30.6.2022 | 06:01
Fyrir norðan Fljót
Það að vera fyrir sunnan sól og austan mána þarf ekki að vera svo galið. Að fara norður fyrir Fljót og til baka Austur gæti virst vera öfugsnúið. En þess ber að gæta málvenjur tengdar áttum eru misjafnar eftir landshlutum t.d. standast norður og austur á á Héraði. Og gott betur en það því norður getur verið fyrir sunnan austur.
Í mínu ungdæmi töluðum við krakkarnir um að fara norður fyrir Fljót þegar farið var frá Egilsstöðum yfir Lagarfljótsbrú en Austur þegar farin var sama leið til baka. Eins heyrði maður talað um austur Velli og og norður Velli sem voru samkvæmt áttavitanum fyrir sunnan austur Velli. Ég man samt ekki til þess að nokkur tíma hafi verið minnst á vestur í mínum uppvexti.
Þessi stefnumörkun þykir kannski um sumt sérstök, en enn sérstakari er það þó norður í landi þar sem hægt er að fara frameftir og vera framfrá, fara þar bæði handan yfir og yfir um. Það að fara norður fyrir Fljót (eða norður yfir) er óðum að hverfa úr daglegu máli, nú er farið í Fellabæ þegar farið er yfir Lagarfljótsbrúna, og í Egilsstaði þegar farið er til baka, rétt eins og fara í búð.
Þetta var ólíkt tilkomu meira ferðalag í mínu ungdæmi, því þegar farið var yfir Lagarfljótsbrúna var komið í annan hrepp, og gott betur en það, farið úr S-Múlasýslu yfir í N-Múlasýslu, -í annað lögsagnarumdæmi með skráninganúmerinu S á bílum. Eins var annað samfélag fyrir norðan Fljót en Austan, aðrar búðir og önnur fyrirtæki.
Fyrir norðan Fljót var Verslunarfélag Austurlands sem rak m.a. matvöruverslun og hafði meir að segja gerst svo djarft að opna verslun fyrir Austan á yfirráðasvæði Kaupfélags Héraðsbúa, sem gerði þá út kjörbíl svo þær sem áttu styttri leið í Verslunarfélagið gætu næstum farið í Kaupfélagið þar sem allt fékkst, og fengið það í kjörbílnum sem fékkst í búð Verslunarfélagsins.
Bæði Verslunarfélagið og Kaupfélagið voru með sláturhús sitthvoru megin við Lagarfljótsbrúna. Fyrir Austan var Brúnás stærsta fyrirtækið fyrir utan Kaupfélagið með víðtæka starfsemi og framleiðslu í byggingaiðnaði svo sem glerframleiðslu og steypuframleiðslu auk hefðbundinnar verktöku eins og fjöldi minni byggingafyrirtækja á Egilsstöðum. Bíla og véla verkstæði voru líka aðallega fyrir Austan.
Fyrir norðan Fljót var Trésmiðja Fljótsdalshéraðs og Baldur og Óskar stærstir í byggingastarfsemi þar var einnig steypustöð um tíma. Vignir Brynjólfsson var með dekkjaverkstæði og þar var Hlébarðinn með endursólningu hjólbarða, synir Vignis með fyrirtækið Fell sem bæði rak bílasölu og verslun. Sigbjörn Brynjólfsson var með bókabúðina að Hlöðum sem var með betri bókabúðum.
Þráinn Jónsson var atkvæða mikill höfðingi fyrir norðan Fljót og lengi oddviti Fellamanna. Þráinn var með umfangsmikla bílaleigu, ekkert Hertz eða Avis kjaftæði, -heldur einfaldlega Bílaleigu Þráins Jónssonar. Auk þess ráku þau hjónin, Þráinn og Ingveldur, Vegaveitingar skammt norðan við sporð Lagarfljótsbrúarinnar og flugkaffi á Egilsstaðaflugvelli á Egilsstaðanesinu mitt á milli byggðakjarnanna.
Einnig var Plastiðjan Ylur fyrir norðan Fljót og Prentsmiðja um tíma rétt eins og fyrir Austan. Svo má náttúrulega ekki gleyma einum stærsta vinnustaðnum í seinni tíð, hausaþurrkuninni Herðir. Bæði Egilsstaðahreppur og Fellahreppur kepptust við að laða til sín atvinnustarfsemi og byggja upp þá sem sýndu frumkvæði, enda var aðstöðugjald af fyrirtækjum þá enn við lýði og drjúgur tekjustofn sveitarfélaga hlutafall af veltu atvinnurekstrar.
Að fara norður fyrir Fljót til að hitta bekkjarbræður mína, sem voru þrír Jónar, var í æsku talsvert ferðalag, gangandi eða á puttanum. Þá voru ekki kominn göngu- og hjólastígur yfir Egilsstaðanesið sem styttir leiðina eins og nú, heldur varð að fara malarveginn, ekki var til siðs að stytta sér leið yfir ræktað land í þá daga og ef svo var gert var lent fljótlega ofan í skurð.
Engin skóli var í Fellum og fóru Fellakrakkar því flest í Hallormstað þar sem Fellamenn, Vallamenn, Skriðdælingar og Fljótsdælingar voru með sameiginlegan heimavistarskóla. En nokkuð af krökkum úr nafnlausa þorpinu við Lagarfljótsbrúna, sem oft var kennt við Hlaðir, kom þó alla sína skólagöngu í Egilsstaðaskóla. Seinna kom skólarúta og enn síðar varð til nafnið Fellabær og byggður Fellaskóli.
Sumt var bara fyrir Austan á meðan annað var einungis fyrir norðan Fljót. Mjólkurstöð KHB var á Egilsstöðum og þar voru framleiddar allar heimsins gerðir af jógúrt, auk allrar mjólkur, rjóma, skyrs, smjörs og osta. Nú er ekki hægt að fá svo mikið sem mjólkurdropa án þess að honum hafi verið keyrt hring um landið og það sama á við flest annað. Hvorki er sláturhús né frystigeymsla lengur fyrir norðan Fljót eða Austan í öllu innviðabyggða matvælaörygginu.
Þessi tími þaut óvænt í gegnum hugann 1. Mars fyrir meira en ári síðan, en þá flutti fyrirtækið MVA, sem ég starfa hjá, með mann og mús í steypueiningaverksmiðju fyrir norðan Fljót. Þegar bílalestin fór þennan bjarta vetrarmorgunn yfir Lagarfljótsbrúna leið mér allt í einu meira en lítið einkennilega.
Best er að lýsa því sem fór í gegnum hugann, þegar ég áttaði mig á því þarna á brúnni að eiga að mæta hvern dag til vinnu fyrir norðan Fljót, -með sömu orðum og Matthildur mín þegar við vorum fyrir Vestan, mér hefur aldrei fundist ég vera komin eins mikið til útlanda.
Það má segja að hjá MVA geymist arfleið margra fyrr um fyrirtækja í byggingariðnaði fyrir austan og norðan Fljót. Eigendurnir eru þó allir upprunnir fyrir norðan Fljót, því örlaði kannski líka örlítið á þeirri ósigurs tilfinningu hjá gömlum steypukalli að hafa verið hernuminn.
Í síðustu viku fórum við svo að steypa enn þá lengra fyrir norðan Fljót, en samt fyrir austan, alla leið út við Lagarfoss. Á meðan beðið var eftir steypubíl gekk ég að gömlu Willis U-137 og kannaðist við kauða án þess að koma honum með nokkru móti fyrir mig, því þarna fannst mér að hefði átt að vera bíll með S númeri.
Á næsta steypubíl, sem kom, var fyrr um nágranni minn og frændi af Hæðinni á Egilsstöðum. Hann tók strax eftir eirðarleysis ráfi mínu í kringum Willisinn og spurði þegar ég kom til hans; -hvað varð af Willisnum hans pabba þíns. -Hann fór með hann suður, síðan veit ég ekki meir; svaraði ég.
-En mikið kannast ég við þennan Willis mér finnst ég hafa séð hann í gær en man ekki lengur hvar og hver var á honum, -manst þú það? -sagði ég.
-Já ég held að Garðar Stefánsson hafi átt þennan ég man þegar hann var að fara á honum í vinnuna út á flugvöll; -svaraði frændi minn. -Svo átti Halldór á Miðhúsum jeppa sem var eins á litinn; -bætti hann við.
Segja má að nokkru eftir að Willisarnir hurfu suður fyrir sól og austur fyrir mána, U og S hættu að vera upphafsstafir í bílnúmerum og þegar Þráins Jónsonar naut ekki lengur við fyrir norðan Fljót hafi stefnuleysið út í móðuna miklu tekið yfir. Allt varð svo ofboðslega flókið að nú þarf tugi hámenntaðra sviðsstjóra til þess eins að ná áttum, og það án aðstöðugjalds og sementsryks.
Fellamenn féllu í þá gryfju árið 2004 að sameinast Austur-Héraði og Norður-Héraði. Öllum að óvörum var króinn skírður Fljótsdalshérað, en ekki Hérað, -þó svo að það væri bæði fyrir austan og norðan Fljót. Sennilega til að fara í taugarnar á Fljótsdælingum, sem ekki hafa enn gengið í þá gildru, frekar en til að ná áttum.
Árið 2021 varð til enn flóknara sveitarfélag eftir að Fljótsdalshérað, Seyðisfjarðarkaupstaður, Djúpavogshreppur og Borgarfjarðarhreppur sameinuðust og fékk það nafnið Múlaþing, kannski bara til að fara í taugarnar á öðrum austfirðingum í Múlaþingi hinu forna, auk Fljótsdælinga. Í öllu þessu sameiningar brambolti hverfa út í móðuna miklu málvenjur, mannlíf og mannsiðir, í grámyglu sérfræðinnar, -heil veröld sem var, -og kemst austfjarðaþokan þar þar ekki í hálfkvist.
Verður úr þessu varla ráfað að nokkru viti fyrir sunnan sól eða austan mána, norður fyrir Fljót né Austur aftur, hvað þá verið til friðs annaðhvort í efra eða neðra. Flestir fara nú orðið á milli Múlaþings og Fjarðabyggðar, eða þá suður og til útlanda, ef þá ekki, -norður og niður.
Meginflokkur: Dægurmál | Aukaflokkur: Landsins-saga | Breytt 17.7.2022 kl. 19:09 | Facebook
Athugasemdir
Skemmtileg lesning og segir fólki að það er margt sem aðkomumaður þarf að varast, þegar hann nemur land í "nýju" sveitarfélagi og þekki ég það af eigin raun......
Jóhann Elíasson, 30.6.2022 kl. 15:01
Hinn eini flokkur sem öllu ræður hér á landi,
Embættismannaflokkurinn,
hefur það sem sitt helsta markmið að rústa
móðurmálinu, föðurlandinu, sögu þess og menningu
og að drepa allt í Gamma Dróma, og Eflu.
Sé sögu, menningu, móðurmáli og föðurlandi rústað
þá vakna einn daginn frumbyggjarnir, án nokkurra
tengsla við nokkuð annað en harðstjórn
Embættismannaflokksins, vegvilltir og áttlausir.
Takk fyrir góðan pistil Magnús.
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 30.6.2022 kl. 17:57
Þakka ykkur fyrir innlitin og athugasemdirnar Jóhann og Símon Pétur.
Það getur verið erfitt að nema land sem er lókal, en kosturinn við þann stað er oft sá að þar er góðu fólki vel tekið, -ég tala nú ekki um ef það semur sig að háttum origínalans. Til þess að átta okkur á hvað gesti hæfir höfum við Hávamál, eina af perlum íslenskra bókmennta.
Já ég tók eftir því að dúkkulísan í drögtunum á snappinu í selfí símanum sínum hældi sér að því að vera fyrsta ráðherfan til að gera atlögu að íslenskunni í boði ríkisins, og ekki er sú flissandi geðslegri þessa dagana þar sem hún daðrar við stríðsglæpamenn í umboði íslensku þjóðarinnar.
Ef það hefur einhver tíman verið ástæða til að biðja Guð um að blessa Ísland, þá er það ekki síður þessa dagana, -en auk þess er rétt að hafa í huga að heita á landvættina dag hvern þeir hafa haft hemil á þessi hyski eins og icesave sannar.
Magnús Sigurðsson, 30.6.2022 kl. 18:29
Heilu hreppa- og bæjarheitin eru við það að hverfa, eða horfin. Allt út af einhverjum búrakrötum í Embættismannaflokknum. Bráðum vitum við ekki hvar við eigum heima, meistari Magnús.
Jú, við vitum það kannski en afkomendum verður það erfiðara að finna rótfestu þá sem áður fyrr var kennd við orðið "heima". Þá er engin furða að þeim blessuðu verði erfitt að átta sig og tengja.
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 30.6.2022 kl. 20:09
Satt er það Símon Pétur, íslenskri stjórnsýslu þykir svo ofboðslega hallærislegt að vera lókal en ekki glóbal, að hún mun bæði fórna sínum rótum og heimahögum fyrir vel heppnaða selfí.
Magnús Sigurðsson, 30.6.2022 kl. 21:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.