Íslenaka þjóðin

Nú á tímum alþjóðavæðingar og fjölmenningar, þegar flóttamenn flæða til landsins í skjóli innfluttra alþjóðalaga, eins og enginn sé morgunndagurinn, er ekki úr vegi að líta til þess hvaðan þjóðarsálin kom áður en hún hverfur í alþjóðlegan glóbalinn. Síðasta blogg fékk einstaklega höfðinglegar og áhugaverðar athugasemdir. Þar var athugasemd frá Hauki Árnasyni, og vitnaði hann í þjóðskáldið Einar Benediktsson þar sem hann minnist á bóki Benedikts Gíslasonar frá Hofteigi, Íslenzki bóndinn. Einnig setti Pétur Örn Björnsson inn af höfðingsskap einstakt ljóð, sem mér fannst undirstrika allt, sem segja þurfti um það sem bloggið fjallaði um, -og gott betur.

Það er athygliverður kafli um tvískiptan jarðveg íslensku þjóðarinnar, hvað varðar atgerfi, tungumál og fornbókmenntir, í Íslenzki bóndinn, bók Benedikts Gíslasonar sem kenndi sig við Hofteig á Jökuldal. Þar getur hann sér m.a. til um frumlandnám Íslands á þeim tímum sem það var kallað Thule og hvernig kom til þess að Norðmenn settu hér upp einstakt þjóðveldi, sem er í tísku að kalla smákónga veldi, en er í raun hið íslenska bændaþjóðfélag, sem var einstakt á Evrópska vísu um aldir, -löngu eftir að þjóðveldið féll, jafnvel allt fram á 20. öldina, að tíma þess lýðveldis tók yfir sem nú er á hverfanda hveli.

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -

Og landnámsmennirnir streyma til Íslands af tveimur þjóðum, sem þá eru farnar að blanda blóði saman í heimkynnum annarrar.

Tvær þjóðir af ólíkum slóðum, en virðast eiga vel saman, ólíkar að menningu en vel gerðar að líkams- og sálarfari leggja saman í þetta landnám.

Tvær lífsstefnur, sín með hvorri þjóð, verða samferða til þessa lands. Hin kristna lífskoðun, með samfélagshugsjónir, og hin heiðna lífskoðun, með einstaklingshyggju, íþróttaanda og vopnahreysti, verða samferða til landsins og leggja saman í þjóðarsál, sem óvíst er að hafi átt sinn líka að atgervi, hvorki fyrr né síðar í sögunni. Af hinni fyrri gengur huglæg saga inn í sálarlíf fólksins, og er þögul, og erfist sem slík frá kyni til kyns. Af hinni síðari hlutlæg saga og er hávaðasöm af vopnum og viðburðum, sem einkum einkennast af þessum tveimur þjóðsálarlegu þráðum, og er merkileg og æ uppi. Hvor lífsskoðunin eykur gildi hinnar á vettvangi lífs og sögu.

En hvernig nema svo þessir menn þetta land? Mynda þeir þéttbýli við veiðistöðvarnar, sem svo mikið orð fer af, og ætla mætti að væri einna auðveldast fyrir aðkomið fólk, sem hlýtur í fyrstu að skorta svo margt það, sem til bús og þæginda heyrir, og það hefur vanist í heimkynnum sínum? Því fer fjarri. Það dreifir sér um landið. Það skiptir landinu niður í smá reiti og hver fjölskylda eignast sinn reit. Þetta eru jarðir á Íslandi eins og þær hafa heitið um alla sögu, þessar skákir, sem landnámsmenn námu til eignar sér af þessu nýja engra manna landi, að því að talið er. Hver fjölskylda eignast sína jörð, og nú byrjar búskapurinn á þessum jörðum, svo fjölskyldan geti lifað. Bóndinn ber ábyrgð á þessum búskap, hann verður að standa fyrir viðskiptum við jörðina, svo fjölskyldan geti lifað. Hann ræður þessari jörð óskorað. Í þessum viðskiptum hans við jörðina sjást hæfileikar hans, brýnast hæfileikar hans; einn, sjálfráður notar hann hæfileika sína í viðskiptum við sína eigin jörð, og kemur ekkert annað við, meðan hann er látinn óáreittur.

Þjóðfélagsleg vandamál steðja ekki að honum, þjóðfélagsskyldur hans eru bundnar við afmarkaðan ætthring, það sem þær ná til út fyrir heimilið.

Jörðinni sinni gefur hann nafn, og oftast verður það hans eigin heiti, eða nafnið festist á jörð hans af hans heiti í þessum þröngu samskiptaháttum. Hann er einkenndur af nafni sínu og nafn hans flyst á heimkynni hans. Önnur koma af einkennum lands, ám, hólum, holtum, mýrum, skógum og þess háttar auðkennum, en hér um bil öll verða þau hlutlæg. Landið verður lifandi af heitum, sem öll eru gefin af hlutlægi á málfræðilega vísu. Það er ekkert fjall svo hvítt eða sindrandi af björtum bergtegundum, að það heiti Bjartfjall, en af sterku litareinkenni heitir Bláfjall, það er hér um bil hlutlægt orð.

Mörg þessi heiti verða listræn á málmynda- og hugmyndavísu, og bera fólkinu góða sögu um gáfur og fegurðarskyn.

Og nú er Íslandi skipt niður í jarðir, fram til innstu dala, út til ystu nesja. Hvergi er þorp eða borg. Landið er allt jarðir, hverri jörð ræður bóndi. Þjóðin er bændaþjóð, alveg óskorað. Það er engin stéttarskipting til, bara verkaskipting á heimilunum. Það kemur aldrei konungur í þetta land. Hver bóndi er sinn eigin konungur, hver jörð ríki hans, heimilisfólkið þegnar hans. Hann þarf að vera meira. Hann þarf að vera það, sem skáldbóndinn sagði um sjálfan sig á nítjándu öld:

Löngum var ég læknir minn,

lögfræðingur, prestur,

smiður, kóngur, kennarinn,

kerra plógur hestur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Loftsson

Góð grein og vel skrifuð.

Birgir Loftsson, 3.12.2022 kl. 11:05

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir Birgir. Minn hlutur er reyndar sára lítill, þeir eiga kannski meiri heiður af henni Haukur og Pétur Örn, -og síðast og ekki síst Benedikt Gíslason frá Hofteigi.

Magnús Sigurðsson, 3.12.2022 kl. 11:22

3 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Þjóðveldið var stofnað af Herúlum en það var tengt við Gulaþing, sem einnig var tengt Herúlum. Þjóðveldið hélt velli allt til 1662, þegar það var lagt niður af langöfum Fjölnismanna sem stofnsettu hér Danskt forsetaríki í stíl konungsríkisins sem þeir tilbáðu.

Íslenska Þjóðveldið er fyrsta og eina lýðveldi mannssögunnar sem ekki fæddist í borg, og sameinaði allt að 39 sjálfstæð héruð undir einn lagasið; einstakur viðburður í þröngsýnum mannshuganum.

Auk þessa er Þjóðveldið okkar einn þriggja merkustu viðburuða mannsandans: Hér komu saman hópar af fimm innflytjendaþjóðum og sameinuðust um að bæði stofna þjóðríki og fæða af sér þjóð, með frumspekilegri samræðu.

Annar atburður er þegar heimspekingurinn og spámaðurinn Móse kynnti Guðdómlega sáttmálann, lagagrunn og uppskrift bæði að þjóð og þjóðríki (fyrir 3334 árum) sem enn í dag er langt á undan samtíðinni hvað varðar heimspekilega, lögspekilega og rættlætislega hugsun, sérstaklega sé tekið mið af því hvernig ríki og þjóðir voru myndaðar á þeim tíma (og enn í dag).

Loks þriðji atburðurinn, þegar fáeinir frímúrarar af aðalsættum (annars og þriðja lávarðasona og því arflausir), reyndu að leika eftir sambærilegt atvik árin 1776 til 1786 (en það hefur verið viðurkennt að hluti þeirra hugmynda voru lánaðar frá Þjóðveldi fimm Iroqois þjóða sem höfðu stofnað sitt þjóðveldi undir áhrifum frá Herúlunum sem byggðu níu borgir í Hellulandi (landi gyðjunnar Hel; níu heimar í svo mikilli fjarlægð frá Skandinavíu að farir þú þangað snýru ekki til baka).

Þjóðveldið er vanmetið, og það er rík ástæða fyrir að landvættirnir hafa verndað það nú í tólf aldir og að fjallkonan hvatti til endurreisnar þess sumarið 2012 (sem var gert ári síðar).

:)

Guðjón E. Hreinberg, 5.12.2022 kl. 04:22

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir þessa athugasemd Guðjón, gott að fá hana frá þér, sem hefur kynnt þér þjóðveldið, af þeim sem annað borð tjá sig um það, einna best.

Ég hef verið að lesa bók Benedikts Gíslasonar frá Hofteigi, Íslenski bóndinn, eftir ábendingu Hauks Árnasonar og get ekki betur séð en hann komist nokkurn vegið að sömu niðurstöðu og þú, um upphaf og endi þjóðveldisins.

Að vísu tilgreinir hann einungis þjóðir komnar frá tveimur svæðum, Kelta af Suðureyjum og Norðmenn, en við vitum jú að þeir sem komu voru ekki bara Norðmenn þeir voru Herúlar sem sóttu sín lög á Gulaþing.

Hvernig myndir þú skilgreina þessar fimm þjóðir sem settu upp þetta stórmerkilega þjóðveldi hér á Íslandi?

Magnús Sigurðsson, 5.12.2022 kl. 06:12

5 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Kvenir (síðar Norðmenn) og Herúlar (aðfluttir norðmenn (sjá Barða Guðmundsson), Austmenn (Svíar og Gotar), Danir, Suðureyingar (Hebrides, Shetland, Isle of Man, Orkney, Hálendingar (Pictar)), Írar (Keltar), ... hm, fleiri en fimm. Svo má ekki gleyma svarthærða brúneygða hörundsdökka Hrafnafólkinu sem fyrir var á Vestfjörðum og falið var í sögunni um Flóka. Hellingur af fólki sem var hér frá 700 til 930 þegar það breyttist allt í Þjóðveldinga.

Guðjón E. Hreinberg, 6.12.2022 kl. 08:18

6 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Gleymdi að minnast á að Hjaltlendingar (Shetland) og Möneyingar (Isle of Man) áttu sambærilegt Alþingi og við, og að setning Náls á Bergþórshvoli, "land skal með lögum byggja en eigi ólögum eyða" er í raun komin frá Hjaltlandsþingi. Þjóðveldið á sér dýpri og merkari rætur en frímúrar heimselítunnar vilja segja okkur frá. Ekki má gleyma því að Austur-Herúlar sem urðu viðskila við Vestur-Herúla eftir veru "okkar" á Krím-Donbass-Kákasus svæðinu 350-500 AD, fóru í gegnum Fergana dalinn alla leið til Mongólíu s.s. sagan um Gráa Úlfinn og Hvítu hindina staðfestir (en Temujin síðar Genghis var bæði bláeygður og rauðhærður), og ekki gleymda Heljarskinns bræðrunum sem staðfest er að voru Austur-Herúlar.

Ekki koma mér í gang :) get skrifað um þetta í marga daga.

Guðjón E. Hreinberg, 6.12.2022 kl. 08:22

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir þetta góða svar Guðjón.

Hann kemur inn þá það Benedikt Gíslason í sinni stórmerkilegu bók Íslenzki bóndinn, að goðafræði heiðninnar sé uppruninn á þeim slóðum sem þú nefnir og hafi flust til Norðurlanda, eins og lesa má hjá Snorra. Norræna goðafræðin  eigi sér samsvörun í goðafræði Grikkja og þaðan sé einstaklingshyggjan og íþróttaandinn kominn.

Þið Benedikt eruð nokkurn veginn á sömu slóðum við hina marfrægu Vanakvísl, þess ber þó að geta að Benedikt minnist hvergi á Herúla enda voru þeir lítt notað hugtak 1950.

Keltnesku kristnu áhrifin eru ekki síður áhugaverður þáttur í Þjóðveldinu, í raun dularfyllri. Mér minnir að ég hafi lesið það einhverstaðar, kannski í Brislingameni Freyju, að Keltarnir og Herúlarnir hafi í upphafi verið að nokkru sama fólkið. Herúlarnir fóru norður Garðaríki og Evrópu og blönduðust ýmsum þjóðum.

Keltarnir yfirgáfu Svartahafið í suður og síðar Eyjahafið, þess vegna séu bæði til Iona á Suðureyjum Skotlands og í Gríska Eyjahafinu. Hluti af þessu fólki hafi verið Karþagó menn sem yfirgáfu Miðjarðarhafið með viðkomu í Cadiz og Celta á Spáni áður en þeir héldu til Írlands og Skotlands, án þess að farið sé út í fílósóferingar um Írland hið mikla.

Þetta fólk hafi fundið samhljóm á Bretlandseyjum og haldið til Íslands til að stofna Þjóðveldi. Nokkurn veginn sama þjóðin búin að koma víða við á mörg hundruð ára tímabili, allavega átti þetta fólk samhljóm í þjóðfélagslegum skoðunum. Adam Rutherford vildi meina að Íslendingar væru hreinasta afbrigðið, sem til væri í veröldinni, af 12. ættkvísl Ísraels, -þ.e. Benjamínítar.

Vissulega var Ísland numið fyrr en Landnáma nákvæmlega um getur. Benedikt segir í Íslenzki bóndinn að Suðureyjar hefðu aldrei hlotið það nafn nyrst í Bretlandseyjum nema til væru Norðureyjar sem hann giskar á að hafi t.d. verið eyjarnar þar fyrir norðan til Færeyja og jafnvel allt að hinu nafntogaða Thule.

Magnús Sigurðsson, 6.12.2022 kl. 13:31

8 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Takk fyrir þetta. Freysteinn Sigurðsson gerði sumum hugmyndum um Herúla ágæt skil, og því miður var hann látinn þegar ég komst að því og missti af að geta rætt við hann. Eins og ljóst er, hef ég gruflað dálítið í þessu, en það var í raun Salvatore Torrini sem kom mér á sporið, því ég hélt (þegar ég ræddi við hann fyrst) að þessi "kenning" eða "útskýring" væri séríslensk, en hann útskýrði fyrir mér að hann hefði lesið helling um þetta m.a. í Ítölskum bókum, og hann nánast sannaði fyrir mér að Feneyjar hefðu fyrst verið byggðar og nefndar af Herulum þeim sem fylgdu Gotum inn á Ítalíuskagann milli 450 og 550.

Því miður hef ég klofið mig dálítið frá helstu hugmyndum manna um Herúla og hafna alfarið að þeir eigi eitthvað sameiginlegt með Keltum. Þess verður þó að geta að Íslendingar eiga ekkert í þessu, né heldur Dönsku "Herulene" hópurinn, heldur nær þetta mun dýpra. Ég ræddi talsvert um þessi mál í ensku myndskeiðunum mínum fyrir fáeinum árum, því Herúlagenið er dreift víða í heiminu og ég vildi veiða hvort fleiri hefðu vakið genið, og komst að því að svo er. T.d eru eru mörg herúlasystkini á beltinu sem liggur frá Feneyjum austur til Kákasus sem eru að vekja þetta.

En ég verð að hætta hér :) Sem fyrr segir, maður getur gleymt sér í þessu heilu dagana.

Tengill í efni Freysteins:
https://www.youtube.com/watch?v=fSiXHAi7qRY

Guðjón E. Hreinberg, 7.12.2022 kl. 03:24

9 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir Guðjón.

Magnús Sigurðsson, 7.12.2022 kl. 06:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband