Draumurinn sem dó

Nú rembast hinir svokölluðu aðilar vinnumarkaðarins við að skapa þjóðarsátt, þ.e.a.s. sá hluti sem ekki hefur þurft að díva hendinni í kalt vatn.

Enda er farið að fara um jötuliðið. Reykjavík gjaldþrota og skurðgröfurnar á landráðaskaga orðnar tekjulausar ef ekki væri fyrir svokallaða innviðagarða við Blanka lónið, Svartsengi og Grindavík.

Sviðsmyndaséníin nú þegar farin að klappa upp fyrir hamförum við Hafnarfjörð til að ná um innviðagjaldið sem ráðalaus ríkisstjórn með tóman ríkisjóð ætlar þeim á klakanum að borga sem hafa þak yfir höfuðið.

Allir sem muna lengra en gullfiskaminninu nemur vita að svokölluð þjóðarsátt frá því 1990 var sátt á milli jötuliðsins um hvernig kökunni yrði skipt þannig að þeir landsmenn sem drægju vagninn ættu ekki séns.

Erlent láglauna vinnuafl fjórhelsisins hefur streymt til landsins allar götur síðan, og leitun er að venjulegum Íslendingum sem hafa eignast annað en skuldir í þakinu yfir höfuðið sem skattstofn fyrir jötuliðið. En að öðru góðir landsmenn;

 

Mig langar að minnast draums

-um ástkæra fósturmold

árdags í ljóma

 

Hver á sér fegra föðurland

sem ungan dreymir

-sér til sóma

 

Þar sem sól slær

silfri á voga

og heiðarvötnin blá

-þar sem til voru fræ

er fengu dóma

 

Ekki er hægt að geta dreymandans að svo stöddu

þar sem ekki hefur náðst til aðstandenda

-þjóðina sem arfinn þinn geymir

 

En sértu velkominn heim

yfir hafið og heim

suður um höfin

að sólgylltri strönd

 

– Útförin verður auglýst síðar

af séra Kaldalóns úr Unaðsdal

–fyrirhugaðar eru sætaferðir

með æsslander og play


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Gaman af þessu Magnús og því miður margt sorglega satt.

Gleðilegt nýtt ár.

Sigurður Kristján Hjaltested, 4.1.2024 kl. 17:03

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þetta er nú engin skemmtilesning Sigurður.

Engu að síður gleðilegt og farsælt komandi ár

Magnús Sigurðsson, 4.1.2024 kl. 18:20

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Aldrei kemur maður að tómum kofanum hjá þér Magnús.  Ég et ekki séð annað en "elítuliðið" sé að herða tökin og að gera lífið fyrir almenning enn flóknara og erfiðara en áður.....

Jóhann Elíasson, 5.1.2024 kl. 09:57

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Mér skilst að rauð strik og millifærslur úr galtómum ríkissjóð eigi að vera saltið í grautinn núna Jóhann, -og þar til yfir lýkur.

Sennilega orðið of seint að bjóða upp á burtflogin hænsni, teiknaðar kartöflur og steiktar spýtur. Mátti reyna það síðast, en þá gleymdust rauðu strikin.

Magnús Sigurðsson, 5.1.2024 kl. 11:20

5 identicon

Gleðilegt ár, Magnús!

Satt er það, þetta er engin skemmtilesning.

Engu er líkara en sjálf Líkaböng raungerist
í síðasta erindinu.

Ef til vill mætti kalla form ljóðs þessa endurröðun
þar sem höfundur af miklum hagleik tekur saman ljóðlínur
úr ýmsum áttum og fær skotið inn einstöku línum hnitmiðuðum.

Tæpast verður útilokað að lestri loknum að verulegar líkur
séu fyrir því að í handraðanum leynist fleira, ýmist þessu líkt
eða af öðrum toga.

Það eru forréttindi að fá litið slíka smekkvísi og leikni
og vald á íslensku máli.

Húsari. (IP-tala skráð) 5.1.2024 kl. 22:54

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Árið sömuleiðis Húsari, -nei hitt þó heldur þetta eru engin gamanmál.

Það má svo sem líkja lokaerindinu við að Líkaböng sé að hringa inn lokametrana. Reyndar kemur mér æ oftar til hugar Dansinn í Hruna. 

Annars fékk ég einhverja fjandans óværu þegar ég kom til vinnu eftir hátíðirnar og hef verið að fjandskapast út í flækinga í fljúgandi pestarhylkjum sem hafa skipst á óværu í flughöfnum.

Alveg ótrúlegt að þjóð sem sprittaðli sig í vímu og njörvaði á sig pestargrímur til að standa í tveggja metra biðröðum við að hlýða Víði skuli haga sér svona allar götur síðan.

Engin lengur maður með mönnum nema hafa helst tekið fimmfaldan flæking og það jafnvel um há vetur. Öðruvísi áður brá, ekki nema 20-30 ár síðan að ekki nokkurri heilvita manneskju kom til hugar annað en halda sig heima á þessum árstíma.

Mér skilst að heilbrigðiskerfið sé nú komið á hliðina sem aldrei fyrr. Kannski er eini möguleikinn á að taka Pétur jökul á þetta og forða sér til fjalla og bíða af sér pestina í nokkur ár, þetta endar svo sem ekki nema á einn veg.

Magnús Sigurðsson, 6.1.2024 kl. 07:14

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður aftur Magnús.

Ég hafði nú gaman að lesa þetta þó ekki væri um skemmtilesningu að ræða. Sem og athugasemdir, samúðarkveðjur með flækinginn, hann hefur hrjáð mig frá því á gamlárs, var vondur fyrir, núna er betri helmingurinn búinn að þróa lungnasýkingu.

Og maður þekkti þetta varla í gamla daga.

Þá er gott að fá eitthvað sem fær mann til að brosa.

Kveðja að neðan.

Ómar Geirsson, 8.1.2024 kl. 16:19

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Og já blessaður aftur og aftur Magnús.

Er á yfirreið, og var að lesa Hanann.

Tek undir með Skáldinu þó tímaramminn hefði ekki leyft mér það þar sem skrifað var um hann.

Mæli ekki með að þú hættir að steypa Magnús, því steypan virðist tengja andann við óravíddir almættisins, þar sem hugsanir fæðast, mótast, og bíða þess eins að verða skráðar, heldur að þú íhugir að skrifa meir, öðrum til gagns og ánægju.

Hafðu mikla þökk fyrir.

Kveðja úr lognmollunni að neðan.

Ómar Geirsson, 8.1.2024 kl. 16:29

9 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar, -og árið eða þannig. Já þær flækjast um pestirnar núna enda nógir til að veita þeim brautargengi. Nei svona vetra flækingur var ekki inn fyrir 25 árum eða svo, hvað þá á okkar bernsku dögum, -fólk fór helst ekkert nema í neyð.

Það uppgötvaðist í morgunn hvað er að hrjá mig, enda kom það snöggt eins og sút fló í brjóstið inn, eins og nafni minn Megas orðaði það, alveg án þess að ég yrði þannig séð lasinn. Heldur var það óstjórnlegur hósti og mæði sem er búin að hrjá mig hitalausan í 5 daga.

Berkjubólga heitir það og ekkert við henni að gera nema halda áfram að lemjast um í hóstaköstum á milli þess sem ég söppla í mig fjallagrasaseyði og gostöflur. Eins gott að við Matthildur mín fórum á grasafjall í sumar.

Það er verst hvað ég var komin á góðan skrið í steypunni eftir áramótin, hef sjaldan átt eins ágæt jól og áramót og hugurinn eftir hátíðar verið eins stór, -og nú er frostlaus vika framundan. En ég kemst hvorki lönd né strönd fyrir hósta og mæði hvað þá til steypu.

Bestu kveðjur í lognmolluna í neðra úr hamfarablíðunni í efra.

Magnús Sigurðsson, 8.1.2024 kl. 19:36

10 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Svo því sé haldið til haga Ómar, -batakveðjur til ykkar Guðnýjar.

Kveðjur að ofan.

Magnús Sigurðsson, 8.1.2024 kl. 19:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband