16.4.2023 | 16:42
Sumarmál - voru Íslendingar Gyðingar?
Það er margt sem íslenskan geymir af sögu heimsins, sem óvíða er skráð annarsstaðar, og er þó sumt af því heimsþekkt orðið í dag án þess að nútíma Íslendingar hafi mikla hugmynd um hvers vegna. Má þar t.d. nefna fornaldasögur Norðurlanda og tímatal. En þaðan kemur t.d. hugmyndin af The lord of the rings og The vikings.
Nú eru Sumarmál, en síðustu fimm dagar vetrar voru kallaðir sumarmál í gamla íslenska tímatalinu. Á eftir kom sumardagurinn fyrsti sem var fyrsti dagur hörpu, -fyrsta mánaðar í sumri. Þetta tímatal er ævafornt og hafa fræðimenn velt vöngum yfir hvaðan það kom, því þar er ekki bein samsvörun í norræn tímatöl.
Tolkein lá ekki á því að hugmyndin af Hringadrottins-sögu væri sótt í Völsunga-sögu og það dylst engum að sjónvarpþáttaserían Vikingarnir er byggð á Ragnars-sögu loðbrókar, sem segir m.a. frá konu hans Áslaugu kráku og sonum, þeim Ívari beinlausa, Birni blásíðu og Sigurði ormi í auga. Báðar þessar sögur varðveittust á Íslandi og hafa verið kallaðar Fornaldarsögur Norðurlanda.
Símon Dalaskáld skrifaði skáldsöguna Árni á Arnarfelli og dætur hans skömmu eftir 1900 og var hún útgefin árið 1951. Tími sögunnar virðist vera frá því skömmu fyrir 1880 til aldamóta. Höfundur lætur söguna gerast í Skaftafellssýslu þar sem bændur versluðu á Djúpavogi. Fjöldi fólks kemur við sögu og gerir höfundur grein fyrir ætt sögupersóna í samtölum.
Í skáldsögu Dalaskáldsins má finna kafla sem heitir Deila Halldórs og Hallfríðar. Þar rökræða Halldór Lambertsen stúdent og Hallfríður Árnadóttir heimasæta á Arnarfelli um persónur Íslendingasagna. Síðar berst tal þeirra að ættum Íslendinga. Það samtal fer hér á eftir:
Halldór: Á ég að segja þér af hverjum flestir Íslendingar eru komnir?
Hallfríður: Já það væri fróðlegt að heyra.
Halldór: Þeir eru fjölmargir komnir af írskum þrælum. Svo mæla Danir og mun mikið hæft í því.
Hallfríður: Hvaða vitleysu ferð þú með maður. Þeir eru heldur margir komnir af írskum konungum. Í Landnámu er ekki getið um aðra írska þræla en þá sem drápu Hjörleif við Hjörleifshöfða og menn hans, en Ingólfur hefndi fóstbróður síns og drap þá skömmu seinna, svo varla hefir komið mikil ætt frá þeim. Reyndar voru það írskir þrælar, sem brenndu inni Þórð Lambason, en þeir voru ráðnir af dögum skjótlega. Hingað fóru fáir Írar, heldur norrænir víkingar, sem herjuðu vestur um haf og komust í mægðir við konunga Englands og önnur stórmenni; vegna hreysti sinnar fluttust margir hingað, og má heita, að helmingur Íslands sé numinn af þeim.
Halldór: Ég hefi gaman, ef þú telur mér nokkra upp.
Hallfríður: Það get ég gjört að telja nokkra: Þórður skeggi, bróðursonur Ketils flatnefs; hann átti Vilborgu, dóttur Ósvalds konungs. Helgu dóttur þeirra átti Ketilbjörn hinn gamli, afi Gissurar hvíta. Eyvindur austmaður átti Raförtu, dóttur Kjarvals Írakonungs, þeirra son Helgi hinn magri er nam Eyjafjörð. Höfða-Þórður átti Þorgerði dóttur Þóris hímu og Friðgerðar, dóttur Kjarvals Írakonungs. Erpur, leysingi Auðar djúpúðgu, var son Melduns jarls af Skotlandi og Mýrgjólar, dóttur Gljómals Írakonungs, hann nam Sauðafellsströnd. Auðunn stoti, er nam Hraunsfjörð, átti Mýrúnu, dóttur Maddaðar Írakonungs. Án rauðfeldur, son Gríms loðinkinna úr Hrafnistu og Helgu dóttur Áns bogsveigis, átti Grelöðu dóttur Bjartmars jarls. Af þeirra börnum kom hið mesta stórmenni í Orkneyjum, Færeyjum og Íslandi, enda var Þorsteinn rauður kominn af Ragnari loðbrók, er frægastur hefir verið konunga í fornöld, og Sigurði Fáfnisbana. Helga hin fagra var af þessari ætt.
Halldór: Ég hefði gaman, ef þú gætir rakið þá ættarþulu.
Hallfríður: Það get ég vel, byrja þá í niðurstígandi línu. Sigurður Fáfnisbani og Brynhildur Buðladóttir. Þeirra dóttur Áslaugu átti Ragnar loðbrók Danakonungur. Þeirra synir Ívar beinlausi, konungur á Englandi, Björn blásíða konungur í Svíþjóð. Sigurður ormur-í-auga, átti Blæju dóttur Ella konungs. Af Hörða-Knúti syni þeirra voru Danakonungar komnir í fornöld, en af Áslaugu dóttur þeirra var Haraldur hárfagri kominn og þar með allir Noregskonungar, afkomendur hans. En Þóru dóttur Sigurðar orms í auga átti Ingjaldur konungur Helgason. Þeirra son, Ólafur hvíti, konungur á Írlandi, átti Auði hina djúpúðgu, dóttur Ketils flatnefs. Þeirra son Þorsteinn rauður átti Helgu, dóttur Eyvindar austmanns. Hann var konungur á Skotlandi; var svikinn af Skotum og drepinn. Ólafur feilan, þeirra son, fór þá barn til Íslands með Auði djúpúðgu, ömmu sinni. Hann giftist á Íslandi Álfdísi hinn barreysku. Þeirra börn: Þórður gellir, mestur höfðingi á Íslandi á sinni tíð, og Þóra, móðir Þorgríms, föður Snorra goða, og Helga, er átti Gunnar Hlífarson, þeirra dóttur Jófríði átti Þorsteinn Egilsson á Borg. Þeirra dóttir Helga fagra. Ólafur pá var af þessari ætt og næstum því öll stórmenni Vesturlands. Mikil fremd þótti fyrrum að vera kominn af Ragnari loðbrók og Sigurði Fáfnisbana, eins og sjá má af sögunum, en ekki gátu hrósað sér af því nema Breiðfirðingar og Skagfirðingar. Breiðfirðingar voru komnir af börnum Þorsteins rauðs en Skagfirðingar af Höfða-Þórði, sem kominn var af Birni blásíðu Svíakonungi, syni Ragnars loðbrókar, enda hafa í þessum fögru og tignarlegu héruðum verið mestir höfðingjar og skáld. Víðdælir voru og komnir af Ragnari loðbrók og fyrri konu hans, Þóra dóttur Herrauðs Gautajarls, og ég er búin að rekja þetta út í æsar, en hvort þið trúið því eða ekki, get ég ekki gjört að. Ég ætla að sýna ykkur það svart á hvítu, hvort ég hef ekki rétt fyrir mér og væri gott, ef þið vilduð gefa ykkur tíma til að rannsaka það.
Um öll þessi fjölskyldutengsl má lesa svart á hvítu í Íslendingasögum og Fornaldarsögum Norðurlanda, m.a Völsunga-sögu og Ragnars-sögu loðbrókar. Fornaldarsögurnar teiga sig í austur veg um Garðaríki suður til Svartahafs. Gamla tímatal Íslendinga á sér samsvörun í fornum tímatölum enn austar, og má rekja til Babýlon, -jafnvel Persíu.
Á fyrri hluta 20. aldar taldi enski rithöfundurinn Adam Ruthedford Íslendinga vera hreinasta afbrygði Benjamíns, ættkvíslar Ísraels, -yngsta sonar Jakobs. Hluti ættar Benjamíns fóru Garðaríki upp í Eystrasalt, og voru þá kallaðir Herúlar. En úlfur var Benjamín að sögn Jakobs faðir hans og úlfur einkenni Benjamíníta. Samsettur úlfur er algengt mannsnafn á Íslandi s.s. Ingólfur, Brynjólfur, Herjólfur, Þorólfur, Hrólfur, Snólfur o.s.fv. Ættforeldrar þessara Herúla voru þau Óðinn, Frigg, Njörður, -Freyja, Freyr og allt það goðsögulega slekti sem Snorri gerði góð skil í Heimskringlu.
Landnámsfólk Íslands kom flest frá vesturströnd Noregs og Bretlandseyjum samkvæmt Landnámu og Íslendingasögunum. Samkvæmt Biblíusögunum voru Júda og Benjamín herleiddir til Babýlon ásamt öðrum Ísraelsmönnum, þær ættkvíslar fylgdust svo einar aftur að í fyrirheitna landið. Benjamín settist þá í Galíleu, en hafði áður búið í Jerúsalem og Júda settist þá í Jerúsalem. Fjölmennigarsvæðið Samaría var þá orðið til og var á milli þessar ættkvísla Ísraels, sem lentu svo aftur á flakk í kringum Krist og jafnvel nokkru fyrr.
Íslendingasögurnar og Fornaldarsögurnar segja frá miklum þjóðflutningum fólks, sem að endingu nam Ísland og setti þar upp einstakt þjóðveldi, allt vandlega skrásett rétt eins og testamennin. Völsungasaga gerist í Evrópu allt frá Njörfasundum til Héðinseyjar, -Gíbraltar til Krím.
Sagan segir frá Völsungi og hverjir forfeður hans voru; -Reri sonur Siga, sonar Óðins. -Og svo Sigmundi syni Völsungs og sonum hans m.a. Sigurði Sigmundssyni Fáfnisbana. Í sögunni má finna mörg þau minni sem goðafræðin byggir á. Hluti Völsungasögu gerist í Dacia í Rúmeníu og segir frá þegar Sigmundur og Sinfjötli, eftirlætssonur Sigmundar, lögðust út sem varúlfar.
Svo eru til fornar írskar sagnir og annálar sem herma, -þessu tengt, -að löngu fyrir Krists daga hafi komið til Írlands austan úr löndum skip, sem á var gamall spámaður, Allamh Fodlha, skrifari hans og konungsdóttirin Tamar Tephi. Um þetta sagði sögugrúskarinn Árna Óla í titgerð: Í fornum írskum þjóðsögur og þjóðkvæðum er það beinlínis sagt, að Allamh Fodlha hafi verið Jeremía spámaður og Tamar Tephi hafi verið dóttir Zedekia konungs (Júda í Jerúsalem). Skömmu eftir komu þeirra Jeremía til Írlands giftist Tamar Tephi konunginum þar. Hann hét Heremon og var líka af Ísraelsætt. Og til þeirra er rakin ætt núverandi Bretakonunga.
Það er nokkuð ljóst að fyrri tíma Íslendingar kunnu vel að meta, -og lesa í sagnaarf þjóðarinnar og þurftu hvorki latínulærðan millilínulestur né Hollywood útgáfur á borð við The lord of the rings, eða The vikings á Netflix til á átta sig á um hverskonar bókmenntir er að ræða, -þeir skildu einfaldlega tungumálið.
Lýstur sól
ljósum sprota
læðing lífs;
lásar hrökkva.
Svella hugir.
Syngur í hlíð.
Vaki þú, vaki þú
Völsungakyn!
Sól er á fjöllum,
sól í dölum,
sól í bæjum;
söngur í hlíð.
Hreifir vor
hörpustrengi.
Fellur ryð
af fornu stáli.
Sefur í hörpu
Sigurðardóttir
Áslaug - arfuni
afreksverka.
Þrútnar Heimis brjóst,
er harpan lætur.
Glóir gull
gegnum tötra.
Lýstur sól
ljósum sprota
ævintýraheim
unglings hugar.
Gnótt er ennþá gulls
á Gnítheiði.
Gangvarinn góði
gneggjar og rís.
Sér yfir Gnítheiði:
Situr á gulli
óframgjarn ormur
eigin hægðar,
hálfur dýr,
hálfur maður.
Vaki þú, vaki þú
Völsungakyn!
Vek ég þig að vígi
vanræningja
vetrar langs
og vanafestu.
Vek ég þig til styrks
hinum stóru þrám,
hlýleika hugarins
og hvassrar sjónar.
Lýstur sól
ljósum sprota
ævintýraheim;
ómar hlíð:
Handan við Gnítheiði
glóa laukar.
Vaki þú, vaki þú
Völsungakyn!
(Sumarmál / Ljóðmæli bls 8 SF)
Allur verðmætur skáldskapur hefur tvö aðaleinkenni, annaðhvort eða bæði. Í venjulegu máli talar skynsemi mannsins beint til skilnings, vit til vits. En í skáldskap tekur vitið sér til aðstoðar ímyndunarafl og tilfinningu. (Litlu-Laugum í apríl 1927 - Sigurjón Friðjónsson).
Meginflokkur: Goðsagnir og Þjóðsögur | Aukaflokkur: Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:56 | Facebook
Athugasemdir
Góður og fróðlegur pistill, að venju.
Rifjar upp margt það sem lesið hef og setur í samhengi, t.d. að þegar Palagos, hinn óði, Óðinn, hrekst norður frá norðurströnd Svartahafs, vegna árása Rómarríkis úr vestri og mongólskra ættbálka úr austri, upp úr árinu 0, þá voru liðsmenn hans einkum Austur-Keltar, Grikkir, Skýpar og Gyðingar. Allt menn sem báru með sér hver sína meginkunnáttu, lífsspeki, stærðfræði og sagnagáfu.
Um ferðir Herúla norður á bóginn og hringferð þeirra síðar, er gaman að hlusta á tilgátur og kenningar Freystein Sigurðason þar um. Menningaráhrif þeirra voru mikil þar sem þeir settust svo að, í Suður-Danmörku, Suður-Svíþjóð og suðurhluta vestanverðs Noregs.
Þegar rætt er um Herúla, þá er nauðsynlegt að Íslendingar eru ekki af Herúlum komnir, nema að nokkru, en það er engum vafa undirorpið að áhrifa þeirra gætti mjög, ekki síst hvernig skrifa skyldi bækur, auk fyrirkomulags stjórnskipunar.
Endalaust væri hægt að skrifa meira um þessi áhrif og að hve miklu leyti herúlsk fræði hafi náð að móta hin norrænu og í kjölfarið hin forn-íslensku fræði.
Sem ég skrifa þetta, heyri ég mikið krunk í hröfnum og er sem hrafnaþing sé hér nærri mér.
Hvort það séu hrafnar Palagosar, Óðins, Huginn og Muninn, er erfitt um að segja, en gæti þó best trúað því.
Hafðu bestu þakkir fyrir, Magnús.
Mbkv.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 17.4.2023 kl. 01:31
Þakka þér fyrri þessa athugasemd Pétur Örn.
Bæði er í henni háahugavert púsl um Palagos og svo minnistu á merkar kenningar Freysteins Sigurðssonar sem eru með háhugaverðustu framsetningu sem ég hef heyrt um Herúla.
Það sem vakti þennan pistil var athugasemd Hauks Árnasonar fyrir nokkru en í henni var tilvitnunin í Árna Óla.
Á meðan ég var að grúska í púslinu, hvers vegna small þetta fólk saman á Bretlandseyjum? -annað en þrælakenningin, -rakst ég á þetta ljóð í Heyrði ég í Hamrinum II.
Hvort manstu þína sál um sumarmál?
- og síðan hverja von í úthaf fjara?
Hvort manstu land, er hófst úr ægisál
að endingu sökkva í tímans bylgju skara?
Hvort leiztu Móse forðum, særða sál,
um sólarlag af Nbóntindi stara
á landið, sem hann aldrei fékk að eiga
og ennþá margir líta - og sakna mega? -
Erindin eru fleiri, á svipuðum nótum. Hvað heldur þú að þarna sé verið að yrkja um?
Síðan ákvað ég að lesa ljóðin í Heyrði ég í Hamrinum III, og skar hana upp, en hún hafði aldrei verið lesin, og þá eru þau ljóð flest um Völsungasögu. Þá ákvað ég endanlega að hnoða þessum pistli hér að ofan saman.
Eftir að hafa kannað á google hvað Árni Óla hafði fyrir sér þá fann ég þetta.
https://www.originofnations.org/books,%20papers/jeremiah_in_ireland.htm
Magnús Sigurðsson, 17.4.2023 kl. 06:08
Pétur Örn svarar þessu vel, að Íslendingar eru ekki af Gyðingum komnir nema að litlu leyti. Ég var einmitt í gær að horfa á endursýndan þátt af Landnemunum á Stöð 2, Kári Stefánsson er alveg skýr með það, við erum komin af Norðmönnum og Írum, en 1-2% af syðri þjóðum, einn og einn einstaklingur kannski af Gyðingaættum eða öðrum þar.
Vel má vera að eitthvað sé til í þessum siglingum frá Ísrael til Írlands til forna. En í stóru myndinni er það tæplega þeirra helzta erfðamengi.
Annað hef ég heyrt menn spekúlera um, en það er að Ís í Ísland sé ekki klaki heldur "Guð", að Ísland sé land guðanna eða Guðs. Samkvæmt Orðsifjabókinni er Ísrael þannig myndað: "Jisra + El", sem berst með guði, af sarah, berjast og el, guð. Samkvæmt þessu er Ís í Ísrael "sá" en ekki guð.
Það var annar maður, sem nú er látinn, sem sagði mér að bæði Ísrael, Ísland og Írland væri komið af gyðjunni egypzku Ísis. Þetta eru dálítið miklar pælingar, en ég hef þetta rétt eftir honum. Hann var formaður Félags áhugamanna um stjörnulíffræði, Atli Hraunfjörð.
Ef þetta er rétt eru það heiðnar rætur Egyptalands sem þarna ráða úrslitum. Egypzka menningin var jú á undan þeirri gyðinglegu, enda Móse tengdur Egyptum, hvort sem hann var ættaður þaðan eða ekki. Hann vann þar, og talið er af sumum fræðimönnum að gyðingatrúin sem islam, kristni og fleiri trúarbrögð eru sprottin af hafi komið af því að faraóinn Akhenaten fann upp eingyðistrúna. Þar mun Móse hafa starfað sem spáprestur og herleiðingin frá Egyptalandi hefur verið tengd við þetta sagnfræðilega.
Þetta er svolítið flókið, en Akhenaten tignaði egypzka guðinn Amon, sem var talinn mildari guð en margir af þeim egypzku, og líkjast Jahve, guði Biblíunnar, hvað varðar einhverjar setningar um kærleika, en stríðsguðir þó báðir. Þó var Amon líkt við Ra, sólarguðinn og því var Amon tignaður sem sólin, enda sólardýrkun útbreidd í fornöld.
Í ritum Swedenborgs og fleiri guðfræðinga löngu seinna er endurómur af Ra trúnni, að guði Biblíunnar er lýst sem sólinni á himninum.
Akhenaten vildi að aðeins Aten væri tignaður, og þannig er upphaf gyðingdóms rakið og kristninnar. Gyðingar sem flóttamenn og minnihlutahópur í ríki Fornegypta fyrir langa löngu sigruðu sál heimsbyggðarinnar með merkilegum bókmenntum sínum og trúarhita og tryggð við sinn guð og með því að tengja við eymdina og volæðið, að Faraó kúgaði þá, að trúin sigri erfiðar aðstæður, fórnarlambavæðinguna sem enn er allsráðandi, og fer vaxandi.
Ekki sízt með áhrifum kvenna, sem voru meginhluti þeirra kristnu á fyrstu öldum kristninnar, konur og aðrir lítilsmetnir í samfélaginu börðust fyrir þeirri trú.
Herúlar voru germanskir, norrænir. Mér finnst alveg ósannað að þeir hafi átt ættir að rekja til semíta eins og gyðinga. Einnig er óvíst að nema örfáir þeirra hafi blandazt fólki í Skandinavíu eða komið til Íslands.
Orðið úlfur er ekki ættrakið til svona í orðsifjabókinni, heldur af wulfas, germönsku og uel, rífa í sig, úr fornindóevrópsku.
Úlfur er orð sem Ásgeir Blöndal ættrakti mjög vel og einungis til hágermanskra róta.
Að Benjamín hafi verið úlfur verður að útskýra betur. Var það huglægt eins og hjá indíánum, eða er þetta orð á hebresku ef til vill líkt orðsifjafræðilega? Ég hef í mínu grúski viðurkennt að sum íslenzk orð geti átt sér miklu eldri rætur en Ásgeir Blöndal taldi, en þá þarf að sýna fram á það með dæmum og rannsóknum.
Snorri Sturluson var með bull um það að Æsir hafi komið frá Asíu. Eins og fræðimenn segja, það er grunnhyggni byggð á svipuðum hljómi orðanna, sannar ekki neitt.
Ættforeldrar Herúla hafa tæplega verið Æsir og Ásynjur frekar en okkar Íslendinga. Æsir eru æðri verur á öðrum hnöttum og Vanir sömuleiðis. Kynblöndun við þá hefur kannski eitthvað farið fram, en þá vegna heimsókna um langt skeið, eins og álfasögurnar segja frá.
En ég er óþreytandi í grúski mínu og ég hef vissulega rekizt á aðrar kenningar sem tengja norrænt fólk við Súmera, Adam og Evu. Í þeirri bók kemur fram að guðirnir hafi haft mikið fyrir því að skapa Adam og Evu, og það hafi tekið erfðafræðitilraunir í langan tíma, og skrímsli orðið útkoman að hluta til.
Þar kemur fram mjög merkileg setning sem er víst höfð eftir leirtöflum ævafornum, frá því fyrir tíma Biblíunnar. Þar kemur fram að EVA HAFI VERIÐ BLÁEYG, eins og guðirnir, og að þeir hafi mjög glaðzt yfir þessu að þarna komu fram EINKENNI GUÐANNA.
Alveg eins og fjölmargt í Biblíunni er komið úr súmerskri menningu, þannig má telja að einhver erfðaefni hafi komið frá þeim einnig.
En Kári Stefánsson hefur svarað þessu neitandi. Íslendingar komu frá Noregi og Írlandi mestmegnis.
Ingólfur Sigurðsson, 17.4.2023 kl. 10:22
Það var fróðlegt að lesa þetta og ýmislegt sem rifjast upp við lesturinn. Eitt sinn var ég á togara og þegar við vorum á leið frá Hull til Íslands og vorum staddir út af Dundee í Skotlandi, kviknaði í hjá okkur og í baráttunni við eldinn vorum við fjórir sem fengum reykeitrun og vorum fluttir með þyrlu á sjúkrahús í Dundee. Þegar við vorum aðeins farnir að hjarna við kom í ljós að ég var sá eini sem talaði sæmilega ensku og spjallaði ég töluvert við einn lækninn þarna á sjúkrahúsinu. Meðal annars spurði hann mig um uppruna okkar Íslendinga, ég sagði honum að samkvæmt sögunni þá væru Íslendingar komnir af Norðmönnum og Írum þá sagði hann: ÞAÐ HLAUT AÐ VERA ÞAÐ VAR NEFNILEGA MJÖG "ÍRSKT" BLÓÐIÐ Í HONUM ÞESSUM sagði hann og benti á skipsfélaga minn í næsta rúmi (en Írar hafa orð á sér fyrir að vera nokkuð vínhneigðir).......
Jóhann Elíasson, 17.4.2023 kl. 12:36
Sæll Ingólfur, og takk fyrir athugasemdina þó þú farir um víðan völl og Völsungasögu sé nánast drepið á dreif.
Það er nákvæmlega skrásett í Landnámu og Íslendingasögunum hvaðan landnámsfólkið kom og ekki ástæða til að rengja það.
Hins vegar var stofnun Þjóðveldis einstakt afrek á svo stuttum tíma sem sagan tilgreinir. Það vakti svona meira fyrir mér hvaðan hugmyndafræðin kom að goðakerfinu þá stjórnkerfinu, en ekki goðafræðinni sem trúarbrögðum per se.
Margir tala um goðafræðina sem trúarbrögð frekar en pólitískt stjórnkerfi og segja þá þau trúarbrögð heiðin. Það er ákaflega lítið til í íslenskum sagnaarfi hvernig helgiathafnir þess heiðindóms fóru fram.
Nær væri að líta á heiðni sem skort á rétttrúnaði og ráðlegg ég þér að lesa Þorstein uxafót en þar geymast helstu minni heiðindómsins í kristilegri sögu. Ef við lítum til rétttrúnaðarins í dag styttist óðfluga í að kristið fólk teljist heiðið.
Mér þykir lakara að búið sé að komast að því af fræðimönnum að Snorri Sturluson hafi farið með fleipur, þá erum við í djúpum skít. Auk þess sem Fornaldarsögur Norðurlanda verða við það hreinar skröksögur, hvaðan s.s. menn fengu hugmyndaflug til að skálda þær upp frá rótum.
Herúla kenningin er stundum rakin til Barða Guðmundssonar fyrrum þjóðskalavarðar og alþingismanns. Benjamíns ættfærsluna þóttist Adam Rutherford haf fundið eftir uppgröft í Egipsku píramídunum.
Allir hafa það nokkuð á hreinu að landnámsfólk kom að mestu frá Noregi og Bretlandseyjum um það þarf ekki að fílisófera, heldur hitt af hvaða ætt þeir voru og hvað gerði að þetta fólk var svo öflugt að setja upp einstakt þjóðveldi.
Eins og kemur fram hjá Dalaskáldinu eru Íslendingar ættræknir í meira lagi og sennilega ekki til nein þjóð sem getur rakið ættir sínar svo langt. Þökk sé Þjóðveldinu og að íslenska saganaarfinum, sem nota bene varðveittist á íslensku hjá þjóðinni sem er jafn einstakt og þjóðveldið sjálft.
Það var þetta sem ég var að fiska með þessum pistli frekar en kannski hvort Íslendingar séu hlutfallslega meiri Norðmenn en Írar, -eða Gyðingar. Hvaða samhljóm átti þetta fólk svo það fór til Íslands.
Tengilinn í pistlinum orgin of a nation staðfestir staðfestir það sem Árni Óla grúskaði svart á hvítu með tilvitnunum í fjölda heimilda.
Þakka þér engu að síður fyrir víðfeðma athugasemd, hún er þess vegna ein og sér efni í marga pistla, en það eru einmitt athugasemdirnar sem gera það þess virði að blogga.
Magnús Sigurðsson, 17.4.2023 kl. 14:00
Þakka þér fyrri skemmtileg frásögn Jóhann, -sem sýnir hversu mikinn áhuga erlent fólk hefur á þessu sem á annað borð veit eitthvað um íslenska sagnaarfinn.
Það sem hefði kannski verið rétt að benda þessum skoska lækni á, um leið og tekið var undir írska blóðið, er að á landnámstíð var talað um Íra sem Skota, en það gerir náttúrlega hvorki söguna né Wiskíð verra.
Magnús Sigurðsson, 17.4.2023 kl. 14:10
Ekki gleyma að Benjamínítar voru siðlaus svín og var því sem næst gjöreytt eftir glæpi sína gegn hinum ættbálkunum - sjá Dómarabókina.
Bestu kveðjur
Guðjón E. Hreinberg, 17.4.2023 kl. 14:48
Vel á minnst Guðjón, eftir níðingsverkið í Gibeu.
Það ættu allir að lesa 19, 20 og 21 í Dómabók Gamla testamentisins ef þeir vilja vita hver var refsidómur Benjamíníta.
Þeir hafa þó það sér til friðþægingar að hafa orðið seinna lærisveinar Krists.
Magnús Sigurðsson, 17.4.2023 kl. 15:10
... já og svo hvernig þeir rændu konum annarra ættbálka til að þurrkast ekki út. Það verður gaman þegar við förum að bítast um þetta í Gúlagbúðum 1.
Guðjón E. Hreinberg, 17.4.2023 kl. 15:58
, , , spurning hver verður á heimavelli þar, -samkvæmt fornsögunum er það nokkuð ljóst hvað írsku ræturnar varðar.
Magnús Sigurðsson, 17.4.2023 kl. 16:22
hehe eigum við að ræða hvaða klúbbur varðveitti þessar sögur í heilt árþúsund?
Guðjón E. Hreinberg, 18.4.2023 kl. 01:14
Voru það ekki steypukallarnir? -Guðjón.
Magnús Sigurðsson, 18.4.2023 kl. 05:11
Takk Magnús fyrir enn einn snildar pistilinn, og svo allar athugasemdirnar.
Ingólfur nefnir vangaveltur um að Ís í Ísland sé ekki frosið vatn.
Eyjan hvíta og Mannssonurinn. Mbl 30, des 1988.
Það er Kolbeinn Þorleifsson sem skrifar.
https://timarit.is/files/58998387#search=%22Snemma%20%C3%A1%20%C3%BEessu%20birti%20%C3%A9g%20fj%C3%B3rar%20greinar%22
„Snemma á þessu ári birti ég fjórar greinar um hugtakið ís í indó-evrópskri hugsun, þar sem ég leiddi rök að því, að nafnið ísland væri kennt við guð, styrkleika og karlmennsku. Jafnframt benti ég á það, að einnig væri möguleiki á ljós-merkingu í orðinu ís. Hinar þrjár fyrstu merkingamar skipta mig mestu máli í augnablikinu, því að ég fínn flest dæmi, sem styðja þær skýringar mínar. Ég þakka hér með þeim mönnum, bæði leikum og lærðum, sem hafa haft samband við mig eftir lestur greina minna. Þeir hafa veitt mér ábendingar, sem mér hefur verið ljúft að fara eftir, enda hafa þær leitt til aukins fróðleiks um þetta efni. Nú er því tímabært að bæta við nýjum fróðleik um guðdóminn ís og tengsl hans við mannssonar-hugtak kristninnar og eyjuna hvítu í Norðurhöfum.“
Þekki ekki þessar fjórar greinar sem hann nefnir, og fann þær ekki.
Hann, Kolbeinn, veltir ýmsu fyrir sér.
Kolbeinn Þorleifsson rýnir í rit Einars Pálssonar.
„Nokkrar athuganir á kenningum Einars Pálssonar um trú og landnám íslands til forna“
https://timarit.is/files/62145797
„En öllu gamni fylgir nokkur alvara. Ég beitti við túlkun mína á „Pilti og stúlku” þekkingu minni á „Adam-mystik” 17. og 18. aldar, og það sýnir mér fram á það, að á þessum öldum er að finna þá menn, sem best hefðu skilið E. Pog tilgátur hans. Og það sýnir mér annað. 1 E. P. höfum við íslendingar loksins fengið mann, sem er hæfur til að skilja mesta guðfræðing okkar íslendinga á 17. öld: sjálfan séra Pál Björnsson í Selárdal. í Vísdómsriti séra Páls og riti hans um galdra, byggir hann á sama grundvelli og E. P. og stórskáldið Milton. Það er á þessari öld, sem kenningar E. P. eiga best heima í íslenskri menningarsögu. En um söguöldina getum við því miður ekkert sagt nema tómar ágiskanir.
---Lokið í Reykjavík 27. júlí 1974.
Haukur Árnason, 18.4.2023 kl. 11:15
Þakka þér fyrri athugasemdina Haukur, og góð orð.
Ég las greinina og er hún nokkuð tormelt eins og fræðimenn eig til, enda verða þeir að vitna í heimildir og frumtexta, en ekki fílisófera eins og við steypukallarnir.
Ég hef svo sem áður séð þessar hugmyndir um að nafnið Ísland sé ekki kennt við ísinn hans Hrafna-Flóka heldur sé guðlegt.
Mér finnst áhugavert hvað Kolbeinn kemst langt aftur í tímann með þessar hugmyndir í gegnum leirtöflurnar, kannski svona eitthvað svipað og Rutherford með geisla píramídans í norð-vestur.
Takk fyrir þetta það eru einmitt svona púsl sem geta kveikt á perunni.
Magnús Sigurðsson, 18.4.2023 kl. 14:34
Það eru fleiri áhugaverðir tenglar sem Haukur gefur uppi í sinni athugasemd, fyrir þá sem hafa áhuga á hvað hefur verið ritað um landnámsmenn á óhefðbundinn hátt.
https://timarit.is/page/5272264#page/n153/mode/2up
Magnús Sigurðsson, 18.4.2023 kl. 14:47
Gunnar Dal vildi meina að "Ís" væri fornt orð fyrir "Ás" eða goðumlíka veru. Þá má ekki gleyma að þegar Kvenir og Herúlar sigldu hingað ásamt öðrum þjóðflokkum höfðu Norður-Evrópu þjóðir (og Skandinavískar) smitast af orðum frá Mið-Austurlöndum í meir en þúsund ár. Til eru þó nokkrar vefmaskínur sem leyfa manni að leita að Arameískum og Hebreskum orðum sem eiga uppruna í græna hálfmánanum og koma frá Kaldeum (Arameum), en margt bendir til að ÍS geti túlkast bæði sem sýn og maður - saman ber að ís-ra-el- er "sá sem glímir við goðvætti" - einnig væri það soldil kímni kabbalameistaranna að RA er augljós tenging við Ra, rétt eins og Amen minnir á Amon-Ra. En ég vildi nú vegna timartis tengingarinnar hér að ofan mina á að mjög erfitt er að hafna Rússneskum og Breskum rannsóknum á því að hinn heldi maður Ísa í Kashmir hafi verið Jósúa Maríuson ... einnig að nýlega komst ég að því að fólk sem lærir Sanskrít getur skilið mælta Rússnesku ...
... ég ætlaði nú ekki að skrifa meira hérna, en það er alltaf sama sagan með "ykkur spekingana" að þegar þið gægist ofan í djúpa grautarpotta finnast stundum kjötbitar.
Guðjón E. Hreinberg, 18.4.2023 kl. 16:20
Athugasemd Hauks Árnasonar er mjög áhugaverð og ég las hlekkinn við hana sem er ekki síðri. Greinin í hlekknum finnst mér ekki tormelt, en rétt að sumu leyti og röng að öðru leyti. Veit ekki hvort ég fer útí það, en nara og ís merkir jú eiginmaður, bóndi eða ver á forn indversku, en þar með er ekki búið að finna út að ís merki það sama og guð. Hinsvegar úr því að höfundur greinarinnar segir að Narayana sé nafn á guðinum Vishnú sem hann nefnir Mannssoninn eins og Jesúm Krist, þá má færa rök fyrir þessu eins og hann gerir í greininni. En þó er þetta frekar langsótt í greininni, en mjög áhugavert samt og þarf að rannsaka miklu betur til að komast að nokkuð óyggjandi niðurstöðu. Nafnið Mannssonurinn hefur mér alltaf þótt mjög skemmtilegt og gott orð sem Kristur nefndi sjálfan sig og sýnir viðkunnanlegustu hliðarnar á honum eins og honum er lýst í Guðspjöllunum, það er að segja hinn auðmjúki Jesús, en hann gat þó orðið reiður eins og önnur dæmi sýna.
Ég sé að spekingurinn Guðjón Hreinberg hefur bætt við mjög áhugaverðum gullmola í þessi sýnidæmi.
Það kemur mér ekki mjög á óvart að hann lýsir þekkingu sem ég hef einnig á orðinu ís. Að vísu fékk ég þessa skyldleikatengingu við ás og ís með öðrum hætti.
Ég hef grúskað í fjölmörgum tungumálum en kann ekkert tungumál vel, nema tvö mál kann ég sæmilega, íslenzku og ensku, og eitthvað örlítið í öðrum.
Í liháísku fann ég kannski bitastæðustu punktana í þessu púsluspili með ís og ás. Raddað is (með franskri kommu á hvolfi yfir) þýðir frá eða úr eða út úr. Raddaða og óhreina s hljóðið merkir að ð eða t eða slíkur stafur var þarna fyrir áður en ritmál varð með þessum hætti.
Það litla sem ég kann í orðsifjafræðum hefur meðal annars kennt mér að sérhljóðar innan indóevrópska kerfisins voru mjög á reiki. Þannig eru orð eins og magnus (latína, mikill) og megas (gríska, mikill) næstum sömu orðin nema endingar aðrar og sérhljóðar aðrir.
Is á litháísku er því sama orðið og út hjá okkur og aus á þýzku. Ekki nokkur vafi á því að sami uppruninn liggur til grundvallar.
Indóevrópsk mál þróuðust án ritmáls um langan aldur. Fólk skildi hvert annað í mjög mörgum löndum, en þó voru mállýzkur og blæbrigðamunur á hljóðum og orðum.
Sýn og maður, get tekið undir það. Ég hef aðeins kannað þessi fornu og semetísku mál og það er sama sagan þar, orðin hafa margar merkingar og flytjast frá þjóð til þjóðar.
Sanskrít hef ég ekki lært nema lítið og þá aðeins mér til gamans. Sá sem hefur lært sanskrít til fullnustu á auðvelt með að skilja fjölmörg tungumál sæmilega vel og þar á meðal rússnesku, það er alveg rétt.
Ingólfur Sigurðsson, 18.4.2023 kl. 16:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.