Heyrðu snöggvast Snati minn

Hér á síðunni hefur mér orðið tíðrætt um Hermannastekka. En við þá herma munnmæli að Guttormur Hallsona hafi verið hernumin af Tyrkjum föstudaginn 6. júlí 1627. Hermannastekkarnir voru fluttir nýverið þvert yfir Berufjörð frá Búlandsnesi við Djúpavog austur á Berunes.

Það gerði Þorsteinn Helgason sagnfræðingur með grein í Glettingi, tímariti um austfirsk málefni, árið 2003 og í doktorsritgerð sinni 2013 sem fjallar um Tyrkjaránið. Þar sem hann rengdi þjóðsöguna og misskildi munnmælin möglunarlaust með því að hræra hvoru tveggja saman.

Ég reyndi í fyrra að fá þá sagnfræðingana Karl Smára Hreinson og Adam Nichols til að flytja Hermannastekkana aftur yfir á Búlandsnes þegar þeir unnu að bókinni Enslaved, sem fjallar um Tyrkjaránið á Austfjörðum, en án árangurs.

Þeir notuðu ekki sögnina um Hermannastekka sem dæmi um þjóðsögur og munnmæli í bókinni. Síðan þá hef ég haldið þeim við efnið, enda stendur jafnvel til að 5 bóka ritröð þeirra um Tyrkjaránið á Íslandi, sem út komu á ensku, verði gefið út í bók á íslensku.

Það sem m.a. hefur staðið í vegi fyrir því að Hremannastekka munnmælin nái öðru flugi, en verða misskilin, er fyrri hluti örnefnisins “hermanna”. Fleiri en sagnfræðingarnir vilja meina að lítið hafi verið hermannlegt við Hundtyrkjann þetta hafi verið óþjóða og ræningja lýður. Landinn hefði því ekki verið líklegur til að velja þessum stað þetta nafn.

En kannski hefur málskilningur á því hvað er að vera hermannlegur breyst í gegnum aldirnar s.b. vísuna; Heyrðu snöggvast Snati minn snjalli vinur kæri, heldurðu ekki hringinn þinn ég hermannlega bæri? En nútíma skilningur á greinilega við það að vera djarfur og bera sig höfðinglega.

Í Egilssögu má lesa þetta um að vera hermannlegur þegar Egill Skallagrímsson stóð í erfðamálum við Berg-Önund: Þá mælti Egill: "Vér skulum nú snúa aftur til bæjarins og fara hermannlega, drepa menn þá alla, er vér náum, en taka fé allt, það er vér megum með komast."

Þeir fara til bæjarins og hlaupa þar inn í hús og drepa þar menn fimmtán eða sextán; sumir komust undan af hlaupi; þeir rændu þar öllu fé, en spilltu því, er þeir máttu eigi með fara. Þeir ráku búfé til strandar og hjuggu, báru á bátinn sem hann tók við; fóru síðan leið sína og reru út um eyjasund.

 

Ps. Hér fyrir neðan má nálgast fyrri pistla um Hemannastekka: 

Hvaðan kom nafnið - Hermannastekkar

Örnefni og gildi þeirra


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband