Ógeðslega Ísland

Það hefur sjálfsagt mátt greina undanfarið á þessari síðu að höfundur hefur verið gnafinn. Tungumálið á hverfandi hveli fyrir hroða ensku, regluverk andskotans flæðir yfir svo landanum er orðið ófært að koma sér upp heimagerðu þaki yfir höfuðið hvað þá hænsnakofa án þess að brjóta EES samninginn, sem nú á endanlega að staðfesta að er rétthærri íslenskum lögum, nema að þau séu samhljóma.

Allt hefur þetta gerst á minni vakt, kynslóðar sem ólst upp við að haldið var upp á fullveldisdaginn með fríi í skólum, -kynslóðar sem ólst upp við að vera Íslandi allt með 17. júní helstan hátíðisdag ársins, -kynslóðar sem vissi að dreifðar byggðir landsins yrðu að vera í byggð því síðasti bærinn yrði aldrei til lengdar sá síðasti.

Nú er risið við sjóndeildarhring djöflaríki, þar sem íbúar byggðalags í nauðvörn verða að kaupa heilsíðuauglýsingu til að vekja athygli á firðinum sínum sem á að eyðileggja með óumbeðnu erlendu fiskeldi. Íbúar hafa einfaldlega ekkert um það að segja og fjölmiðlar landsins bláa þegja þunnu hljóði svo ekki slettist á allt of litlu bláu buxnadragtir Davos dúkkulísanna sem halda þeim uppi á óreiðustyrkjum.

Íbúar í stórsameinuðu sveitarfélagi Múlaþings eru með heilsíðu auglýsingu í Dagskránni þessa vikuna þar sem má lesa þetta: Stopp verndum Seyðisfjörð - 75% íbúa Seyðisfjarðar hafna sjókvíaeldi Ice Fish Farm, samkvæmt skoðanakönnun sveitarfélagsins. Ice Fish Farm, sveitarfélagið og innviðaráðherra virða ekki vilja íbúa. Persónulegur fjárhagslegur ávinningur erindreka fyrirtækisins er að minnsta kosti þrír milljarðar ef af verður. Náttúran, lífríkið og samfélagið á Seyðisfirði bera skaðann.

Já svona er komið á minni vakt, því segi ég ógeðslega Ísland.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Magnús.

Ósjálfrátt hvarlaði hugurinn til Matthíasar Jochumssonar
og kvæðis hans Volaða land eftir að hafa lesið pistil þinn.

Það blæðir í augum að sjá Ísland missa fullveldi sitt, hafi þegar
gert það að hluta og til standi að lög og reglur ESB standi íslenskum
lögum ofar.

Við horfum uppá það að skipt er um þjóð í landi þessu án þess að nokkur fái rönd við reist.

Íslandi allt, var sagt á öldum fyrr en nú er það Íslandi ekkert öðrum allt.Er þetta sjálfshatur? Hvenær er nóg orðið nóg? 

Verðirnir hafa sofnað á verðinum; varðmenn Íslands kikna í hnjáliðunum
og þeir verðir sem gættu þeirra í byrjun eru löngu hallir af heimi.

Hinn 18. júli 1888 birtist kvæði Matthíasar fyrsta sinni og
er fylgt úr hlaði með sérstökum formála en hvorttveggja fer hér á eftir:

En vér prentum það af því að kvæðið sýnir svo sorglega vel, næstum því svo áþreifanlega, í hverju rauna-skapi bræður vorir og systur á Norðurlandi eru um þessar mundir. Slíkt kvæði er ekki uppgerð. Bak við annað eins kvæði og þetta liggur margra ára stríð einstaklingsins, margra alda þjáningar þjóðarinnar. Þess vegna ætti enginn að lá höfundinum, enginn að hneykslast á kvæðinu, þó að það sé harðort um ættjörð vora. Það fara af sléttmælin, það dregur úr fagurgalanum, þegar hafísinn liggur við landsteinana í júnímánuði, þegar menn ganga um svangir dag eftir dag, þegar menn sjá ekkert fyrir augum sér, nema stríð og strit, eymd og örbirgð. Það er ekki til neins að dyljast þess, það verður lítið þá úr ættjarðarástinni, eins og hún er almennt skilin.

1.

Volaða land,
horsælu hérvistar slóðir,
húsgangsins trúfasta móðir,
volaða land!

2.

Tröllriðna land,
spjallað og sprungið að eldi,
spéskorið Ránar af veldi,
tröllriðna land!

3.

Hraunelda land,
hrákasmíð hrynjandi skánar,
hordregið örverpi Ránar,
hraunelda land.

4.

Hafísa land,
ískrandi illviðrum marið,
eilífum hörmungum barið,
hafísa land!

5.

Stórslysa land,
fóstrað af feiknum og raunum,
fóðrað af logandi kaunum,
stórslysa land!

6.

Blóðrisa land,
mölvað af knútum og kögglum,
klórað af hrímþursa nöglum,
blóðrisa land.

7.

Vandræða land,
skakkt eins og skothendu kvæði,
skapaði guð þig í bræði?
vandræða land!

8.

Drepandi land,
búið með kjark vorn og kjarna,
kúgandi merg þinna barna,
drepandi land!

9.

Drepandi land,
hvað er það helst sem þú safnar?
Sult vorn og örbirgð þú jafnar,
drepandi land.

10.

Vesæla land!
Setið er nú meðan sætt er,
senn er nú étið hvað ætt er
vesæla land!

11.

Hrafnfundna land,
munt þú ei hentugast hröfnum?
héðan er beint vorum stöfnum,
hrafnfundna land!

Húsari. (IP-tala skráð) 5.4.2023 kl. 16:04

2 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Þarna þekki ég þig Magnús, að segja þeim til syndanna sem láta yfirborðsmennskuna bera sig ofurliði. 

Ljóðið eftir Matthías Jochumsson sem Húsari birtist hér er einnig merkilegt. 

Með því að berstrípa harðneskjuna og fegra hana ekki er hann að benda á harða lífsbaráttuna, og að úr því forfeður og formæður tórðu hér ætti nútímamaðurinn að virða þær fórnir, og oft getur tilgangur lífsins verið fólginn í slíkum sigrum, en ekki hagvexti.

Með frjálslegri stuðlasetningu var Matthías líka að slá tóninn fyrir poppara seinni tíma sem fara ekki eftir bragreglum eða atómskáldin. 

Maður finnur til meðsektar sinnar, þetta gerist á manns eigin æviskeiði. Ég er algjörlega handviss um að það er vond samvizka þeirra fyrir Vestan sem knýr þau til að dæma Donald Trump fyrir það sem kalla mætti brot, en eru frekar siðferðisafglöp og breyzka, þetta sem Demókratar eiga sjálfir eins ríkulega og Repúblikanar, eins og Sigmundur Davíð var látinn gjalda fyrir, þannig að þjóðin fær ekki að njóta krafta hans til fulls lengur.

Ég hef verið að lesa bók á ensku eftir andlega þenkjandi mann. Hann er það sem kalla mætti flatjörðungur, sá sem styður kenninguna um flata jörð. Þessi ágæti rithöfundur minnir mig mikið á Guðjón Hreinberg. Báðir eru eingyðistrúar og heimspekingar og grúska í allskonar furðufræðum og eru með áhugaverðan stíl, eitthvað sem fræðir mann oft.

Ég tek lítið mark á tilraunum hans til að rökstyðja að jörðin sé flöt, en það merkilegasta í bókinni er hvernig hann telur að frjáls vilji sé ekki til, að Guð sé alvaldur og þessvegna sé það synd að reyna að hjálpa öðrum og hroki, því öllum sé ætlað að taka út þetta lífsskeið, og líka þjóðfélögum í heild sinni, með mistökum og hremmingum.

Þetta minnir á karmalögmálið, þegar kristnir menn eða aðrir eingyðistrúarmenn leggja svona ríka áherzlu á að Guð stjórni öllu og maðurinn fylgi aðeins forskrift hans eða vilja, jafnvel syndararnir.

Það er ákveðin huggun í þessu þegar manni finnst verr ganga í þjóðfélaginu en nauðsynlegt er. Ég á samt svolítið erfitt að sætta mig við ábyrgðarleysið sem fylgir í kjölfarið.

Á tyllidögum í ræðum er þjóðerniskenndin notuð, en neikvæðar hliðar hennar koma í ljós þegar í raun hún er ekki virt í lagasetningum Davos dúkkulísanna. Þá fyllist fólkið beizkju og sársauka, og átök verða. 

Ég kann vel við svona pistla, þar sem höfundurinn dregur ekki undan gagnrýnina.

Ingólfur Sigurðsson, 5.4.2023 kl. 16:50

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrri Húsari. -að minna á Matthías. Já þetta er magnað ljóð og ekki þar allt sem sýnist. Mér datt nú reyndar Volaða land aðeins í hug, því ég hélt að ég gæti aldrei notað ógeðslega Ísland í fyrirsögn. En svo mundi ég eftir að Styrmir heitinn hafði notað orðið ógeðslegt um íslensk málefni.

Þú kemur inn á skiptin sem eru að verða á þjóð í landinu, og ekki vanþörf á frekar en með tunguna. Er þetta sjálfshatur eða eða minnimáttarkennd? Hvað veit maður þegar ráðamenn eru mannvitsbrekkur á við það sem þær eru. Engu er líkara en vestræn ríki séu í kapphlaupi um mestu fáviskuna og má þar minna á alla forsætisráðherra Breta upp á síðkastið og sjófið vegna fyrrverandi forsetans gálunnar fyrir vestan.

Eins eru ekki nema nokkrir dagar síðan að utanríkisráðherra okkar, sú sem ætlar að keyra EES yfirganginn í gegn, talið um að rússneski flotinn ætti helst að fokka sér. Talsmáti hugrekkis eða fávisku, dæmi hver fyrir sig. En aðal málið er þjóðin sem fékk ættjörðina í arf. Það þarf ekki að skipta miklu út hjá Matthíasi til að færa Volaða land til nútímans. Nú vantar ekki að landið sem er hagsælt, heldur þjóðin sem vanþakkar.

Vitskerta þjóð

blinduð af hagsældar óhófi

vanþakklát farsældar Fróni

vitskerta þjóð!

Flissandi þjóð

fóðruð á sykri og neyslu

vafrandi í óhófi og eyðslu

flissandi þjóð!

Hégóma þjóð

ofdekruð og spill til ofeldis

leiksoppur heimskunnar veldis

hégóma þjóð!

Skammsýna þjóð

fávís í múgsefjun falin

eilífum hégóma vafin

skammsýna þjóð!

Uppgjafa þjóð 

í vansæld sýndarmennskunnar

afsprengi aumingja vikunnar

uppgjafa þjóð!

Þögul þjóð

múlbundin í rétttrúnaði

ginnt sviknu loforði

þögul þjóð!

Voluð þjóð

svívirða kynslóðanna

óhæf ættjörð að unna

voluð þjóð!

Magnús Sigurðsson, 5.4.2023 kl. 19:16

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrri hugleiðinguna Ingólfur. 

Mér finnst að ég hafi talað tæpitungulaust undanfarið þó svo að ég hafi ekki sett það í samband við hægri eða vinstri. Mér leiðist heldur að flokka fólk, og forðast að nefna nöfn þegar ég geri það, þó svo að skilja megi við hverja er átt.

Flokkspólitíkin virðist því miður vera ónýt og skoðanir fólks koma úr þeirri þeirri tunnu sem hæðst glymur rétttrúnaðinum. Þjóðerniskennd hefur alltaf verið jákvæð í mínum huga og á ekkert skylt við þá þjóðernisverkfræði sem fór hamförum í Evrópu á síðustu öld.

Þar var andhverfu þjóðerniskenndar að ræða, sem beitt með blekkingum, enda vita það allir sem sjá nefi sínu lengra að það voru ekki nasistar sem töpuðu stríðinu, heldur þjóðverjar. EES samningurinn er afsprengi hugmyndafræði nasismans.

Nasisminn kom óorði á forn fræði með notkun gamalla rúna tákna á stríðstól. Þeir komu óorði á orðið heill með kveðju sinni, og svo mætti lengi telja. Guðjón Hreinberg leitaði að orði á bloggi sínu um daginn, þar sem við báðir vorum á þræði. Orðið sem honum vantaði var heill, og ég skal skýra það betur hér en ég gerði þar.

Ár var alda

Frá órofa alda

Að ferðast um tímann

er líkt bylgju sem brotnar

við brimsorfna strönd.

Við nið aldanna er hugurinn heill

og samsamar sig briminu

í órofa tímaleysi.

Orðið er heill, -

heillin mín eins og amma sagði.

Magnús Sigurðsson, 5.4.2023 kl. 19:44

5 identicon

*Kvæði og greinarstúfur birtist í Lögréttu.(blað gefið út í Vesturheimi)
 Ekki var getið um höfund í það sinni.

Til fróðleiks má geta þess að Matthías var svo hraðkvæður þá andinn kom yfir hann að hann rétt hafði við að skrifa erindin niður.
Freistaðist að gera á þeim endurbætur næsta dag eða nokkru síðar
en breytingarnar sjaldnast til bóta.

Þegar þetta er virt þá eru það einna helst þeir sem fást við
ósjálfráða skrift sem verða einna helst fyrir því að hafa tæpast við að skrifa niður það sem andinn býður þeim.

Mér er sagt af dulfróðum mönnum að það sama eigi sér stað hjá
vökumiðlum en þeim reynist stundum erfitt að skipa því niður í skiljanlegt form sem ber fyrir þá sem oftast er ótölulegur fjöldi mynda á tiltölulega stuttum tíma.

Húsari. (IP-tala skráð) 6.4.2023 kl. 05:29

6 identicon

**Biðst forláts, blaðið nefndist Lögberg og var gefið út í Vesturheimi.

Húsari. (IP-tala skráð) 6.4.2023 kl. 06:44

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir þennan fróðleik Húsari. Mér kemur þetta ekki á óvart með Matthías, las einhversstaðar að Ó Guð vors lands hefði orðið til á svipaðan hátt. Fyrsta erindið hafi staðið eitt og sér sem sálmur, síðan hafi hann bætt hinum við í þjóðsönginn sem komast ekki í hálfkvist við það fyrsta.

Við Íslendingar gerum okkur ekki alltaf grein fyrir hvað mörg mögnuð ljóð eru til á íslensku, sem mundu mega sín lítils ef þeim er umsnúið á aðra tungur, -því þá vantar í þau sálina.

Skáldskapur á íslensku er samofin þjóðarsálinni t.d. eru upphafsorð eins frægasta ljóðs víkingaaldar oft höfð yfir við jarðarfarir enn þann dag í dag; Mér er mjög svo trekt um tungu að hræraMy tongue is sluggish for me to move, -yrði náttúrulega bara disaster við jarðaför á Íslandi.

Magnús Sigurðsson, 6.4.2023 kl. 06:55

8 identicon

Margir eru pistlar þínir skorinorðir og skarpir, og ekki förlast þér með þennan. 

Já, meistari Magnús, þessi ádrepa þín hittir beint í mark.  Hafðu þakkir fyrir.

Guð blessi Ísland.  Megi allar góðar vættir vaka yfir okkar vesælu þjóð.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 6.4.2023 kl. 10:26

9 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir Pétur Örn, þær eru margar áminningarnar þessa dagana sem þarfnast ádrepu, þegar við sem fengum þetta land í arf virðumst ætla að láta glóbalska auðróna hafa það af okkur átölulaust, og höldum að það sé sjálfsagt gæskunnar vegna að þegja.

Þá er alveg sleppt að minnast á það hvað íslenskir auðrónar og sjálftökuslektið ganga langt í að skipta um þjóð í landinu við að afla sér ódýrara vinnuafls sem má svo snuða í gegnum þakið yfir höfuðið, því rétt eins og unga fólkið þá hafa nýbúar ekki hugmyndaflug til að átta sig á hvaða græðgi býr þar að baki. 

Fréttir berast nú af því ríkisstofnun yfirbjóði leigu þar sem þeir landar okkar suð-vestanlands hafa fengið skjól á viðráðanlegu verði, þeir sem minnst hafa á milli handanna. Hvað langt ætla íslensk stjórnvöld að ganga með stríðsherrum og glóbalistum í góðmennsku sinni? -og hvað ætlum við að láta þau teyma okkur langt?

Magnús Sigurðsson, 6.4.2023 kl. 12:30

10 Smámynd: Jónatan Karlsson

Kærar þakkir fyrir þessa góðu og þörfu hugvekju.

Ég óska þér og ágætum viðmælendum þínum gleðilegra páska.

Jónatan Karlsson, 6.4.2023 kl. 14:53

11 Smámynd: Loncexter

Einn helsti fylgifiskur á vanvirðingu á orði Guðs, er hrörnun lífskjara í landinu.

Og að lokum verðum við vinnuhyski fyrir erlend öfl.

Gamla T. átti að vara okkur við, en einhverjir hafa platað landslýð til að trúa ekkert á gamlar bækur.

Loncexter, 6.4.2023 kl. 17:36

12 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka ykkur fyrir innlitið og athugasemdirnar Jónatan og Locexter.

Það mun alltaf verða þannig að hægt verði að læra af gamla testamentinu.

Gleðilega páska.

Magnús Sigurðsson, 6.4.2023 kl. 21:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband