Haninn - minningabrot í steypu ársins

Gilsá

Á brúnni milli lífs og dauða, sem liggur fyrir ofan brúna, -sem liggur yfir eldri brú enn neðar, -stend ég og steypi.

Minningarnar streyma í steypunni eins og áin milli steina neðst í grýttu gilinu. Ein af annarri fá þær framrás líkt og ísaldarleir yfir það sem gerðist hér, -og steinsnar frá, -allt eins og væri í gær.

 

Ég sit á koppnum heima í skúrnum á Hæðinni, en ekkert kemur, biðin friðlaus eftir því að komast út í sólskinið og morgunninn.

Mamma kemur með volgt vatn í hraðasuðukatli eftir að hafa blandað niður með ísköldu, því það er engin heitur krani í skúrnum.

Hún reisir mig upp og hellir í koppinn, setur snáðann sinn svo aftur á koppinn, segir mér að sitja þar til bunar, og fer síðan að huga að litla bróðir.

 

Við erum komnir út á hlað í lognstillan morgunninn, -afi, Emil og ég 5 ára, að farast úr spenningi yfir því að nú styttist í að við förum á traktornum út á Fljótsmölina til að vitja um silunganetið í Keldunni.

Fljótið er einn rennisléttur spegill. Kyrrðin algjör – ef ekki væri fyrir suð í fiskiflugu og vellandi spóa, -og að þeir bændurnir Þórir og afi bjóða hvor öðrum góðan dag og tefja tímann með spjalli um blessuðu blíðuna – eins og það geti ekki beðið.

Ég nota tækifærið á meðan og flýgst á við Emil, sem pakkar mér skrækandi saman niður í grasið, - enda næstum fjórum árum eldri.

“Hann tekur undir við þig haninn á Ormarsstöðum Magnús minn”; -segir Þórir sposkur

– “passaðu þig bara á að hann fljúgi ekki yfir Fljótið og bíti undan þér”; -gala ég kominn í kút, -úr grasinu.

Útundan mér á milli grænna stráa sé ég á hinum bakka Fljótsins kirkjuna á Ási uppljómaða við annað hanagal í morgunnsólinni, minna fer fyrir Ormarsstöðum utar og ofar, -en ég sé hvergi hanann.

Afi spyr Emil íbygginn um leið og Þórir gengur klumsa í sitt fjós til purrrrandi mjalta;

– “heyrðirðu hvað hann sagði, -hvaðan hefur drengurinn þetta eiginlega”.

– Og við röltum allir þrír í fjósið hans afa.

 

Eftir hádegisblund ömmu og afa, -meðan ég hafði setið úti í sólinni, hlustað á sóninn í símalínunum með Sámi í sunna golunni, -fór ég með afa á Willysnum í Grófargerði.

Okkur var boðið í kaffi og formköku hjá gamla fólkinu – og Alfreð, -sem afi átti erindið við. – Ég sá sólskinið fyrir utan nellikurnar og gardínuna í suðurglugganum. Leiddist kaffimasið og hafði ekki lyst á að klára sneið með súkkati, -fór út á hlað til sólarinnar.

Hundurinn á bænum dormaði í skugganum norðan við neðstu tröppuna – geispaði, -teygði sig svo undirleitur út í sólina til að hnusa varfærnislega. – Ég gerði honum auðveldara fyrir og rétti til hans fót í hvítbotna gúmmískó, -rakkinn rauk upp og beit sig svo fastan og togaði með urri og gelti.

Á meðan ég snérist galandi og sparkandi eins fast og ég mögulega gat, komu afi og Alfreð út, en ekki hættu gólin, geltið, urrið og spörkin fyrr en þeir hundskömmuðust báðir tveir bændurnir.

Þegar ég var háttaður um kvöldið, og eftir kattarþvott og Jesú bróðir besta hjá ömmu, -mátti enn sjá far eftir tár á moldugri kinn rétt eins og hvert annað hundsbit í grasgrænni buxnaskálm.

 

Við systkinin erum þrjú komum út í skammdegisskímuna, -með mömmu. Jörðin er hrímgrá, hörð, -og ísköld – Þorpið frosið í gráma morgunsins fyrir neðan brekkuna.

Mamma er hljóð – Fyrsti veturinn minn í skóla – Mér er kalt, -rennilásinn á úlpunni minni er bilaður. Við löbbum skáhalt norður og niður Hæðina frá skúrnum til Frænku í Varmahlíð.

Þær tala í hálfum hljóðum um að Jonni, -og einn annar sé dáinn, -fleiri væru slösuð. Átta ungmenni í nýja Rússajeppanum með blæjunni lentu í gilið í nótt.

Tveim vart hugað líf. – Enginn skóli í dag – Tárin streyma, -og ég ekki ennþá búinn að læra í skólanum hvernig er að vera dáinn eins og Jonni frændi, -samt eru að koma jól.

 

Og þarna stend ég sólríkan dag undir Hátúna-Hetti – neðan við Hjálpleysuna, -orðinn grár og gamall maður af hita og þunga dagsins.

- Meðan steypan streymir í loka metrana á nýju brúnni, sem byggð var í sumar, yfir gilið dimmadauðadjúpa.

– Engin elsku mamma, -galvaskir félagarnir, -sem kalla ekki allt ömmu sína, -hamast við að slétta úr steypunni áður en hún grjótharðnar sem óhugnanlegur óskapnaður í sumarsólinni, -og ég gala á milli steypubíla,

– “viljiði að ég haldi áfram strákar!"

– Eins og það sé eitthvert val.

 

Ps. Hér má sjá hvernig brúar steypa yfir Gilsá er framkvæmd, -á 46 sekúndum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Árnason

Góður Magnús. Takk.

Haukur Árnason, 21.12.2023 kl. 15:25

2 identicon

Hafðu þakkir fyrir þína skemmtilegu og fróðlegu pisla. Jólakveðjur til ykkar

jakob jónsson (IP-tala skráð) 21.12.2023 kl. 17:36

3 identicon

Kærar þakkir fyrir þessi ljóðrænu og myndrænu skrif, meistari Magnús.  

Nota hér svo tækifærið og óska þér og fjölskyldu gleðilegra jóla og gæfuríks komandi árs.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 21.12.2023 kl. 18:07

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir innlitin og athugasemdirnar, Haukur, Jakob og Pétur Örn.

Þær eru ánægjulegar og ylja hjartanu.

Gleðileg Jól.

Magnús Sigurðsson, 23.12.2023 kl. 07:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband