20.6.2023 | 05:54
Stríðið gegn fíflunum
Nú stendur baráttan hvað hæðst gegn því sem fólki hefur verið innrætt að sé illgresi jarðar. Allt til hausts munu heilu vélaherdeildirnar verða sendar út á vígvöllinn. Árangurinn lætur ekki á sér standa, eða þannig, því fíflunum mun einungis fjölga eftir því sem harðar er að þeim sótt, spretta galvaskir upp á ný strax næsta dag, þó svo þeir hreyki sér kannski ekki jafn hátt og í upphafi.
Leitun er að eitri sem er eins auðvelt að nálgast og fíflaeyði, en eins og margir vita sem hafa reynt þann metal er hann því sem næst gagnslaus. Einn sólríkan góðviðris morgunn þegar ég heimsótti kunningja kom ég að honum bálsteyttum út á lóð með heljarinnar stungu vopn sem hann hafði keypt í byggingavöruverslun, og kallaði fíflabana. Þetta vopn hafði hann fengið eftir að hafa keypt eitur af þeim í gallonavís án árangurs.
Þessi kunningi minn hóf vopnið á loft hvað eftir annað þarna í morgunnsárið með miklum formælingum, og keyrði það ofan í svörðinn ásamt brosandi fíflum á sólbrunninni grasflötinni í kringum húsið og sagði að eina ráðið til að drepa þessi kvikindi væri að komast fyrir ræturnar. Ég stillti mig um að minnast á að þær gætu verið allt að metir á dýpt og væru sennilega það eina sem væri fært um að draga raka og næringu svo djúpt að yfirborði jarðar.
Fyrir stuttu setti ég status á fésbókina um að það væri orðið fíflalegt á Egilsstöðum með myndum af fjölda fífla í brakandi blíðunni. Það stóð ekki á viðbrögðum og einhverjum varð hvorki um sel né til setunnar boðið með að líta í eigin barm þegar fíflunum fjölgaði svona í kringum þá, og mátti jafnvel skilja sem svo að nú yrði að taka á þeim, en flestum fannst þeir samt svolítið fallegir.
Undanfarin ár hef ég ekki nennt að gera nokkurn skapaðan hlut í fíflunum eða öðru illgresi, nema þá að éta þá eins og ég hef oft getið um hér á síðunni. Niður við Sólhólinn úti við ysta haf er garður sem er allur í órækt. Illgresið fær að hafa það eins og því sýnist, í mesta lagi að ég kippi upp einum og einum fífli og éti hann, eða njólavendi til að setja í súpupottinn.
Á síðasta ári bað kunningjafólk mig um að leifa sér að gista í Sólhólnum, en hann hafði verið í eigu þeirra fjölskyldu í áratugi áður en hann lenti í okkar Matthildar minnar umsjá. Ég sagði þessum kunningja að því þyrði ég varla, m.a. vegna þess að garðurinn, sem svilkona hans hafði lagt mikla alúð við, væri allur kominn í órækt. Þar hefði ekki verið gert ærlegt handtak síðan þau fóru.
Hann sagði það gerði ekkert til því að svilkona hans hefði skipulagt garðinn þannig að hann mætti vera í órækt. Þá rann upp fyrir mér hvers vegna ég hafði ekki haft brjóst í mér til að farga fíflum og öðru illgresi. Þessi í stað hafði verið byggður sólpallur yfir herlegheitin með svífandi göngustíg út á, og í mesta lagi verið ruddur þröngur stígur niður að hleinunum fyrir neðan kot.
Það er því orðið nokkuð síðan að ég uppgötvaði hve tilgangslaust stríð gegn fíflum er, eina vitið fyrir þá tapsáru er að hugga sig við enska spakmælið if you can´t beat them, join them, eða þá eins og er svo inn að segja á íslensku í dag, -bara að njóta.
Svona var miðbærinn á Egilsstöðum snemma í júní þegar mér þótti ástæða til að birta fíflalega fésbókar statusinn
Hér er búið að slá og allt annað að sjá, engin órækt lengur og umhverfislistaverkið visitegilsstadir.is fær athyglina óskipta
Hér hefur verið lögð ómæld sumarvinna unglinga árum saman í að hafa innkeyrsluna í Fellabæinn ræktarlega, hannað og útpælt undir eftirliti umhverfis sviðsstjóra og alles
Í hinum vegkantinum við innkomuna í Fellabæ er óræktin villt án þess að nokkuð sé að gert og við blasir lúpínan, -óvinur þjóðarinnar no 1
Vegagerðin lagði af að eitra vegkantana með Roundup fyrir nokkrum árum, en hefur fengið kantsláttuvél á skurðgröfu sem silast um þjóðveginn við að slá óræktina svo langt sem hún nær, svo óskapnaðurinn blasi ekki við vegfarendum
Bölti, eða hljóðmön, sem ekki hefur gefist tími til að slá, og ekki leynir sér að fíflarnir hafa náð laumað sér í grasið. Vanalega er þessi bölti eins og vera ber,-snöggrúin rolla sem skjögrar til fjalls að vori, eða vel reyttur kjúklingur
Sama hljóðmön seint í fyrra sumar, og sama hirðuleysið með sláttinn. Vallhumall búin að gera hann kríthvítan eins og fuglabjarg. Gott ef það vottaði ekki fyrir blágresi þegar ekki tókst að slá nógu staðfastlega í júlí á eftir fíflatímabilinu í júní
Húsmóðirin á það til að bregða sér út í óræktina við Sólhól og tína fífla, sóleyjar og aðra órækt saman í vönd, -á meðan ég er meira fyrir að tína illgresið upp í mig
Leynilegur getur hann verið krákustígurinn í gegnum óræktina að hleinunum neðan við kot
Athugasemdir
Mér finnast grasblettir alsettir sóleyjum og fíflum fallegir og hef aldrei skilið ástríðu leirmenna til að keyra yfir þessi svæði innan allra bæjarfélaga og borga með sláttuvélum, oft á hverju sumri, til að breyta þeim úr dökkgrænum fallegum svæðum í lj́ót ljósgræn svöðusár.
Svo áttaði ég mig; þau vilja teppaleggja bæina sína og afmá hið náttúrulega eins og þau geta, í samræmi við geldingu og steindun eigin sálar. Mjög sorglegt.
Guðjón E. Hreinberg, 20.6.2023 kl. 08:29
Rétt viðhorf, að leyfa náttúrunni bara að njóta sín. Fífilbrekka, gróin grund, Heyrir til á sólríkum sumardögum.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 20.6.2023 kl. 12:09
Já, ég átta mig ekki alltaf alveg á því hvers vegna náttúran fær ekki meira að njóta sín. Ég vil samt taka það fram að garðurinn í Sólhól hefur í upphafi fengið það atlæti sem þarf til að þurfa litla umhirðu en vera samt fallegur, enda bæði Atlantshafið í garðinum og fögur íslensk fjallasýn.
Ég hef ræktað lóð frá grunni, sem þurfti slátt reglulega og klippingu runna. Málið er að það er ótrúlega mikil vinna að halda svoleiðis umhverfi fallegu, þarf áburð, vökvun, slátt og reita úr beðum, reglulega allt sumarið helst vikulega ef vel á að vera. Mun fyrirhafnar minna er að láta náttúruna um að halda umhverfinu fallegu.
Varðandi bæjarfélög er þetta óskiljanlegt nema hvað unglingavinnuna áhrærir, gott að leifa ungu fólki að kynnast umhverfinu og gróðri í gegnum vinnuna. En þá væri nær að halda ræktuðum svæðum fallegum og hafa þau viðráðanleg og ekki þannig að til óskapnaðar horfi í þurrka tíð. Hvað þá þegar þarf að ráða verktaka á launum við að skilja eftir sviðna jörð, þá eru nú fíflarnir fallegri og jafnvel njólinn.
Ég vitna oft til frænda okkar í Noregi hérna á síðunni, og tók eftir því þessi ár sem ég bjó í Noregi hvað þeir eru miklu útsjónarsamri við að leifa náttúrunni að hafa sinn gang og hirða þá betur um þau svæði þar sem þeir vilja láta ferköntuð leirmenni teppaleggja sviðið.
Magnús Sigurðsson, 20.6.2023 kl. 15:01
Sæll Magnús.
Margur með lifandi innsæi fyrir því eitri sem þarna er á ferð
hafa farið þá leið að nota TNT eða sprengiefni gegn þessum fjanda.
Hafa þeir þá raðtengt sprengjurnar, 15 - 20 talsins, en þær liggja venju samkvæmt á 2 metra dýpi.
Síðan er ekkert annað en að sprengja!
Að vísu getur heimreiðin að íbúðarhúsi teppst um stund en þó varla en sem
nemur 3 - 5 mánuðum og er það fórnarkostnaður
sem enginn ætti að telja eftir.
Húsari. (IP-tala skráð) 20.6.2023 kl. 15:20
Fyrir nokkrum árum sagði ég stundum við golfspilarana sem grobbuðu sig í pottunum; meðan þið spilið golf, geng ég um ógróðið landið og sting niður græðlingum. Það var ekki vinsælt.
Guðjón E. Hreinberg, 20.6.2023 kl. 16:22
TNT eða golfgreen, -mér sýnist samt flestir sættast á kjarnorkuvetur til að losna úr viðjum fíflanna og eiga náðuga daga á sviðnum ódáinsakri.
Magnús Sigurðsson, 20.6.2023 kl. 19:04
Ég hef svo sannarlega ekkert á móti því að fækka fíflum, svo lengi sem það er gert á mannúðlegan hátt og gætt að því að beina ekki atlögunni óvart að þeim í karlkyni heldur aðeins í hvorugkyni.
Þorsteinn Siglaugsson, 20.6.2023 kl. 19:19
Það er þá Þorsteinn eitthvað svipað og með mig og dúkkulísurnar. Mér væri nokkuð sama þó þeim fækkaði, -þá sértaklega þeim sem eru af Davoskyni.
Magnús Sigurðsson, 20.6.2023 kl. 20:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.