11.3.2023 | 22:06
Munið eftir smáfuglunum
Á þetta var oft minnt í útvarpi í denn, og jafnvel í aðalfréttatíma. Nú fer minna fyrir því að smáfuglanna sé minnst, þó frost sé á Fróni. þeir eru eins og annað helst hugsaðir til hagvaxtar. Matvöruverslanir hafa notað tækifærið í verðbólgunum vetrarhörkunum og tvöfaldað verð á fuglafóðri án alls auglýsingakostnaðar.
Rétt er að hafa krumma líka á bakvið eyrað, ekki síður en snjótillingana og auðrónana, þó svo hann sé bæði kankvís og klár, þá verður honum nú margt að meini og dregur freðið nef undan stórum steini þessa dagana. Ef allir sameina krafta sína má jafnvel slá þrjár freðnar dægurflugur í sama höggi; gleðja smáfuglana, ylja sálinni og fóðra hagvöxtinn.
Hrafninn er auk þess tákngerfingur landnáms Íslands. Hann er jafnframt fugl Óðins, en Huginn og Muninn voru tákn visku og spádómsgáfu. Hrafninn er stærsti spörfugl landsins og er því einn aðal einkennisfugl íslensks vetrar ríkis. Allir þekkja krumma, sem svaf í klettagjá, og var bæði elskaður og hataður af þjóðinni, -um þetta vitnar mörg þjóðvísan.
Krumminn á skjánum,
kallar hann inn.
Gef mér bita af borði þínu,
bóndi minn!
Bóndi svarar býsna reiður,
burtu farðu, krummi leiður.
Líst mér að þér lítill heiður,
ljótur ertu á tánum,
krumminn á skjánum. - (íslensk þjóðvísa)
Mínar fyrstu minningar af krumma eru frá bernskuheimilinu sem foreldrar mínir byggðu á Hæðinni á Egilsstöðum. Þegar ég vaknaði á morgnana, sem oft kom fyrir að var áður en önnur börn fóru á fætur, átti ég það til að fara á klöppina austan við skúrinn, leggjast þar til að horfa upp í bláinn himininn og athuga hvort ég sæi fugla.
Stundum sá ég hrafna svífandi í uppstreymi við Hamrana eða Þverklettana, eins kom fyrir að þeir hringsóluðu hátt á lofti yfir mér, þá velti ég því fyrir mér hvernig væri að geta flogið. Einhvertíma þegar ég var í svona vangaveltum, fannst mér ég takast á loft með hrafninum og fljúga upp Eyvindarárdal, -yfir Skagafellið, út dalinn aftur og heim.
Ég hef oft velt þessari minningu fyrir mér í gegnum tíðina, og komist að því að hún er sannleikanum samkvæm. Núna þegar hægt er að svífa um á Google Earth sé ég að það var nákvæmlega sama landslag sem ég sá þegar ég sveif með krumma, þá um fjögurra ára aldurinn.
Þennan krumma hitti ég á brún Básabjargs í Grímsey fyrir nokkrum árum, ég er ekki frá því að hann hafi verið að mana mig í flugferð með sér
Eitt af frægustu ljóðum veraldar er ort um hrafninn, The Raven eftir Edgar Allan Poe. Fjöldi íslenskra skálda hafa þýtt ljóðið. Má t.d. nefna; Helga Hálfdánarson, Matthías Jochumsson, Einar Benediktsson, Jochum M Eggertsson og Sigurjón Friðjónsson.
Það sýnir vel að hrafninn er jafn fjölkunnugur og tungumálið, -og hvað hann á vel við íslensa þjóðarsál, -hvernig íslensku skáldin þýða ljóð E A Poe, með margvíslega mismunandi orðaforða sem kemur samt allur til skila boðskap skáldsins.
Set ég hér fyrir neðan nokkrar fyrstu hendingarnar ljóðsins sem dæmi:
Once upon a midnight dreary,
while I pondered, weak and weary,
over many a quaint and curious
volume of forgotten lore
While I nodded, nearly napping,
suddenly there came a tapping.
As of some one gently rapping,
rapping at my chamber door.
"Tis some visitor," I muttered,
"tapping at my chamber door
Only this, and nothing more." -(Edgar Allan Poe)
Yfir mold sig miðnótt breiddi,
mæddur, krankur huga ég leiddi
fyrri manna forn og kynleg
fræði ýmis er ræktu þeir.
Höfgi mér á hvarma þægt sé
drepið léttum fingri. "Heyr.
Það er gestur," þuldi ég lágt,
"við þrepskjöld dyr að knýja, heyr;
aðkomandi, ekki meir." -(Einar Benediktsson)
Í skugga þéttri niða nóttu
og nepju þungri að mér sóttu
töfrar fornar tötra myndir
togaðar úr alda djúpi.
Loks byrjar mér í brjóst að renna
en brátt og frekt ég þóttist kenna
að drepið væri á dyr
á þennan drjúga hátt, er þekkjum vér.
Með kynjahrolli hvísla hljóður;
hver er úti? - En drottin góður!
utan gátta "enginn er." -(Jochum M Eggertsson)
Síð um mundir miðrar nætur
myrkur flest er bugast lætur,
að fornum skræðum gaf ég gætur,
grúskaði og fletti blað á blað.
Þá var var lostið högg á hurðu
högg er vakti geig og furðu;
hljóðlátt, kynlegt högg á hurðu,
í huga innst, er nam sér stað.
Kynlegt, dulrænt högg á hurðu,
hjarta mínu settist að.
Efalaust maður - eða hvað? -(Sigurjón Friðjónsson)
Ég hef enn í dag, næstum 60 árum seinna, ágætis samband við hrafninn. Hann á það til þegar vetur harðnar að svífa fyrir utan og gjóa á stofugluggann minn og kanna um leið hvað Matthildur mín hefur gefið smáfuglunum fyrir framan svalirnar. Þá á ég til að skella í góm og gauka að honum góðu. Svo um sumarmál lætur hann sig hverfa.
En þrátt fyrir allar góðu krumma vísurnar, sem honum er smellt í góm, þá er honum meinilla við að láta ljósmynda sig.
Jæja, þá víst er komið vor, og ætli sé ekki best að hætta að spá í þennan karlskarf.
Bíddu, , , varstu að taka mynd af mér skrattakollur?
, , , jú, þú varst víst að taka mynd, ég sá það.
Það er nú alveg lagmarks kurteisi að láta vita svo hægt sé að hafa sig til og halda virðingu sinni.
Athugasemdir
Snildarpistill Magnús og kemur manni
í gott skap. Meira af þessu..
Sigurður Kristján Hjaltested, 12.3.2023 kl. 01:00
Hér var svarthært fólk þegar Flóki var hér, og það gaf honum að éta, og hann sigldi með því til Grænlands. Elítan sem kom á vistarbandi og áttahagafjötrum á elleftu öldinni, skrældi - eða skræalingjaði - söguna.
Guðjón E. Hreinberg, 12.3.2023 kl. 08:53
Takk fyrir Sigurður, -sjáum til.
Það er ábyggilega talsvert til í þessu Guðjón, -ég á reyndar hvorki hugmyndina af landnámshrafninum né hröfnum Óðins, -en sagan er góð.
Magnús Sigurðsson, 12.3.2023 kl. 09:02
Blessaður Magnús.
Það er nú svo hjá ykkur í efra sem þurfið aðeins að hreyfa ykkur spöl frá rassi til að hitta tröll og útilegumenn,að ekki sé minnst á hrafna sem krunka á glugga í leit að góðgæti.
Hér í neðra þarf að passa uppá að góðgætið sé ekki of umfangsmikið, þá mæta gargandi mávar, sem ekki nokkur maður hefur ort ljóð um, þó ég muni eftir kvikmynd sem hét Mávar, og þar var einn uppstoppaður. En smáfuglarnir fælast þessi gargandi kvikindi, sem og að dúfurnar eru órólegar þegar þeir mæta á svæðið.
En Krummi, hann hef ég séð frá því í hittifyrra, þegar hann vængsærður sótti í fóður, sem var kannski ekki í fyrstu ætlað honum, en varð að lokum að eins konar sérréttarseðli fyrir viðkomandi, ásamt frómri bón um að vængurinn lagaðist, ekki vegna þess að hann væri þungur á fóðrum, og hann má það eiga að hann var enginn auðróni sem lagðist á hið smáa, hann át sitt og smáfuglarnir höfðu engan ótta af honum, sáttin og sælan lýsti kannski best því matarborði. Það var bara að ég óskaði honum bata svo hann ætti enn eitt sumarið í það minnsta.
En þetta var samt ekki erindið Magnús, og ekki mér að kenna hvað ég nota mörg orð áður en ég segi það sem sagt vildi ég hafa.
Og það er aðeins eitt, mig grunaði það, en þú sagðir það.
Mikil er skömm þeirra sem níðast á minna stæðum með því að hækka álagningu á smáfuglamat í svona kuldatíð, ég efa ekki að betur stætt fólk kaupi fuglamatinn áfram, og það geri ég og mamma líka.
En þetta tekur í þó engin sé eftirsjáin, en ef skýring hækkana er að þarna sé aur að sækja, þá finnst mér að einhverjir ættu að skammast sín.
Og það mikið.
Kveðja úr blíðunni í neðra.
Ómar Geirsson, 17.3.2023 kl. 18:01
Þakka þér fyrir þessa fallegu sögu úr neðra Ómar, -og fyrirgefðu hvað ég er seinn til svars, en athyglisgáfan er bara ekki betri.
Gaman að heyra hvað vel er hugsað krumma og vænt þykir honum ábyggilega um eitt sumar til, rétt eins og okkur mannfólkinu Þegar í harðbakkann slær og fram í sækir.
Mér kemur ekki á óvart samkomulag krumma og smáfuglanna í neðra því hér í efra sýnir krummi smáfuglunum einstaka kurteisi.
Já, þeir mega skammast sín sem gera smáfuglana að féþúfu í frosti og snjó. En verðið á smáfuglafóðri komst á eitthvað flug eftir áramótin í okkar innkauðakörfu.
Reyndar er ég ekki alveg viss nema mér hafi orðið að ósk minni því mér fannst smáfuglafóðrið hafa lækkað flugið aftur hjá lífeyrissjóðunum eftir að skrifaði þessa færslu.
Batnandi fólki er þá jú best að lifa.
Besta kveðja til ykkar krumma í neðra.
Magnús Sigurðsson, 18.3.2023 kl. 19:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.