Hvað er hagvöxtur?

Vegna þess hvað hagvöxtur gerir mikið fyrir kaupgetu almennings er talið ásættanlegt að stór hluti upplýsingasamfélagsins inni af hendi vinnu sem engin hefur þörf fyrir. Til þess að hámarka eyðslu almennings þarf frjáls tími jafnframt að vera af passlega skornum skammti, sem geri það að verkum að fólk borgi meira fyrir ímynduð þægindi og hafi minni tíma til að komast upp á lag með að skipuleggja eigin tíma. Þetta heldur m.a. fólki óvirku utan vinnu við að horfa á síma, sjónvarp og auglýsingar á það sem er sagt að því vanti.

Við erum föst í menningu sem hefur verið hönnuð af færustu markaðsfræðingum í að gera okkur þreytt, eftirlátsöm af áreiti, tilbúin til að borga fyrir þægindi og skemmtun, og síðast en ekki síst fyrir það sem hefur ekki það sem þarf til að uppfylla væntingar okkar. Þannig höldum við áfram að vilja það sem við gerum til að geta keypt það sem okkur vantar ekki, vegna þess að okkur finnst eitthvað vanta.

Vestræn hagkerfi neyslunnar hafa þannig verið byggð upp á útspekúleraðan hátt til að búa til fíkn og fullnæga henni með óþarfa. Við eyðum til að hressa okkur upp, til að verðlauna okkur, til að fagna, að fresta vandamálum, að gera okkur meiri í augum náungans og síðast en ekki síst til að draga úr leiðindum. Þú getur rétt ímyndað þér hvernig það myndi leika hagvöxtinn ef við hættum að kaupa það sem okkur vantar ekki og hefur ekkert raunverulegt gildi í lífi okkar til lengri tíma.

Það væri hægt að stytta vinnudaginn, minka við sig húsnæðið (þar með húsnæðislánin) og gera sorphirðuna verkefnalausa. Vandamál myndu fara minnkandi, svo sem offita, sjúkdómar, mengun og spilling, sem eru tilkomin vegna kostnaðarins við að halda uppi hagvexti. Heilbrigðu, hamingjusömu fólki finnst ekki þurfa svo mikið af því sem það hefur ekki, og það þýðir að það kaupir minna af rusli og þarf minn af afþreyingu sem það finnur ekki sjálft.

Vinnumenningin er hagvaxtarins öflugasta tól, þar sem launin gera kleyft að kaupa eitthvað. Flest okkar fara á þann hátt með peninga að því meir sem er þénað því meiru er eytt. Ég er ekki endilega að halda því fram að það verði að forðast vinnu og fara þess í stað út um þúfur í berjamó. En það er hverjum og einum holt að gera sér grein fyrir á hverju hinn heilagi hagvöxtur þrífst og hvort hann sé sá leiðtogi sem við viljum fylgja í þessum heimi.

Það hefur verið lögð í það ómæld vinna að hanna lífstíl sem byggir á því að kaupa það sem vantar ekki fyrir peninga sem ekki verða til fyrr en þú hefur látið frelsi þitt í skiptum, jafnvel ævilangt. Í sem stystu máli er hagvöxtur dagsins í dag;

Mælska meðal manna

um gagnsemi sóunar.

Gröf grafin í sand

neyslu til hagsældar.

Í heljarslóð jarðar,

með orkuskiptum,

hamfaraórækt

og carbfix.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Keynesian hagvöxtur kommúnismans, miðar einmitt að tvennu, að gera fólk sinnulaust og kærulaust, að auka miðstýringu sósíalista ríkisins, á meðan Marxískir kennarar og afþreying gerir fólk snautt eða ónæmt fyrir að gefa lífi sínu merkingu (aðra en þá að fóðra eigin sjálfumlyndi) og þegar slíkt kerfi sem er eins og sníkjudýr sem étur hýsilinn innanfrá hrynur, að gera nákvæmlega það sem Klás Schwab boðaði með "Great Reset" að stroka út framleiðslu, búa til algjör örbirgð en gefa ríkinu alræðisvald yfir öllu frá blóði og huga til alls hins. Með öðrum orðum, það sem við höfum verið alin upp fið síðan 1950 að sé hagsæld, er mölur og ryð en engin hagsæld, en mikið af fallegum tölum innan um flókna texta með löngum orðum.

:)

Guðjón E. Hreinberg, 20.11.2022 kl. 09:28

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrri innleggið, Guðjón. það er víst nokkuð öruggt að hagvöxtur í sýndarveruleika spálíkansins gerir fólk bæði sinnulaust og kærulaust fyrir tilgangi lífshlaupsins.

Öllu komið undir markaðskerfi kommúnismans, jafnvel heilbrigðið sjálft gengur út á hagvöxt, lífsgæði auglýst sem úrbeiningar, bótox og silikon.

Enda flesti orðnir meira og minna transhuman og styttist sjálfsagt í að fólk láti skera af sér hausinn forvarnarskini, -bara spurning hvar Kári staðsetur alsheimer genið.

Magnús Sigurðsson, 20.11.2022 kl. 11:27

3 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Þú ert í raun að lýsa nútímaþrælahaldi, Magnús, og mér finnst þessi pistill sérlega vel skrifaður. Þegar tími fólks fer ekki í að sinna því sem sálin, frelsi andans sem er ræktaður og vill göfgun heldur í að hlaupa á hamstrahjóli gróðarhyggjunnar og fjölmenningarinnar, þá má telja það þrælahald, til hagnaðar þeim ríkustu.

Í þessum pistli er einnig lýst vítahring umhverfismengunar og sýndarnáttúruverndar, sem kostar sífellt meira, tekur sífellt meira pláss í fjölmiðlum, en gerir sífellt minna gagn, eftir því sem fleiri í Kína, Afríku og Suður Ameríku verða auðugri og krefjast meiri lífsþæginda.

Síðan flýgur elítan í þotunum sínum reykspúandi og býr til reglur fyrir almúgann. Evrópa er að minnka á sama tíma, fólksfækkun að eiga sér stað, því konurnar eignast ekki nógu mörg börn til að viðhalda stofninum. Framtíð Evrópu er því greinilega einhverskonar yfirtaka annaðhvort miðausturlanda, Kínverja, Indverja eða annarra sem ekki hafa sömu gildi og hnignandi Vesturlönd.

Sífellt er reynt að telja okkur trú um að ekkert haggi hinu vestræna valdi, en það er ekki svo. Í Silfrinu í dag var meðal annars fjallað um austrænu valdablokkina, Kína, Rússland, Tyrkland, Indland og Íran. Mannfjöldinn þarna er meiri en í Evrópu og þrátt fyrir hnökra má búast við að auðurinn fari í þennan heimshluta í framtíðinni og völdin enn meira.

Hugmyndafræðilega stríðið gegn Rússum er stríð kynjanna í hnotskurn, femínismi Vesturlanda skorar rússneska menningu á hólm, sem er íhaldssamari, og finnur samhljóm með löndunum sem voru nefnd, og eiga sum í basli sjálf.

Í stað þess að berjast við Rússa ættum við að læra af þeim og vinna með þeim, umbera muninn á menningunni þeirra, eða muninn á menningunni í miðausturlöndum og hér.

Forstjóri Fésbókarinnar vill að allir hverfi inní draumaheim sýndarveruleikans, með Metafyrirtækinu, setji á sig sýndarveruleikagleraugu. Bið hefur orðið á því, og fjárfestingin skilað tapi enn. 

Eftir því sem maðurinn fjarlægist náttúruna og guðina verður fallið hærra, og vestræn siðmenning er reyndar fyrir löngu komin til tunglsins frekar en útí móa.

Þökk fyrir góðan pistil, Magnús. 

Ingólfur Sigurðsson, 20.11.2022 kl. 15:40

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrri athugasemdina Ingólfur. Gefandi að fá innihaldsríkar athugasemdir hjá ykkur Guðjóni.

Já ég held að ég geti tekið undir það með þér að hamsturinn á hjólinu fer hamförum þessi misserin, allavega í þeirri menningu sem maður þekkir. Að minnast á sálina er orðið tapú, svoleiðis blogg eru einfaldlega ekki lesin.

En það er einfaldlega svo að hamsturinn á hjólinu sveltir sálina og fólk missir af miklu þegar þannig er, tapar jafnvel af tilgangi lífsins. Svo þegar fólk áttar sig á að eitthvað vantar finnst því það vera of seint það munni falla um koll ef það stígur af færibandinu.

Trúarbrögðin hafa verið á fallandi fæti, enda notuð í gegnum tíðina við að blekkja einlægar sálir. Eins og mátt hefur sjá hérna á blogginu þá hef ég notað hringrás náttúrunnar til að átta mig á tilgangi lífsins, eða fjölærið eins og Guðjón kemst að orði.

Það er þannig að í fjölærinu felst hinn sanni hagvöxtur, árstíðir sem skila sínu þangað sem það á heima, -til næstu árstíðar. Trúin gerir það saman þegar hún höfðar til eilífrar sálar og til eru prestar sem kunna að orða þá list í gegnum kærleikann.

Við höfum oft enga hugmynd um hvað er að gerast Langtíburtukistan nema fyrir medíuna. Þess vegna ættu sem flestir að komast hjá því að að dæma aðra ef þeir hafa ekki staðið í þeirra sporum. Sýndarveruleikinn er ekki fær um að að standa í þeim sporum frekar en trúarbrögðin.

Magnús Sigurðsson, 20.11.2022 kl. 17:01

5 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þetta er alveg meiriháttar grein hjá þér Magnús. Það er kannski rétt að leyfa því að fljóta með að HAGVÖXTUR á vestræna vísu hefur  afar sjaldan leitt af sér kaupmáttaraukningu, sem ætti að skjóta skökku við og það hlýtur að vekja upp  spurningar m það hvort viðmiðin séu ekki eitthvað skökk.  En svo spyrja menn hvernig stendur eiginlega á því að innviðir landsins eru búnir að vera á hraðri NIÐURLEIÐ í STÖÐUGUM HAGVEXTI??????????

Jóhann Elíasson, 20.11.2022 kl. 21:42

6 identicon

Verst að þú veist ekki hvað hagvöxtur er og ruglar honum saman við markaðshagkerfið og ýmislegt annað sem ekkert hefur með hagvöxt að gera. Hagvöxtur er þegar bóndi nær 5 lömbum en hafði áður náð 4 lömbum. Ef bóndinn hefur ráðið til sín vinnumann er þessi hagvöxtur nauðsynlegur til að greiða laun vinnumannsins án þess að tekjur bóndans skerðist. Sama er um þjóðfélög. Fleiri vinnandi hendur kalla á hagvöxt til að ekki þurfi að lækka laun hinna til að greiða þeim sem koma nýir inn. Komi engir eða fáir nýir inn á vinnumarkað má nota hagvöxt til að bæta kjör vinnandi handa en komi of margir nýir inn og ekki er nægur hagvöxtur þá þarf að lækka laun eða/og skerða þjónustu. Þjóðfélög án hagvaxtar geta ekki fjölgað vinnandi höndum án skerðinga og án hagvaxtar batna kjör aldrei. Öll viðbót kallar á hagvöxt, sama hvort það séu hærri laun eða fleiri læknar. En sé fólk sátt við sín kjör, þá þjónustu sem það fær og fjölgar ekkert þá þarf engan hagvöxt.

Hvort einhver kaupir sér fótanuddtæki eða dæli lofti niður í jörð er svo allt annað mál og kemur hagvexti, hvort hægt sé að greiða hjúkrunarfræðingum hærri laun, í sjálfu sér ekkert við.

Vagn (IP-tala skráð) 20.11.2022 kl. 23:15

7 Smámynd: Jóhann Elíasson

"Vagn", þarna tókst þér að opinbera fávisku þína algjörlega........

Jóhann Elíasson, 20.11.2022 kl. 23:27

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hagvöxtur er einfaldlega mælikvarði á veltu fjármagns í hagkerfinu. Þegar peningamagn í umferð er aukið með peningaprentun af hálfu stjórnvalda eða banka eykst hagvöxtur, því meiri peningar elta þá sömu vörur og þjónustu og áður. Það býr til eftirspurnarþrýsting sem veldur því sem við köllum verðbólgu og hún étur upp kaupmátt. Þess vegna er sjaldgæft að hagvöxtur eins og hann er mældur auki kaupmátt almennings.

Athugið að mælikvarði hagvaxtar tekur líka ekkert tillit til gæða þeirrar veltu sem hann mælir. Til dæmis er risastór hluti af þjóðarframleiðslu margra stórra ríkja vegna framleiðslu hergagna. Þar af leiðandi eykst hagvöxtur þeirra þegar brýst út stríð þó það eyði bæði verðmætum og mannslífum í stórum stíl, yfirleitt í öðrum löndum. Þess vegna eykur hagvöxtur ekki lífsgæði mannkyns og ég fyllist áhyggjum í hvert sinn sem stjórnvöld segjast ætla að auka hagvöxt með öllum ráðum.

Eitt ríki er undantekning, konungsveldið Bhutan í Himalaya fjöllum. Í anda búddisma sem er útbreiddur þar hefur hagvexti verið hafnað sem mælikvarða á velgengni samfélagsins og þess í stað eru mælingar á vellíðan og hamingju íbúanna lagðar til grundvallar ákvarðanatöku.

Guðmundur Ásgeirsson, 21.11.2022 kl. 00:39

9 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka ykkur fyrir ágætan hagvöxt á hagvaxtarhugleiðinguna. 

Jóhann; þetta er góður punktur og auðsær þegar þú segir það að hagvöxtur hefur sjaldnast leitt til kaupmáttar aukningar og einkennilegt hvað innviðir grotna í öllum hagvextinum.

Vagn; ég bjóst nú reyndar ekki við að þú næðir að lesa þér þetta til skilnings, en samt,, hagvöxtur er aukin velta og getur þess vegna verið auknir skattar sem fara í súginn. Góð samlíkingin með bóndann og lömbin, berðu hana saman við íslenskan hagvöxt.

Guðmundur; þú undirstrikar þetta með veltu og hagvöxt. Aukin velta sem ekkert skilur eftir annað en tjónið er samt hagvöxtur.

Magnús Sigurðsson, 21.11.2022 kl. 06:28

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Hagvöxtur til frambúðar veltur á því að landnæði er nýtt betur, tæki og tól eru endurnýjuð til hins betra og vinnuafl nýtist betur, annaðhvort með því að láta fólki í té betri tæki eða með því að auka menntun og þar með virði vinnuframlags hvers einstaklings."

Er meiri hagvöxtur alltaf betri? - Katrín Ólafsdóttir kennari í hagfræði við Háskólann í Reykjavík árið 2007 (skömmu fyrir Hrunið hér á Klakanum)

Þorsteinn Briem, 21.11.2022 kl. 07:32

11 identicon

Hagvöxtur er mælikvarði á verðmætasköpun og kemur veltu ekkert við. Svipað og hitamælir mælir hita og kemur vindstyrk ekkert við. Hagvöxtur mælir heldur ekki hamingju eða kjör. Hagvöxtur er forsenda bættra kjara en ekki nein ávísun à bætt kjör. Hagvöxtur hefur heldur ekkert með peningaprentun að gera, nema að lækka þarf virði peninga, gengisfella, ef ekki er hagvöxtur til að fjármagna kjarabætur og það er stundum gert með peningaprentun. Peningaprentun hefur ekki áhrif á hagvöxt frekar en það að klæða sig vel á hitastigið úti. Það hvort einhver kjósi að mæla ekki hagvöxt eða hitastig hefur engin áhrif, hagvöxt þarf áfram til að fjármagna bætt kjör eða fleiri störf og vatn frýs í frosti þó enginn sé mælirinn.

Vagn (IP-tala skráð) 21.11.2022 kl. 12:33

12 Smámynd: Jóhann Elíasson

Vagn, hagvöxtur fjallar um það að VÖXTUR hafi orðið í hagkerfinu milli tímabila og til að finna þetta út VERÐUR VELTAN að koma fram og að halda því fram að peningaprentun hafi EKKI áhrif á hagvöxt, gefur góða mynd af hversu "góða" þekkingu þú hefur á þessum málum...... cool

Jóhann Elíasson, 21.11.2022 kl. 13:21

13 identicon

Hagvöxtur fjallar um breytingar á verðmætasköpun. Hún getur verið neikvæð, engin eða jákvæð. Láttu ekki nafnið á þessari mælingu blekkja þig. Og velta, ásamt peningaprentun, tengist verðmætasköpun ekkert og er ekki liður í útreikningum hagvaxtar.

Vagn (IP-tala skráð) 21.11.2022 kl. 13:50

14 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir þessa speki Steini, að menntun ein og sér auki hagvöxt segir allt sem segja þarf, og allt í lagi að skera niður rollurnar í Svarfvaðadalnum því til svo er mikið af feyki vel menntuðu fólki til að búa til haldgóðar og hagvaxnar upplýsingar um innflutt matvælaöryggi. Einhvern tíma hefði jafnvel ömmu þinni á Grettisgötunni þótt rjóminn þeyta sig sjálfur í ládeyðunni.

Svo máttu velta því fyrir þér Vagn, hversvegna heimili þurfti bara eina fyrirvinnu sem vann á bensínstöð fram undir 1970 og fáheyrt var að fólk skuldaði meira en 20 % í íbúðarhúsnæðinu sínu og þá yfirleitt ekki til lengri tíma. Þetta var reyndar áður en menn fundu upp formúluna fyrir hagvextinum.

Magnús Sigurðsson, 21.11.2022 kl. 14:04

15 Smámynd: Þorsteinn Briem

Amma mín bjó reyndar á Baldursgötunni og var austan af Héraði, bjó á Nefbjarnarstöðum og var kennari í Austurbæjarskólanum. cool

Og að sjálfsögðu hefði hún samþykkt að alls kyns menntun væri mikils virði, bæði fyrir hvern og einn og sérhvert þjóðfélag, til að mynda lestur, skrift, reikningur og iðnmenntun, svo eitthvað sé nefnt, Magnús minn.

Vegna alls kyns menntunar er staðan hér á Klakanum nú allt önnur og betri en hún var þegar amma mín og afi fæddust í torfbæjum skömmu fyrir aldamótin 1900, hún í Berufirði og hann í Svarfaðardal, þar sem bændur hafa nú betri tæki og tól, til að mynda dráttarvélar sem menn hafa menntað sig til að smíða í útlöndum. cool

Þorsteinn Briem, 21.11.2022 kl. 14:47

16 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þarna klikkaði minnið með Baldursgötuna, Steini.

Það er reyndar ekki búsældarlegt á Nef-Bjarnarstöðum í dag þrátt fyrir menntunina og traktorinn.

En værirðu ekki til í að segja mér meira um Berufjörðinn?

Magnús Sigurðsson, 21.11.2022 kl. 15:13

17 identicon

Hagvöxtur er mælieining, eins og metri eða celsíus. Mælieining hefur engin áhrif. Og það hefur verið hagvöxtur frá landnámi. Rétt eins og það var hiti áður en celsíus var fundið upp og lengdir fyrir daga metersins. 

Hvað ætli hafi verið margir bílar á þessu 1970 heimili? Símar og sjónvörp? Fór þessi fjölskilda til útlanda? Var dagvinnan e.t.v. 50 tímar, unnið á laugardögum og sumarfríið vika? Húsnæði byggt í frístundum á nokkrum árum, því aðeins útvaldir fengu lán. 4 krakkar í herbergi, kók á jólum og allt eldað heima. Og tómstundir barna leikur í drullupolli ef enginn félaganna átti bolta?

Vagn (IP-tala skráð) 21.11.2022 kl. 15:20

18 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Havað heldurðu að hafi verið margir hagvextir frá landnámi Vagn? -ef snjallsíminn er það eina sem hefur hagvaxið frá því 1970?

Á mínu bernskuheimili voru árið 1970 tveir bílar einn sími og eitt sjónvarp. Það var, að ég held að ég megi fullyrða, algerlega óþekkt að bílar væru í skuld. Það tók tvö ár að byggja húsið, skemmtilegasti leikvöllur lífs míns, og ég byggi enn.

Aðgangur að drullupollum hefur orðið, ef eitthvað er, dýrmætari með árunum. Utanlandsferðir þekktust ekki en mánaðar sumarfrí og ferðlög um Ísland með 5 barna hóp var ekki ólgengt.

Fæstir hafa efni á Íslandsferð og svo mörgum börnum í dag, ódýrara að telja tíu tær á Tene. Þannig er það nú með blessaðan hagvöxtinn.

Magnús Sigurðsson, 21.11.2022 kl. 16:04

19 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hver og einn mörlenskur bóndi framleiðir nú að sjálfsögðu margfalt meira en þegar slegið var með orfi og ljá fyrir örfáar skepnur á hverjum bæ.

Fjölmargir Mörlendingar dóu úr alls kyns sjúkdómum og hungri en nú erum við Íslendingar 20. mesta fiskveiðiþjóðin í heiminum og neytum sjálfir einungis um 1% af öllum fiskinum sem við veiðum. cool

Amma mín á Baldursgötunni, Guðbjörg Júlíetta Gunnarsdóttir, fæddist árið 1898 á Eiríksstöðum í Berufirði, sem þú ættir nú að þekkja betur en undirritaður, þar sem þú bjóst á Djúpavogi, Magnús minn.

Móðir hennar var Steinunn Grönvold, sem fór úr Berufirði norður í Hróarstungu árið 1900 og var húsfreyja á Nefbjarnarstöðum.

Faðir Steinunnar var Friðrik Grönvold, sem fæddist árið 1834 í Halse á Jótlandi og var verslunarþjónn á Djúpavogi.

Þorsteinn Briem, 21.11.2022 kl. 17:00

20 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þetta var hnjóta um varðandi hana ömmu þína Steini minn, þó svo að ég hafi þvælt henni áður á Grettisgötuna.

Amma hennar Matthildar minnar var líka fædd í Fossárdalnum þó skyldleikinn sé langsóttur.

Sennilega er styttra á milli okkar í Svarfaðardalnum, þar voru æskuslóðir annarrar ömmu minnar. 

Varðandi langaömmu mína í Skriðdalnum, þá var hún úr 16 systkina hóp, átti sjálf 17 börn með tveimur mönnum og vissi ekki sauða sinna tal. Missti að talið var 200 fjár í einu og sama fjárskaðaveðrinu í október skömmu fyrir aldamótin 1900, en var talin eiga 400 á eftir.

Keypti jörðina sem hún bjó á af Skriðuklaustri. Snaraði skjátunum um koll og rúði með suðaklippum, sló með orfi og ljá og dó að endingu í góðri elli á heimili ömmu minnar. Afkomendur hennar eru bókstaflega um allt, þetta er það sem maður kallar hagvöxt, en ekki sóunarregister í skuld.

Magnús Sigurðsson, 21.11.2022 kl. 18:01

21 Smámynd: Þorsteinn Briem

Amma sagði "á vetrin" og "banan" en ekki "banani". cool

Við erum skyldir í sjöunda lið, Magnús minn, en við Matthildur erum skyld í áttunda og níunda lið.

Og ég hef einungis fundið tvo Mörlendinga sem ég er skyldur í tíunda lið.

Afi minn frá Skeiði í Svarfaðardal hét Jón Kristinn Árnason og lifði öldum saman, fæddist árið 1899 og dó árið 2000, ryksugaði ennþá 100 ára gamall stigaganginn í Breiðholtsblokkinni sem hann bjó í og fór aldrei á sjúkrahús fyrr en hann lá banaleguna. cool

Þorsteinn Briem, 21.11.2022 kl. 19:37

22 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Svona var nú fólkið sem kom okkur til hagvaxtar og taldi ekki eftir sér, -hetjur í hverju horni.

Magnús Sigurðsson, 21.11.2022 kl. 21:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband