11.3.2022 | 16:39
Fötin skapa manninn
Það má segja að jafnvel luralegur gleraugnaglámur í allt of litlum bláum jakkafötum geti orðið greindarleg opinber persóna, jafnvel komist til metorða. En ef sá sami yrði dubbaður upp í steypugalla þá kæmi í ljós að hann liti lítið betur út en hver annar fábjáni í slöku meðallagi.
Af og til í gegnum tíðina hef ég verið minntur á hversu fötin eru afgerandi í að skapa manninn. Einu sinni sátum við Matthildur mín til borðs með föðurbróðir mínum og hans konu í fermingarveislu í fjölskyldunni, veislan var tvíburasystra, sem voru eins klæddar auk þess að vera nauðalíkar.
Föðurbróðir minn hafði sagt að hann væri það ómannglöggur að ekki þýddi fyrir sig að reyna að þekkja þær systur í sundur þegar konan hans bað hann um það. Ég sagði honum bara að giska það væru allavega 50% líkur á að hann hefði rétt fyrir sér, en það vildi hann ekki, þó svo að þetta væri vinn vinn staða.
Amma og afi þeirra tvíburasystra komu og settust við borðið. Amman var spurð hvor þeirra væri nær, og hún sagði, -Lísbet. Er það virkilega; sagði kona föðurbróðir míns, -ég sem hefði haldið að hún væri Katrín. Það er ekki svo auðvelt að þekkja þær í sundur þegar báðar eru prúðbúnar; sagði amman.
Þarna sérðu; sagði ég við föðurbróðir, -þú hefðir betur tekið sénsinn. Ég hefði allt eins getað sagt Katrín; sagði hann. Skiptir ekki máli; sagði ég, -þið hefðuð allavega orðið sammála, og ef þú hefðir sagt Lísbet þá hefðirðu haft rétt fyrir þér.
Í framhaldinu sagði ég frá okkur fyrrum nágranna mínum á Djúpavogi, sem ég hafði stundum steypt fyrir. Það var þegar við komum í fermingarveislu til fjölskyldu bróður Matthildar, sem eiga heima í húsi, sem stendur á milli húsanna þar sem við nágranni minn bjuggum.
Þessi nágranni minn var vélstjóri á togara. Hávaxinn, myndar maður venjulega í gallabuxum, flannelskyrtu og gæruskinnsúlpu úti við. En þarna var hann kominn til fermingaveislu í svörtum jakkafötum, með bindi og gat allt eins verið erindreki frá sameinuðu þjóðunum.
Nágranni minn heilsaði mér með virktum og kynnti sig með nafni, sem ég gerði líka fyrir kurteisissakir, þó ég þekkti nágranna minn í svörtu jakkafötunum. Svo settumst við á móti hvor öðrum við borð. Eftir smá stund varð nágranni minn kindarlegur um leið og hann gjóaði augunum yfir borðið til mín og sagði; -já þetta ert þá þú, ég þekkti þig ekki í jakkafötunum.
Kona föðurbróðir míns sagði að það væri ekki nema von þó ég þekktist ekki þegar ég væri í jakkafötum, en ekki með sementsslettur í steypugalla. En föðurbróðir minn hélt nú að það myndi aldrei koma fyrir sig að hann þekkti mig ekki þó ég væri í hreinum jakkafötum.
Svo var það seint síðasta sumar að ég var minntur rækilega á þetta með fötin sem skapa manninn í eitt skiptið enn. En þá höfðu þær mæðgur, Matthildur mín og tveir næstu ættliðir farið á búðarráp á laugardegi. Eftir að þær voru farnar klæddi ég mig upp á og fór til jarðarfarar.
Þegar ég kom heim frá jarðarförinni, elti Ævi, -þá þriggja ára, -dóttir dóttir mín mig með undrunarsvip inn í herbergi og sagði með tilþrifum; -afi fórst þú líka út að kaupa föt. Nei, sagði ég; -ég átti þessi föt inn í skáp og ætla núna að ganga frá þeim aftur inn í skáp. Þá sagði Ævi; -en afi af hverju ertu ekki bara í þeim því þá ertu alveg eins og prins.
Athugasemdir
Falleg saga.
Halldór Egill Guðnason, 12.3.2022 kl. 02:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.