15.2.2022 | 18:16
Frægasta kona Íslands á inniskóm í blindhríð
Eitt það besta við bloggið eru athugasemdirnar. Það koma nefnilega oft upplýsingar í gegnum þær sem opna á nýja heima fyrir síðuhöfund. Þetta geta verið örstuttar athugasemdir og jafnvel engar hér á blogginu. Það hefur komið fyrir að hringt hefur verið í síðuhafa vegna bloggfærslu og sagðar skemmtilegar sögur henni tengdar.
Eitt svoleiðis símtal fékk ég vegna bloggpistils um Rauðanúp. Kona sem fædd og uppalin er á Núpskötlu hringdi og vildi segja mér frá því, vegna orða minna um að "Það er kannski ekki alveg hægt að komast á háhæla skóm upp á Rauðanúp, en allt að því". Hún sagði mér nefnilega frá því að Rauðinúpur hefði verið klifinn á háhæluðum skóm og það af konu sem var þá sjötug.
Þetta gerðis árið 1969, og konan var Jóna Sigríður Jónsdóttir, sem oft var kölluð Sigríður Jóna. Konan sagði mér m.a. frá því hvernig Jóna Sigríður hefði sótt að þegar hún kom, það hefði verið punkterað dekk á bílnum sem hún kom í, um leið og var rennt í hlað og stoppað, hefði hún tekið á rás yfir stórgrýtta fjöruna og upp Rauðanúp á háhæluðu skónum, sem voru þó ekki með pinnahælum.
Þó mikið hafi verið að gera í Núpskötlu þegar Jóna Sigríður kom, hafði konan hjálpað Jónu Sigríði til baka, sem hún var mjög þakklát fyrir. Þegar hún ætlaði að fara að elda mat fyrir gestinn þá var lognið svo mikið að ekki logaði á eldavélinni. Tók hún þá það til bragðs að elda mjólkurgraut fyrir hana á rafmagnshellu, sem drifin var af rafstöð. Jóna Sigríður sagðist ekki hafa heilsu til að borða mjólkurgraut þegar til kom, en gerði sér skyr með rjóma og kaldan silung að góðu.
Um lífsreisu Jónu Sigríðar er til bókin Ein á hesti og minnist hún þar á komu sína í Núpskötlu. En Jóna Sigríður, sem kölluð var Sigríður Jóna, ferðaðist á hesti þvers og kruss um Ísland í áratugi og er talið að hún hafi keypt og selt yfir 300 hesta. Eftir að hún hætti hestaferðalögum, ferðaðist hún með langferðabílum til að sjá þá staði sem hún taldi merkilegasta á Íslandi, en hafði ekki séð, það var á þannig ferðalagi sem hún kom í Núpskötlu.
Þeir gæðingar sem Jóna Sigríður ferðaðist á um áratuga skeið hétu Gullfaxi og Ljómi. Hún varð frægasta kona á Íslandi um tíma þegar hún ferðaðist á Ljóma sínum án tjalds og farangurs um Stórasand á leið í Hveravelli um Kjalveg í blindhríð á inniskóm, árið 1963. Þessi hrakningur var rifjað upp í Tímavélinni á DV árið 2018 og má sjá hér.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.