Hreppurinn kominn á hreppinn

Það fer varla fram hjá neinum að fyrir dyrum standa kosningar bæði til lands og sjávar - ríkis og borgar- sjálfur Selinskí hefur ávarpað þjóðina. Ísland fyrir Íslendinga var einu sinni vinsæll frasi fyrir kosningar. Nú dettur ekki nokkrum heilvita frambjóðenda í hug að viðhafa svoleiðis orðfæri án þess að eiga yfir höfði að vera kallaður rasisti. Frekar að reynt sé að finna út á hvaða tungumáli sé best að ná til kjósenda. Mörg sveitafélög úti á landi eru komin með allt að helming kjósenda glóbalska.

Ættfærðir íslendingar eru fyrir löngu orðnir eins og hverjir aðrir fábjánar í eigin landi sem hafa ekki við að fá frábærar hugmyndir á færibandi til að láta ljós sitt skína á medíuna. Það sem er sammerkt landanum er að vera orðin handlama þegar koma á öllu hugarfluginu í framkvæmd. Varla að landinn sé fær um að tjalda, hvað þá að búa um rúm eða byggja hús. En ræður ennþá nokkuð vel við að skella í selfí til að senda heim frá Tene.

Flugumenn frelsisins gægjast nú glottandi úr hverri gátt tilbúnir til að selja ömmu sína, ættarsilfrið og stúta endanlega fullveldinu í skiptum fyrir að vera lausir undan mætingaskildu og starfstöð á fjarfundi í símanum sínum. Þvílík er uppbyggingin framundan að hornsteinum er nú hent að heilu hverfunum svo ekki sé skautað fram hjá þjóðarhöllunum og skýjaborgunum sem þessa dagana birtast eins og sápukúlur upp úr hattinum.

Í mínum smáheimabæ birtist nú í vikunni; innviðaráðherrann ásamt forstjóra mannvirkjastofnunnar ríkisins og fagfjárfestis af hrafnshól. Þetta andans lið fór um sinumóann í norðaustan nepjunni, ásamt sveitarstjórnarfólki, með byggingahjálma og öryggisgleraugu skartandi gulum vestum og lögðu hornstein með símanum sínum við löngu gleymdan moldartroðning.

Þessi slóði var eina veðið sem stóð eftir fyrir 2,2 milljarða skuld korter eftir “hið svo kallaða hrun” sem núverandi meirihluti sameinaðs sveitarfélags hefur endurheimt úr klóm veðhafa með málaferlum í á annan áratug. Sett var upp smá skilti fyrir símana og sjónvarpstökumanninn við enda troðningsins gegnt hornsteininum sem á stendur Construction Area authorized personnel only, m.a. með táknmyndum af öryggismyndavél og byggingahjálmi.

Það var ekki seinna vænna en að smella í selfí fyrir ríkissmedíu okkar landsmanna allra, -og hræra steypu í hornstein. Fagfjárfestirinn á hrafnshólnum hefur með handverkið að gera, hefur unnið að lofsverðum framkvæmdum í sveitarfélaginu, með því fá grafna holu í miðjan fótboltavöllinn á Seyðisfirði fyrir átta íbúðum. Holunni var reyndar skilað, en byggðar hafa verið þess í stað fimm holur neðanjarðar á Djúpavogi sem ekki hefur alveg tekist að klára vegna tæknilegra atriða.

Heir, heir! Selenskí ávarpar alþingi íslendinga. Já það er munur að búa í stóru samfélagi en vera ekki eins og hreppari í einhverju krummaskuði úti á landi. Enda er hreppurinn sjálfur, sem hefur verið til sem hallærisleg stjórnsýslueining frá þjóðveldisöld, komin á hreppinn.

Farið hefur fé betra varla eru menn á móti uppbyggingu kann einhver að spyrja, -eftir stanslausa fólksfjölgun undangenginna áratuga. En þegar betur er að gáð þá hefur Íslendingum lítið fjölgað við innrás glóbalsins, nema þá í kirkjugarðinum, eins og kunningi minn á grafarbakkanum benti á.

Guð blessi Ísland.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þetta var nokkuð góð lýsing á þjóðfélaginu og því sem er í gangi í dag...

Jóhann Elíasson, 7.5.2022 kl. 07:01

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það má nú segja Jóhann.

Það eru svo margir orðnir uppteknir við að fá frábærar hugmyndir hér á landi um það hvernig má skipuleggja líf annarra að nú þarf að flytja inn fólki til að skipuleggja fyrir svo að hægt sé að halda áfram að skapa störf við að skipuleggja.

Þetta kristallast í byggingariðnaðinum þar sem verkfræðingar og latínu stjórnendur eru að verða fleiri en íslenskir iðnaðarmenn, eitthvað verða þeir að hafa að gera blessaðir, þó svo þeir séu ófærir um að framkvæma hugmyndirnar sem þeim var innrætt og húsnæðisskortur orðin æpandi. 

Þá er bara að búa til skipurit og mannauðstjórnun. Dæmi sem ég varð vitni að núna í vikunni er þegar útbrunninn tryggingasölumaður, sem hafði lært verkfræði, fékk þá frábæru hugmynd á Guns n Roses tónleikum að gerast mannauðsrágjafi og skipuleggja hvernig iðnaðarmenn legðu frá sér hamarinn. 

Síðustu daga hefur 40 manna verktakafyrirtæki verið upptekið við að merkja gular línur á gólf og teikna hamra og önnur verkfæri upp um alla vegg í höfuðstöðvunum, svo hægt sé að vafra um eins og dáleidd hæna með hamarinn, í gulu vesti með hjálm og öryggisgleraugu, á sinn stað án þess að reka stáltána í þegar heim er komið.

Á meðan lágu framkvæmdir niðri á öllum verkstöðum, enda urðu menn á eftir eins og gular hauslausar hænur, bæði í moldaflaginu við höfuðstöðvarnar og úti á vinnusvæðunum þegar farið var í að tína saman ruslið sem var fokið út í veður og vind. 

Þú getur rétt ímyndað þér hvernig það hefði verið um árið að fá svona fræðing á dekkið hjá þér til að skipuleggja hvar melspíran og nálakarfan væri staðsett innan um allar gulu línurnar undir trollinu.

Hann hefði komist að því sama og hjá okkur að best væri að hafa nálakörfuna á hjólum eða hreinlega að henda innihaldinu fyrir borð vegna þess hvað mikil vinna færi í að teikna upp allar nálarnar og garnið á stjórnborðsíðuna.

Magnús Sigurðsson, 7.5.2022 kl. 09:44

3 identicon

Já, þetta er sorglegt.

Guð blessi Ísland, hverra?

(þjóðfélagið sem er að deyja).

Allt eins og blómstrið eina.

Enginn grætur óbreyttan Íslending.

Annar hver orðinn mannauðsstjóri,

fari þeir síðastnefndu norður og niður.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 7.5.2022 kl. 16:19

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Já þetta er sorglegt Símon Pétur og varla á gamla jálka leggjandi að verða vitni að þessu.

Þessi aðferðafræði hefur ná að heilaþvo bestu menn þannig að þeir vafra um eins og hauslausar hænur innan um öll exelskjölin. 

Magnús Sigurðsson, 7.5.2022 kl. 17:34

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Magnús

Í mínum heimabæ er það svo að götur eiga það til að hverfa, nánast sporlaust.

Skömmu eftir áramót fengum við íbúar við götuna sem ég bý við skilaboð um að truflun yrði á akstri um götuna, næstu fimm vikur. Daginn eftir mætti verktakafyrirtæki að sunnan, þvergirti hluta götunnar af og hóf að grafa holur innan girðingar. Síðan gerðist lítið. Um það bil fimm vikum seinna kom verktakinn aftur með gröfu á svæðið, opnaði endann á girðingunni og gerði sig líklegan til framkvæmda. Ekki var laust við að manni létti, nú hlyti verkinu að ljúka fljótlega.

En það var ekki svo. Girðingin var lengd enn frekar og stór hluti götunnar mokað upp á vörubíla, sem hurfu á brott með hana. Leyst mér nú ekki á blikuna og reyndi að ná einhverjum upplýsingum um hvað væri í gangi, frá þeim gulklæddu með hjálmana. Lítið varð um svör, enda er ég ekki sleipur í austur-evrópskum tungumálum. Girðingunni var lokað aftur, nú orðin nærri helmingi stærri en áður. Nú eru liðnir margar vikur síðan og ekki að sjá að neitt sé að fara að gerast á næstunni.

Lítið hefur sést til verktakans, mætir öðru hvoru með gröfu á staðinn, en lítið er gert.Hellst að sást til þeirra koma til að þíða vatnslögnina, sem stendur ber. Ekki heppilegt að vetri til.

Ekki hefur tekist að fá neinar upplýsingar frá handónýtri stjórnsýslu bæjarins, þar er bara bent á veitufyrirtækið og veitufyrirtækið bendir á verktakann.

Enn vantar um tvo metra upp á hæð götunnar, sem er auðvitað nokkuð bagalegt. Einn daginn birtist ung kona í gulum jakka með hjálm og í öryggisskóm. Vel merkt í bak og fyrir þekktri verkfræðistofu að sunnan. Nú sá ég tækifæri til að afla mér upplýsinga og gaf mig á tal við mærina. Engu skilaði það, hún sagðist einungis vera í eftirliti með verkinu!

Ég varð orðlaus með öllu og gerist það ekki oft. Eftirlit með verkinu! Hvaða helvítis verki! Ekki eins og menn hafi verið að vinna þarna. Það þarf varla mikið eftirlit með horfinni götu!

Nei nú hætti ég, blóðþrýstingurinn er farinn að hækka.

Kveðja af Skaganum

Gunnar Heiðarsson, 7.5.2022 kl. 23:47

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Blessaður Gunnar, þarna lýsirðu sjálfbærninni í einni holu sem fer sennilega stækkandi þangað til að einhver kemur auga á kolefnissporið, þá má búast við að þið íbúarnir komist aftur upp í sjóndeildarhringinn af tveggja metra dýpi götunnar, ef þið verðið ekki komnir niður sex fetin áður.

Þetta er sennileg framkvæmd á pari við hrafnshólinn á miðjum fótboltavellinum á Seyðisfirði. Þar stendur holan sjálfbær ári eftir að hún var grafinn. Það hafa samt engir austantjaldar komið enn þá til að girða hana, að ég best veit.

Mér skilst að farið sé að litast um eftir hentugum stað fyrir nýjan fótboltavöll, enda ekki vanþörf á, því samkvæmt fornleifamati hefur fótboltavöllurinn á Seyðisfirði verið við holuna í rúma öld, með elstu fótboltavöllum á Íslandi ef ekki sá elsti.

Það er nú gott að heyra að þið Skagamenn hafið bæði girðingu og eftirlit við holuna í götunni þinni og að hún er ekki í miðjum fótboltavelli, því þá þyrfti að byggja nýjan þjóðarleikvang ofan í þetta allt saman og ég er ekki viss um að það yrði svo sjálfbært eftir að fótboltinn var kellingavæddur.

Vonandi að mannauðsverkfræðingarnir hafi þekkingu til að útdeila gulum einota vestum, öryggisgleraugum og byggingahjálmum þarna í götunni ykkur, vel til fundið væri ef svartar stuttbuxur fylgdu með áletraðar ÍA.

þeir eru vafalaust búnir að setja um skilti með stöðluðu áletruninni Construction Area authorized personnel only, ef ekki mætti hafa einhverjar krónur út úr því að setja hana sem auglýsingu á gulu vestin.

Með kveðju úr Múlaþingi.

Magnús Sigurðsson, 8.5.2022 kl. 06:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband