Skaðaveður í Skriðdal

Fyrsta dagur október mánaðar þetta ár var svo tilbreytingarlaus, að ég man ekkert, hvað þá gerðist, ekki einu sinni hvernig veðrið var þennan dag. En 2. október var yndislega gott veður, logn og hægt skýjarek um loftið, og í því skiptust á dökkir og sólgylltir flekkir, um loftið, er liðu ofur hægt yfir grundir, hæðir og fjöll sveitarinnar.

Mér varð það á í athugsemd ekki fyrir svo löngu að monta mig af henni langömmu minni, við hann Steina Briem, eftir að hafa farið rangt með hvar amma Steina aldi manninn í Reykjavík. Eftir þessa athugasemd fór ég að kanna hvort ég hefði ekki einnig farið með rangt með varðandi formóður mína í athugasemdinni og ákvað að líta m.a. í bækur Halldórs Pálssonar, Skaðaveður. En þar segir frá fádæma byl í Skriðdal 4-8. október árið 1896.

Frásögn Halldórs hefst föstudaginn 2. október þegar hann var 8 ára snáði á hlaðinu heima hjá sér í Þingmúla í Skriðdal. Hann lýsir einstakri haustblíðu þar sem skýin líða eins og dúnhnoðrar fram af Múlakollinum út yfir Skriðdalinn og ævintýralegur fjárrekstur streymir út suðurdalinn niður á eyrarnar þar sem árnar mætast fyrir framan Þingmúla.

Þessi mikli fjárrekstur þokaðist nær, út yfir Hrossanesið, Jókuaurana og út í Arnhólsstaðanesið. Og fór ég nú betur að sjá mennina, sem ráku þennan stóra fjárrekstur. Þeir voru á eftir hópnum, til beggja hliða við hann, og einn þeirra var á undan honum og stuggaði frá þeim kindum, er á leið þeirra voru, Því sjáanlegt var, að þær máttu ekki koma saman við þennan stóra fjárrekstur. Allir voru menn þessir ríðandi. Framarlega í Arnhólsstaðanesinu stönsuðu mennirnir, og fjárhópurinn tók að dreifa sér um nesið og mennirnir að ríða í kringum fjárbreiðuna. Þeir vildu auðsjáanlega halda því til haga á nesinu.

Tveir af þessum rekstrarmönnum riðu niður að Múlaánni, yfir hana og heim í Þingmúlahlaðið til okkar barnanna, sem voru þar stödd. Annan þennan mann þekkti ég, það var Auðunn Halldórsson, sem átti heima á Haugum, þegar pabbi bjó á Víðilæk, og var hann nágranni okkar þá. Ég hafði ekki séð hann fyrr það árið, enda átti hann nú heima á bæ við Berufjörð. Auðunn kom yfir ána til að heilsa foreldrum mínum, á meðan þessi stóri fjárrekstur hvíldi sig og beit gras sér til hressingar. Pabbi var ekki heima við bæinn, en mamma tók á móti gestunum. Hún spurði hvort þeir væru að reka markaðssauði, og sagði Auðunn, að svo væri.

Markaðssauðir þessir voru úr sveitunum suður af Skriðdal, úr Breiðdal, Berufirði og ef til vill allt sunnan úr Hornafirði. Englendingar keyptu þá hér á landi í allmörg ár fyrir síðustu aldamót talsvert af sauðum og fluttu þá lifandi yfir hafið á milli landanna, og var ráðgert að smala saman sauðum af Austurlandi, reka til Seyðisfjarðar og flytja þaðan á skipi yfir hafið.

Í þessari frásögn Halldórs kemur vel fram hvað sauðasala til Englands spilaði stóra rullu hjá bændum á Austurlandi, en fljótt skipast veður í lofti. Það var einmitt allt suðféð sem féll í Skriðdal í þessu skaðaveðri sem var tilefni þess að ég montaðist yfir formóðir minni við Steina. Um Ingibjörgu langömmu mína á Vaði í Skriðdal hefur hins vegar aldrei verið skrifuð bók og yfir höfuð lítið verið um hana ritað.

En ég gerði henni skil með þessari athugasemd: “Varðandi langaömmu mína í Skriðdalnum, þá var hún úr 16 systkina hóp, átti sjálf 17 börn með tveimur mönnum og vissi ekki sauða sinna tal. Missti að talið var 200 fjár í einu og sama fjárskaðaveðrinu í október skömmu fyrir aldamótin 1900, en var talin eiga 400 á eftir.” Og grunaði mig að nú hefði ég sagt of mikið.

Gefum nú Halldóri aftur orðið: En á sunnudagsmorgunninn var komið ófært snjóveður, er seinna verður frá sagt, og urðu umræddir markaðssauðir að bíða á Miðhúsum í Eiðaþinghá í nokkra daga, áður en fært yrði yfir Fjarðarheiði. Hvað voru það nú margir sauðir sem varð að passa á Miðhúsum nótt og dag, þar til fært var að reka þá yfir Fjarðarheiði? -það virðast mér hafa verið yfir sjöþúsund sauðir.

Sauðasalan til Bretlands voru viðskipti með sauðfé á fæti sem stóð yfir á síðustu áratugum 19. aldar. Sauðfé var rekið til skips sem sigldu til Bretlands og þaðan til slátrunar. Bændur fengu miklu betra verð fyrir sauðfé í þessum viðskiptum en áður hafði tíðkast og þeir fengu greitt í peningum, en áður höfðu bændur eingöngu haft val um að leggja inn vörur hjá kaupmönnum og taka vörur út í staðinn. Lög sem sett voru í Bretlandi árið 1896 bundu endi á þennan markað nokkrum árum seinna og ollu kreppu í landbúnaði á Íslandi.

Þó svo að Ingibjörg Bjarnadóttir langamma mín á Vaði hafi ekki komist á bókfell, og ekki einu sinni finnist um hana minningagrein, lifir hún í munnmælum 160 árum eftir fæðingu sína, enda á hún vel á annað þúsund afkomendur. Einnig hefur hennar verið getið í sveitarlýsingu og minningagreinum um börnin hennar. Hún á það þó sameiginlegt með eiginmönnum sínum að um þau hefur lítið verið ritað þó svo að munnmælin leyni því ekki að þarna var um dugnaðarfólk að ræða, -ramm íslenskt bændafólk.

Ingibjörg Bjarnadóttir

Ingibjörg Bjarnadóttir (1862 - 1940) -ung að árum, mynd af facebook 

Ingibjörg á Vaði var mikil búkona, þótti nokkuð vinnuhörð en sá líka um að vinnufólkið liði ekki og vistinni þar við brugðið. Faðir Ingibjargar var Bjarni Sveinsson í Viðfirði. Þeir voru bræður Þórarin faðir Stefáns á Mýrum og Bjarni faðir Ingibjargar. Móðir Ingibjargar var Guðrún Jónsdóttir, dóttir Jóns Björnssonar bónda í Fannadal í Norðfirði og Stuðlum Reyðarfirði og Ingibjargar Illugadóttir.

Ingibjörg Bjarnadóttir giftist Birni Ívarssyni frá Vaði (1852 – 09.09.1900) 1882. Björn var talinn góður bóndi og á tímabili mun hann hafa verið fjárflesti bóndi í Skriðdal en bú hans var frekar affallasamt því Vað var engjalítil jörð og varð alltaf að treysta á beit þar. Haustið 1896 gerði hér mikið fjárskaðaveður dagana 4.-9. október. Þá er talið að hafi farist einn fimmti af öllu fé í Skriðdal (á bilinu 1.300 – 3.000 samkv. Skaðaveður/Halldór Pálsson) en hvergi eins margt eins og á Vaði. Þar er sagt að hafi farist um 200 fjár. (Hrólfur Kristbjörnsson -Skriðdæla bls 144)

Frændi minn sagði mér endur fyrir löngu að hann hefði heyrt þá sögu að Björn Ívarsson hefði gert sér ferð niður í Viðfjörð til að biðja sér konu. Hann hefði haft augastað á einni þeirra Viðfjarðarsystra, en að endingu hefði Ingibjörg farið með honum í Skriðdalinn, þau hefðu átt betur saman en sú systranna sem ferðin var farin vegna.

Ingibjörg á Vaði var mikillar gerðar eins og mörg þeirra Bjarnabarna Sveinssonar og Guðrúnar Jónsdóttur í Viðfirði. Þung áföll aldamótaáranna buguðu Ingibjörgu ekki, þvert á móti sneri hún vörn í sókn er hún missti mann sinn, Bjarna Ívarsson, fimmtugan á hallandi sumri 1900 frá 12 börnum og við skert stórbúið. Giftist hún aftur, er lög leyfðu að skemmstum tíma ekkjunnar liðnum, ráðsmanni á búi sínu, Jóni Björgvini Jónssyni frá Hallbjarnarstöðum. Varð þeim auðið 5 barna og Ingibjörg þó 39 ára, er þau áttust. Festu þau hjón kaup á Vaði 1907, en þar var Skriðuklaustursjörð. Bjuggu þau til elli á Vaði. Dó Ingibjörg frá Viðfirði 1940, en Jón Björgvin 1954, 85 ára. (sr Ágúst Sigurðsson í minningagrein um ömmu mína Björgu Jónsdóttur)

Stefán heitinn Bjarnason frændi minn í Flögu skrifaði og gaf út tvær bækur; Frá torfbæ til tölvualdar á 50 árum og Að duga eða drepast. Í þessum stórfróðlegu bókum um samtíma sinn í Skriðdal er samt ekkert um ömmu hans á Vaði, en í afmælisminningu um frænku sína á Mýrum hefur hann þetta að segja; -Björn og Ingibjörg bjuggu stórbúi á Vaði og var Björn talinn fjárflestur bóndi i Skriðdal. Ingibjörg var dugnaðarforkur til allra verka. Ég nefni litið dæmi um dugnað hennar við rúningu á vorin. Þá þurfti vel röskan mann til að taka kindurnar leggja niður og binda. En þá var venja að það voru bundnir saman fætur og kindin látin liggja á jörðinni, en Ingibjörg klippti með venjulegum skærum. Mér er ljúft að minnast Ingibjargar ömmu minnar, þó ekki væri nema þegar ég fór fyrst að heiman, litill drengstauli og dvaldi að mig minnir 2 vikur á Vaði. Björg dóttir hennar ætlaði að kenna mér að lesa, skrifa og fleira. Mér leiddist og gekk námið illa, en amma var svo góð við mig. Því gleymi ég aldrei.

Ingibjörg Bjarnadóttir, Bjarni Björnsson og Jón Björgvin Jónsson

Ingibjörg á miðjum aldri, -standandi við borðið Bjarni Björnsson sonur hennar. bóndi á Borg. Fyrir aftan hana stendur Jón Björgvin Jónsson seinni maður hennar.

Eins og ég sagði hér að ofan þá lifa enn munnmæli um Ingibjörgu. Fyrir nokkrum árum vorum við pólskir vinnufélagar mínir að vinna að vorlagi við lagfæringar á sundlauginni á Norðfirði. Þá kom eldri maður, sem var reglulegur sundlaugargestur, til að fylgjast með framkvæmdum. Hann spurði vinnufélaga mína hvort þeir væru Héraðsmenn, og fékk loðin svör, en þó á Íslensku. Ég tróð mér inn í samræðurnar og sagði honum að þeir væru Borgfirðingar, enda voru tveir af þeim bræður, búnir að búa á Borgarfirði eystra í 10 ár áður en þeir fluttu í Egilsstaði.

Maðurinn sagði þá við mig að ástæða þess að hann spyrði væri sú að hann ætti mikið af skyldfólki á Héraði. Það hefði flutt ung kona úr neðra í efra, endur fyrir löngu, og eignast þar 17 börn, og afkomendur hennar væru um allt Hérað og náskyldir sér. -Þú ert þá væntanlega að tala um Ingibjörgu langaömmu mína á Vaði; sagði ég, -og það passaði.

Já, Ingibjörg hefur verið talin mikillar gerðar, og í bók Halldórs Pálssonar, Skaðaveður, -getur hann sérstaklega fjárskaðans mikla á Vaði og hefur þar að heimildamanni Stefán Þórarinsson síðar stórbónda á Mýrum í Skriðdal, sem var þá vinnumaður á Vaði; -, , ,en fyrir rás viðburðanna lendir hann á Vaði, til Björns Ívarssonar bónda þar og konu hans Ingibjargar Bjarnadóttur frá Viðfirði, frænku sinnar. – Árið 1897 hóf faðir minn búskap á Mýrum, sem þá var kirkjueign. Á því ári gekk hann að eiga Sesselju Bjarnadóttir frá Viðfirði, systir Ingibjargar á Vaði. Heyrt hef ég að margir hafi undrast þann ráðahag, þar sem Sesselja var sjúklingur og dó eftir fárra vikna sambúð. Töldu sumir að Ingibjörg á Vaði hafi sótt það fast að koma þessum ráðahag í kring, og faðir minn, sem var gæflyndur maður og átti Ingibjörgu margt að þakka, hafi látið undan þrýstingi frá henni. (Sveinn Stefánsson Mýrum / Múlaþing 22.tbl bls 84 og 86)

Eitt atriði hef ég kannski ekki farið rétt með í athugasemd minni til Steina Briem. Ingibjörg var ekki úr 16 systkinahóp samkvæmt Íslendingabók, en í minningagrein um Guðrúna Jónsdóttur, ættmóður Viðfirðinga, eru þau talin 16, en ekki nema 15 í Íslendingabók, en afkomendur Guðrúnar eru tæplega sex þúsund samkvæmt sömu bók. Um Guðrúnu gegnir það sama og um Ingibjörgu, sáralítið er til um hana skráð. Munnmælin segja þó að þar hafi farið mikill kvenskörungur, til sjós og lands.

Minningagrein hefur samt sem áður verið rituð um Guðrúnu Jónsdóttir sem bjó í Viðfirði, Loðmundarfirði og var að lokum á Skorrastað í Norðfirði. Þar má lesa m.a. þetta; -Hún sýndi jafnan mikinn dugnað og iðjusemi. Hún var jafn fær að ganga til sláttar sem raksturs. Hún var tóskaparkona mikil og vefjarkona með afbrigðum, enda þurfti hún á því að halda í Viðfirði meðan öll börnin voru heima og heimilisfólk vanalegast 15—17 manns og allur íverufatnaður og mikið af rúmfatnaði unnið heima. - Gáfnafar hennar var fjölþætt og gætti þess best á efri árum hennar í ættfræði, sagnafjölda og listfengi í því að segja frá sögum og viðburðum fyrri tíma með orðgnótt, fjöri og kynngikrafti bestu þjóðsagna. Minni og andlegu fjöri hjelt hún fram að síðustu dögum. Með henni hygg jeg að i gröfina hafi farið ýmiskonar þjóðlegur fróðleikur, sem skilið átti að geymast.

Ingibjörg Bjarnadóttir endaði ævi sína á Jaðri í Vallanesi, hún flutti þangað ásamt Jóni Björgvin til að aðstoða ungu presthjónin við bústörfin, þegar Björg dóttir þeirra giftist sr Sigurði Þórðarsyni úr Selárdal í Arnarfirði. Amma talaði aldrei um móður sína svo ég heyrði, en Magnús afi minn, sem varð seinni maður Bjargar ömmu, sagði mér að Ingibjörg hefði verið mikil manneskja og átti tæpast orð til að lýsa mannkostum tengdamóður sinnar, og atgervi.

Af heimilislífinu á þessum bæ um veturinn er fátt eitt að segja. Sambýlið var svo gott sem best getur hugsast, bæði á karl- og kvenhönd. Að mér teknum voru karlar úti við gegningar gripa myrkranna á milli og fram á vökur. Konur litu varla upp úr tóvinnu, enda veitti ekki af, til þess að halda á sér hita, því ekkert eldfæri eða neins konar hitagjafi var til í bænum, nema ef vera skildi hlóðasteinar frami í eldhúsi. En önnur ástæða var til kappsins við ullarvinnuna.

Á Fljótsdalshéraði klæddust menn á þeim tímum ekki öðru en ullarfötum, og hvert heimili varð að halda við fatnaði heimilismanna sinna. – Þegar fram um eða yfir miðvetur kom, var farið að setja upp vefi af þræði, er konur höfðu spunnið. Spunnu þær þá ívafið jöfnum höndum við þráð í næstu vefi. Allar kvöldvökur skammdegisins kembdu karlmenn og / eða tóku ofan ull eftir ástæðum, til stuðnings tóskapnum.

Þegar dag fór að lengja, hófst vefnaðurinn af sama kappi sem önnur tóvinna, enda þá meira tóm frá gegningum. – Þetta var tóvinna með allt öðru sniði og unnin með miklu meiri alvöru og kappi en ég hafði þekkt á Vestur- eða Suðurlandi. En miklu meiri var þó munur vinnunnar. Ég hafði vanist mosa- eða hellulituðum. Hér voru aftur eingöngu notaðir suðalitirnir, samkembdir í margskonar litbrigðu, mjög smekklegum, allt tvíkembt, nauðhært, svo ekki sást toghár á hinum vandaðri fötum, sparifötunum.

Hallgrímur biskup hafði komið á Héraðið sumarið áður (1890). Sagði hann mér meðal annars að hann hefði aldrei á landi hér séð svo prúðbúið og jafnbúið fólk sem þar, og allt heimaunnin ullarföt, og allir bændur í yfirfrökkum úr því sama. Dáðist hann mjög af þessu.

Konur gengu þar með herðasjöl, þríhyrnur og skakka, er svo var nefnt, heimaunnið og prjónað, með allskonar útprjóni. Allt var þetta úr nauðhærðu þeli, í suðalitunum, samkembt, með svo nákvæmum litasamsetningum að hrein meistaraverk voru. (Úrdráttur úr texta um vetur í Þingmúla, af heimilislífi og tóvinnu II bindi bls 142)

Þetta má lesa í endurminningum sr Magnúsar Bl Jónssonar um veturinn 1891-1892 á Þingmúla, þegar fjölskyldan var nýflutt úr Reykjavík í Skriðdal, sumarið á eftir fluttu þau í Vallanes. Lýsing þessi á ullarvinnslu set ég hér vegna þess að af textanum má ætla að svipaður vefnaður hafi verið unnin á bæjum í Skriðdal og jafnvel öllu Fljótsdalshéraði.

Undanfarið hefur vefstóll Ingibjargar Bjarnadóttir langömmu minnar á Vaði verið mér hugleikinn, og hefur hann orðið tilefni til þess að ég hef á hana minnst í samtölum við fólk. Þannig er að Björg amma mín vaðveitti þennan vefstól ásamt rokk móður sinnar sem er mitt helsta stofustáss. Vefstóllinn er aftur á móti hreinræktað vinnutæki án allra skreytinga og sennilega heimasmíði fyrir lítið pláss, miðað við hlutföll.

Vefstólinn hefur síðan amma og afi skildu við verið varðveittur af frænku minni, sem komin er til efri ára, og hefur áhuga á að koma honum í góðar hendur. Hvorki safnastofnun, óbyggðasetur né aðrir hafa séð sér fært að varðveita þennan vefstól. Ingibjörg á vel á annað þúsund afkomendur, enn hefur ekki neinn þeirra, sem spurður hefur verið, séð sér fært að taka vefstólin að sér, enda kannski lítill skaði þó tapist samtíningur af gömlum spýtum.

Ingibjörg á Vaði í Vallanesi

Ingibjörg gömul kona fyrir framan húsið á Jaðri, með föður minn, Sigurð Þórðarson Magnússon, á fyrsta ári. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband