22.8.2022 | 20:53
Fjósið
Það voru mistök þegar Íslendingar yfirgáfu torbæina og tóku steypuna í þjónustu sína að sameina ekki kosti þessara tveggja innlendu byggingarefna, -byggja steinsteypt hús og einangra þau að utan með torfi. Þannig hefðu orðið til umhverfisvæn, hlý og viðhaldslítil hús, einstök á heimsvísu rétt eins og torfbærinn.
Fyrir stuttu var auglýst til sölu eitt af stórvirkjum til sveita frá árdaga síðustu aldar, byggt úr steinsteypu fyrir rúmum hundrað árum síðan. Um þessa framkvæmd skrifaði ég pistil og setti hér inn fyrir tæpu ári síðan undir heitinu Herragarðurinn.
Mér var húsið hugleikið vegna þess að þarna bjuggu amma mín og afi lungann úr sinni ævi. Þegar hús og jörð var auglýst til sölu fyrir stuttu sá ég á meðfylgjandi myndum gamla fjósið þeirra afa og ömmu frá nýju sjónarhorni.
Það var ekki hluti af upphaflegum byggingum. Fjósið hafði verið byggt við stríðasárabragga í skyndi eftir að foktjón varð á upphaflegu fjósi. Myndin af fjósinu er tekin með dróna og sést vel á henni hvernig fólk bjargaði sér til sveita þegar mikið lá við að koma bústofninum í skjól.
Þetta fjós stendur enn rúmri hálfri öld eftir að afi og amma hættu að nota það og um 70 árum eftir að það var byggt. Ég á bara góðar minningar úr þessu fjósi, af vinkonum sem höfðu þar sitt skjól.
Ein minning, sem lifir betur en aðrar, er sú þegar ég sótti beljurnar í haga, en þær voru yfirleitt ekki langt út á nesi. Einn morgunn sem oftar var ég sendur til að sækja kýrnar, þó ekki væri langt að fara, gat vegalengdin verið strembin í mýrlendum þúfnagangi fyrir 5-6 ára dreng.
Það var þá sem ein vinkonan tók það til bragðs að leggjast niður á framfæturna og bjóða snáðanum far. Þegar ég kom heim að fjósi hjá afa sat ég eins og höfðingi á hesti fyrir framan herðar einnar beljunnar. Þessi minning segir mér enn þann dag í dag hvað sterk tengsl geta myndast á milli barns og dýrs.
Búskapur afa og ömmu samanstóð af 7-8 kúm og einum tarfi, 150-200 kindum og hænum í hænsnakofa austan við fjósið. Tveir hestar voru þegar ég man, þau Gola og Tvistur, hundurinn hét Sámur. Stærri var nú bústofninn ekki og ég minnist ekki annars en allsnægta hjá ömmu og afa.
Fjósið, -dyrnar t.v. eru fjósdyrnar, t.h. er dyr í mjólkurhúsið þar sem brúsarnir voru í vatnsþró þangað til þeim var keyrt í veg fyrir mjólkurbílinn, -á brúsapallinn. Torf var upp að veggnum til vinstri en framhliðin var ekki klædd torfi. Myndin er fengin af vef fasteignasölu
Athugasemdir
Það er algengur misskilningur að Íslendingar hafi yfirgefið torfbæina. Þeir eru steyptir í dag en hugsunin er enn í moldarholunum.
Guðjón E. Hreinberg, 22.8.2022 kl. 23:50
Sæll Guðjón, það er spurning hvort þetta er ekki alltsaman tómur misskilningur og hugsunin sé líka orðin eintóm steypa, -jafnvel í appi eða þannig.
Magnús Sigurðsson, 23.8.2022 kl. 06:11
Mágur minn að austan,varð hugfanginn af "sky lagon" í kópavogi.Ekki að hann færi í sund að þessu sinni heldur var byggingin sem heillaði hann,fallegt snið(segir maður svona um byggingu)torf frá þaki niður að grjóthlöðnum veggjum,hreint himneskt.Mb.kveðju.
Helga Kristjánsdóttir, 24.8.2022 kl. 01:39
Sæl Helga, þessi byggingamáti steypa og torf hefur færst í vöxt með ferðaþjónustunni.
Vök baðhúsið við Urriðavatn er dæmi um svona hús og nýtur það mikilla vinsælda.
Ekki er samt mikið um að hús byggð á þennan máta séu íbúðarhús.
Magnús Sigurðsson, 24.8.2022 kl. 06:14
Sæll Magnús.
Ekki verður annað sagt en að Guðjón hittir hér naglann á höfuðið
og svo rækilega sem reyndin er til róta.
Þetta á að heita upplýsingaöld en við erum nær Rannsóknarréttinum
og einhverju því geðþóttaréttaréttarfari sem er ill líðanlegt.
Fyrst menn kusu að afgreiða Geirfinnsmálið með þeim hætti sem gert var
hefði borið að Erla Bolladóttir nyti til jafns við aðra við það borð.
Skyldi hún hafa goldið fyrir það að vera kona með barn en
dómendur allir karlkyns?
Þakka þér fyrir þennan ágæta pistil þinn!
Húsari. (IP-tala skráð) 24.8.2022 kl. 09:52
Laxabakki við Sog.
Nú er verið að endurbyggja Laxabakkann og sú aðferð notuð sem þú nefnir hér að ofan. Steyptir veggir sem verður síðan hlaðið utan á. Það hafa verið endalausar tafir á þessari framkvæmd vegna málaverla. Landvernd er víða til ills.
...Landvernd, sem eru félagsamtök sem starfa að umhverfismálum, og Héraðsnefnd Árnesinga voru færðar jarðirnar Alviðra og Öndverðarnes 2 að gjöf árið 1973, samtals mörg hundruð hektarar. Undanskildar í þessari gjöf voru þrjár sumarbústaðalóðir við Sogið sem liggja að landi Öndverðarness 2, hver um sig er einn hektari eða 10.000 m². Ein þessara lóða er sú sem tilheyrir Laxabakka....
... Þrátt fyrir þetta mikla og fallega land sem Héraðsnefndinni og Landvernd hefur verið fært til umsjónar hafa þessir aðilar löngum jafnframt rennt hýru auga til þessara þriggja litlu lóða með þann ásetning að ná þeim af eigendum þeirra með góðu eða illu, en síðustu árin ágirnst Laxabakka sínu mest....
Og eins og Helga nefnir með Sky lagon, þær eru flottar hleðsurnar. Þótti mér vænt um að sjá að kunnáttan er til staðar.
Haukur Árnason, 24.8.2022 kl. 11:52
Segi bara Amen eftir lestur þessa pistils,
meistari Magnús.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 24.8.2022 kl. 12:29
Þakka ykkur fyrir athugasemdirnar Húsari, Haukur og Pétur Örn.
Húsari; ekki geri ég ágreining við ykkur Guðjón um neðanjarðarhugsunarhátt tíðarandans. Þó svo að tímarnir séu kallaðir upplýsandi þá er öldin með því marki brennd að það á að troða réttum upplýsingum í fólk með appi, annað er kallað falsfréttir og upplýsingaóreiða.
Haukur; það er einmitt af þeim ástæðum sem þú kemur inn á sem ég segi að Íslendingum hefði betur borðið gæfa til að sameina kosti steypu og torfs. Þá hefði fólk haft aðgang að byggingarefni hvar sem er og erfiðara hefði verið fyrir reglugerðariðnaðinn að koma í veg fyrir að fólk kæmi sér upp þaki yfir höfuðið.
Pétur Örn; ég átti ekki von á öðru frá þér en amen þó svo að pistillinn væri sveitalega snubbóttur, þú þekkir alsnægtir sveitarinnar það vel.
Magnús Sigurðsson, 24.8.2022 kl. 13:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.