5.3.2024 | 14:52
Á hverfanda hveli
Sjálfsagt kemur upp í huga einhverra Hollywood, -Gone with the Wind við þetta orðatiltæki. Allavega er það fyrst til að koma upp á google. Eins mætti hugsa sér eitthvað sem er að hverfa af yfirborðinu eða út í veður og vind, líkt og skilningur á íslensku máli.
Þetta máltæki er reyndar ævafornt, ættað úr Hávamálum, einum af gersemum íslenskrar tungu. Orðasambandið kemur fram í 84. erindi, sem er fyrsta kvæði Mansagna Hávamála, annars hluta heilræðanna;
Meyjar orðum
skyldi manngi trúa
né því er kveður kona,
því að á hverfanda hveli
voru þeim hjörtu sköpuð,
brigð í brjóst um lagin.
Af þessu má ætla að kvenfólki sé hreint ekki treystandi þar sem hjörtu þeirra séu hverflynd (á hverfanda hveli) og að upplagi svikul (brigð í brjóst um lagin). Hverfanda er lýsingarháttur nútíðar af sögninni hverfa sem merkir snúa. Hvel var orð yfir hjól í fornu máli.
Bókin Örlög orðanna þættir um Íslensk orð og orðtök eftir Halldór Halldórsson byrjar einmitt á Hvervanda hveli. Og þar er þetta máltæki krufið ítarlega á mörgum síðum, með því að vitna í vísa menn og forna texta. Einn af textunum má finna í Alvíssmálum Eddukvæða;
Máni heitir með mönnum,
en mylinn með goðum,
kalla hverfanda hvél helju í,
skyndi jötnar,
en skin dvergar,
kalla alfar ártala.
Þarna er vísað til kvartilaskipta tunglsins sem tímatals, og mánans sem hvels sem hverfur í hringferli. Mörg þjóðtrúin bendir til þess að tíðahringur kvenna hafi með hverflyndi og sviksemi að gera, en því er ekki haldið fram í Örlögum orðanna að þar sé uppruna orðasambandsins að finna.
Höfundur Örlaga orðanna telur uppruna máltækisins eiga eingöngu rætur að rekja til Hávamála. Hann nefnir þó kenningar um að það kunni að hafa komið í Hávamál í líkingu Rota Fortuna -hamingjuhjólið sem hafi verið þekkt þegar Hávamál voru færð í letur.
Einnig kemur fram athyglisverð kenning um að hvelið í gæti verið leirgerðarhjól. Samkvæmt þeirri kenningu hafa hjörtu kvenna verið sköpuð við leirsmíði. En það telur höfundur Örlaga orðanna langsótt og fái tæplega staðist að höfundi hafi verið það í huga.
Eins og mátt hefur greina í síðustu bloggum þá hefur síðuhafi verið uppnuminn í garði Gunnlaðar. Í gegnum tíðina hafa það verið konurnar sem veitt hafa okkur karlmönnunum skáldskaparmjöðinn.
Berum því virðingu fyrir þeim sem okkur hafa á brjóstum borið og gefið okkur innblástur til orðs og æðis, -gefum þeim blóm.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.