Fyrirboði og fjórtán fleyttar kellingar

Þar sem ég bjó á 69°N í Noregi; hnitaði sólin himininn hærra á sumarsólstöðum en ég hafði nokkurtíma áður séð, hafði ég þar sama sið og ungur, -að fara út um þúfur andvaka í miðnætursólinni.

Þarna var staður í fjöru, sem mátti njóta miðnætursólarinnar við vaggandi öldunið. Stundum var brekkan upp af fjörunni svo þéttsetin aðdáendum miðnætursólarinnar það líktist áhorfendaskara á fótboltaleik.

Í kvöld 20.06. kl. 20.51 eru sumarsólstöður og hvet ég alla til að leita á vit náttúrunnar þessa mögnuðu nætur á norðurhveli frá sólstöðum til Jónsmessu, -hvort sem er í fjöru eða á fjöllum. Undanfarin tvö ár hef ég haft á stefnuskránni að komast einhverra þessar nátta upp á Rauðshauginn, sem ég sé út um stofugluggann, því þar sé ég vættabyggð norðaustan í haugnum snemma á morgnanna í sólinni.

Markmiðið hefur verið að komast þangað um sólstöður og sjá miðnætursólina skríða yfir sjóndeildarhring úti á Héraðsflóanum, -sem er í tuga kílómetra fjarlægð. Horfandi í hánorður sitjandi í vættaborginni eins og álfur útúr hól. Þetta hefur mér enn ekki tekist og spurning hvernig fer þetta árið.

Þegar maður er á því 64. bæði orðin fótafúinn og mæðin, þá er smá göngutúr upp á Rauðshug meira en hafa það af upp á þriðju hæð í blokk. Auk þess sem maður gerir kröfu um heiðskýrt skyggni. Ég fór upp á Rauðshaug fram og til baka í hendingskasti á sumardegi fyrir meira en 50 árum síðan. Skaust stystu leið í gegnum skógarkjarrið þar sem hlíðin er bröttust, en tók þá ekki eftir vættabyggðinni.

Vonandi kemst ég núna í kvöld þó leiðin verði lengri en í denn, en ef ekki þá læt ég þessar endurminningar um sérstaka sólstöðudaga og sólríkan mánuð á 69°N duga hér á síðunni. Og endurbirti kafla úr bók daganna, því þessa dagana nenni ég ekki að hnoða í leiðinda langloku um ekkert sem skiptir máli.

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -

Engin veit sína ævina 12.06.2011

Fyrir u.þ.b. þremur vikum síðan lagði ég í hann yfir hafið til Noregs.  Mér bauðst vinna sem ég tók fagnandi eftir atvinnuleysi vetrarins. Atvinnutilboðið  bar brátt að og ráðningarferlið einfalt. Á föstudegi sendi ég inn fyrirspurn vegna starfs. Á mánudagsmorgni var hringt og spurt hvort ég gæti hugsað mér að flytja til Noregs og á þriðjudegi voru farmiðar á mail-inu mínu. Það var svo með fyrsta flugi eftir að gosið hófst sem ég lagði af stað suður. Heima á Egilsstöðum var kafalds hríð allt hvítt að kvöldi þann 23. maí og ég þurfti að fá Sigga son minn til að koma á fjórhjóladrifsbíl til að keyra mér á flugvöllinn sem er svo stutt frá þar sem ég bý að það borgar sig að labba ef maður hefur engan farangur. 

Það var undarleg tilfinning að yfirgefa landið sitt, hvítt og svart, snjór fyrir norðan og aska fyrir sunnan og í miðjunni gaus Vatnajökull. Morgunnflug með SAS átti að vera flugið mitt þann 24. maí, en þar sem flugi hafði verið aflýst tvo daga á undan vegna ösku voru farþegarnir u.Þ.b. 70 fleiri en komust í vélina. Mér var sagt við innritun að ég væri ekki á farþegalistanum og yrði að hringja í SAS til að fá skýringu á því. Ég hringdi í SAS og fékk að vita að ég hefði verið settur í flug tveimur dögum seinna og því yrði ekki breytt vegna óviðráðanlegra aðstæðna. 

Þar sem ég hafði nógan tíma ákvað ég að bíða og sjá hvernig innritunin endaði. Það voru 8 sætum óráðstafað í lokin fyrir um 60 manns sem enn biðu eins og ég, þegar 2 sæti voru eftir var kona kölluð upp sem gekk ljómandi að innritunarborðinu og henni fylgdi maður sem sagðist vera ferðafélagi hennar ásamt konu sinni. En sætin voru aðeins tvö en þau þrjú. Önnur daman í innrituninni hringdi og gaf svo hinni merki um að afhenda engan miða, það væri aðeins eitt sæti laust. Því næst kallaði hún, "Magnús Sigurðsson er hann hér", þá var komið að mér að ljóma. Ég þurfti að hlaupa í vélina og þær sem tóku við miðunum kölluðu þegar þær sáu mig, "hlauptu hraðar Magnús það bíður full vél bara eftir þér".  

Þegar vélin hækkaði flugið sást niður á landið, vinstra megin var það hvítt hægra megin lá yfir því ömurlega svört móða sem gaf til kynna að ef hún legðist yfir flugvelli að þá yrði varla mikið um flug. Hvernig það stóð á því að ég komst með þessu flugi er mér ennþá hulin ráðgáta, en einhver ákvað að svo skildi vera og þar sem ég hafði ekkert að gera var eitthvað sem sagði mér að bíða þessa tvo tíma sem innritunin tók. Ég komst því langt norður fyrir heimskautsbaug alla leið til Harstad þar sem vinnan beið mín, þennan sama dag. 

Harstad er önnur stærsta borgin í Troms fylki og sú þriðja stærsta í N-Noregi, íbúar eru um 23.000. Borgin er á Hinneyju sem er stærsta eyjan við Noregsstrendur aðeins eyjar Svalbarða eru stærri, af þeim eyjum sem tilheyra Noregi. Hluti Harstad stendur á Trondenes sem um er getið í Heimskringlu sem höfuðstaðar á Víkingatímanum. Harstad sem heitir Harðarstaðir í Heimskringlu tilheyrðu Hálogalandi sem var lítið konungdæmi snemma á víkingatímanum fyrir daga Haralds Hárfagra. Hálogaland náði frá Namdalen í norðanverðum Þrándarlögum til Lyngen í Troms, samkvæmt wikipedia.

Þar sem Harstad er getið í Heimskringlu Snorra þá má geta sér þess til að tengsl þessa svæðis í Noregi við Ísland hafi verið mikil á víkingatímanum og frá Hálogalandi hafi fólkið sem ekki sættu sig við yfirráð Haraldar Hárfagra komið til Íslands. Allavega finnst mér ég sjá hér sömu andlitin og í gegnum tíðina á Íslandi. Fyrsta daginn í vinnunni varð mér starsýnt á ungan mann sem ég hélt að væri Villi Rúnar heitinn frændi minn kominn ljóslifandi. Sömu ljómandi augun, nefið og augnumgerðin nema ég minnist þess ekki að hafa séð Villa með skegg.

Núna eru vikurnar að verða þrjá hér í Harstad, ég lofaði að vera 13 vikur til að byrja með og sjá svo til hvort framhald yrði. Það er svolítið sérstakt að vera í þrældóms múrverki fimmtugur vinnandi með mönnum sem flestir eru á mun betri aldri. Vinnufélagarnir eru frá Afganistan, Súdan og Noregi. Vinnuveitandinn og eigandi Murbygg er kjarnorku kona, Mette Eide, menntuð sem verkfræðingur en hefur rekið Murbygg í áratugi. Vissulega svolítið sérstakt að kona skuli reka hreinræktað múrarafyrirtæki. En sem komið er leggur hún áherslu á að ég flytji ásamt Matthildi minni hingað til Harstad, allavega í fáein ár meðan atvinnuástandið er gott hér og slæmt á Íslandi. Matthildur kemur í ágúst til að skoða sig um og þá verður ákvörðun tekin um framhaldið.

Það hafa verið ófáir sólskinsdagar hérna langt fyrir norðan heimskautsbaug og heimskautanóttin bjartari en dagarnir geta verið sunnar á hnettinum. Þó svo vinnan sé allt annað en létt fyrir gamlan skarf í eingri þjálfun, þá er bara lífsins ómögulegt að sofa sólskinsbjört kvöldin. Þau eru notuð til gönguferða auk þess sem vinnuveitandinn Mette hefur tekið mig í kennslustund í seglbátasiglingu, en siglingar um  norðurhöf á skútunni Libra eru áhugamál Mette og Sverre sambýlismanns hennar.

Það er ekki hægt að segja annað en að móttökurnar sem íslendingur fær hér hjá íbúum Hálogalands séu höfðinglegar. Í dag Hvítasunnudag var ég boðinn í grillveislu í sveitinni þar sem heilgrillað var lamb í Samatjaldi og flutt lifandi samísk tónlist.

 

Fjórtán kerlinga fyrirboði 20.06.2011

Hún hefur skinið glatt sólin 24/7 hér í Hálogalandi undanfarið enda sumarsólstöður í nánd. Það er ekki laust við það að næturnar beri með sér andvökur bernskuminninganna sem rifjast upp um það þegar dagarnir voru ekki nógu langir, ekki einu sinni um Jónsmessuna þar sem dagur og nótt runnu í eitt. Þá var oft erfitt fyrir lítinn snáða að halda sig í rúminu yfir blánóttina. Helst að hægt væri að drepa tímann við að syngja slagara fyrir yngri systkinin þegar miðnætursólargeislarnir skinu inn um herbergisgluggann á eina herberginu í litla húsinu á hæðinni á Egilsstöðum sem kallað var Hábær. Lagið Obladi, Oblada, var þá efst á vinsældarlistanum, live goes on, yeah....

Í gegnum tíðina hafa Jónsmessunæturnar alltaf gefist mér illa til svefns og ófáar farið í að vaka næturkyrrðina við fuglasöng og geisla morgunnsólarinnar. Eða farið í það sem skyldan bar til í sveitinni hjá afa og ömmu, að liggja andvaka í bólinu bíðandi óþreyjufullur eftir því að komast út í fljótsmölina við kelduna þar sem vitjað var um silunganetin á morgnanna og finna þar flata líparít steina sem hentuðu vel til að fleyta kerlingar á spegilsléttu Lagarfljótinu. Þrjár kerlingar í röð var nokkuð gott að mati 7 ára gutta en allt umfram fjórar var frábært. Með árunum hafa Jónsmessuvökurnar orðið erfiðari, en nú þegar örlögin hafa borið mig langt norður fyrir heimskautsbaug er eins og til hafi orðið nýr kraftur frá sólinni sem hnitar loftið hátt hér um miðnættið í Harstad.

Hvernig og hvers vegna forlögin báru mig akkúrat hingað á þennan stað er íslensk kreppusaga. Hérna, þar sem fáir steinar finnast til að fleyta kerlingar skín sólin skærar um miðnættið en ég hef áður séð. En fyrirboðarnir á leiðinni hingað voru margir og engin er ferðin á fyrirheits. Það augljósa er að það er ekki einfalt mál að fyrir atvinnulausan mann með fimm áratugi á bakinu að gera sig gildandi á krepputímum í starfsgrein þar sem lítil er eftirspurnin. 

Þennan veturinn kom oft upp í hugann samtal sem ég átti við kunningja minn vorið 2009. Hann átti tvö vel rekin fyrirtæki 2008, eða þar til skuldir annars fyrirtækisins hækkað um rúm 100% vegna gjaldþrots bankakerfisins á Íslandi. Lánadrottnarnir sýndu enga miskunn, hirtu allan tækjabúnað og fyrirtækið var gjaldþrota á augnbliki þrátt fyrir góða verkefnastöðu, keyrt í þrot vegna þess að hann var ekki tilbúin til að leggja heimilið að veði fyrir stökkbreyttum skuldunum. Kunningi minn sagði að hann héldi hinu fyrirtækinu sínu skuldlausu og það ætti einn bíl til samskonar rekstrar og á því ætlaði hann að byggja sig upp aftur. Þetta væri gott betur en hann hafði átt þegar hann byrjaði í þessum atvinnurekstri fyrir meira 20 árum síðan. Ég sagði við hann "blessaður labbaðu frá öllu klabbinu skuldlaus ef þú getur, það eru runnir upp þeir tímar á Íslandi að litlum töppum eins og okkur er bara ætlað að blæða" hann spurði mig "hvað á ég þá að hafa fyrir stafni". 

Ég ráðlagði honum að setjast niður á svölunum heima hjá sér og nota daginn í að fylgjast með skýjunum fara yfir himininn og í mesta lagi eiða orku í að depla augunum. Það væri kannski ekki ábátasamt en það ylli honum ekki frekara tjóni, rifjaði svo upp söguna af köllunum á Djúpavogi í kreppunni miklu, sem Stefán Jónsson rithöfundur segir af bókinni "Að breyta fjalli". Þar segir að einn af sonum Djúpavogs, ráðherra á sinni tíð, hafi látið þau boð út ganga að ríkisstjórnin væri tilbúin að leggja til efni í íshús á Djúpavogi, ef kallarnir sæju um að byggja það kauplaust.

Eftir sellufund hjá körlunum á Djúpavogi komust þeir að þeirri skinsamlegu niðurstöðu að þetta yrði þeim aðeins til tjóns, því þetta kostaði þá slit á fötum. Ég skildi ekki niðurstöðuna þegar ég las þetta fullur eldmóðs hins nýkvænta manns, en skil hana mjög vel í dag eftir að hafa upplifað rúmlega tveggja ára kreppu undir handleiðslu íslenskra stjórnmálamanna, auk þess að hafa áttað mig á því að það að byggja íshús þá var álíka vitlaust og að endurreisa banka í dag, verður varla til annars en slits á fötum almúgamannsins. Síðan við kunningi minn áttum þetta samtal hefur hann þrisvar komið að máli við og sagt mér hversu vitlaust hafi verið af sér að taka ekki mark á mér, ég segi þá ævinlega við hann "ég hefði betur gert það sjálfur".

Svo var það núna í vor eftir að hafa hangið heima við skýjaskoðun í allan vetur, milli þess sem ég sem ég deplaði augunum og skaust til dyra til að taka á móti stefnuvottum auk stuttra ferða í bankann, að upp í hugann kom að gaman væri að kíkja á skýin í öðrum löndum. Eftir að hafa orðað heimsókn við Tóta vin minn, sem fluttist til Noregs ásamt sinni frú sumarið 2009, þá alveg laus við áhuga á skýjaskoðun og að borga húsið sitt tvisvar, var ekki aftur snúið. Við frú Matthildur skildum fara í páskaheimsókn til vina okkar í Noregi. 

Það var í þeirri ferð sem fyrirboðarnir fóru að hrannast upp. Við ákváðum að gista nótt á hóteli í Osló, og þar sem við hvorki höfðum efni á þessu ferðalagi né hótelgistingu, ákvað ég upp á íslenska móðinn að við myndum gista á hæsta og flottasta hótelinu þar í bæ, Scandinavia. Strax og við komum þar inn vildi daman í móttökunni endilega láta okkur hafa tvær nætur fyrir tilvísunina sem var til einnar nætur. Ég afþakkaði það með trega þar sem skipulag ferðarinnar gerði ráð fyrir öðru, en spurði hvort ekki væri hægt að fá reyk herbergi. Hún rétti mér lykilinn og sagði; "2107, þú kemst ekki hærra". Herbergi  nr. 7 á 21. hæð; konungshöllin, Nationalteatre, Stórþingið og Karl Johann fyrir neðan herbergisgluggann. Matthildur grunar mig sjálfsagt enn um að hafa beðið um herbergi með sama númeri og afmælisdagurinn hennar 21. júlí.

Fljótlega í þessari páskaheimsókn fór ég að hafa það á tilfinningunni að allt væri svolítið á eftir í Noregi, árið 2006 væri ný gengið í garð, þvílíkar voru framkvæmdirnar. Því þarf það ekki að koma á óvart að í undirmeðvitundina hafi verið sáð þeim fræjum að hér gæfist tækifæri til að leiðrétta það sem aflaga fór hjá mér á Íslandi frá því haustið 2008. Það var ekki til að slá á þessa hugmynd að vinafólkið Tóti og Dúna lofuðu Noreg sem blómstur að vori. Svo var það þegar Tóti fór að sýna okkur eyju rétt fyrir utan Sjelsvíkina þeirra Dúnu að en einn fyrirboðinn birtist.

Þegar við gengum út í skógi vaxna eyjuna á flotbryggju þar sem fjöldi fólks dundaði sér við stangveiðar, barst talið sem oftar að ágæti Noregs. Ég sagði að eitt væri þó öruggt að í Noregi væri ekki hægt að finna jafn fallega steina og á Íslandi, Noregur væri bara klettur með trjám. Matthildur sem alltaf hefur verið fundvís á það sem fallegt er var ekki búin að vera lengi út í eyjunni þegar hún fann þennan líka fallega steininn, flata gabbró flögu sem glitraði í sólskininu. Þegar við fórum yfir flotbryggjuna aftur í land rétti hún mér steininn svo ég gæti skoðað hann betur. Sólin merlaði á spegilsléttum sjónum og ég gat ekki stillt mig um að beygja mig eldsnöggt niður og þeyta steininum eftir haffletinum; "sástu þetta fjórtá kellingar" sagði ég hróðugur "þetta er met, gott ef ekki heimsmet". Mattildur skildi ekki mikilvægi þess að fleyta kerlingar og sagði bara; "þú ert búinn að henda fallega steininum mínum villtu gjöra svo vel og sækja hann" ég reyndi að skýra undrið "en fjórtán kellingar Matthildur, þetta boðar eitthvað".

Þó ég hafi enga steina fundið ennþá til að fleyta kerlingar í gönguferðum mínum í kvöldlogninu hérna í Harstad þá er ég kominn í hóp sem hefur kennslu seglbátasiglinga fyrir börn og unglinga að áhugamáli. Það er ævintýri fyrir gutta eins og mig að fá að sigla á barnabát. Ég hef líka komist í að sitja í kvöldkaffi með þremur reyndum skútukerlingum samtímis í bátahöfninni, sem verður að teljast nokkuð gott eftir tæplega fjögra vikna dvöl. Hver fyrirboðinn er yrðu þær fjórtán, í það væri gaman að spá fyrir okkur Matthildi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Það þarf lengri tíma til að lesa og skilja til að eitthvað annað en kink á koll fylgi lestrinum, og þá jafnvel kinkið var ekki auðskilið.

Eftir standa hughrifin.

Hjá steypukalli, sem sækir visku sína í steypu, sú vísan er aðeins gárun á visku, sem þarf lengri hugsun, það er hjá langtíma steypuköllum, eða orðsnilld sem aðeins galdur lífsins getur útskýrt, og sú blanda gerir okkur hina frjórri og á stundum,, skilning á því hvað við erum.

Takk fyrir að vera til Magnús.

Kveðja úr síðrigningunni í neðra.

Ómar Geirsson, 21.6.2024 kl. 23:02

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir góð orð Ómar.

Já, það eru þreytumerki þegar maður nær ekki hughrifum til að þvæla í langloku og sólin hnitar himininn í hæðstu hæðum. Dregur þess í stað fram í sólarljósið gamla rykfallna daga.

Nei, ég hafði mig ekki á Rauðshauginn, þó var von um magnað miðnætti þennan sólstöðusólahring, -á þá ferð inni. Segja má að ég hafi haft afsökun, því þessum sólstöður hafi farið í það dýrmætasta í heimi hér, -börn og börn barnanna.

En þau hittust í fyrsta skipti öll saman á Reyðarfirði sólstöðukvöldið og auðvitað brunuðum við Matthildur mín í neðra. Þar voru nöfn þeirrar yngstu opinberuð en hún kom í heiminn 10. júní.

Við Matthildur höfðum fengið að vita nöfnin áður, eða um leið og litla ljósið kom heim á Reyðarfjörð úr Reykjavík. Til stóð að hún kæmi í heiminn í Neskaupstað en það sem breytti því er hornrekasaga okkar landsbyggðafólks.

Sú litla fékk nafnið Matthildur Helga, -og þegar móðir þeirra Ævi og Óra heyrði nöfnin í fyrsta sinn með litlu frænku sína fanginu, þá grét hún, -og sagði; -ég vissi að þið mynduð láta hana heita Matthildi.

Matthildur Helga eru nöfnin á yngsta sólargeislanum og er heitin heftir formæðrum úr báðum hættum, ásamt foreldrum sem hafa Helga og Helgi sem annað nafn. Þannig að það má segja sem svo að ég sé löglega afsakaður fyrir að hafa ekki haft mig upp á Rauðshauginn á þessum sólstöðum. 

Nú í vikunni að verður brunað í neðra til annars en steypa, -ef Guð lofar. Á milli fjallana - Innsævi ykkar í neðra, -til að vera við opnun sýningar systur minnar í Þórsmörk á Þiljuvöllum. Þar sem hún gerir upplifun sinni af Skorrastað skil.

Við það tækifæri stendur til að Guðjón frá Skorrastað taki lagið m.a. með félögum sínum úr fornfrægum Kvöldverði á Nesi og svo aftur síðar um kvöldið í Egilsbúð.

Bestu kveðjur í neðra úr morgunn gróðrarskúrunum í efra.

Magnús Sigurðsson, 22.6.2024 kl. 07:38

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús, svona í upphafi fótboltaleiks sem á að horfa á, en annir og athugasemdir náðu inní upphaf leiksins.

Þú ert góður Magnús, alveg eins og Skáld lífsins, það er ekki flóknara en það.

Kvöldverður á Nesi, með Guðjóni, Danna og Sigga, þvílíkir snillingar sem árgangurinn á eftir mér náði að skapa og fóstra.  En þeir voru ekki mjög góðir í íþróttum, allt hefur sína kosti og galla.

Þessi viðburður hefur farið framhjá mér, takk fyrir að kveikja á mér.

Við lifum kannski fortíðina og minningar hennar, um líf og gildi sem er þess vert að virða og minnast.

Samt gildi sem ég vona að næsta kynslóð virði og taki mark á.

"Þetta eru rammíslensk nöfn" sagði góð kona við mig á sjúkrahúsinu á Akureyri þegar ég sagði henni frá fyrirhuguðum nöfnum strákanna minna, og af hverju þeir fengu þau.  Með þeim lifir arfur genginna og þeirra sem eldri eru.  Eða eitthvað svoleiðis, eitthvað sem ég oft hugsað að væri rétt hjá henni.

Þú endurskapaði þessa minningu Magnús, hafðu þökk fyrir það.

Vissulega ráðum við ekki við aldur og þreytu, eða tómlæti firringarinnar sem kennd er við nútímann.  En við ráðum okkur sjálfum.

Náum kannski ekki að fylla tómið af hugsunum og orðum, en við reynum þó.

Tómið er allavega ríkara eða betra á eftir.

Kveðja úr væntanlegri sumarsól í neðra.

Ómar Geirsson, 22.6.2024 kl. 16:22

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það má með sanni segja Ómar, -að við ráðum okkur sjálfum, því við neitum að láta bjóða okkur hvað sem er,. . . því þrátt fyrir allt, þá erum við íslenskir karlmenn.

Með kveðju úr efra.

ps. hef grun um að sumarsólin eigi eftir að leika við okkur bæði í efra og neðra þegar líður á vikuna.

Magnús Sigurðsson, 22.6.2024 kl. 19:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband