Munið þið þegar miðlínan var gul?

-Það var fyrir EES, Schengen, túristavaðalinn og mest af þeirri óáran sem unioninu fylgir. Nú er búið að heilaþvo heilu kynslóðirnar með þeirri möntru að allt sé betra. Stuttbuxnadeildin varð sú fyrsta, sem var vöskuð milli eyrnanna í trú á að Dabbi kóngur hefði komið Íslendingum inn í nútímann. Það dugði þangað til hann hrapaði af Svörtuloftum og fór sem próventukarl upp í Hádegismóa.

Eftir hið svokallaða hruni kom smá icesave glæta, en þá voru blessuð börnin vöskuð enn betur á milli eyrnanna með falsfréttum, ólæsi og hroða ensku, -af Davos dúkkulýsum. Og nú er svo komið að kynslóðin sem er að vaxa úr grasi veit varla hvað Ísland er annað en millilandaflugvöllur sem flytur landann í sólina á Tene og flækinga á klakann.

Á meðan hefur landráðaliðið framselt fullveldi og auðlindir landsins út í eitt og það verður trauðla endurheimt nema að taka afleiðingunum af því að segja sig frá EES og Schengen. Þó svo að það gæti kostað smá töf til Tene þá yrði Ísland á eftir meira á íslenskum forsemdum, -fiskurinn sem unnin var í Grindavík yrði unnin á landinu bláa en ekki á meðgjöf í unioninu.

Útlendingaiðnaðurinn er orðin helsti tekjumöguleiki innfæddra s.s ferðaþjónusta mönnuð með erlendu starfsfólki, byggingaiðnaðurinn er í sama fasa, -ekki nema nokkrir dagar síðan að rúmenskur vinnuflokkur bjargaði hitaveitunni á Suðurnesjum sem er í erlendri eigu. Allt gert til að hirða mismun af lágum launum og okri auðrónum til yndisauka.

Glópelskur landinn er orðinn eins og kotbændur fyrri tíma, sem héldu að þeir væru stórbokkar ef þeir fengu niðursetning, því það var borgað með þeim og hægt að fara illa með þá að auki. Allt heila helvítis fræðingabáknið og sviðsmyndaveldið þrífst orðið á niðursetningum og flækingi.

Í grófum dráttum eru niðursetningar lögfræðistóðsins hælisleitendur, og innflutta vinnuaflið þjónustar túristavaðalinn og byggir innviðina. Á meðan flestir innfæddra erum orðnir fákunnandi bjánar með fræðigráður á fundi.

-Eða í starfshóp á vegum ríkisins og fá frábærar hugmyndir á færibandi, en hafa hvorki hendur né verkkunnáttu til að framkvæma, hvað þá sjálfstæði, - og geta nú orðið varla þrifið eftir sig skítinn.

Já man einhver þegar miðlínan var gul? -og Ísland var Ísland – Bubbi hafði hár og söng óræð ljóð.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Eins og ég hef alltaf sagt. Það var allt betra í gamla daga smile

Wilhelm Emilsson, 25.2.2024 kl. 01:43

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir innlitið og athugasemdina,-Wilhelm.

Betra í gamla daga, spurning hvort þeir dagar hafa einhvern tíma verið til, -þannig séð sem samanburðarhæfir. En Bubbi var betri fyrir minn smekkcool

Magnús Sigurðsson, 25.2.2024 kl. 06:21

3 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Það er mikið til í því að "gömlu góðu dagarnir" hafi kannski aldrei verið til! Ég er sammála þér með Bubba. Með fullri virðingu fyrir nútíma Bubba þá finnst mér gamli Bubbi betri, en það á líka við um ansi marga tónlistarmenn. 

Wilhelm Emilsson, 25.2.2024 kl. 09:02

4 identicon

Takk fyrir enn einn snilldarpistilinn.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 25.2.2024 kl. 12:32

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Bubbi er var og verður einn af þjóðskáldunum, -Wilhelm.

Takk fyrir góð orð Pétur Örn, -ekki er samt ólíklegt að gula miðlínan verði ekki hátt skrifuð, svona á meðan sú gula á Tene stendur til boða.

Magnús Sigurðsson, 25.2.2024 kl. 20:44

6 Smámynd: Þórhallur Pálsson

Ég hef bara eitt um þetta að segja:
Bubbi var og er enn bara ömurlega leiðinlegur !

Þórhallur Pálsson, 25.2.2024 kl. 21:04

7 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Eins og þú bendir á, þá er og verður Bubbi þjóðskáld. Hann sýndi og sannaði að íslenska og rokk fara saman og hann hefur, að mínu mati, ekki fengið nægilega mikla viðurkenningu fyrir hvað það skiptir miklu máli fyrir íslenska nútímamenningu.

Wilhelm Emilsson, 25.2.2024 kl. 21:05

8 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Bubbi er stórlega ofmetinn að mörgu leyti. Til dæmis er hann ekki frumlegur lagahöfundur, öll lögin hans eru einföld og umbreytingar á dægurtónlist sem hefur verið margþvæld 1000 sinnum, GCD gripin, eins og hljómsveitin hans heitir eða hét ef hún er hætt. Megas kann jazz og allskonar stíla og hefur bætt þeim inní sín lög, eins og á "Fláa veröld" frá 1997, eða "Sláið hjartans hörpustrengi", Drög að sjálfsmorði 1979. 

Bubbi hefur notað stíla, en þvælir öllu inní klisjupopp hvað varðar laglínur.

Hann er heldur alls ekki þjóðskáld, textarnir hans eru eins mikil klisja og lögin. Aðeins í upphafi þegar hann gerði súrrealíska texta fannst mér hann koma með nýjungar, EGÓ, sú hljómsveit stendur enn fyrir sínu.

Bubbi þvældi sér inná markaðinn með hjálp Elítunnar, hann er hluti af femínismabylgjunni. Hann varð vinsæll með því að syngja sig inná Herstöðvarandstæðinga, femínista og allt þetta sem var á uppleið þá, um 1980.

Eitt má hann þó eiga. Hann er frábær söngvari og sviðsmaður, jafnvel sá bezti sem við höfum átt.

Það hafa margir aðrir rokkað feitar og betur en Bubbi, finnst mér. Hann er samt sjarmatröll, og það má hann líka eiga, þannig að hann kann þessa list að ná vinsældum, og það hafa ekki allir.

Þjóðskáld í poppinu eru þessu: Megas, Þorsteinn Eggertsson, Sverrir Stormsker, Ómar Ragnarsson, Jónas Friðrik... kannski fleiri. 

Er Bubbi skáld? Jæja, kannski er hann það, en þá meira í ætt við Sigurð Breiðfjörð rímnaskáld, sem bjó til rímur eftir formúlum.

Ingólfur Sigurðsson, 25.2.2024 kl. 22:48

9 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka ykkur fyrir innlitið og athugasemdirnar félagar, -þó svo að þið svarið allt öðru en spurningunni sem lagt var upp með.

Bubbi er umdeildur, tækifærissinni og markaðsmaður, þannig séð þjóðskáld á sama kaliberi og Einar Ben, -sem bara á eftir að njóta meira sannmælis.

Engir hafa náð ámóta vinsældum og gert eins mikið fyrir íslenskuna síðustu áratugi, af öllum öðrum ólöstuðum.

Bubbi er ásamt Megasi ofl ofl stórlega vanmetið þjóðskáld en það á etir að breytast.

Þau eru svo fá þjóðskáldin sem eru að njóta fyllilega sannmælis í lifanda lífi.

En tókuð þíð eftir að þarna fyrir aftan Bubba var miðlína þjóðvegarins gul? -og ljóðið við myndbandið getur alveg eins átt við daginn í dag.

Magnús Sigurðsson, 26.2.2024 kl. 06:00

10 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Ég man eftir gulu línunum og þegar Bubbi var með hár og óræðu/symbólísku textunum hans og Gamla Íslandi. Ég man líka eftir Kana-sjónvarpinu og -útvarpinu cool Og einvígi Spasskys og Fischers. Ég hélt með Spassky að því hann virtist geðþekkari maður. Var bara sjö ára og var ekki mikið að hugsa um stjórnmál í þá daga.

Wilhelm Emilsson, 26.2.2024 kl. 21:10

11 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Já, ég fylgdist með útum framrúðuna sem farþegi og man eftir litabreytingunni á miðlínunni. Hvort ég man eftir gamla Bubba, þá hélt ég býsna mikið uppá hann, hann var einn af spámönnum minnar kynslóðar. Nú er hann bara að reyna að halda í gamla frægð, ekki satt? Að líkja honum við Einar Benediktsson er alltof mikið, ég er líkari honum sem skáld, djúppælinn og allt það. Einar Benediktsson, algjör risi og snillingur. 

Ég man ekki eftir Kana sjónvarpinu, en það gera foreldrar mínir og ég hef heyrt sögur, þegar krakkarnir flykktust í heimsókn þar sem það voru sjónvörp og aðgangur að Kanasjónvarpinu.

Ég man eftir engu sjónvarpi á fimmtudögum.

Já maður hafði mikinn áhuga á sjónvarpinu þá, þegar það var svarthvítt og ekki allar þessar rásir og stöðvar, lítið annað um að vera. 

En það bezta í þessum pistli er að þetta er satt, þetta var mannlegra samfélag í bernskuminningunum.

Ingólfur Sigurðsson, 26.2.2024 kl. 23:59

12 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir vitnisburðinn um gulu miðlínuna, -Wilhelm og Ingólfur. Hann er mikils virði.

Ástæðan fyrir þeirri gulu hér í þessum pistli í þessu samhengi er sú að ég var að horfa gamla Bubba syngja Foxtrot á youtube.

Mundi þá eftir þegar ég sá gulu miðlínuna að ég hafði spurt kunningja minn sem var umdæmisstjóri hjá Vegagerðinni hvers vegna hún hefði verið máluð hvít; -hún sæist miklu ver á veturna í skafrenningi. Mig minnir að þetta hafi verið 1994 frekar en fimm. Kunningi minn sagði að þetta væri samkvæmt ESB reglu sem fylgdi EES samningnum.

Þegar ég var í Noregi árin eftir hrun sá ég gulu miðlínuna á öllum vegum, en hana hafði ég bara séð í Ameríku þar fyrir utan. Ég ræddi þetta við norska vinnufélaga í N-Noregi og fannst þeim það með miklum ólíkindum að Íslendingar hefðu látið hvíta miðlínu yfir sig ganga.

Varðandi hvað ég sagði um Bubba og Einar Ben, þá var það m.a. sagt í því samhengi að Einar var bæði skáld og markaðsmaður. Það sama á við Bubba hann er markaðsmaður í sínum skáldskap og lifir á sinni list. En það gerði Einar reyndar ekki hvað skáldskapinn varðaði á sínum tíma, þó svo að hans verði einkum minnst fyrri hann.

En engu að síður báðir eru mikil þjóðskáld á svo marga vegu þó misjafn sé smekkur þjóðarinnar.

Magnús Sigurðsson, 27.2.2024 kl. 05:52

13 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Ég man vel eftir gulu línunni en minna eftir Bubba. Hann var að vísu mjög efnilegur og góður til að byrja með en spíttið virðist hafa tjónað eitthvað í hausnum á honum snemma á ferlinum.

Guðmundur Jónsson, 27.2.2024 kl. 15:15

14 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Gula línan var alltaf betri í kófi, -Guðmundur. Og Bubbi góður, þó hann hafi slakað á.

Magnús Sigurðsson, 27.2.2024 kl. 17:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband