlegð, þar sem hver einasta króna útilegunnar gekk upp í skuld við bankann, "heljarskinn" okkar tíma. Þessi skuld var ekki beint tilkomin vegna húsnæðis heldur vegna tímabundinnar persónulegrar ábyrgðar í atvinnurekstri á byggingastarfsemi, starfsemi sem hvarf í hruninu. Í Noregi eignaðist ég samt annað verðmætara en peningana sem bankinn fékk, en það var skilningurinn á því í hverju verðmæti eru fólgin, eða á frelsinu með því að ráða eigin tíma. 

Þá staðfestist sú vissa að hægt væri að lifa ágætu lífi af mun minni vinnu og því sem nemur lægri tekjum, meir að segja heima á Íslandi. En umhverfið er yfirleitt þannig að maður vinnur 40 tíma vinnuviku eða hefur ekki vinnu. Atvinnurekendur, viðskiptavinir og vinnufélagar eru venjulega í þéttsetinni 40 tíma-plús vinnuviku rútínu, svo það er varla raunhæft að biðja um að hafa frið eftir hádegi, jafnvel þó hægt væri að sannfæra sjálfan sig og vinnuveitandann.

Fyrir rúmum tveimur árum hafði ég fært þetta oftar en einu sinni í tal við vinnufélagana en fengið dræmar undirtektir um að þetta gengi upp í samvinnu við aðra. Svo gerðist það um svipað leiti, að heilsan bilaði og ég var tilneyddur til að slá af og virtist sem það myndi verða varanlega. En vinnuveitandinn bauð mér að vera áfram á þann hátt sem ég vildi og gæti. Í ljós kom að heilsunni hæfir ca. 4 tíma vinnudagur. Ég hef því fengið tækifærið á því að sannreyna kenninguna. 

Hefðbundinn átta tíma vinnudag má rekja til iðnbyltingarinnar í Bretlandi á 19. öld. En tækni og aðferðir hafa þróast þannig að starfsmenn í öllum atvinnugreinum eru færir um að framleiða meira en þörf er fyrir á styttri tíma. Þetta hefur vissulega leitt til til styttri vinnudaga en var á tímum iðnbyltingarinnar þegar þeir voru jafnvel 14-16 tímar, en samt ekki stillt vinnutíma fyrir þarfir einstaklingsins.

Það er vegna þess að 8 klst vinnudagar eru arðbærir fyrir hagkerfið, ekki vegna þess að afköst í átta tíma séu endilega hagkvæmust þannig (meðaltals skrifstofumaðurinn fær minna en 3 tíma verkefni á 8 tíma vinnudegi og því fer mikið af vinnudegi hans í að láta tímann líða). Ef Þú hefur heyrt um Parkinsons lögmálið þá veistu að; því meiri tími sem hefur verið gefinn til að koma einhverju í verk, því meiri tíma mun það taka. Það er ótrúlegt hverju er hægt að koma í verk á tuttugu mínútum ef aðeins tuttugu mínútur er í boði. En ef þú hefur heilt síðdegi, myndi það líklega taka það sem því nemur. Þetta sama lögmál var útskýrt í stuttu máli á þá leið að hægt væri að setja á stofn 500 manna vinnustað án þess að það þyrfti nokkhverntíma að leita að verkefnum útfyrir hann, vinnustaðurinn yrði sjálfbær hvað verkefni varðaði.

Vegna þess hvað það gerir mikið fyrir kaupgetu almennings er talið ásættanlegt að stór hluti vinnustaða tæknisamfélagsins inni af hendi vinnu sem engin hefur þörf fyrir. Til þess að hámarka eyðslu almennings þarf frjáls tími jafnframt að vera af passlega skornum skammti, sem geri það að verkum að fólk borgi meira fyrir ímynduð þægindi og hafi minni tíma til að komast upp á lag með að skipuleggja eigin tíma. Þetta heldur m.a. fólki óvirku utan vinnu við að horfa á sjónvarpið, og auglýsingar af því sem er sagt að því vanti.

Við erum föst í menningu sem hefur verið hönnuð af færustu markaðsfræðingum í að gera okkur þreytt, eftirlátsöm af áreiti, tilbúin til að borga fyrir þægindi og skemmtun, og síðast en ekki síst fyrir það sem hefur ekki það sem þarf til að uppfylla væntingar okkar. Þannig höldum við áfram að vilja það sem við gerum til að geta keypt það sem okkur vantar ekki, vegna þess að okkur finnst eitthvað skorta.

Vestræn hagkerfi neyslunnar hafa þannig verið byggð upp á útspekúleraðan hátt til að búa til fíkn og fullnæga henni með óþarfa eyðslu. Við eyðum til að hressa okkur upp, til að verðlauna okkur, til að fagna, að fresta vandamálum, að gera okkur meiri í augum náungans og síðast en ekki síst til að draga úr leiðindum. Þú getur rétt ímyndað þér hvernig það myndi leika hagvöxtinn ef við hættum að kaupa dót sem okkur vantar ekki og hefur ekkert raunverulegt gildi í lífi okkar til lengri tíma. Það væri hægt að stytta vinnudaginn, minka við sig húsnæðið (þar með húsnæðislánin) og gera sorphirðuna verkefnalausa.

Vandamál, svo sem offita, sjúkdómar, mengun og spilling, eru tilkomin vegna kostnaðarins við að halda uppi hagvexti. Heilbrigðu, hamingjusömu fólki finnst því ekki þurfa svo mikið af því sem það hefur ekki, og það þýðir að það kaupir minna af rusli og þarf minn af afþreyingu sem það finnur ekki sjálft.

Vinnumenningin er hagvaxtarins öflugasta tól, þar sem launin gera það kleyft að kaupa eitthvað. Flest okkar fara á þann hátt með peninga að því meir sem er þénað því meiru er eytt. Ég er ekki að halda því fram að það verði að forðast vinnu og fara þess í stað út um þúfur í berjamó. En það er hverjum og einum holt að gera sér grein fyrir á hverju hinn heilagi hagvöxtur þrífst og hvort hann sé sá leiðtogi sem við fylgjum í þessum heimi. Það hefur verið lögð í það ómæld vinna að hanna lífstíl sem byggir á því að kaupa það sem vantar ekki fyrir peninga sem ekki verða til fyrr en þú hefur látið frelsi þitt í skiptum, jafnvel ævilangt.

Þrælaveldi Geirmundar heljarskinns leið undir lok þegar rostungum hafði verið gjöreytt úr landnáminu, þá fóru sögur af þrælum sem teknir voru fyrir suðaþjófnað. Fer eins fyrir þrælum hagvaxtarins, missa þeir máltíðir þrælahöfðingjans þegar kemur að því að peningar eru allt?

Ps. Þessi pistill birtist hér á síðunni fyrir tæpum 5 árum síðan þá undir fyrirsögninni Lygin sem við lifum.

Ég hvet fólk til að kaupa íslenskar bækur fyrir jólin, fátt er betra en góð bók, og eins og alltaf er fjöldi góðra íslenskra höfunda með bækur á boðstólum fyrir þessi jól.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Þrælslundin er ill skiljanleg.  Við erum öll afkomendur fólks sem komst af með því að vera ýmist þræll eða þrælahaldari.

Guðmundur Jónsson, 16.12.2021 kl. 18:44

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það mætti þá kannski segja að við séum þrælmenni Guðmundur.

Magnús Sigurðsson, 16.12.2021 kl. 19:00

3 Smámynd: Grímur Kjartansson

Skemmtileg lesning og við mamma höfðum gaman af Svarta Víkingnum og ræddum um þær kenningar sem þar komu fram.

Maður er samt sennilega heilaþveginn af hetjusögum um víkinga sem sættu sig ekki við einræði Haralds og flúðu til Íslands til að vera "frjálsir" fóru síðan í frægaðfarir (Konungasögur) til útlanda enda fer litlum sögum af þeim sem heima sátu (heimskir) 

Grímur Kjartansson, 17.12.2021 kl. 14:18

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Já Grímur, Leitin að svarta víkingnum var bæði áhugaverð lesning. Bergsveinn lagði þessa kenningu, sem þar kom fram, um landnámið á einstaklega skemmtilegan hátt.

Eins og þú sérð á mínum hugleiðingum eftir lesturinn þá voru margar frásegnir sem leiddu hugann allt til okkar daga og þá hvort þrælahöfðinginn sé þá ekki þræll athafna sinna þegar allt er reiknað.

Annars var ég að lesa Njálu og þar kemur fram að utanferðir voru algengar á þessum tíma, tengslin til Skotlands, Brjánsbardagi á Írlandi og Darraðarljóð var eitthvað sem ég hafði ekki veitt athygli þegar þessir kappar voru á hvers manns vörum á æskuárunum.

Magnús Sigurðsson, 17.12.2021 kl. 16:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband