Gömul steypa og tomma sex

Það má segja að steinsteypan hafi verið það efni sem kom Íslendingum inn í nútímann. Steypan varð byggingarefni 20. aldarinnar. Nú eru tímarnir breyttir og til landsins streyma gámar með einingahúsum krosslímdum úr timbri og gifsi, sem eru jafnvel farin að mygla í gámunum og silfurskottur geta fylgt með í kaupbæti.

Það má segja að hundaheppnin hafi losað landann við mygluna mest alla 20. öldina. Á meðan hús voru byggð á þann hátt að keypt var fyrst af öllu efnið í þakið; -1X6 tommu timbur sem var notað til að slá upp fyrir steypu mótum áður en það fór í þakklæðninguna. Með því vannst m.a. það að timbrið fékk mygluvörn með sementsefjunni, önnur byggingaefni voru að mestu myglufrí.

Á síðasta áratug 20. aldarinnar hófust gríðarlegar breytingar í byggingariðnaði. Innflutt efni streymdi til landsins. Innflytjendur, verkfræðingar og fjárfestar urðu allsráðandi á byggingarmarkaði, studdir af regluverki uppdiktuðu af latínuliði Langtíburtukistan. Reynsla byggingarmeistaranna er fokin út í veður og vind sem einskisverð sérviska. Hendur Jóns og Gunnu festar betur enn nokkru sinni fyrr við skuldaklafann með því að slá á hvern einasta fingur.

Nú á dögum dugir hreint ekki það eitt að fá morgunnbjarta hugmynd af húsi yfir fjölskylduna og hafa framkvæmdavilja til hrinda henni í framkvæmd. Þar duga ekki einu sinni byggingarmeistara réttindi til, ásamt teikningum arkitekta og verkfræðinga, hvað þá að lóðin ein nægi eins og í denn.

Nei, nú þarf þar að auki byggingastjóra, sem má ekki vera sami maðurinn og byggingameistari, -öryggisfulltrúa, tryggingafélag og utan um allan pakkann skal haldið af gæðaeftirlit vottuðu af viðurkenndri skoðunarstöð og allur heildar pakkinn verður að hafa fengið samþykki frá Mannvirkjastofnun ríkisins.

Tryggvi Emilsson lýsti því þegar hann byggði íbúðarhús yfir sig og Steinunni konu sína í Glerárþorpi við Akureyri fyrir hátt í hundrað árum, en hann hafði í upphafi hugsað sér að notast við aldagamla aðferð Bjarts í Sumarhúsum.

Allt stóð sem faðir minn hafði sagt í bréfi um byggingarlóðina og eins það að reisa mátti torfbæ á því landi. En þegar norður kom sýndist mér að ekki hæfði lengur að byggja íbúðarhús úr torfi og grjóti og eins þótt flestir kofar þar í kring væru torfbæir og þar með hús föður míns. Fylltist ég nú stórhug og stærilæti og ákvað að á lóðinni skyldi rísa steinhús. Engan þurfti að spyrja um útlínur eða efnisval, hvað þá útlit þess sem byggt var, allt var frjálst og því hófst ég handa án tafar, keypti mér malarreku og haka og gróf fyrir grunni að steinhúsi, af engum lattur eða hvattur.

Ekki þurfti djúpt að grafa þar sem húsið var byggt á hörðum mel en mölin, sem ég mokaði upp úr grunninum, var svo hrein steypumöl að hún var mér gulls ígildi. Ég leit hlýjum augum til árinnar sem rann þarna framhjá og hafði skilið þessa möl eftir á þurru fyrir nokkrum öldum svona hreina og hæfilega sandborna í steypuna. Þessi möl gerði mér glatt í sinni og að fáu dögum umliðnum gekk ég ofan á Eyri með aurana mína í vasanum, keypti mér timbur hjá Sigurði Bjarnasyni og sement í Gránu og flutti allt í einni ferð heim á melinn. Eftir þessa verslunarferð átti ég hallamál, hamar og sög og vann eins og kraftar leyfðu við uppslátt og flekasmíði. Síðan hófst steypuvinna, ég stóð einn að verki, blandaði saman sementi og möl og vatni úr Gleránni og steypti. Þá var dálítið gaman að lifa þegar þessum áfanga var náð enda skein sól yfir Súlutindum og fannst mér það góðs viti.

Ég fór upp klukkan fjögur hvern dag og vann mig eins uppgefinn og úttaugaðan eins og maðurinn með álfkonuspíkina forðum, en timburstaflinn hrökk til uppsláttarins og að viku liðinni var ég farinn að moka möl og undirbúa steypuvinnu, síðan var hrært og steypt dag eftir dag þangað til mótin stóðu landafull af steypu, tuttugu sentímetra þykkir veggir, það voru mörg handtök og enn fleiri svitadropar. (Tryggvi Emilsson-Baráttan um brauðið bls 122-123)

Síðuhafi hefur haft steypuna að áhugamáli og atvinnu ævina alla. Nú er sumarið framundan og þá er farið út um þúfur, mela og móa til að dást að steypu, -nýrri og gamalli. Gamla steypuhefð 20. aldarinnar með sinni tommu sex, sem má sjá til sveita, er óðum að hverfa ofan í svörðinn með fullveldinu og fólkinu, -en mikið asskoti var það heilbrigður lífsmáti þegar Jón og Gunna byggðu sitt hús laus við myglu, mæðu og silfurskottur kerfisins.

 

IMG_1443

 

img_7497 17.07.2016

 

IMG_7783

 

IMG_0668

 

IMG_3764

 

IMG_0694

 

IMG_2480

 

IMG_4350

 

IMG_8456

 

IMG_2509


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hjartans þakkir fyrir þennan pistil,

orðin sem og vel valdar myndirnar.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 17.5.2022 kl. 20:51

2 identicon

Takk fyrir pistilinn.

Anna Bryndís (IP-tala skráð) 17.5.2022 kl. 21:11

3 identicon

Þá bjó hér vorglöð og sjálfstæð þjóð.  Nú búa hér undirokaðir þrælar.  Ofurseldir bákni fursta og greifa og möppudýra, votta helvítis okkar hér á landi sem tútna út sem púkar á fjósbitunum.

Takk fyrir pistilinn!

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 17.5.2022 kl. 23:16

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir athugasemdirnar, Pétur, Anna og Símon.

Steypa er falleg og myndast einstaklega vel, svo ekki sé nú talað um hollustu heima fengins bagga.

Því hefði mátt bæta við þennan pistil að verkalýðsforustan hefur tekið beinan þátt í að lækka laun iðnaðarmanna og færa ávinninginn af því yfir í vasa milliliða og latínuliðs með hækkandi húsnæðisverði.

Nýverið með krosslímdum einingahúsum fyrir unga fólkið, sem á að vera svo einstaklega gott fyrir kolefnissporið eins og allt sem er innflutt nógu langt að þessi árin.

Í annan tíma hafa hús á Íslandi hvorki verið dýrari né ónýtari, og jafnvel myglaðri en hálfhrundir moldarkofarnir sem fólk skreið út úr fyrir öld síðan. Um leið er skuldunum sallað niður á unga fólkið í óþekktum mæli.

Magnús Sigurðsson, 18.5.2022 kl. 06:15

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Góður pistill Magnús.

Svo drýgðu menn mótatimbrið með því að nota einnig þakjárnið í mótauppsláttinn, eitthvað sem myndi sennilega senda einhverja sérfræðinga á Klepp, ef þeir sæju slík vinnubrögð. Sement og járn eiga víst illa saman, en merkilegt nokk þá var ekki að sjá að tíminn færi verr með þetta þakjárn. Hinsvegar var oftar en ekki gerð sú skyssa að hafa bárurnar liggjandi í mótunum, sem gerði dopunum auðveldara að mola steininn. Kynntist slíku á gamalli hlöðubyggingu. Bárur voru liggjandi nema til endanna, en þar stóðu þær. Sjálfsagt hefur verið sparað nokkuð sement í steypuna, alla vega var dropinn búinn að éta sig gegnum steypuna á steypuskilum á áveðurshliðinni. Þó sá vart á steypunni þar sem bárur voru standandi, eða öðrum hliðum hlöðunnar. Ekki sá á þakjárninu, jafnvel þó svo óhönduglega hafi verið staðið að lagningu þess á þakið að sumar plöturnar sneru múrhúðinni upp, hugsanlegt þó að þær plötur hafi verið notaðar tvisvar og fengið á sig múr beggja vegna. 

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 18.5.2022 kl. 14:14

6 identicon

Einhvern veginn finnst mér við hæfi

að bæta hér við:  Blessuð sé minning

Halldórs Jónssonar, steypuverkfræðings

og moggabloggara.  Okkur fer víst fækkandi

sem nutum þess að vera hluti af sjálfstæðri þjóð.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 18.5.2022 kl. 16:18

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir Gunnar, að bæta pistilinn með þarfri athugasemd.

Já, bárujárnið drýgði oft mótatimbrið, enda var þakið markmiðið og í það keypt fyrst. Annað byggingarefni var mest heimafengið í næsta mel eins og Tryggvi Emilsson lýsir vel. Sementið íslensk framleiðsla seinni hlut 20. aldarinnar og fram á þá 21., nú horfir landinn ósjálfbjarga fram á sementsskortinn gægjast úr hverri gátt.

Sjálfur byggði ég með tommu sex aðferðinni notaði reyndar oftast vikurstein frá Mývatnssveit í bæði út og innveggi húsa og þá passaði innflutta 1X6 timbrið akkúrat til að slá upp fyrir skökli og í þakklæðningu. Nú segir reglugerðin að ekki megi nota sementsmitað timbur í þakklæðningar.

Til sveita, sem eru að hverfa í svörðinn, má víða sjá að kappið og stórhugurinn hefur verið það mikill að bárujárnið var líka notað í steypumót svo hægt væri að steypa sem mest í einu. Þessi aðferð virðist síður en svo hafa haft slæm áhrif á endingu bárujárnsins og mygluvarði hreinlega timbrið.

Hjá fyrirtækinu sem ég vinn hjá er starfrækt steypueiningaverksmiðja. Fyrir ári síðan voru steyptar einingar í ofanflóðavarnir á Eskifirði og voru þær steyptar á standandi bárujárn upp á lúkkið. Þannig kemst sveitamennskan í bæinn til skrauts.

Magnús Sigurðsson, 18.5.2022 kl. 17:17

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Rétt er það Símon Pétur, okkur fer fækkandi á moggablogginu sem má segja að sé vettvangur síðustu Móhíkanana.

Blessuð sé minning Halldórs Jónssonar verkfræðings, sem var þjóðlegur og gegnheill steypukall.

Magnús Sigurðsson, 18.5.2022 kl. 17:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband