21.10.2022 | 20:39
Jökuldæla og Gunnhildur
Þjóðsagan getur farið krókótta leið. Oft má ætla að hún sé upprunnin í munnmælum sem hafa ferðast á milli manna áður en þau voru skráð, svona nokkurskonar kjaftasaga, og því óáreiðanlegri heimild en skráð samtímasaga. Svo má velta vöngum yfir því hvað medían, sem færir okkur vísindi og pólitík dagsins, - samfélagsmiðlar osfv, eru áreiðanleg þegar fram líða stundir.
Síðuhafi hefur bent á að hið viðtekna er oft tískubóla blásin af út áhrifavöldum líkt og hver annar pólitískur áróður eða vísindi, -sem eru eitt í dag og annað á morgun. Þjóðsagan, geti aftur á móti verið fínpússuð, menntuð og fullreynd sannindi að aflokinni rýni fjöldans áður en hún er sett í rit.
Kristian Kålund ferðaðist um landið 1872-1874 minnist á Íslendingasagna bókina Jökuldælu í ferðabók sinni, en þar segir: Jökuldalur og bæir þar koma aðeins stöku sinnum fyrir í sögunum. Reyndar er mikið talað um Jökuldælu, sem þar á að hafa gerst, en virðist þó glötuð að undanteknum fáeinum brotum. (Íslenskir sögustaðir IV bindi bls 16 - Bidrag til historisk-topografisk Beskrivelse af Island)
Í bókinni Að vestan þjóðsögur og sagnir, sem í eru þjóðsögur sem skráðar eru af brottfluttum Íslendingum í vesturheimi, er smáþáttur eftir Guðmund Jónsson sem heitir Sagnir úr Hróarstungu. Þar hefur Guðmundur eftir sögu úr Hróarstungu sem hann telur vera úr Jökuldælu. Í formála sögunnar segir hann svo:
"Fáar sögur eru til frá fornöld af Austfjörðum. Vera má, að þar hafi færra gerst sögulega en í öðrum landshlutum, en hitt er þó öllu líklegra, að þær sögur séu nú margar glataðar. Svo er um margar sögur frá fornöld, sem vissa er fyrir, að voru til á 17. og 18. öld. Þar á meðal er Jökuldæla, sem víst er, að til var á skinnhandriti á 18. öld. Ég heyrði nokkrar sagnir um það, þegar ég var ungur, að gamlir menn höfðu afspurn af þeirri bók í æsku. Sigurður prófastur Gunnarsson á Hallormsstað getur þess, í Safni til sögu Íslands (að mig minnir), að hann hafi frétt um þá bók, en hún hafi verið týnd fyrir sína daga. Þó mun hafa verið til brot af henni lengur, þótt fáir vissu, og er þessi sögn því til sönnunar:
-Sigurður Sigurðsson frá Fögruhlíð sagði mér það síðasta, sem ég hef frétt af bók þessari. Sigurður var vel greindur maður og gætinn og manna færastur að lesa settletur og gömul handrit.
Hann kvaðst hafa farið upp að Arnórsstöðum á Jökuldal nálægt 1880, í kynnisför til bóndans þar, Jóns Kjartanssonar, sem áður hafði verið nágranni hans. Þegar hann kom þangað, var Jón bóndi ekki heima. Hann kvaðst hafa farið að leita þar í bókarusli sér til skemmtunar, en þar rakst hann á skinnbókarræfil, mig minnir aðeins tvö blöð. Þau voru svo máð, að þau voru lítt læsileg. Þó komst hann að þeirri niðurstöðu, að þau væru úr Jökuldælu. Ekki kvaðst hann hafa getað náð samhengi úr efni þeirra, því þetta var í skammdegi og dauf birta. Þó kvaðst hann hyggja, að hann hefði getað lesið þau að mestu leyti við góða dagsbirtu. Enginn þar á bæ sagði hann, vissi hvað á blöðum þessum stóð. Þau höfðu þvælst þar lengi í öðru bókarusli. Næsta vetur heimsótti Sigurður Jón bónda og spurði eftir blöðunum, en þau voru þá glötuð.
Þegar ég var um tvítugsaldur, kynntist ég gömlum manni, sem Magnús hét Einarsson. Hann var greindur maður, bókvinur mikill og fróður um margt, en dulur í skapi. Sagði hann mér margt í fornum fræðum, sem ég sé nú eftir, að ég skrifaði ekki upp. En ég vona, að Sigfús þjóðsagnahöfundur hafi notað betur þann fróðleik, því að ég vissi, að þeir voru kunnugir. Meðal annars sagði Magnús mér, að hann hefði á yngri árum sínum átt tal við gamlan mann, sem hefði heyrt lesna bók þá, er Jökuldæla var á, en ekki kunni hann rétt samhengi úr efni hennar. En hann sagði, að á sömu bók hefði verið þáttur af bræðrum þrem í Hróarstungu. Efnið úr þeim þætti hefði hann numið, og er það þannig:" (Að Vestan þjóðsögur og sagnir I bindi bls 10-11)
Síðan hefur Guðmundur eftir söguna af þeim Gunnhildarsonum, Galta, Geira og Nef-Birni og er hún nokkurn vegin samhljóma sögu í Gunnhildar-þætti í þjóðsagnasafni Sigfúsar Sigfússonar að öðru leiti en Sleðbrjóts hlutanum, sem gerist ekki eftir að þeir bræður eru allir, heldur áður, og er þar í aðdraganda ósamlyndis þeirra.
Þannig hefst Gunnhildar þáttur hjá Sigfúsi í hlutanum Fornmenn: Svo hafa gamlir menn sagt er kváðust hafa séð Jökuldæla sögu að í henni hafi verið allir þessir þættir: af Hákoni og Skjöldólfi, af Böðvari og Gull-Birni og enda Hauki; má vera að hann sé sá sami og sá er byggði Haukstaði á Dalnum. Ennfremur fylgja hér þættir er menn segja úr henni.
Þorsteinn kleggi nam fyrstur Húsavík; segir Landnámabók, og bjó þar, hans son var Án, er Húsvíkingar eru frá komnir.
Gunnhildur hét kona ein margfróð; hún átti bræður tvo, að sagan segir, og hétu hvortveggja Herjólfur. Gunnhildur segja munnmæli að kæmi skipi sínu í Loðmundarfjörð og við hana sé kenndur Gunnhildartindur þar. Gunnhildur var þá ekkja og átti þrjá sonu, Galta, Geira og Björn, er kallaður var Nef-Björn. Allir voru þeir bræður og synir Gunnhildar miklir fyrir sér og svo hún sjálf og mjög forn í skapi. Galti var fyrir bræðrum sínum um frækileik. Gunnhildur byggði fremst í Húsavík þar sem nú heitir Gunnhildarsel.
Herjólfur eldri nam næstu vík fyrir norðan sem við hann er kennd og heitir Herjólfsvík. Stóð bær hans undir Stórafjalli. Herjólfur annar fór upp í Hérað; segja sumir menn hann byggi að Glúmstöðum og þó fleiri Egilsstöðum í Fljótsdal. (Íslenskar þjóðsögur og sagnir VI bls 61-Sigfús Sigfússon)
Síðan heldur Sigfús áfram að segja af þeim Gunnhildi bræðrum hennar og sonum. Herjólfur eldri í Herjólfsvík og Gunnhildur elduðu grátt silfur svo að Gunnhildur flutti upp í Hérað ásamt sonum sínum, yst í Hróarstungu þar sem Tungan mætir Húsey. Þar eru bæjarnöfnin, Gunnhildargerði, Nef-Bjarnarstaðir, Geirastaðir og Galtastaðir.
Þátturinn um Gunnhildi endar á að segja frá hörmulegum endalokum sona Gunnhildar þar sem þeir börðust við hvern annan og drápu, að endingu dó Gunnhildur úr harmi. Sagan sem Guðmundur Jónsson í vesturheimi kemur með Að Vestan er svo til samhljóða Sigfúsi, en hún er einungis um endalok þeirra mæðgina auk þessa að gefa skýringu á bæjarnafni í Jökulsárhlíð. Þar er sá blæbrigða munur á þeim Guðmundi og Sigfúsi, hvort atburðir þar gerist fyrir eða eftir dauða þeirra Gunnhildarsona.
Það má allt eins ætla að fjöldi munnmæla í þjóðsögum frá landnámsöld séu komnar úr tíndum fornritum á við Jökuldælu, sem hafa að geyma skýringar á því hvernig ýmis örnefni urðu til og eins ýtarlegri frásagnir af fornmönnum.
Mér komu þjóðsögurnar til hugar um daginn þegar ég sá hve tímasetningar fornleifauppgraftarins í Firði á Seyðisfirði eru í takt við sagnir Sigfúsar Sigfússonar af Bjólfi sem nam Seyðisfjörð samkvæmt Landnámu. Um Bjólf er lítið í Landnámu og eingin íslendingasaga um hvenær og hvar nákvæmlega hann nam land í Seyðisfirði.
Sigfús Sigfússon getur sér þess til í Þjóðsagnasafni sínu að til hafa verið skráð saga af Seyðfirðingum þegar hann skrifar niður þau munnmæli sem til eru um Bjólf og landnámsjörð hans Fjörð, -segir þar að Bjólfur hafi komið seint á landnámstíð. Nú hefur fornleifauppgröftur í Firði tímasett upphaf byggðar í Firði á Seyðisfirði í kringum árið 930, -í lok landnáms.
Flokkur: Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt s.d. kl. 20:55 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.