Vestfjarða-Grímur og Vatnajökull

Nú fer hamfarahlýnunin með himinskautum og trúboðar kolefniskirkjunnar skreyta  himinhvelfinguna þotuslóðum. Norðurslóðir eiga að vera til marks um hvað er í vændum, -hamfarabráðnun jökla mun drekkja mankyninu. Gott ef ekki verður fleygt dánarvottorði í Ok einn ganginn enn, um leið og liðið þýtur hjá, sem vit kann að hafa fyrir öðrum, með kolefnissporin á eftir sér og tvær litlar Síberíu lerki plöntur til framtíðar hamfaraóræktar og afláts eigin óskapnaðar.

Dálæti íslenskra fyrirmenna á því að vera málsmetandi í þessum söfnuði verður að teljast einkennilegt, ef litið er til þess að enn hefur hitastig landsins bláa ekki náð því sem það var um landnám. Hjákátlegra er að verða vitni að því að litla ísöld sé heiðruð með hinu rétta hitastigi, -þeirra sem eiga að vita að þá riðu yfir einhverjar mestu hörmungar Íslandssögunnar.

Síðuhafi setti hér á bloggið nokkur orð um Öræfi, Litlahérað og Klofajökul fyrir nokkrum  dögum. Þau voru að mestu fengin úr Íslenskir sögustaðir, reisu bók Kristian Kålund, og greinarskrifum Sr Sigurðar Gunnarssonar prófasts á Hallormastað í Norðanfara. Báðir þessir menn skráðu hjá sér gamlar sagnir og leituðu eftir heimildum þeim til staðfestu s.s. úr máldögum kirkna og jarðatölum.

Núna ætla ég að benda á þjóðsöguna um Vestfjarða- Grím, sögu sem vitað er að var til í munnmælum á 16. öld og ekki fyrr en á þeirri 19. sem hún var skráð. Þjóðsögur eru með því marki brenndar að auðveldlega má rengja þær vegna ævintýralegs söguþráðar, eru oft um álfa, drauga og forynjur. En að sama skapi fara þær oftast rétt með staðhætti og geyma miklar upplýsingar um fyrri tíma.

Sagan af Vestfjarða-Grím segir frá manni sem fæddist á Skriðu (Skriðuklaustri) í Fljótsdal. Hann var sonur Sigurðar og Helgu, sem létu hann frá sér til bróður Sigurðar sem bjó vestur á fjörðum, og þar ólst hann upp. Sigurður lenti í stælum við Indriða höfðingja á Eiðum út af belju með þeim afleiðingum að Indriði drap Sigurð.

Grímur fór austur á land, þá fullorðinn maður, til að hefna föður síns og drap Indriða á Eiðum. Hann varð eftirlýstur sakamaður og þurfti að leynast víða um Hérað, m.a. er Grímstorfan í Hafrafellinu í Fellum nefnd eftir þessum Grími. Eins er talið að hann hafi leynst um tíma í helli, sem var á bak við Fardagafoss í Fjarðarheiðinni ofan við Egilsstaði, en fyrir munnann á þeim helli hrundi fyrir nokkrum árum.

Grímur fór síðan, að ráði móður sinnar, til konu sem leyndi honum, sennilega í tjaldi fyrir ofan Krossavík í Vopnafirði, þó sagan geti ekki um hvar. Sú kona ráðlagði honum að fara suður á fjöll og leynast um veturinn á stað þar sem nóg væri af fiski í vötnum og búsældarlegt um að litast. Þegar voraði ráðlagði hún honum að taka sér far með skipi við Ingólfshöfða og fara úr landi, -eða eins og þjóðsagan orðar það:

Þess á milli sótti Helgi (bróðir Indriða) alstaðar eftir Grími og setti öll brögð til að ná honum, frétti og um síðir að hann mundi dyljast hjá fyrrnefndri konu. Kona þessi var berdreymin og forspá; sagði hún Grími eitthvert sinn að Helgi mundi þar innan skamms koma og vísaði honum að vötnum nokkrum í landsuður, hvar hann sig af veiðiskap nært gæti þar til skip einhver af hafi kæmi undir Ingólfshöfða; ráðlagði hún honum þar að leita utanferðar, en voga ekki til langdvala hér í landi.

Grímur fór alfarið að ráðum konunnar, en við vötnin bjó risi í helli ásamt dóttur sinni. Grímur drap risann og bjó með dótturina hjá sér um veturinn. Ferðir Gríms eru rökréttar, sé farið til vatnanna, sem hann bjó við, -en þau eru nú á kafi í snjó, og ef ekki væri fyrir þjóðsöguna hefði sennilega engin vitað af þessum vötnum í fleiri hundruð ár þar til nú á dögum nútíma vísindanna.

Þannig lýsir þjóðsagan þessum stað á dögum Vestfjarðar-Gríms: 

Grímur fór sem honum var ráðlagt til vatnanna og gjörði sér þar skála, laufskála úr skógi er þar var nógur, og tók að veiða í vötnum.

Þessi þjóðsaga er hárnákvæmt tímasett, þó svo að ekki sé hægt að rekja munnmæli aftar en til 16. aldar. Grímur eignaðist nefnilega velgerðar mann í Noregi sem var Haraldur konungur harðráði Sigurðsson (1015-1066) sá sem lét lífið í orrustunni við nafna sinn við Stamford Bridge á Englandi, og var afi Þóru Magnúsdóttir í Odda á Rangárvöllum. Faðir Þóru var Magnús berfættur, stundum kallaður síðasti víkingakonungurinn. Sennilega eiga flestir Íslendingar nú ætt að rekja til Þóru í Odda, þannig að Haraldur harðráði hefur óbeint átt stað í lífi fleiri hér á landi en Vestfjarða-Gríms.

Grímur fór utan sem til var ætlað og komu til Noregs; þá var konungur Haraldur Sigurðsson; með honum fékk Grímur sér vistar um veturinn. Að jólum hélt konungur veislu ríkmannlega; bjó Grímur sig þá því fyrrtéða belti. Strax kom á hann ógleði og þráði hann jafnan risans dóttur. Þetta fann konungur og spurði hann hverju gegndi, sagði hann þá konungi allt um sambúð þeirra risadóttur.

Að vori gaf konungur honum skip á hverju hann til Íslands fara kynni til að sækja unnustu sína. Grímur hélt á haf og kom við Ingólfshöfða, gekk á land og fór til Grímsvatna (svo hétu þau síðan Grímur hafði þar vistum verið). Þar við vötnin fann Grímur risans dóttur og hjá henni sveinbarn er hún alið hafði meðan Grímur var í burtu og kenndi honum það nú.

Það varð fagnaðarfundur og bað Grímur hana með sér að fara; tóku þau svo barnið með sér og fé það allt er úr hellinum hafði áður í skálann flutt verið og fóru á burt. Þessu næst héldu þau til skips, létu í haf og náðu Noregi; tók risans dóttir þar kristna trú og skírn með barni þeirra.

Nokkrum vetrum síðar fýstist Grímur að fara út til Íslands og staðnæmast þar. Bjóst hann því burt úr Noregi með konu sína, risans dóttur, og kom norðan að Íslandi að eyju einni; þar sté Grímur á land og bar af skipi; bjuggu þá í eyjunni risar einir eður bjargbúar; stökkti Grímur þeim á burt sumum, en drap suma og hreinsaði svo eyjuna; síðan setti hann þar byggð sína og juku þau risadóttir þar ætt þeirra.

Eyin liggur út frá Eyjafirði og heitir síðan Grímsey; bjuggu ættmenn Gríms þar eftir hann og lýkur svo þessari frásögn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Skyldi okkar ástsæli leiðtogi Katrín Jong Un vita þetta?

Guðjón E. Hreinberg, 13.10.2022 kl. 22:00

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ég er ekki viss um hvort hún les nokkurn tíma þjóðsögur Guðjón, satt að segja efast ég um það ef eitthvað er að marka kolefnissporin.

Magnús Sigurðsson, 14.10.2022 kl. 05:54

3 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Thakka godan pistil, eins og thin er von og visa Magnus. Einnig thennan fra um daginn um Klofajokul, Litlaherad og Oraefin. Frodleg lesning allt saman og visbending um ad tho her hlyni litid eitt, tharf thad ekki ad hafa neinar hamfarir i for med ser, tho their sem allt vita betur en allir adrir reyni ad telja okkur tru um thad. Hvarflar af og til ad manni ad eitthvad af thessu lidi hafi hreinlega verid daleitt a einhverri umhverfishamfararadstefnunni, sem flogid var til i eiturspuandi loftafari af einhverri sortinni. Allavega hljomar thessi kor eins og hann hafi allur verid samhaefdur af roggsomum stjornanda, hver sem hann nu er.

 Godar stundir, med kvedju ad sunnan.  

Halldór Egill Guðnason, 14.10.2022 kl. 07:16

4 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Fjölærismenn geta ávallt lýst samtíma sínum skilji þeir þjóðsögur, ævintýri og dulheima.

Guðjón E. Hreinberg, 14.10.2022 kl. 10:32

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Var eitt sinn íslaus dalur í miðjum Vatnajökli? - Helgi Björnsson jöklafræðingur

11.11.2014:

"Nú er áætlað að heildarútblástur allra eldfjalla á jörðu sé um 300 milljón tonn af CO2 á ári (0,3 gígatonn). Gosið í Holuhrauni er því búið að losa meir en eitt prósent af árlegum skammti eldfjallanna.

Þá má velta fyrir sér hvort þetta sé mikið magn í samhengi við losun mannkyns af koltvíildi vegna bruna á olíu, kolum og jarðgasi.

Mannkynið losar um 35 gígatonn af CO2 á hverju ári. Til samanburðar losa eldfjöllin aðeins um eitt prósent af losun mannsins á ári hverju.

Þetta er vel þekkt staðreynd en samt sem áður koma stjórnmálamenn og sumir fjölmiðlar oft fram með alvitlausar staðhæfingar um að eldgos dæli út miklu meira magni af koldíildi en mannkynið."

Menga eldfjöll meira en menn? - Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur

16.5.2013:

"Niðurstöður nýrrar könnunar á þúsundum rannsókna sem gerðar voru á árunum 1991-2011 sýna yfirgnæfandi og vaxandi samstöðu meðal vísindamanna um að mannkynið beri langmesta ábyrgð á hlýnun jarðar.

Rúmlega 97% rannsókna á tímabilinu komust að þessari niðurstöðu."

"Vísindamenn frá Bandaríkjunum, Ástralíu og Kanada skoðuðu yfir fjögur þúsund vísindarannsóknir sem gerðar höfðu verið 1991-2011, þar sem afstaða var tekin til þess hvort að mannkynið bæri ábyrgð á hnatthlýnun.

Rúmlega tíu þúsund vísindamenn voru skrifaðir fyrir rannsóknunum og niðurstöðurnar voru skýrar, yfir 97% sögðu að hnatthlýnun væri af mannavöldum.

Þá fór fjölda þeirra, sem töldu aðrar útskýringar líklegri, fækkandi eftir því sem leið á tímabilið sem var til skoðunar."

Nær allir vísindamenn sammála um orsakir hnatthlýnunar

Og í rauninni skiptir engu máli hverju menn trúa eða trúa ekki í þessum efnum, því jarðefnaeldsneyti er ekki ótakmörkuð auðlind, ólíkt til að mynda vindorku, sem meira en nóg er til af í heiminum, einnig hér á Íslandi.

Þegar skipta þarf um vindmyllur eru þær gömlu einfaldlega felldar og nýjar reistar í staðinn, rétt eins og gert er í Þykkvabænum.

Flestar stórar vatnsaflsvirkjanir hér á Íslandi eru reistar við jökulár, þannig að miðlunarlónin fyllast af jökulleir og þessar virkjanir eru því langt frá því að vera afturkræfar.

Best er að reisa vindmyllur hér á vindbörðum stöðum sem fáir sjá, enda landrýmið nóg og Ísland er í 239. sæti í heiminum hvað snertir þéttbýli landa, með tæplega fjóra íbúa á hvern ferkílómetra.

Og á hálendi Íslands er hægt að ganga í marga daga án þess að sjá nokkurn mann.

Þar að auki berst ekki óþægilega hátt hljóð frá stórum vindmyllugörðum.

The sound of wind farms - Video

"The number of wind turbines depends on how large the site is." "For a 500 kW wind turbine this means 250 metres apart, and for a 2.5 MW wind turbine it is 410 metres.

You can see from this that you need a lot of available land to host several wind turbines, but provided you have a site with the space, the land between the wind turbines can still be used for farming etc. with effectively zero impact from the wind turbine."

Location and size of wind turbines

Og
hægt er að leggja raflínur í jörð.

Raflínur í jörð - Einfaldlega hagkvæmast

"In 2019, wind power surpassed hydroelectric power as the largest renewable energy source generated in the U.S."

Wind power in the United States

Allt að fimm þúsund sinnum fleiri fuglar drepast í Bandaríkjunum vegna bifreiða en vindmyllna, fimmtíu þúsund fleiri vegna bygginga og 185 þúsund fleiri vegna katta.

En nú berjast sumir Mörlendingar við vindmyllur, eins og Don Kíkóti.

Environmental impact of wind power

Þorsteinn Briem, 14.10.2022 kl. 16:12

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir innlitið félagar:

Þetta er sennilega alveg rétt hjá þér Halldór, þetta lið hefur einhverstaðar verið hvítskrúbbað á milli eyrnanna, það er alveg blankt nema í að þilja möntrur kolefniskirkjunnar.

Satt segirðu Guðjón, þjóðsagan gefur sýn aftur og fram í tímann líkt og fjölærið, þannig að samtíminn verður nokkuð greinilegur þrátt fyrir möntrur medíunnar.

Þú ert algerlega úti á túni Steini, þetta blogg er um þjóðsögu en ekki einhver út og suður vísindi á víðavangi. 

Magnús Sigurðsson, 14.10.2022 kl. 16:31

7 identicon

Ekki ætla ég að vefengja sannleiksgildi fornra sagna, en það vill nú svo til að "Heimskringlan" nær út fyrir Íslandsstrendur.

Það er sannað að jöklarnir í Himalaia og Alpafjöllum eru á hröðu undanhaldi. Fyrir nokkrum áratugum fannst mannslík í Ölpunum sem við rannsókn kom í ljós að hafði verið hulið jökli í mörg þúsund ár, jökli sem nú er horfinn. Í freðmýrum Síberíu streymir nú upp gas sem var bundið í freranum og þar eru nú að finnast órotnuð hræ dýra sem hafa verið útdauð í þúsundir ára.

Því var spáð fyrir löngu að með hlýnandi loftslagi yrðu öfgar í veðurfari tíðari, með fellibyljum og flóðum annars vegar og hitum og þurrkum hins vegar, þessar spár hafa ræst. Svo hafa beinharðar og síendurteknar mælingar sýnt fram á að hitastigið á jörðinni er að hækka. Þessu fylgir hækkandi sjávarhiti og hækkandi yfirborð sjávar með flóðum á láglendustu og fjölmennustu byggðum jarðarinnar.

Ekki má svo gleyma að vegna aukins CO2 innihalds í hafinu þá er það að súrna, það hefur verið staðfest, m.a. með mælingum  Hafrannsóknastofnunar Íslands. Þessi súrnun getur haft ófyrirsjáanleg áhrif á lífríki þess.

"Oft veldur lítil þúfa þungu hlassi". Margir vísindamenn halda því fram að við ákveðið hitastig verði keðjuverkun, verði þá ekki lengur við hitnunina ráðið. Ekkert veit ég um það en tel að slíkum fullyrðingum skuli ekki tekið með léttúð eða háði.

Hitt er svo annað mál að ef því er haldið fram að Íslendingar eigi að taka sér forystu til að bjarga loftslaginu á jörðinni þá er það bara grín.

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 14.10.2022 kl. 17:49

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Eins og ég sagði við Steina þá er þetta þjóðsaga Hörður. En ég er reyndar einnig á því að nokkuð langt sé í að síðasta heimsendaspáin komi fram.

Sóðaskapurinn sem fylgir sóuninni er sjálfsagt að halda til haga, en að ætla að kolefnisjafna eigin sjálfselsku með orkuskiptum, hamfaraórækt og Carbfix er sóun ofan á sóun, nokkurskonar ljósaperu trix í plastumbúðum.

Ég veit ekki hvort fólk tók eftir því, en það kom fram fyrir nokkrum árum að kolefnissporið eftir fjölskyldubílinn á ársgrundvelli væri álíka og flugsæti frá Keflavík til London, ef forsendur útreikninga  kolefniskirkjunnar voru notaðir á hvort tveggja. 

Það sem ég er að benda á er að kolefnisklerkarnir eru ekki gáfulegri en vegvísir, eða prestur sem vísar veginn, en fer hann ekki sjálfur. Kolefnisjöfnun sem gróðalind eða skattstofn eru hundakúnstir á við aflátsbréf fyrri alda.

Magnús Sigurðsson, 14.10.2022 kl. 18:42

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

31.7.2019:

Bjarni Már Magnússon lagaprófessor við Háskólann í Reykjavík:

"Af túlkunarreglum þjóðaréttar leiðir að skýra verður ákvæði EES-samningsins um frjálst flæði vöru til samræmis við ákvæði hafréttarsamningsins.


Það þýðir að meginreglan um frjálst flæði vöru leiðir ekki til þess að á íslenska ríkinu hvíli skylda til að heimila lagningu sæstrengs."

"Íslenska ríkið getur því ekki orðið skaðabótaskylt af því að synja rétti sem er ekki til staðar. Það er útilokað."

"Réttur Íslands til að heimila eða hafna lagningu sæstrengs inn fyrir landhelgina stend­ur óhagg­aður, hvað sem þriðja orku­pakk­anum eða öðrum ákvæðum EES-samningsins líð­ur."

Sæstrengjasteypa

Þorsteinn Briem, 14.10.2022 kl. 18:56

10 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Magnús og takk fyrir skemmtilegan pistil, jafnvel þó hann sé byggður á þjóðsögu. Það er gott að halda í þær.

Meðan trúboðar loftlagskirkjunnar ferðast um heiminn þverann og endilangan, gjarnan á einkaþotum, meðan trúboðar loftlagskirkjunnar boða að hækkun sjávar muni ná allt að 2 metrum en byggja á sama tíma fimm stjörnu hótel, höfuðstöðvar banka landsmanna og stórt tónlistahús á hafnarbakkanum að ekki sé talað um vilja þeirra til að leggja undir íbúðabyggð lægsta blett borgarlandsins, meðan trúboðar loftlagskirkjunnar keppast við að senda, með tilheyrandi loftlagsmengun, hverja rakettuna af annarri, jafnvel til annarra óbyggilegra hnatta vegna þess að þeir trúa á að jörðin muni verða óbyggileg og fleira má telja, verður ekki sagt að trúboðarnir séu staðfastir í trúnni. Hví ætti þá almenningur að gangast að þeirri trú?

Kveðja af Skaganum

Gunnar Heiðarsson, 14.10.2022 kl. 23:28

11 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þegar þú segir það Gunnar, -þá eru guðirnir geggjaðir.

Magnús Sigurðsson, 15.10.2022 kl. 05:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband