15.4.2022 | 02:41
Indiana Jones
Sum verkefni valda meiri heilabrotum en önnur og þurfa hvorki að vera stór né merkilegt til þess. Eitt af þeim fáu verkefnum sem ég gafst gjörsamlega upp fyrir var ekki stórt. Það veldur mér samt enn heilabrotum, tæpum níu árum seinna. Ég ætla nú að reyna að segja frá þessu ómerkilega verkefni í máli og myndum.
Sumarið 2013 vorum við vinnufélagarnir Juma, -súdanskur höfðingi flúinn stríðshrjáð Darfur, og ég flóttamaður -hins svokallaða íslenska hruns, -sendir upp í Bláfjöll á Skånland í Troms. Við áttum að aðstoða samann Karstein við að endurbyggja jarðhýsi.
Ég hafði farið með Karstein og tveimur samískum starfskonum samasetursins Vardobáiki upp í Bláfjöll á snjósleða um veturinn í skoðunarferð. En verkefnið kom til Murbygg í gegnum samasetrið eftir að við Juma höfðum endurhlaðið fjósmúrinn í Gallgiedde, sem ég sagði frá í pistli hér á blogginu í vetur.
Þetta verkefni virtist hvorki vera umfangsmikið né merkilegt, u.þ.b. fjögra fermetra jarðhýsi sem hafði verið matavælageymsla þeirra sama sem bjuggu seinni hluta 19. aldar í litlum afskekktum dal upp í Bláfjöllum.
Það hafði að vísu sótt á mig smá óhugnaður þegar ég leit inn, eftir að við vorum búin að grafa okkur niður á jarðhýsið um veturinn, sem þá var á kafi í snjó og mér þótti undrum sæta að Karstein fyndi í snjóbreiðunni.
Hugmynd hafði kviknað á Várdobáiki um að auðveldara gæti verið að standa að endurbyggingu meðan enn væri frost í jörðu. En Karstein sló á þá hugmynd með sannfærandi rökum. Þetta væri jarðhýsi og það væri ekki í frosinni jörð, heldur frostfríum og sendnum jarðvegi, enda héti skógurinn í hlíðum Bláfjalla Sandmarka.
Það virkar kannski hálf hjákátlega að fara inn í jarðhýsi með hjálma þegar aðrir eins hnullungar eru í þaksperrum og þarna er yfir höfði
Um mitt sumar sendi Mette í Murbygg okkur Juma óvænt upp í Bláfjöll til að aðstoða Karstein við að endurbyggja jarðhýsið. Staðurinn heitir Vilgesvarre og er úr alfaraleið, án rafmagns, símasambands og allra nútíma þæginda. Eftir nokkurra km labb upp í Bláfjöll frá næsta vegslóða komum við ofan í nokkurskonar Múmíndal þar sem samísk stórfjölskylda hafði búið í torfbæjum í 3 ættliði. Þau voru forforeldrar Karsteins, en dalurinn hefur verið gerður að samísku safni.
Karstein hafði verið að laga til hleðslurnar sumarið áður með því að ýta til steinum í veggjunum með bíltjakk og stöng sem hann spennti veggja á milli. Við það verk hafði fallið steinn inn úr vegg og húsið súnkaði saman án þess þó að hrynja. Veggir og þak var allt hlaðið úr grjóti þannig að Karstein mátti teljast heppnir að ekki fór ver. Hann sagaði svo niður tré í birkiskóginum í kring og notaði þau við að stífa undir þakið og út í veggi til að tryggja að húsið hryndi ekki saman. Þannig að inn í húsinu var varla meira en 20-40 cm á milli trjábola.
Trjábolir, sem héldu undir þakið til öryggis, stóðu það þétt, -þannig að þarna var hvorki hlaupið inn né út í skyndi, við þurftum að fækka trjábolunum talsvert í upphafi bara til að komast inn
Karstein hafði ekki tíma til að stoppa lengi þegar við komum upp í Vilgesvarre, skildi okkur Juma eftir og fór niður í byggð með hreindýrabóndanum Nils sem hafði flutt Karstein og búnað okkar upp í fjöllin á fjórhjóli. Hann sagðist þurfa að komast niður í byggð til að skrifa tímaskýrslu vegna vinnu frá sumrinu áður þar sem aðstoðarmaður hans frá því þá væri hreint að gera hann brjálaðan vegna þess að samasafnið sem hélt utan um ríkisstyrkinn, sem fjármagnaði endurbygginguna, vildi ekki greiða honum launin frá fyrra sumri nema gegn tímaskýrslu frá Karstein.
Hann sagði að forstöðukonunni, sem hefði með þetta að gera, væri fyrir munað að átta sig á því að hann væri ekki 18 ára lengur, heldur 63 ára, og því af sem áður var þegar hann gat leikandi verið á tveimur stöðum í einu. En nú þyrfti hann auk þessara tveggja að fara til læknis og jarðarfarar daginn eftir. Tímaskin sama virðist vera heldur fjölbreyttara en á Jökuldalnum í denn, þar sem sagt var að til lítils væri að gefa úr í fermingagjöf, betra væri að fá dagatal.
Hreindýrabóndinn Nils að ganga fá búnaði á fjórhjólið áður en lagt var upp í Bláfjöll. Suðagærur eru eitt af því sem samar telja nauðsynlegan fjallabúnað
Áður en Karstein fór til byggða kom það fram hjá hreindýrabóndanum Nils að það væri óvíst hvenær hann gæti skutlað honum aftur fótalausum upp í Bláfjöll, hann þyrfti nefnilega fljótlega að fara í hreindýrasmölun á fjórhjólinu. Mér varð á að spyrja Nils hvað hann ætti mörg hreindýr en þá brosti hann bara og hvarflaði augunum á Karstein. Ég spurði þá hvort það væri eins með samíska hreindýrabændur og íslenska hrossabændur að þeir þættust aldrei vita hvað stofninn teldi.
Karstein leit djúpt í augun á mér um leið og hann sagði alvarlega; -að þetta hefði ekkert að gera með íslenska hesta. Maður spyr einfaldlega ekki samískan hreindýrabónda svona spurningar frekar en ég spyrði þig að því hvað mikið þú eigir inn á bankabókinni þinni; -sagði hann. Eftir þetta stein hélt ég kjafti, enda ekki yfir miklu að gorta. En í kveðjuskini benti Karstein okkur Juma á hlaupandi rollu í hlaðvarpanum, sem ekki væri góður fyrirboði. Nils skutlaði svo Karstein aftur upp í Bláfjöll kvöldið eftir.
Trjástofnar héldu við hálfhrunin vegg, ýmislegt nærtækt var notað til að stýfa út í hleðsluna
Ég hafði komið auga á kosti við þetta verkefni, þó ekki væri nem bara vegna þess eins að við áttum að gista í torfbæ á meðan á því stæði, sem var eitthvað sem gaman væri að upplifa. Þar að auki var ég talsvert spenntur að vita hvaða hughrif algert áhrifalleysi rafmagns hefði á sálina en það hafði ég heyrt að gæti verið þess virði að veita eftirtekt.
Torfhúsið sem við gistum í var ekki stórt kannski ca. 5.5 m X 3m sem skiptist í tvö rými annað þar sem komið var inn á moldargólf með steinhellum í gangveginum og svo innan við einfalt timburþil stærra rými með timburgólfi sem hafði að geyma tvö rúmstæði sem stóðu meðfram vegg, gafl í gafl, annað 1,70 m á lengd hitt 1,75, gamla viðareldavél, borð og tvo stóla. Veggir og loft í innra rýminu voru panelklædd en ytra rímið með bert torf og grjót í útveggjum. Pottar og önnur eldhúsáhöld héngu upp um veggi, hvorki rennandi vatn né salernisaðstaða var í húsakinnunum. Okkur kom saman um að Juma fengi lengra rúmið því hann væri stærri þar sem hann slagar í 1,90 m.
Það er helst frá því að segja að rafmagnleysið hafði þau áhrif á sálina að það var eins og öll mörk á milli himins og jarðar hyrfu, svona eitthvað svipað og að vera undir stjörnubjörtum himni og ætla að telja stjörnurnar. Þegar ég lá andvaka í rúminu hans Ola í Vilgesvarre, sem var húsbóndi einni öld fyrr í þessu húsi, liðu samtöl og myndir í gegnum hugann, sem ég henti ekki nokkrar reyður á, ekki bara fyrstu nóttina heldur allar.
Gamma kalla samar sín torfhús, þetta var svefnstaður okkar Juma. Karstein var mikill fróðleiksbrunnur um hvernig gamma væru byggð, enda hafði hann endurbyggt nokkur og sagði að svona hús væru ekki byggð nema með gróandanum í fullri sátt við náttúruna. Vatn þurftum við að sækja í mýrar brunn skammt frá, ef við vildum betra vatn var þó nokkur spölur í næsta fjallalæk
Fyrstu nóttina heyrði ég fótatak sem mér fannst nálgast millihurðina sem var fram í rýmið með moldargólfinu. Ekki var hurðin opnuð, en fótartakið hélt áfram og nú inni, fyrir rest gat ég staðsett það í lausu lofti rétt fyrir ofan rúmgaflinn. Þá heyrðist hvæs og skruðningar og hvít flyksa rann fram hjá glugganum í veggnum á móti, en krafsaði sig svo upp í glugga tóftina, og ég horfðist í augu við rollu í gegnum stráin þar sem hún var á beit í gluggakistunni. Sennilega var þetta sama hlauparollan og Karstein hafði haft á orði að væri ekki góður fyrirboði sem nú hafði flogið ofan af þakinu.
Rabarbaragraut höfðum við í matinn á hverjum degi, Juma brosti út undir eyru eftir að hafa smakkað það góðgæti í fyrsta sinn og sagði "jæja mister Magnús héðan förum við allavega ekki fyrr en rabarbaraakurinn er búinn". Það var loks að fjórum dögum liðnum að reiða komst á andvöku óráð rafmagnsleysisins. Eftir að við Juma skildum við Karstein eftir árangurlausar tilraunir við að endurbyggja hálfhrunið jarðhýsið með undirsláttaruppistöðum, bíltjakki, járnkalli og kúbeini, þar sem hvorki var við komið samískum galdri né afríkönsku vúúddúi hvað þá hugmyndaflugi minnislauss múrarameistara.
Þaksperrur voru úr löngu hnullungs grjóti, sem hvíldu ofan á veggjunum, ofan við þær glitti í flatt hellu grjót á milli þeirra. Grasi vaxin hóllin var svo efsti hluti þaksins. Þetta grjót var hvergi finnanlegt í nágreninu, en Karstein vissi um þessa bergtegund í fjalli í nokkurri fjarlægð og gat sér til að það hefði verið flutt á staðinn með sleðum að vetrarlagi
Endir uppbyggingarinnar varð sá að annar steinn gekk út úr veggnum á móti þegar við reyndum að þrykkja hrunda steininum frá sumrinu áður á inn sinn stað. Þannig var jarðhýsið nær því að hrynja saman en nokkru sinni. Við höfðum ekki verið sammála um þetta verklag, en á endanum framkvæmdum við Juma það sem Karstein fór fram á. Eftir þetta var um lítið annað að ræða en forða sér út úr jarðhýsinu sem byggt var efst inn í háan hól.
Það gekk sem sagt ekkert með endurhleðsluna, enda hefðum við þurft að lyfta vegg og þaki ásamt hólnum til að koma hnullungunum aftur fyrir á sinn stað í vegginn, -með samískum galdri. Þó svo að við værum vel að Guði gerðir, með blátt álfablóð í æðum, afríkanskan jötunmóð og samískan galdur blandaðan heilablóðfalli til halds og trausts, fór ekki betur en raun bar vitni.
Við stilltum uppistöðu á milli veggja með blanka á bak við tjakk sem var á milli til að ýta á steininn. Tjakkurinn undir steininum er til að halda undir hann. Hina uppistöðuna höfðum við svo til að halda við stein við hliðina sem var á leiðinni út úr veggnum. En allt kom fyrir ekki, þegar við létum reyna á 20 tonna tjakkinn við hinn endan á uppistöðunni gaf veggurinn á móti sig, sá sem ekki sést á myndinni
Skömmu eftir að við Juma komum af fjöllum var aldrei þessu vant byrjaður að vinna hjá Murbygg ungur og öflugur Norðmaður, en þeir eru sjaldséðir hvítir hrafnar í múrverki þarna norðurfrá. Hann sótti í að vera í kringum okkur útlagana, en í því verkefni var afganski flóttamaðurinn Yasin kominn með í hópinn. Þegar ég spurði þann norska hverju sætti að svona væri komið fyrir honum, þá sagðist hann hafa glapist á að læra fornleifafræði og væri því atvinnulaus. Hann hefði í bernsku látið sig dreyma um að verða nýr Indiana Jones.
Ég sagði honum að nú blasti gæfan við honum, hann væri akkúrat komin á réttan stað í lífinu. Að fyrir lægi verkefni hjá Murbygg sem hefði ekkert meira með múrara að gera en fornleifafræðinga. Enda hafði Karstein sýnt mér annað jarðhýsi neðar í hólnum, sem þarfnaðist endurhleðslu, og sagði að þau væru fleiri. En hann ætlaði að bíða með að sýna samísku minjaverndinni þau, því að þetta væri langtíma verkefni. Því ekkert þarna norður frá væri betur styrkhæft og samískar fornminjar.
Karstein efaðist reyndar um að þessi jarðhýsi hefðu upphaflega haft með sama að gera, þau væru mörg hundruð eða þúsundum ára fyrir búsetu hans fólks í Bláfjöllum, jafnvel alveg frá dögum Múmínálfanna. Hans fólk hefði sennilega í upphafi sest þarna að, af því það vissi af jarðhýsunum og gat notast við þau á meðan verið var að koma sér fyrir í óbyggðum. Miðað við aðstæður gæti ég einmitt trúað að svo sé, enda eru gamma torfhús samana með svipuðu byggingarlagi og íslenski torbærinn, torf og grjót í veggjum, burðarvirki og þak úr tré, birkihrís lagður á þak og tyrft yfir.
Þess er skemmst að minnast að hinn norski Indiana Jones junior trúði ekki einu orði af því sem ég sagði honum og gerðist fljótlega eftir þetta lagermaður hjá vöruflutningafyrirtæki.
Það er hvorki hátt til lofts né vítt til veggja í gamma. Mikill raki og mýflugur voru á þessum árstíma við mýrina sem torfhúsið stóð, þannig að við Juma rauðkynntum viðar eldavélina um há sumar til að losna við raka og mý
Rúmið hans Ola í Vilgesvarre var ekki stórt, útdraganlegt svo hægt væri að breikka það og u.þ.b. 1,70 cm á lengd. Það varð minn svefnstaður
Juma fylgist með Karstein við að snikka til trjábol, sem átti að verða nokkurskonar mæniás í jarðhýsið. Fyrir hafði verið grautfúinn rauðviðar bolur sem hafði ekkert með burðavirkið að gera. Karstein taldi að hann hefði verið notaður svo hægt hefði verið að hengja í hann ýmislegt. En ég giskaði á að hann hefði verið notaður til að koma björgunum í þakið á sínum tíma þó svo að það væri sjálfberandi eftir að þau voru komin á sinn stað
Karstein er algjör Völundur og var, að því ég frétti, feikna mikill verkmaður og víkingur til vinnu á meðan heilsan leifði, hafði byggt fjölda gamma víðsvegar í byggðum sama. Í seinni heimstyrjöldinni brenndi þýski herinn flestar byggðir sama á undanhaldi sínu undan Rússum í Finnmörku, því er gert talsvert af því að halda við minningunni um mannvirki sama. Þessi rauðviðar tegund sem var í lofti jarðhýsisins, vex ekki í N-Noregi, var því tilvera trjábolsins í þessu jarðhýsi ráðgáta. Rauðviðarbolinn, sem Karstein snikkar, hafði þurft að sækja langt suður í Noreg og flytja með erfiðismunum aftan í fjórhjólinu hans Nils upp í Bláfjöll svo allt væri samkvæmt ritúalinu
Juma í matpásu við útiborð sem var upp á hólnum, sem jarðhýsið var í, nokkurn veginn yfir því miðju. Það var ekki nokkur leið að sjá að þarna var hús undir nema vegna þess að dyr voru á hólnum. Hitt jarðhýsið sem Karstein sýndi okkur var ósýnilegt utanfrá. Við Juma unnum oft saman árin sem ég var hjá Murbygg, vorum góðir félagar. Hann sagði mér frá því hvernig hús voru byggð í heimahögum hans í Afríku. Sú húsagerð er ekki framkvæmd nema í fullri sátt við náttúruna og væri efni í mun lengri pistil
Það gerðist svo fyrir tilviljun þegar við stoppuðum örþreyttir á heimleiðinni, eftir vonlaust verk, við lítið upplýsingaskilti til að hagræða hryggsekkjunum, að skyndilega fengu samtöl og myndir andvökunáttanna samhengi. Á skilti stóð að John Johnsen og hans kona Kirsten Andersdatter hefðu tekið sig upp 1868 og flutt til fjalla í leit að jarðnæði. Þau, börn þeirra og barnabörn, hefðu svo byggt sér torbæi í dalverpi í Bláfjöllum sem þau nefndu Vilgesvarre. Þar hafði stórfjölskyldan búið allt til ársins 1958
Við Juma afrekuðum samt að lagfæra einn stein í hleðslu neðst í vegg með því að krafsa undan honum með kúbeini til að búa til pláss, og notuðum svo stífu og tjakk til að ýta hnullungnum inn undir vegginn um leið og við stýrðum honum með járnkalli. Karstein varð ekki hrifinn, -sagði að við hefðum svindlað
Vilgesvarre
- 0 - 0 - 0 - 0 - 0-
Ps. Fyrir þá sem hafa náð að lesa þetta langt og langar til að fá einhvern botn í hvað það á að fyrirstilla að segja frá þvílíkri sneypuför, -þá hef ég komist að því að jarðhýsið í Bláfjöllum er ekkert einsdæmi.
Mér hefur oft dottið í hug að Vilgesvarre eigi sér hliðstæður mjög víða, t.d. á Orkneyjum á stað sem heitir Skara Brae. Þar sem talin eru vera mannvirki frá forsögulegum tíma, 4-5000 ára gömul.
Veturinn 1850 gerði mikinn storm á Orkneyjum. Það var ekkert sérstakt við storminn, annað en að þá var óvenjulega hásjávað svo að öldurótið svipti grasi af stórum hól. Þetta jarðrask opinberaði útlínur fjölda steinbygginga er undir voru, -sem eru jafnvel taldar eldri en Stonehenge og Píramídarnir í Gísa
Það er víðast hvar í heiminum líkur á að finna ævaforn mannvirki sem láta lítið fyrir sér fara í landslaginu. Ef einhver skyldi hafa áhuga á hversu algengt, þá er þetta video um leyndarmál steinanna.
Flokkur: Hús og híbýli | Breytt s.d. kl. 03:00 | Facebook
Athugasemdir
Gaman að lesa..
Takk fyrir og góða páska.
Sigurður Kristján Hjaltested, 15.4.2022 kl. 07:43
Takk fyrir Sigurður, eigðu góða páska
Magnús Sigurðsson, 15.4.2022 kl. 14:30
Það er eins gott að ég bý ekki þarna uppfrá. Verðugt viðfangsefni.
Bestu kveðjur.
Guðjón E. Hreinberg, 15.4.2022 kl. 16:37
Takk fyriri innlitið Guðjón, já þarna er verðugt viðfangsefni og kjörið öryggis gettó fyrir utan draugaganginn.
Bara að hafa samband við Karstein, ef svo ber undir. Eigðu góða páska
Magnús Sigurðsson, 15.4.2022 kl. 18:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.