Litla hryllingsbúðin

Ólyginn sagði mér, en hafið mig samt ekki fyrir því, að í minni heimasveit væri stunduð sprotaframleiðsla fyrir hamfaraórækt. Þetta á að hafa gerst í kjölfar þess að sérfræðingar að sunna kenndir við nýsköpun gáfu upp á bátinn að sigra heiminn með hryllingsplöntunni wasabi sem er notuð til að gera sushi endanlega óætt.

Málavextir eru þeir að gróðrarstöð Barra varð gjaldþrota fyrir ca 10 árum og hefur ýmsu verið reynt að koma á legg í þeim risa gróðurhúsaloftslagshúsum síðan. Reyndar er hamfaraforsagan mun lengri því Barri fór í þessa stórhuga uppbyggingu eftir hátt í 20 ára farsælt starf rétt fyrir hrun í meira en meðalstóru gróðurhúsi.

Þá seldi Kaupfélag Héraðsbúa land til sveitarfélagsins þar sem átti að rísa nýr miðbær fyrir Egilsstaði, rétt fyrir utan bæinn. Stærsta vertakafyrirtækið á Egilsstöðum keypti svo landið undan Barra við hlið fyrirhugaða nýja miðbæjarins af kaupfélaginu. Barri átti að græða á öllu saman eins og allir aðrir sem seldu þá hús sín til niðurrifs.

Skemmst er að geta þess að allt fór þetta gróðabrall á hausinn eftir að vertakafyrirtækið byggði nýjan Barra fyrir norðan Fljót. En áður hafði kaupfélagið keypt verktakafyrirtækið til að þurfa ekki að afskrifa góða sölu á landi úr bókhaldinu. Verktakafyrirtækið fór á hausinn strax í hruninu haustið 2008, kaupfélagið á 100 ára afmælisárinu í byrjun árs 2009,

Sveitarfélagið lenti í áralanga gjörgæslu, sem það er nýlega sloppið úr, og þurfti að leita á náðir nágranna til að fjármagna þak yfir grunnskólabörn því sveitarfélagið hafði látið rífa grunnskólann til að byggja nýjan á meðan gull glóði á hverju strái af landsölu fjármálsnilldarinnar í nýja miðbænum sem enn er órisinn.

Barri fór svo endanlega í þrot eftir að hafa verið margviðreistur af Byggðastofnun. Var meir að segja reynt að rækta erfðabreitt bygg í gróðurhúsunum fyrir botox og silicon bjúdíiðnaðinn um tíma. En allt kom fyrir ekki, byggið fauk að endingu út um víðan völl þegar gróðurhúsin skemmdust í einu óveðrinu. En þá komu bara ný nýsköpunarséníi til bjargar, -Wasabi Iceland.

Í gróðrarstöð Barra hefur verið haldinn vinsæll jólamarkaður í fjölda ára, eina dagstund á aðventunni, sóttur af fólki um allt Austurland, nokkurskonar fjórðungsmót. Þar hefur heimafólk selt framleiðslu sína án rafrænna sjálfsafgreiðslu kassa, og átti svo að vera einnig í ár.

Skyndilega var þeim áformum breytt og fyrirhugað er að hafa markaðinn í brunarústum Vasks sem nú er verið að loka fyrir veðrum og vindum með krossviðarspjöldum. Ástæðan reyndist sú, samkvæmt ólygnum, að Wasabi Iceland hafði náð samningi um að selja Skórækt ríkisins sprota til hamfaraóræktar kolefniskirkjunnar.

Nýsköpunarséníunum datt það snjallræði í hug s.l. vor að fá foreldrafélag íþróttafélagsins til að klippa sprota af Alaska öspum í görðunum heima hjá sér og koma fyrir í gróðurhúsunum í fjáröflunarskini. Vökvun og lýsing gróðurhúsanna er sjálfvirk, þannig að engin þurfti að vinna á meðan framleiðslan ávaxtaði sig sjálf.

Það kom svo óvænt í ljós nú fyrir skemmstu, þegar farið var að huga að jólamarkaði, að asparsprotarnir höfðu ávaxtað sig betur en landsala kaupfélagsins um árið, skotið rótum í allar áttir þannig að nú er ófært um gróðurhúsið fyrir Alaska ösp

Það ku víst hafa komið nýsköpunar sprota sérfræðingunum að sunnan nokkuð á óvart að öspin skildi ekki haga sér eins og kryddjurtin wasabi og léti illa að stjórn í gegnum rafrænan fjarfundarbúnað.

Þessa sögu úr litlu hryllingsbúðinni sel ég samt ekki dýrara en ég keypti, það verður sennilega Byggðastofnun að gera.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband