Nýtt tungl

Núna þann 18. júní kl 04:37, kviknaði nýtt tungl í norð-austri, s.l 30 daga var suð-vestur tungl. Var einmuna blíða á norðaustur -og austurlandi mest allt það tungl og er enn. Veðurspáin gerir næstu daga ráð fyrir veðrabrigðum. Það dragi úr sól og blíðu fyrir norðan og austan, -fari fljótlega að rigna.

Rigningin er kærkomin því að allt er að skrælna hér á Héraði eftir heita daga og oft vindasama. Varla hefur komið dropi úr lofti svo heitið getur í heilan mánuð sem oft hefur verið mistrað af mold öræfanna. Hitinn síðustu tvo daga hefur farið yfir 26-27 gráður.

Án þess að ég hafi haldið yfir það bókhald þá gætu verið komnir 10-15 dagar, það sem af er sumri, sem hitinn hefur náð yfir 20 gráður á Héraði. Ef bjartir og hlýir dagar eru 20-30 á sumri má segja sem svo að íslenska sumarið hafi verið ásættanlegt, svona eitthvað á við þriggja vikna sólarlandaferð.

Í hvaða átt nýtt tungl kviknar ræður miklu um veður samkvæmt þjóðtrúnni. Hvort nóg er nú komið af góðum sumardögum er ekki gott í að spá, jafnvel fyrir karlinn í tunglinu, því vísindi tunglsins eru dularfull, bæði við fullt tungl og kvartilaskipti. Eins ræður tímasetning stærstu strauma flóðs og fjöru við tungl nokkru.

Á morgunn 19. júní hefst hinn forni Sólmánuður og sumarsólstöður eru þann 21. júní. Þann 13. júlí hefjast hundadagar sem má segja að þjóðtrúin segi að næstir ráði afdráttarlaust veðri. Eiga næstu 40 dagar eftir fyrsta hundadag að verða þeim fyrsta líkir samkvæmt þeirri speki.

Einhverjir kynnu að álykta sem svo að orðið hundadagar sé komið af Jörundi hundadagakonungi. Hundadagar eru mun eldri, ættaðir úr Rómarveldi eða jafnvel alla leið úr stjörnuspeki Grikkja, og orðið var haft yfir þá daga sumarsins sem voru einsleitir molludagar á norðurhveli jarðar, þegar átök hita og kulda voru í lágmarki.

Spáið í tunglið lesendur góðir því veðurfræðingar eiga enn í dag til að ljúga, þó svo að spálíkön gervigreindra langtímaspánna taki nú orðið sífellt meira mark á gamalli speki karlsins í tunglinu.

Eitthvað dylst þar austur frá

undir háum tindum,

er skúrumþrungin skyggja á

ský í norðanvindum,

-sértu þar og sértu þar

að senda geisla nýja,

-tunglið mitt og tunglið mitt,

taktu mig upp til skýja.   (Jón Þorleifsson 1825–1860)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Magnús.

Satt segir þú hinn frómi, menn skyldu gefa gaum að nýju tungli
og jafnvel að undanfari þess, í þessu tilfelli 17. júní geti
verið varhugaverður enda varúlfar og vampírur þegar komnar á kreik.

Undarlegt atvik virtist eiga sér stað þá er heiðurskrans var borinn að
styttu Jóns Sigurðssonar. Slétt var úr borðum æfðum höndum en í stað hefðbundinnar hneigingar varð til einhver sérkennilegasti listgjörningur
sem sögur fara af því sá er í hlut átti skáhljóp frá styttunni án þess þó að líta af kransi eða styttu eitt andartak.

Held að chóreógraphía af þessu tagi verði vart fundin í víðri veröld.

Munu tignarmenn íslenskir fylgja þessu fordæmi þá sjaldan að
þeir sækja heim fjarlæg Norðurlönd eða ríki í Evrópu svo ekki sé
nú minnst á vöggu lýðræðisins, Bandaríkin?

Má lesa úr þessu að sá er þar fór hafi í raun verið að kveðja embætti sitt eða miklu frekar undirstrikað a.m.k. 20 ár í embætti?

Þetta eru áleitnar spurningar og vafalaust mun sitt þykja hverjum.

Við skulum vara okkur á myrkrinu, Magnús!

Húsari. (IP-tala skráð) 18.6.2023 kl. 14:39

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Húsari, -ljótt að heyra af nýjum innfluttum ósið varðandi 17. júní, og kannski konunglegum í mislitum sokkum?

Annars horfi ég aldrei á sjónvarp og er því eins og álfur út úr hól varðandi svona fréttir, og eins og frómir menn hafa vafalaust tekið eftir þá hef ég um ekkert merkilegra en veðrið að tala, enda er það oft það eina sem hægt er að láta ljós þakklæti vegna.

Ég hafði mig ekki einu sinni á fjárplógssamkomu lókalsins vegna þjóðhátíðardagsins, en mér skilst að blessuð börnin hafi verið höfð að féþúfu með rándýrum innfluttum helíum blöðrum, eins og vextirnir í Svörtuloftum séu ekki nægjanlegir fyrir foreldrana að glíma við.

Annars las ég það einhversstaðar að tillaga hefði komið upp í sveitarstjórn í aðdragandi hátíðarhaldanna, að boltabullurnar sem sáu um þau með styrk úr sveitarsjóð og fengnu veiðileyfi á blessuð börnin, yrðu í það minnsta að syngja þjóðsönginn. En það var víst fellt með miklum glæsibrag.

Svo mér kemur ekkert að óvart lengur í þessu sambandi.

Með lýsandi kveðjum af Héraði.

Magnús Sigurðsson, 18.6.2023 kl. 18:49

3 identicon

Sæll Magnús.

Þakka svarið. Þú ert hafsjór af fróðleik.

Hefur þú eitthvað skoðað Völuspá í þeirri gerð
sem Helgi Hálfdanarson taldi réttasta?

Húsari. (IP-tala skráð) 18.6.2023 kl. 19:17

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Húsari, -nei það hef ég ekki gert frekar en hvað öðrum fræðimönnum þótti réttast í henni. 

Varðandi niðurstöðu mína með Völuspá þá tók ég mig til og las hana og hlustaði á útvarpsþætti Gísla Sigurðssonar á RUV, -ekkert annað í heila viku, enda var ég einn heima þá viku. 

Auðvitað hafði ég marglesið Völuspá í gegnum tíðina og velt því sama fyrir mér og aðrir s.s. á hvaða tíma hún hefði orðið til og hvaða ragnarök hún ætti við, m.a. með að lesa ritgerð Haraldar Bessasonar um Rúm og tíma Völuspár.

Mér skilst að Helgi Hálfdánarson sé aðallega að velta því fyrir sér hvað vísur hennar hafi verið í upphaflegu útgáfunni og hvað útgáfurnar sem til séu af henni séu margar og hvað hún segi eftir því hvernig henni er raðað saman. Hann hafi gefið út bókina Maddaman með kýrhausinn um þetta efni sem liggi ekki á lausu þ.e. frumútgáfan með forsemdunum.

Mín niðurstaða var að Völuspá lýsi ekki heimsendi þannig séð, heldur endi menningartímabila og nú séum við að upplifa ein þannig ragnarök. Níu man ég heima segir snemma í öllum útgáfum. Þannig að Vala mann meira en tímana tvenna, bæði fram og aftur.

Samkvæmt minni niðurstöðu þá er speki Völuspár sígild og talar til okkar tíma hvort sem erindin eru fleiri eða færri og jafnvel þó svo við hana verði aukið. Hún er ekki ólík Biblíunni að því leiti að vera til í fleiri en einni útgáfu. Svo er bara að hafa tilfinningu fyrir því rétta.

Ég set hérna tengil á útvarpsþætti Gísla Sigurðssonar, og annan tengil á mína niðurstöðu eftir vikulangar vangaveltur um árið.

https://www.ruv.is/utvarp/spila/voluspa/28832

https://magnuss.blog.is/blog/magnuss/entry/2244843/

Magnús Sigurðsson, 18.6.2023 kl. 20:10

5 identicon

Sæll Magnús.

Þakka þér ýtarlegt svarið og gott.
Einnig tengingar um vefinn, hver annarri gagnlegri.

Allt hermir þú rétt hvað varðar athuganir Helga Hálfdanarsonar,

Ekki er undur þó Völuspá og Biblíunni beri nokkuð saman
þar sem hvor um sig er sennilega af sama menningarsvæði.

Helgi kom víða við og eina ónefnda flokkunina reif hann
svo í tætlur að ekki sást arða eftir.
Mátti hver maður með augu í hausnum hvort heldur tengd eða ótengd
sannfærast um að háheilagt timburverkið stóðst enga skoðun
og hafði sama tuggan er þetta varðaði hringsólað um hnöttinn allan margfaldlega og undirskriftin var það eina sem breyttist í þeim meðförum.
Mun þetta ráðslag eigi ótítt og ófáir kannast við það.

En nú er að fagna nýjum dómsmálaráðherra og sjá hvort vendirnir verði teknir af hillunni!

Húsari. (IP-tala skráð) 18.6.2023 kl. 23:54

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir ábendinguna Húsari, -ég þarf greinilega að kynna mér hugmyndir Helga um Völuspá. Ég sá í vetur að Helga Hálfdánarsonar var minnst í ljóði skálds sem ég met mikils og las í vetur, þannig að mikið hefur fundist til hans koma.

Magnús Sigurðsson, 19.6.2023 kl. 05:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband