Svarta bókin

Ein af elstu bókum í mínum fórum, sem þarf samt ekki að vera svo gömul, hefur að geyma fágætan rithátt og magnaðan kveðskap á íslensku. Bókin, sem er nafnlaus, kemur frá afa mínum og nafna. Ég hélt að þetta væri sálmabók, -eða þar til ég setti mig inn í textana.

Bókinni hefur greinilega verið mikið flett, eru gulnuð blöð hennar orðin snjáð og rétt svo að hún hangi saman. Fremst á bakhlið kápu er hún er merkt systkinum sem fæddust og ólust upp í torfbæjum á Héraði snemma á 20. öldinni. Á öftustu blöðum og bakhlið kápu hefur verið æfð skrift.

Hversu gömul bókin er ómögulegt að segja því í henni virðist aldrei hafa verið neitt titilblað. Hún gæti allt eins hafa komið úr pússi foreldra þeirra systkinanna og því verið frá 19. öldinni, rétt eins og flestöll ártöl sem koma fram í henni.

En bókin byrjar á þessum orðum:

Til Lesndanna. – Þat hefur af Góðum monnum vacit til umræþo at ec munda rett rita arker af egin yðrom spunnom, á inni veranþi ári almenningi til dægurstytto, eþur oc einkunnar á framhaþi anþa þjoðernisins, , , 

Þarna er ekki beint um nútíma rithátt eða stafsetningu að ræða, og í lok formálans segir;

, , ,  Þetta fyrzta sínhyrni læt ec sva niþur bera hjá mannutiz oc avþgom Bónþa Hjálmarr Loptzyni á heiðþrudu cynnisleite.

Þjonuztusamligaz H: Jónaz: Eyfirðingr, 

Ökrum ennum iþri d: 10. mart: 1852

Það er ekki hægt að sjá í hvenær þessi bók hefur verið prentuð hún bara byrjar á þessum formála án frekari skýringa, en þegar hún er skoðuð þá er í henni nokkuð um ævi og kveðskap Bólu-Hjálmars á mun skiljanlegar skrifaðri íslensku, auk Skagfirsks kveðskapar.

Hjálmar Jónsson, betur þekktur sem Bólu-Hjálmar (fæddur á Hallandi í Eyjafirði 29. september 1796, dáinn í Brekkuhúsum skammt frá Víðimýri í Skagafirði 25. júlí 1875) var bóndi og ljóðskáld, segir wikipedia.

Móðir Hjálmars var heimilislaus þegar hún eignaðist hann, kom að kvöldi dags að Hallandi á Svalbarðsströnd og tók léttasótt um nóttina. Daginn eftir fór vinnukona á Hallandi með barnið í poka áleiðis til hreppstjórans. Hún kom við á Dálksstöðum og húsmóðirin þar fann svo til með drengnum að hún tók hann í fóstur og ól hann upp til átta ára aldurs. Þá fór hann til föður síns og ólst þar upp samkvæmt þekktri sögu.

Í bókinni er einungis kveðskapur, auk einnar lítillar frásagnar Hjálmars af því þegar hann fór vetrarlangt í fóstur á Dagverðareyri, þá á sjötta ári. Hann lét vel af verunni hjá hjónunum þar, sagði að þau hefðu komið fram við sig sem sinn son og húsbóndinn, Oddur Gunnarsson, hefði kennt sér að yrkja.

Hann segir frá því þegar Oddur á Dagverðareyri réri með hann um vorið, tveimur árum á móti suðaustan kylju, austur yfir Eyjafjörð í Dálksstaði, - þá var eins og báturinn  steytti á skeri út á miðjum firði og breytti um stefnu. Hjálmar varð hræddur og kvað við Odd með tárin í augunum:

Eitthvað heggur kaldan kjöl,

kippir leið af stafni. 

Oddur kvað á móti og mælti:

Okkar beggja ferju fjöl

flýtur í drottins nafni.

Stuttu á eftir kom upp hrefna í kjölfarinu, og sagði Hjálmar að Oddi hefði ekki staðið nokkur ótti af henni. Þegar hann skilaði Hjálmari aftur í móðurskaut Sígríðar fóstru hans á Dálksstöðum, -"kvaddi hann mig með tárum, fyrirbón og signingu, sem þá var títt hjá guðhræddu fólki" 

Árið 1824 orti Hjálmar Afmælissaungur, -þá 28 ára, -sem segir talsvert um ævi hans í Eyjafirði.

Æfin líður áfram mín

eins og vatna straumur,

þrauta vafin þungri pín

þánkinn stynur aumur.

Af syndugum mig til sæði bjó

sjóli æðstur metinn,

í Eyjafirði illum þó

eg var fyrsta getinn.

Forlög öll mín fyrir sá

faðirinn alda’ ógleyminn,

þá konu var mér keltu frá

kastað inn í heiminn.

Ólánsdagur mundi mér,

meðan eg grátinn þreyi,

þegar eg fæddist, því er ver,

á þessum fimmtudegi.

Snemma ævi til þess tókst

að tvinnast þrauta byrði,

aldur mér og ólán jókst

Eyja- hér í -firði.

Á Eyjafjarðar téðu torg,

með tárum þetta ræði,

reynt hef eg bæði sult og sorg,

svita, frost og mæði.

Hefði ei drottins hjálp og náð,

mér hlíft fyrir varga tönnum,

orðinn væri eg að bráð

Eyjafjarðarmönnum.

Loforð þeirra og heiptar hjal,

hjartað særir lúna,

snúin bæði af snót og hal,

snaran fallsins búna.

Þeirra hefur faðmur flár

fundizt banvænligur,

og höggvið mér í hjarta sár

heiptugur góma vígur.

Yndisblóm er byrjandi

böl og harmur stirði,

sjáðu mig faðir, syrgjandi

samt í Eyjafirði.

Kær þín, drottinn, gæzkan greið

gerir létta byrði,

bú mér sjálfur beina leið

burt úr Eyjafirði.

Þolinmæðin mýkir þrá

meðan tími er settur,

hugsa eg minn sé himnum á

hæsti borgar réttur.

Síðan guði sjálfum hjá

sorg mun fram úr rakna,

aldrei jeg um eilífð þá

Eyjafjarðar sakna. (bls 12)

Hjálmar fór úr Eyjafirði til Skagafjarðar og kynntist þar konu sinni Guðnýju Ólafsdóttur, en mæður þeirra voru systur. Þau bjuggu fyrst á Bakka í Öxnadal en fluttu svo til Skagafjarðar og bjuggu fyrst á Nýabæ í Austurdal í fimm ár. Árið 1829 fluttu þau að Bólu (Bólstaðargerði) í Blönduhlíð, og við þann bæ var Hjálmar kenndur.

Lengi á Bólu sé eg sól,

sumar gólar hvert fíól,

líknar sjóli ljær mér skjól,

lífs við ról á eyðihól. (bls 48)

Hjálmar var ekki vinsæll í sveitinni og þegar nágrönnunum þótti fé heimtast illa féll grunur á hann og gerð var þjófaleit hjá þeim hjónum 1838. Þau voru sýknuð ári síðar en hröktust burt frá Bólu. Sauðaþjófnaður var einhver alvarlegasti glæpur bændasamfélagsins og féll Hjálmari kæran þungt.

Hræsnarinn kallar helga menn,

sem höfðingsglæpi fela,

að drýgja hór og drepa menn,

dýrka goð og stela. (bls 157)

Hjálmar var sjálfmenntaður, einkum á forn fræði. Hann var rímnaskáld að hefðbundnum sið sem gat bæði kveðið með þeim hætti hvassyrt kvæði og miskunnsöm Heilræði til samtíðar sinnar.

Náðar kljáðu þáðan þráð,

þjáðum ljáðu dáð ómáð,

fjáð heilráðin fáðu aðgáð,

fláðu af háði smáða í bráð. (bls 156)

Hjálmar var hæðinn og þótti þar bæði óvæginn og illskeyttur. Því átti hann sér ýmsa óvildarmenn. Hann átti líka marga vini og var oft fenginn til að skemmta því hann var fróður og góður sögumaður, skemmti fólki með kveðskap og gat verið hrókur alls fagnaðar þegar hann vildi.

Einhvern tímann hittust Árni á Skútum og Bólu Hjálmar. Þá kvað Árni:

Maður skálmar mikill þar,

mjög sem tálmar dyggðum.

Er það Hjálmar auðnuspar,

sem yrkir sálma háðungar.

Hjálmar lét ekki standa á svari, -né Árna eiga neitt inni hjá sér:

Árni á Skútum er og þar,

úldinn grútar snati.

Hrafna lút í hreiður bar;

hans eru pútur dæturnar. (bls 28)

Vísan Eptirmæli gefur vel til kynna hversu neyðarlega níðskældin Hjálmar gat verið.

Kvaddi drylla kappa fans,

kviðar spilling búin,

burt er frilla fúskarans,

fremd og snilli rúin. (bls 170)

Nafnlausa litla svarta bókin, sem greinilega hefur mikið verið flett af systkinunum í torfbænum, byrjar hins vegar á þessu lífshlaups ljóði:

Hægra mér þótti

hinnig tíðar,

þá fjör og kraptur

fleytti mundum,

hamar, taung, knífur,

hefill, exi,

sveifla sveðju grass

eður sægögnum.

 

Hángandi hrör

í helgin opið

fálmar fluggögnum

fjaðurhjarðar,

skjálfandi mund

við skýjuð augu

lætur lítt

að letra smíði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Má til með að bæta við, frásögu sem kennari minn í barnaskóla, Eiríkur Jónsson, hafði gaman af að segja okkur krökkunum - veit ekki hvort satt er, en skemmtilegt:

Sjá hér:

http://hreinberg.is/?p=2329

Guðjón E. Hreinberg, 17.3.2024 kl. 13:15

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir þennan fróðleik Guðjón, -það er náttúrulega snilld að mæta með svona kveðling til veislu sem engin þarf að taka til sín frekar en hann vill.

Magnús Sigurðsson, 17.3.2024 kl. 14:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband