27.3.2022 | 06:21
Slökktu á símanum og sjónvarpinu
Þangað sem athyglinni er beint þar liggur orkan og áhuginn. Að vera meðvitaður um þennan algilda sannleika er nauðsynlegt þegar fylgst er með fréttum fjölmiðlanna. Annars verðum við leiksoppar medíunnar, -áhorfendur af lífinu.
Ósjálfstæði skoðana er nú þegar orðið normið við að opinbera persónulegt álit, -halda fram viðteknum viðhorfum. Innst inni afneita margir eðli sínu og sérkennum. Við viðurkennum ekki lengur hver við erum, skiljum ekki lengur til hvers við komum og hvernig við eigum að hafa okkur í frammi.
Ef persónulegum krafti okkar væri líkt við ljós í myrkri, myndu mörg okkar hrasa við ljósið frá skjánum í símanum til að forðast ábyrgðina á því hver við erum. Ef við víkjum tommu frá meðfæddri sýn, endum við á því að komast á áfangastað sem er ljósár frá örlögum okkar.
Margfaldaðu trú mesta trúfífls veraldarinnar með billjón og þá ertu farinn að nálgast veruleikann (Gunnar Dal)
Fjölmiðlaheimurinn segir skilningarvitunum ósatt, rökhugsunin getur því aldrei vitað neitt með vissu. Þar mun rökfræðin elta eigið skott. Við verðum því á endanum að trúa reynslunni, eða tapa öllu án þess að fá neitt í staðin, -bæði veruleika okkar og draumi.
Treystu því á eigið innsæi við að skynja allt samtímis, þannig upplifirðu eilífðina. Fortíð og framtíð verða aldrei það fjarlæg að skipta ekki máli, þær eru veruleikinn í núinu. Í augnablikinu búa margar víddir þar á meðal öll þín framtíð og fortíð.
Hámenntaður samtíminn telur okkur trú um að eilíf sálin sé goðsögn, -jafnvel blekking. Hugmynd hinna fáfróðu og trúgjörnu, ópíóíðar hins huglausa til að slá á óttann við dauðann.
Við höfum samt alltaf vitað inn við beinið að við komum til að öðlast skilning, ná yfirsýn á veröld okkar með innsýn sjálfsins í upplifun veruleikans, -sem hvorki er í símanum né sjónvarpinu.
Athugasemdir
Hinn sjónvarpslausi Gísli Oktavíus Gíslason á Uppsölum var nú mun betur gefinn en flestir hér á Moggablogginu, til að mynda Ómar Ragnarsson, sem tók upp á því að gefa karlinum sjónvarpstæki.
Gísli átti þrjá bræður, Gest, Bjarna og Sigurð, og á Uppsölum fjárfesti Sigurður í dráttarvél, því hjálpartæki bænda sem Sunnlendingar kalla yfirleitt traktor en íslenskir rektorar hafa bannað það orð.
Gísli lærði sjálfur að lesa nótur og spila á orgel, auk þess sem hann nam þýsku í gegnum bækur og útvarpskennslu.
Gísli orti ljóð og eftir hann liggur þó nokkuð af rituðu efni. Hann var einnig félagi í bókmenntafélagi í 13 ár og pantaði sér jafnan bækur frá Reykjavík.
Öld liðin frá fæðingu Gísla á Uppsölum
Þorsteinn Briem, 27.3.2022 kl. 11:28
Gaman að þú skulir koma inn á þetta með Gísla, Steini. Það undirstrikar vel pistilinn.
Gísli var maður æðruleysis, kjarks og vits, sem fór sínar eigin leiðir, við að upplýsa sjálfan sig síma og sjónvarpslaust. Og eftir Gísla liggja perlur.
Magnús Sigurðsson, 27.3.2022 kl. 11:51
Mikið er þessi grein góð hjá þér og sannast sagna gott að gefa fjölmiðlum frí öðru hverju a.m.k.
Helga Kristjánsdóttir, 27.3.2022 kl. 14:41
Þakka þér fyrir Helga. Það er gott að gefa fjölmiðlum frí. Allavega á þann hátt að þeir flæði ekki yfir mann með endalausum upplýsingum sem maður hefur enga möguleika á að greina.
Það kannast sjálfsagt flestir við það ef þeir horfa á videoklippur frá almenningi af t.d. óeirðum, þá eru upplifunin oft allt önnur en þegar sjónvarpstöðvarnar sýna og segja frá sömu viðburðum í fréttum.
Þetta rann upp fyrir mér fyrir margt löngu síðan á Stedelijk listasafninu í Amsterdam. Þar var sýnt vidoverk sem vakti gífurlega athygli sýningargesta.
Videoið var frá Bosníu og sýndi án hljóðs og nokkurs texta, þegar gamlir menn í þorpi fóru út á götu eftir loftárisa hrinur NATO til að tína saman líkin og koma þeim á pickup-pall til fluttnings.
Þarna var allt á tjá og tundri hjá venjulegu fólki, búsmalinn á hlaupum trylltur af ótta. Þetta var allt önnur upplifun að heldur en fréttamyndir í sjónvarpi með nákvæmum útskýringu á hverjum loftárásirnar beindust að og hverju þær skiluðu.
Ég hef aldrei litið sjónvarpsfréttir sömu augum síðan og er reyndar löngu hættur að horfa á sjónvarp.
Magnús Sigurðsson, 27.3.2022 kl. 18:32
Einmitt,ég var ótrúlega lengi að átta mig á t.d.Rúv sem ég horfði nær alltaf á.Það var eftir 2008 hrun og einkennilegar fréttir í meðförum þula og líklega Kastljós og álíka þættir.Svo varð þetta orðið pirrandi og ég taldi mig meiga finna að því.Þá fóru stjórnendur að jagast i útv.Sögu eins og hún er í dag.g byrjaði að hlusta þegar Ingvi Hrafn spjallaði við hlustendur (án innhringa)og sötraði kaffi með,það var svo heimilislegt.- hnuplaði frá þér "leiksoppar medíunnar" um leið og ég játa það vegna kyrrstöðu heilans og biðst afsökunnar.
Helga Kristjánsdóttir, 28.3.2022 kl. 00:46
Ekkert að afsaka Helga, leiksoppur er gott og gilt íslenskt orð medían er sletta sem allir skilja.
Magnús Sigurðsson, 28.3.2022 kl. 05:38
Þessi ljóðorð Gísla eru sannarlega einlæg og falleg og ættu að vera komin í sálmabók þjóðkirkjunnar. Þar sem ég á ekki nýjustu útgáfun kann þetta að vera komið þangað, hver veit.
Gísli Ingvarsson, 28.3.2022 kl. 09:52
Sæll Gísli,þetta ljóð er að finna á facebook síðu Kirkjuhússið-Skálholtsútgáfan. Svo kannski er það komið í sálmabók Þjóðkirkjunnar eða á leiðinni þangað.
Magnús Sigurðsson, 28.3.2022 kl. 12:56
Hvað er sjónvarp?
Guðjón E. Hreinberg, 28.3.2022 kl. 13:33
Guðjón, -það er það sama og var kallað imbakassi á mínu æskuheimili.
Magnús Sigurðsson, 28.3.2022 kl. 13:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.