Fjórtán kerlinga fyrirboði

Hún hefur skinið glatt sólin 24/7 hér í Hálogalandi undanfarið enda sumarsólstöður í nánd.  Það er ekki laust við það að næturnar beri með sér andvökur bernskuminninganna sem rifjast upp um það þegar dagarnir voru ekki nógu langir, ekki einu sinni um Jónsmessuna þar sem dagur og nótt runnu í eitt.  Þá var oft erfitt fyrir lítinn snáða að halda sig í rúminu yfir blánóttina.  Helst að hægt væri að drepa tímann við að syngja slagara fyrir yngri systkinin þegar miðnætursólargeislarnir skinu inn um herbergisgluggann á eina herberginu í litla húsinu á hæðinni á Egilsstöðum sem kallað var Hábær.  Lagið Obladi, Oblada, var þá efst á vinsældarlistanum, live goes on, yeah....

Í gegnum tíðina hafa Jónsmessunæturnar alltaf gefist mér illa til svefns og ófáar farið í að vaka næturkyrrðina við fuglasöng og geisla morgunnsólarinnar.  Eða farið í það sem skyldan bar til í sveitinni hjá afa og ömmu, að liggja andvaka í bólinu bíðandi óþreyjufullur eftir því að komast út í fljótsmölina við kelduna þar sem vitjað var um silunganetin á morgnanna og finna þar flata líparít steina sem hentuðu vel til að fleyta kerlingar á spegilsléttu Lagarfljótinu.  Þrjár kerlingar í röð var nokkuð gott að mati 7 ára gutta en allt umfram fjórar var frábært.  Með árunum hafa Jónsmessuvökurnar orðið erfiðari, en nú þegar örlögin hafa borið mig langt norður fyrir heimskautsbaug er eins og til hafi orðið nýr kraftur frá sólinni sem hnitar loftið hátt hér um miðnættið í Harstad.

Hvernig og hvers vegna forlögin báru mig akkúrat hingað á þennan stað er íslensk kreppusaga.  Hérna, þar sem fáir steinar finnast til að fleyta kerlingar skín sólin skærar um miðnættið en ég hef áður séð.  En fyrirboðarnir á leiðinni hingað voru margir og engin er ferðin á fyrirheits.  Það augljósa er að það er ekki einfalt mál að fyrir atvinnulausan mann með fimm áratugi á bakinu að gera sig gildandi á krepputímum í starfsgrein þar sem lítil er eftirspurnin. 

Þennan veturinn kom oft upp í hugann samtal sem ég átti við kunningja minn vorið 2009.   Hann átti tvö vel rekin fyrirtæki 2008, eða þar til skuldir annars fyrirtækisins hækkað um rúm 100% vegna gjaldþrots bankakerfisins á Íslandi. Lánadrottnarnir sýndu enga miskunn, hirtu allan tækjabúnað og fyrirtækið var gjaldþrota á augnbliki þrátt fyrir góða verkefnastöðu, keyrt í þrot vegna þess að hann var ekki tilbúin til að leggja heimilið að veði fyrir stökkbreyttum skuldunum.  Kunningi minn sagði að hann héldi hinu fyrirtækinu sínu skuldlausu og það ætti einn bíl til samskonar rekstrar og á því ætlaði hann að byggja sig upp aftur.  Þetta væri gott betur en hann hafði átt þegar hann byrjaði í þessum atvinnurekstri fyrir meira 20 árum síðan.  Ég sagði við hann "blessaður labbaðu frá öllu klabbinu skuldlaus ef þú getur, það eru runnir upp þeir tímar á Íslandi að litlum töppum eins og okkur er bara ætlað að blæða" hann spurði mig "hvað á ég þá að hafa fyrir stafni". 

Ég ráðlagði honum að setjast niður á svölunum heima hjá sér og nota daginn í að fylgjast með skýjunum fara yfir himininn og í mesta lagi eiða orku í að depla augunum.  Það væri kannski ekki ábátasamt en það ylli honum ekki frekara tjóni,  rifjaði svo upp söguna af köllunum á Djúpavogi í kreppunni miklu, sem Stefán Jónsson rithöfundur segir af bókinni "Að breyta fjalli".  Þar segir að einn af sonum Djúpavogs, ráðherra á sinni tíð, hafi látið þau boð út ganga að ríkisstjórnin væri tilbúin að leggja til efni í íshús á Djúpavogi, ef kallarnir sæju um að byggja það kauplaust.

Eftir sellufund hjá körlunum á Djúpavogi komust þeir að þeirri skinsamlegu niðurstöðu að þetta yrði þeim aðeins til tjóns, því þetta kostaði þá slit á fötum.  Ég skildi ekki niðurstöðuna þegar ég las þetta fullur eldmóðs hins nýkvænta manns, en skil hana mjög vel í dag eftir að hafa upplifað rúmlega tveggja ára kreppu undir handleiðslu íslenskar stjórnmálamanna, auk þess að hafa áttað mig á því að það að byggja íshús þá var álíka vitlaust og að endurreisa banka í dag, verður varla til annars en slits á fötum almúgamannsins.  Síðan við kunningi minn áttum þetta samtal hefur hann þrisvar komið að máli við og sagt mér hversu vitlaust hafi verið af sér að taka ekki mark á mér, ég segi þá ævinlega við hann "ég hefði betur gert það sjálfur".

Svo var það núna í vor eftir að hafa hangið heima við skýjaskoðun í allan vetur, milli þess sem ég sem ég deplaði augunum og  skaust til dyra til að taka á móti stefnuvottum auk stuttra ferða í bankann,  að upp í hugann kom að gaman væri að kíkja á skýin í öðrum löndum.  Eftir að hafa orðað heimsókn við Tóta vin minn, sem fluttist til Noregs ásamt sinni frú sumarið 2009, þá alveg laus við áhuga á skýjaskoðun og að borga húsið sitt tvisvar, var ekki aftur snúið.  Við frú Matthildur skildum fara í páskaheimsókn til vina okkar í Noregi. 

Það var í þeirri ferð sem fyrirboðarnir fóru að hrannast upp.  Við ákváðum að gista nótt á hóteli í Osló, og þar sem við hvorki höfðum efni á þessu ferðalagi né hótelgistingu, ákvað ég upp á íslenska móðinn að við myndum gista á hæsta og flottasta hótelinu þar í bæ, Scandinavia.  Strax og við komum þar inn vildi daman í móttökunni endilega láta okkur hafa tvær nætur fyrir tilvísunina sem var til einnar nætur.  Ég afþakkaði það með trega þar sem skipulag ferðarinnar gerði ráð fyrir öðru, en spurði hvort ekki væri hægt að fá reyk herbergi.  Hún rétti mér lykilinn og sagði; "2107, þú kemst ekki hærra".   Herbergi  nr. 7 á 21. hæð; konungshöllin, Nationalteatre, Sórþingið og Karl Johann fyrir neðan herbergisgluggann.  Matthildur grunar mig sjálfsagt enn um að hafa beðið um herbergi með sama númeri og afmælisdagurinn hennar 21. júlí.

Fljótlega í þessari páskaheimsóknfór ég að hafa það á tilfinningunni að allt væri svolítið á eftir í Noregi, árið 2006 væri ný gengið í garð, þvílíkar voru framkvæmdirnar.  Því þarf það ekki að koma á óvart að í undirmeðvitundina hafi verið sáð þeim fræjum að hér gæfist tækifæri til að leiðrétta það sem aflaga fór hjá mér á Íslandi frá því haustið 2008.  Það var ekki til að slá á þessa hugmynd að vinafólkið Tóti og Dúna lofuðu Noreg sem blómstur að vori.  Svo var það þegar Tóti fór að sýna okkur eyju rétt fyrir utan Sjelsvíkina þeirra Dúnu að en einn fyrirboðinn birtist.

Þegar við gengum út í skógi vaxna eyjuna á flotbryggju þar sem fjöldi fólks dundaði sér við stangveiðar, barst talið sem oftar að ágæti Noregs.  Ég sagði að eitt væri þó öruggt að í Noregi væri ekki hægt að finna jafn fallega steina og á Íslandi, Noregur væri bara klettur með trjám.  Matthildur sem alltaf hefur verið fundvís á það sem fallegt er var ekki búin að vera lengi út í eyjunni þegar hún fann þennan líka fallega steininn, flata gabbró flögu sem glitraði í sólskininu.  Þegar við fórum yfir flotbryggjuna aftur í land rétti hún mér steininn svo ég gæti skoðað hann betur.  Sólin merlaði á spegilsléttum sjónum og ég gat ekki stillt mig um að beygja mig eldsnöggt niður og þeyta steininum eftir haffletinum; "sástu þetta fjórtá kellingar" sagði ég hróðugur "þetta er met, gott ef ekki heimsmet".  Mattildur skildi ekki mikilvægi þess að fleyta kerlingar og sagði bara; "þú ert búinn að henda fallega steininum mínum villtu gjöra svo vel og sækja hann" ég reyndi að skýra undrið "en fjórtán kellingar Matthildur, þetta boðar eitthvað".

Þó ég hafi enga steina fundið ennþá til að fleyta kerlingar í gönguferðum mínum í kvöldlogninu hérna í Harstad þá er ég kominn í hóp sem hefur kennslu seglbátasiglinga fyrir börn og unglinga að áhugamáli.  Það er ævintýri fyrir gutta eins og mig að fá að sigla á barnabát.  Ég hef líka komist í að sitja í kvöldkaffi með þremur reyndum skútukerlingum samtímis í bátahöfninni, sem verður að teljast nokkuð gott eftir tæplega fjögra vikna dvöl.  Hver fyrirboðinn er yrðu þær fjórtán, í það væri gaman að spá fyrir okkur Matthildi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Maggi.

Mikið er gaman að lesa að þú ert ánægður í Noregi .  Ég hafði mjög gaman af lestrinum.

Takk fyrir mig 

Kv Gunni

Gunnar Þór Ármannsson (IP-tala skráð) 21.6.2011 kl. 20:38

2 identicon

Skemmtileg lesning, og vonandi finnur þú þig hérna í Noregi. Ég er búinn að vera hérna í 6 ár og líkar það betur og betur.

Með kveðju frá Bergen,

Ingþór

Ingþór Sigurðarson (IP-tala skráð) 22.6.2011 kl. 11:02

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Gunni og takk fyrir.  Já mér lýst bara nokkuð vel á aðstæður þó svo að þetta sé langt norður í rassgati eins og stundum er sagt.  Það er eitt sem ég hef ekki komið auga á, það er golfvöllur þannig að sennileg myndir þú hugsa þig um áður en þú legðir í hann svona norðarlega.  En hérna eru skíðasvæði með flottum stökkpalli og þessi fíni skeiðvöllur, sem hefðu þótt gersemar á Egilsstöðum í den.

Ingþór þakka þér fyrir það, já ég hef vitað af þér í Bergen og þar hlýtur að vera gott að vera.  Allavega eru þeir sem eru frá Djúpavogi það góðu vanir að þeir létu ekki bjóða sér hvaða umhverfi sem er, Djúpivogur eða austurlandið myndi þá alltaf hafa yfirhöndina.

Magnús Sigurðsson, 22.6.2011 kl. 14:41

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ef þið vitið um múrara sem hefði áhuga á að prófa Noreg þá er tækifæri hér Harstad, vantar menn hjá Murbygg.

Magnús Sigurðsson, 22.6.2011 kl. 14:43

5 identicon

Ja hérna Magnús,ennþá gerast ævintýr....og nú fiskar enginn lengur í Lagarfljóti,nema þá ísfisk ef til vill.

Ég dáist að hvað þú ert laginn við að hrósa konunni þinni um hvað hún sé fundvís á það sem fallegt er:)

bestu kveðjur til ykkar landnámsmsfólks.þið eruð ljósir punktar í tilverunni..

Sólrún (IP-tala skráð) 22.6.2011 kl. 23:31

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir kveðjurnar Sólrún.  Já það er ekki gott með Lagarfljótið fiskurinn að hverfa og hinn sérstaki litur "Vatnajökulsblár" alveg horfin af því.   Sem minnir mig á þegar dóttir mín spurði fyrir mörgum árum þá búandi í Grafarvoginum "pabbi af hverju er alltaf verið að rífast um Kárahnjúka?".  Ég tíndi ýmislegt til og þar á meðal að liturinn á fljótinu myndi breytast, þá sagði hún "það má alls ekki gera Kárahnjúka".  Eftir á að hyggja þá held ég að þetta hafi verið rétt hjá henni.

Já henni Matthildi minni verður aldrei hægt að hrósa nógsamlega.  Ég hef reyndar sagt að hún hafi fundið mig og dregið heim með sér, en sleppi þá alveg að geta þess að ég var búin að skipuleggja þann fund í marga mánuði og meir að segja búin að heita á Strandakirkju, því ekkert mátti klikka.

Magnús Sigurðsson, 23.6.2011 kl. 14:31

7 identicon

Strandakirkja er mikil þjóðargersemi :)

Sólrún (IP-tala skráð) 23.6.2011 kl. 17:30

8 identicon

Sæll Maggi og gaman að lesa pistlana frá þér. Maður er alltaf að uppgötva nýja hluti eins og þetta með málverkin þín sem ég sá í salthúsinu í dag. Keypti eitt gullfallegt og uppgötvaði þá að það var málað af þér og er komið upp á vegg heima hjá mér. Gangi þér vel í nýja landinu.

Sigurjón Snær Friðriksson (IP-tala skráð) 25.6.2011 kl. 13:59

9 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir velfarnaðaróskir mé til handa Sigurjón. 

Það er mikill heiður sem þú sýnir, með því að láta mynd sem ég málaði hanga upp á vegg heima hjá þér.

Hún er þó ekki af sólarupprás í Stöðvarfirðinum?  Þær gerast varla fallegri en í fjörunum þar.

Magnús Sigurðsson, 25.6.2011 kl. 18:26

10 identicon

Þetta er ein af stóru myndunum og er úr jökullóninu og var ég lengi að velja á milli því þetta eru allt frábærar myndir hjá þér.

Sigurjón Snær Friðriksson (IP-tala skráð) 25.6.2011 kl. 18:32

11 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það lýst mér á, njóttu vel.

Magnús Sigurðsson, 25.6.2011 kl. 18:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband