Hvaðan kom nafnið - Hermannastekkar

Innan við Rakkaberg eru Hermannastekkar, nafn frá Tyrkjaráni, og er þar nú grafreitur. Það er ekki mikið meira að finna um örnefnið Hermannastekkar á alheimsnetinu, en staðurinn er við þjóðveg eitt þar sem hann liggur rétt fyrir innan Djúpavog. Við Hermannastekka er núverandi grafreitur Djúpavogsbúa, fagur og friðsæll staður. Málvenjan er Hermannastekkar ekki Hermannastekkir eins og ætla mætti.

En hvers vegna bera Hermannastekkar þetta nafn - hvaða atburður varð nákvæmlega til þess að klettarnir við grafreitinn fengu þetta nafn? Um þá atburði er getið í Tyrkjaránssögu og  munnmælum m.a. í Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar og víðar, þó svo að sumir telji að þar beri atburðarásinni ekki saman við opinberu heimildina, sem er Tyrkjaránssaga.

Þorsteinn Helgason sagnfræðingur vildi meina í greininni Örnefni og sögur tengd við Tyrkjarán á Austurlandi, sem hann skrifaði í Gletting árið 2003, að atburðarásin, sem nafnið er dregið af, stæðist ekki skoðun. Atburðurinn hefði gerst við Berunes á norðan verðri Berufjarðarströnd þar sem var verið að hlaða stekk samkvæmt þjóðsögunni, en söguhetjan hafi verið hernuminn sunnan fjarðar á Búlandsnesi, sem er á milli Berufjarðar og Hamarsfjarðar, samkvæmt Tyrkjaránssögu.

Þetta ályktar Þorsteinn af munnmælasögu, sem Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari birti í þjóðsagna safni sínu, um bardaga Guttorms Hallssonar frá Búlandsnesi við Tyrki á Berunesi þar sem hann var sagður í heimsókn hjá móðursystur sinni (reyndar var Sigríður húsfreyja á Berunesi dóttir séra Einars á Eydölum, systir Sesselju Einarsdóttir fyrri konu Halls föður Guttorms samkv. Íslendingabók). Miðað við örnefnakortið sem Þorsteinn birti með grein sinni verður ekki betur séð en að Hermannastekkar hafi því verið að Berunesi á Berufjarðarströnd og eru þar nefndir Hermannastekkir.

Hermannastekkar eru sunnan við Berufjörð rétt austan við þar sem bærinn Búlandsnes stóð og þar er munnmælasaga til af nafngiftinni á svipuðum nótum og á Berunesi. Guttormur á að hafa varist Tyrkjum með reku og pál. Hann hefði þess vegna getað verið báðu megin fjarðar með hálftíma millibili og átt í útistöðum við sitthvorn Tyrkjaflokkinn og munnmælin þess vegna farið rétt með, því Tyrkir sendu flokka á land svo til samtímis sitthvoru megin Berufjarðar samkvæmt Tyrkjaránssögu.

Munnmælin eru á tveimur stöðum í þjóðsaganasafni Sigfúsar og greinir á öðrum staðnum frá atburðum á þann hátt að Guttormur hafi einmitt verið báðu megin fjarðar. Þannig að ekki þarf að fara á milli mála hvoru megin Berufjarðar Hermannastekkar hafa ávalt verið og hvaða atburðum nafnið tengist. Það er eins og önnur sagan hafi farið fram hjá Þorsteini Helgasyni þegar hann skrifar greinina í Gletting.

En hver var Guttormur Hallson? Hann var fæddur um 1600, sonur séra Halls Högnasonar og Sigþrúðar sem bjuggu á Kirkjubæ í Hróarstungu á Héraði. Sigþrúður er sögð seinni eða síðasta kona Halls, án þess að meira sé um hana vitað, annað en að hún var einnig nefnd Þrúður. Víst er talið að hún hafi verið móðir þeirra Guttorms og Sigríðar, -yngst 10 barna Halls.

Guttormur var nýlega farinn að búa á kristfjárjörðinni Búlandsnesi þegar Tyrkir gerðu strandhöggið við Djúpavog. Búlandsnes hefur þá sérstöðu að vera kristfjárjörð, þ.e. að hafa verið arfleitt Jesú Kristi, en hvorki ríki né kirkju. Tyrkjaránssaga segir að Guttormur hafi verið fangaður á Búlandsnesi ásamt heimilisfólki sínu en þar voru þá auk þess 6 umrenningar, enda sú kvöð á kristfjárjörðum að hýsa fátæka.

Til eru talsverðar heimildir um afdrif Guttorms m.a. vegna sendibréfa, -bréfs sem hann skrifaði úr Barbaríinu til Íslands, þar sem hann biður landsmenn um að biðja fyrir sér, og bréfs sem enskur skipstjóri skrifaði að honum látnum. En Guttormur var ásamt heimilisfólki seldur á þrælamarkaði í Algeirsborg. Smala piltur Guttorms, Jón Ásbjarnarson, var einnig seldur í þrældóm, en komst til nokkurra metorða hjá húsbónda sínum,  sem var fursti í borginni. Jón fékk Guttorm, fyrr um húsbónda sinn, leystan úr ánauð og keypti fyrir hann far til Íslands með ensku skipi, lét Guttorm hafa farareyri og gull sem hann átti að færa foreldrum Jóns.

Þegar skipið var að nálgast höfn á Englandi höfðu skipverjar komist að því að Guttormur var með gullsjóð og tóku sig þá 4 saman um að ræna hann og drepa. Tveir ræningjanna náðust og voru hengdir. Skipstjórinn kom síðar bréfi til Íslands þar sem þess var getið að það sem eftir var af jarðneskum eigum Guttorms væri í Bristol á Englandi.

Sigríður systir Guttorms og Magnús, sonur séra Höskuldar Einarssonar á Eydölum, sem einnig kemur talsvert við sögu í Tyrkjaránsögu, settust að á Búlandsnesi eftir Guttorm og hans búalið. Tyrkjaránssaga greinir frá því að ræningjarnir hafi farið um Breiðdal án þess að verða verulega ágengt við mannrán og hafi hvað eftir annað týnt Eydölum. Bæði Tyrkjaránssaga og þjóðsagan segir frá því að þar komi við sögu feðgarnir, -prestarnir Einar og Höskuldur. Út af Sigríði og Magnúsi er komin stór ættbálkur íslendinga þ.m.t. síðuhöfundur.

Ræningjaskipin lágu út á Berufirði á móts við Berunes og Djúpavog í fimm daga og hertóku 110 manns auk þess að drepa 9. Til eru samtímaheimildir af því sem gerðist skráðar eftir austfirskum skólapiltum í Skálholti. Sennilega eru heimildirnar fyrir því sem gerðist á austfjörðum áreyðanlegar og greinagóðar vegna þess að þegar ræningjarnir komu til Vestamannaeyja, eftir að hafa verið í Berufirði, settu þeir 5 austfirðinga frá borði, skiptu þeim út fyrir Vestmannaeyinga. Tvo af þessum fimm drápu þeir í Eyjum, en ekki er ólíklegt að hinir þrír hafi farið heim og sagt sínar farir ekki sléttar. Þannig hafi sagan fljótlega borist með skólapiltum í Skálholt.

Það eru fáar heimildir eins trúverðugar og Tyrkjaránssaga. Þekkt eru nöfn fjölda fólks sem rænt var, og örlög nokkurra í þrældómi. Alls var fólkið tæplega 400 sem hernumið var frá Grindavík, nágrenni Djúpavogs og úr Vestmannaeyjum sumarið 1627. Fólkið var flutt til Marokkó og Alsír og selt þar á þrælamörkuðum. Hátt í 50 manns voru drepnir hérlendis meðan á ránunum stóð. Mörgum árum seinna náðist að safna lausnarfé til að kaupa fólk úr ánauð, talið er að innan við 50 hafi náði að snúa aftur heim til Íslands. Þektust er saga Guðríðar Símonardóttur úr Eyjum, -Tyrkja Guddu.

Uppnefni og örnefni, sem munnmæli geyma, eru oft einu upplýsingarnar sem til eru fyrir þjóðsögum er greina frá ákveðnum atburðum. Þannig heimildaleysi er ekki til að dreifa um sjálft Tyrkjaránið. Þó svo Hermannastekkar finnist einungis í munnmælunum og þjóðsögunni þá vann nafngiftin Hermanna, eðli málsins samkvæmt, sér ekki sess fyrr en eftir skráningu hinnar upphaflegu Tyrkjaránssögu á Austfjörðum.

 

Heimildir:

Glettingur tímarit um austfirsk málefni 1. tbl 2003

Dvergasteinn, þjóðsögur og sagnir úr Djúpavogshreppi - Alda Snæbjörnsdóttir

400 ár við Voginn - Ingimar Sveinsson

Undir Búlandstindi - Eiríkur Sigurðsson

Þjójóðsögur og sagnir - Sigfús Sigfússon

Tyrkjaránið - Jón Helgason


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Kristinsson

Blessaður Magnús! Og takk fyrir þessa upprifjun,sem og alla þína pisla.

KV frá ausfyrðingi

Óskar Kristinsson, 29.1.2022 kl. 14:25

2 identicon

Sæll Magnús.

Ef þú athugar sögnina stecken í þýzku þá eru
þetta þær skýringar sem gefnar eru:

    1a.

    [durch eine Öffnung hindurchführen und] an eine bestimmte Stelle tun (schieben, stellen, legen); hineinstecken

    "den Brief in den Umschlag stecken"

    1b.

    an einer bestimmten [dafür vorgesehenen] Stelle einpassen; aufstecken; feststecken

    "einen Ring an den Finger stecken"

     

    Það er því ekki útilokað að um nokkurs konar lægi
    hafi verið að ræða þar sem hermenn eða heimamenn
    væru viðbúnir að mæta óboðnum gestum.

     

    Þess er að geta að í íslensku er orðið nær eingöngu notað í eintölu þar sem um búskap er að ræða í einhverri mynd en fleirtalan um það sem þess er utan, - skorninga þessvegna.

    Húsari. (IP-tala skráð) 29.1.2022 kl. 15:59

    3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

    Takk fyrir innlitið og hólið Óskar. 

    Þessi pistill kom ekki til af góðu. Þegar ég rakst á að sagnfræðingur vefengdi á þennan hátt þjóðsöguna um örnefnið Hermannastekka varð mér um og ó, hefði átt að verða það árið 2003, en einhvern veginn fór þessi Glettingur fyrir ofan garð og neðan hjá mér þá.

    Gamall og góður vinur minn á Djúpavogi, nú genginn, var mikið um að rétt væri farið með örnefni. Ef staður væri tilgreindur samkvæmt örnefni á prenti þá væri eins gott að staðsetningin væri hárnákvæm, því annars ætti staðurinn til að færast samkvæmt prentvillunni og þá væru munnmælin orðin nákvæmari heldur en ritaðar heimildir, en yrðu sennilega ekki til lengdar.

    Í þessari Glettings grein er hvorki meira né minna en farið með örnefni yfir heilan fjörð, eftir því sem ég best veit, og hefði verið ástæða til að skrifa pistil fyrir löngu út af minna tilefni.

    Magnús Sigurðsson, 29.1.2022 kl. 16:51

    4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

    Sæll Húsari og þakka þér fyrir þessa ábendingu.

    Sagnir segja að áður en til Tyrkjaránsins kom sumarið 1627, -sem var reyndar ekki framið af Tyrkjum heldur samansafni trúskiptinga frá Evrópu og norður Afríkubúa undir stjórn Hollenskra sjóræningja kapteina með uppáskrifað evrópskt leyfi, -hafi íslendingar verið farnir að tala um Hundtyrkjann, svo hugsanlega gæti verið um varnargarða að ræða þegar átt er við Hermannastekka.

    Ég velti reyndar talsvert fyrir mér þessari orðmynd stekkar í stað stekkur og þá með fjárstekk eða fjárkvíar í huga. Mér fannst líklegast að orðið stekkur hefði áður verið notað yfir litla fjárrétt þar sem einn eða fleiri veggir hefðu verið náttúrulegir klettar, en aðrir hlaðnir úr grjóti og torfi.

    Kvíar hefðu aftur á móti frekar verð án náttúrulegra kletta sem aðhald, samanber að færikvíar voru litlar fjárréttir úr timbri. Því datt mér til hugar að stekkar væru nokkurskonar millilending á stekkur og kvíar.

    Þegar flogið er yfir Hermannastekka á Google Earth má sjá hvar þessir stekkar voru, það sést enn móta fyrir þeim mannanna verkum í landslaginu.

    Magnús Sigurðsson, 29.1.2022 kl. 17:20

    Bæta við athugasemd

    Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

    Innskráning

    Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

    Hafðu samband