Dæmisaga úr sjoppunni

Það kemur ekki oft fyrir að boðinn er forgangur fatlaðra. Við vinnufélagarnir vorum staddir við N1 núna í vikunni við að steypa örlitla skábraut við bílastæði merkt fötluðum. Höfðum komið snemma morguns full græjaðir og lagt bílnum í fatlaða stæðið. Svo gjörningurinn gengi sem hraðast fyrir sig höfðum við hraðsteypu til verksins sem þurfti að tvíhræra með ca. 5 mínútum á milli.

Á meðan við biðum 5 mínúturnar settumst við í stóla við sjoppuvegginn og nutum blíðunnar. Þá kom maður á aldri við okkur (rúmlega 60 +) á bíl og reyndi að troða sér í fatlaða stæðið. Þegar það gekk ekki snaraðist hann út úr bílnum með þennan flotta vindil í munnvikinu og skírteini í hendinni sem hann otaði að okkur og spurði hvort við værum alveg sjónlausir og vildum ekki fá merki fyrir fatlaða.

Þar sem 5 mínúturnar voru u.þ.b. liðnar stóð ég stein þegjandi á fætur og hóf seinni hræruna í steypunni. Á meðan félagi minn sagði manninum, -sem var á góðri leið með að láta góða morgunnstund með vindlinum sínum fara til spillis, -að grjót halda kjafti. Hvort hann sæi ekki að við værum að vinna. Ég sagði við félaga minn, þegar við vorum búnir að hella úr steypu stampinum, að nú skildi hann færa bílinn og bjóða þeim fatlaða stæðið með virktum, en þá keyrði hann í burtu með vindilinn.

Á sama augnabliki kom ungur starfsmaður N1 æðandi út um sjoppu dyrnar að eldri konu, sem var að reykja fyrir utan, og benti henni á að það væri bannað. Konan sagði strax fyrirgefðu vinur -og gekk svo fram hjá mér við steypuna og ég sagði; ekkert má nú lengur. Hún brosti og sagði; þetta var alveg rétt hjá unga manninum það er skilti þar sem ég stóð sem sýnir að reykingar séu bannaðar, ég tók bara ekki eftir því, það var fallegt af honum að láta mig vita svo ég stæði ekki við skiltið eins og vitleysingur.

Þessi viðbrögð hafa valdið mér heilabrotum og minntu mig á þegar við Matthildur mín komum seinni part dags úr Axarferð á Djúpavog í drullu fyrir nokkrum árum. Þá datt mér í hug að koma við á þvottaplaninu hjá N1. Þegar ég beygði inn á það var flautað, mér fannst að flautið kæmi úr gljáfægðri rútu þar sem rútubílstjórinn var á tali við einhvern út um gluggann við bensíndælurnar.

Þegar ég var byrjaður að þvo bakkaði rútan þétt upp við bílinn hjá mér þannig að ég varð að færa mig til að verða ekki undir henni. Þá sá ég að rútan var ekki jafn gljáfægð að aftan og að framan og fattaði hversvegna rútubílstjórinn hafði flautað. Þó svo að það væru þvottastæði fyrir 8-10 bíla þá vorum við einir á öllu þvottaplaninu, þá fattaði ég líka að þetta var kústinn og stæðið hans.

Þannig að þegar rútubílstjórinn kom út rétti ég honum kústinn og sagði; fyrirgefðu ég vissi ekki að þetta væri stæðið þitt, ég færi mig bara. Matthildur mín sat sallaróleg inn í bíl og prjónaði á meðan ég færði bílinn um nokkur stæði, þangað sem kústarnir með löngu slöngunum voru fyrir stóru bílana. Fattaði þá fljótlega hvers vegna rútubílstjórinn vildi ekki vera þar, -kústarnir voru eins og klístraðar tjöru tuskur.

Ég lét mig samt hafa það að baksa við að nudda drulluna af bílnum, en fékk þá óvænta aðstoð. Allt í einu stóð ég vatnsbunu og heyrði kallað; þú vissir það víst ég sá þegar þú heyrðir að ég flautaði. Ég komst í skjól hinu megin við bílinn. Heppnin var með mér því slangan, sem var í kústinum hjá rútubílstjóranum, náði ekki lengra og ég gat haldið áfram að þvo í þurru.

Matthildur mín var þá hætt að prjóna og snaraðist út úr bílnum. Sagði við mig, nú stein þegir þú Maggi, enda var ég þetta sumar nýlega stiginn upp úr hjartaáfalli. Svo snaraðist hún að rútunni og skrifaði niður bílnúmerið og spurði rútubílstjórann um símanúmerið hjá fyrirtækinu sem rútan var merkt.

Rútubílstjórinn steinhætti að reyna að sprauta á mig og sprautaði á Matthildi mína í staðin þangað til að hún komst í skjól inn í bíl orðin holdvot. Ég grjót hélt bara kjafti og kláraði að þvo bílinn. Kallaði svo til rútubílstjórans áður en ég fór, þú ættir svo að fara inn og biðja þá hjá N1 að merkja stæðið þitt með skilti, -svo ekki þyrfti að koma til þess að eldra fólk stæði bálsteytt í vatnslag á tómu þvottaplani að kvöldi dags.

Honum var runnin reiðin og reyndi ekki einu sinni að sprauta á mig. Matthildi minni var líka runnin reiðinn og byrjuð aftur að prjóna þegar ég settist inn í bíl, og datt ekki einu sinni í hug að hringja í rútufyrirtækið, sagði bara; sennilega hefur hann átt erfiðan dag blessaður.

Já þeir eru liðnir þeir tímar sem maður gat veitt sér þann munað að fara allan skalann upp á há c-ið, gera allt snar brjálað og lalla svo sallarólegur í burtu eins og ekkert hefði skeð. Ef þú hefur náð að lesa þetta langt lesandi góður, þá passaðu þig á gömlu brýnunum við sjoppurnar í sumar, þó að þau séu ekki með skilti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Menn eiga það til að missa innri manninn út

Hulda M. Valdimarsdóttir (IP-tala skráð) 19.5.2022 kl. 20:17

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Satt er það Hulda, stundum í einskærri fljótfærni bæði í mislitum sokkum og ranghverfum fötum.

Magnús Sigurðsson, 19.5.2022 kl. 21:18

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hverskonar fötlun var fatlaða stæðið haldið?

Guðmundur Ásgeirsson, 20.5.2022 kl. 22:30

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Guðmundur, fötlunin var blá.

Magnús Sigurðsson, 21.5.2022 kl. 05:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband