18.2.2024 | 02:25
Í garði Gunnlaðar
Huganum má líkja við skafrenning í snjall væddum nútímanum, þar sem Óminnishegrinn leiðir um villu vegar með þriggja sekúndna gullfiskaminni.
Þegar hugsun vekur upp tortryggni, kvíða eða efa, -og síðan skeytingaleysi, -orsakar hún dulda væntingu.
Ef flett er yfir í næstu nýmæli, án þess að ná áttum í þeim fyrri, sest hugmynd, -óafgreidd af innsæinu í undirvitundina.
Þannig er stafrænum nútímanum leyft að leiða hugann með tvískynungi, og viðhorfið til veruleikans litast af ranghugmyndum.
Hliðin sem er snúið er að heiminum mótast mest af innrætingu, fordómum og snjalltækni. -Á kostnað sköpunargáfu, kærleika og bænar.
Óminnishegrinn spígsporar
yfir auðnir vitundarinnar
en í skúmaskotum hjartans
lifir vonin um hið eilífa vor
á meðan vindar tímans
halda áfram að gnauða
á gluggum sálarinnar
Athugasemdir
"Óminnishegrinn spígsporar
yfir auðnir vitundarinnar
en í skúmaskoti hjartans
lifir von um hið eilífa vor
á meðan vindar tímans
halda áfram að gnauða
á gluggum sálarinnar"
Við þetta er engu við að bæta.
Takk Magnús.
Haukur Árnason, 18.2.2024 kl. 15:19
Takk fyrir, Haukur.
Magnús Sigurðsson, 19.2.2024 kl. 12:53
Mannbætandi og fallegur pistill, takk fyrir.
Ég vil benda á bókina "Skyggnst á bak við ský" eftir Svövu Jakobsdóttur frá 1999. Þetta er ritgerðasafn en ekki skáldsaga. Hún skrifaði Gunnlaðarsögu, byggða á Eddum okkar. Í þessari bók koma betri lýsingar á hennar skoðunum á bókmenntaarfinum en í skáldsögunni sjálfri, sem er ljóðræn og opin fyrir margskonar túlkunum á henni. Margt djúpt og þannig að maður þarf að pæla.
Gullfiskaminnið er áberandi. Svo margt er talið gamaldags sem er klassískt og góðra gjalda vert. Innsæið er svo mikilvægt í nútímanum, og án þess eru trúarbrögðin aðeins umbúðir og skær bjalla.
Stafrænn veruleiki nútímans er svo villandi. Hávær glymjandi, rýrt innihald.
Á meðan Guðjón útskýrir svipaða hluti með rökvísi kemur hér fram ljúf ljóðrænan og hvort tveggja mikilvægt. Takk fyrir góðan pistil, svona vantar í eilífa pólitíkina.
Ingólfur Sigurðsson, 19.2.2024 kl. 14:52
Þetta er flott Magnús, maður kemur aldrei að tómum kofa hjá þér. Hafðu þakkir fyrir.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 19.2.2024 kl. 18:19
Takk fyrir þín orð Ingólfur, -og fyrir að benda á Svövu Jakobsdóttir.
Ég var með Hávamál í huga, 13. Erindið, þegar ég gaf blogginu fyrirsögn, en hafði ekki lesið þessa ritgerð Svövu fyrr en núna þegar þú bendir á hana. Þar er djúpt kafað eftir skýringum á texta Hávamála um Gunnlöðu á áhugaverðan hátt.
Óminnishegrinn er viðsjáll fugl hvort sem hann nýtur skáldsagnargáfunnar eða ekki, bæði er hægt að innræta og vekja innsýn með því að ráða yfir skáldamiðinum. Það er að segja vekja sjálfstraust eða skipa í lið, svo magnaður er hinn dýri mjöður.
Það sem ég er að ýja að með þriggja sekúndna gullfiskaminninu er hvernig innsæið er brenglað og þar með skáldrýminu í sjálfinu. Flestir vilja vera upplýstir, en myndu kannski ekki alvegi kannast við að vera einungis innrættir.
En þegar innrætingin er orðin stafræn á 3. sekúndna fresti í formi upplýsinga þá ræður Óminnishegrinn ríkum í upplýstu gullfiskaminninu.
Við getum allt eins haldið að það sem okkur hefur verið innrætt sé okkar andagift þegar hún kemur frá undirvitundinni, þangað sem innrætingin fór óafgreidd af innsæinu.
"Það var trú í forneskju að menn væru endurbornir en það er nú kölluð kerlingarvilla."
Magnús Sigurðsson, 19.2.2024 kl. 19:33
Takk fyrir, Pétur Örn.
Svo því sé haldið til haga þá hefur þessi pistill verið marg þvældur á sparisíðunni og jafnvel látið í hann skína hér á þessar síðu áður.
Þetta blogg er samsuða margra ára sem reynt er að koma í orð með stuttu máli.
Myndin er svo frá því 2016, einhvern vegin varð hún hugljómun.
Orðin fyrir neðan myndina setti ég inn í tölvuna hjá mér 2015, þá áttavilltur vegna hjartaáfalls.
Þannig að það getur tekið langan tíma að glíma við að gera það sem brýst um í undirvitundinni skiljanlegt.
Magnús Sigurðsson, 19.2.2024 kl. 19:47
Heill og sæll Magnús,ég tók mig til eftir lestur greinar þinnar og fór að glugga í kveri sem heitir Hávamál og Völuspá,sem Gísli Sigurðson gaf út 1987.
Í kverinu er eftirmáli upp á 21 síðu,fróðleikur sem hann líkur með því að segja "enda þótt Íslendingar vilji gjarnan líta svo á að Hávamál og Völuspá séu íslensk kvæði,er það ekki nema hálfur sannleikur.þau eru hluti af sameiginlegri menningararfleifð germannskra þjóða;Norðurlanda,Þjóðverja,Engilsaxa. En þar sem við varðveittum þau erum við einu sem getum lesið þau.Ætli ráðamenn viti það?
Hreppti kverið á Árshátíð fyrir að botna 2 fyrriparta.
Helga Kristjánsdóttir, 20.2.2024 kl. 02:26
Takk fyrir, Helga, -að benda á kver Gísla Sigurðssonar.
Það er fleira en Eddukvæðin sem eru hluti af sameiginlegum arfi þjóðanna, -t.d. mankynssaga sem var ekki vaðveitt af valdinu.
Fornaldarsögur Norðurlanda segja sögur frá Svartahafi og Garðaríki sem ekki liggja á glámbekk, sama má segja um margar Íslendingasögurnar þegar veraldar saga valdsins er annars vegar.
Ég hygg að íslenskir ráðamenn viti eitthvað af þessu, en eins og við mörg hver þá eru þau orðin svo ofboðslega glóbelsk.
Magnús Sigurðsson, 20.2.2024 kl. 05:28
Já,já,gæti aflað mér fróðleiks hefði eg mikinn áhuga á því sem ég mundi alls ekki varðandi norræran menningararf.Hamast frekar í að halda mér nokkuð við á móðurmálinu "fyrst ég annars hjarta hræri",en ég sakna íslenskunnar og reyni að hjálpa "innlitinu" sem flest er pólskt en afskaplega elskulegt fólk. M.B.kveðju.
Helga Kristjánsdóttir, 20.2.2024 kl. 12:39
Sæl Helga, -fleiri mættu sýna erlendu fólki þolinmæði varðandi íslenskuna.
Það er okkar sem eldri erum að koma kjarnyrtu íslensku máli til afkomendanna þó svo að það sé ekki hægt að ætlast til þess að allir Íslendingar hafi áhuga fyrir fornbókmenntum.
Magnús Sigurðsson, 20.2.2024 kl. 13:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.