8.7.2024 | 05:50
Hindurvitni og kynjasögur
Nú er fyrsti dagur í sumarfríi og þó svo að helgin hafi verið köld þá lofar þjóðtrúin framhaldinu góðu. Nýtt tungl var á föstudag og stórstreymi í gær. Samkvæmt gömlum hindurvitnum á veðrið ekki að geta klikkað og fræðingarnir spá nú 20°C og yfir ágerist þegar á vikuna líður hér Austanlands, en slíkt hefur aðeins gerst einu sinni það sem af er sumri.
Það styttist því í að setið verði á sólpallinum úti við ysta haf og horft út á hafið bláa hafið yfir á Kambanesið við prjónaglamur og kaffiilm. Sólhóll, guli bárujárnshjallurinn okkar Matthildar minnar, stóð áður á Kömbum á Kambanesi, eða allt til ársins 1944 en húsið var byggt á Kömbum fyrir hart nær hundrað árum.
Í tilefni þessa ætla ég að setja hér inn kynjasögu sem er brot úr frásögn sem birtist í nýjasta hefti Múlaþings, -og mér þykir stórmerkileg. Ekki bara fyrir tenginguna við Kamba, heldur vegna þess að þar segir ungur drengur þjóðsögur. Þetta er brot úr endurminningum Guðbrands Erlendssonar sem fluttist ungur til Kanada og bjó síðar í N-Dakota.
Amerískur fræðimaður fann handrit Guðbrandar eftir hans daga og þótti skrifin merkileg. Kom til landsins og alla leið austur á Kambanes og fékk Sturlaug Einarsson á Heyklifi á Kambanesi til að sýna sér staðhætti. Síðar sendi hann Stulla vini mínum kafla úr handritinu sem tekur til ára Guðbrands á Kömbum á milli 5 og 11 ára aldurs.
Það er ótrúlega margt sem kemur fram í þessu stutta handriti, sem í vor var birt í ritinu Múlaþing, er kastar ljósi á mikla atburð. Sagnir sem hingað til hafur ekki verið hægt að heimfæra á sannfærandi hátt því brot af sögu þessari eru einungis til í þjóðsagnasöfnum.
Fyrir tveimur árum birti ég frásögn Guðjóns Brynjólfssonar Sjóhrakningur frá Djúpavogi til Vestmannaeyja en þar er sagt frá fiskibátnum Hamarsfirði. Margt í þeirri frásögn hafði hnikast til um ættlið og varð því þjóðsaga en ekki talin áreyðanleg heimild.
Í byrjun frásagnarinnar af seglbátnum Hamarsfirði er sagt frá hákarlaskútunum á Djúpavogi og dapurlegum afdrifum nokkurra þeirra. Í handriti Guðbrands er nákvæm lýsing á hvað kom fyrir hákarlaskúturnar og hvað þær hétu.
Svona getur nú þjóðsagan verið merkileg þegar kurl koma til grafar. Reyndar er mun fleira stórmerkilegra sagna í þessu stutta endurminningabroti ungs drengs frá Kömbum á Kambanesi frá miðri 19. öldinni en það sem hér birtist. Móðir Guðbjartar átti t.d. 3 eiginmenn og missti þá alla áður en hann varð 6 ára, tvo í hafið og faðir Guðbrandar, sem var í miðið, -úr lungnabólgu.
Hann segir frá skyggni móður sinnar þegar þriðji eiginmaðurinn fórst á sjó við Kambanes og orðum hennar; -mér er ekki tamt að æðrast en nú er öll von úti. Og þegar nágranni kom í Kamba til að tilkynna henni sjóslysið; -þú munt kominn til að segja mér sorgartíðindi, segðu mér allt sem þú veist um þau, ég er undir það búin að hlusta á þau. Og þegar komumaður lauk máli sínu; -enn á ný hef ég mikið misst, -en Guð gaf og Guð tók, sé nafn hans vegsamað. Hann gaf mér þrjá ágætismenn, hann átti frjálst með að kalla þá á undan mér.
Þó svo að nú sé sumar og gleðjist gumar því gaman er í dag og brosi veröld víða veðurlagsins blíða, þá ætla ég að hefja þessa blíðviðrisviku í sumarfríinu á því að birta frásögn Guðbrandar frá Kömbum af bátabylnum eins og hún er í Múlaþing. En til að skilja til fulls hversu merkileg hún er er rétt að lesa líka frásögn Guðjóns Brynjólfssonar af sjóhrakningnum frá Djúpavogi.
Færeyingar gerðu út skútur lengur en Íslendingar, hér er ein slík á Stöðvarfirði sumarið 1944, sama sumar og húsinu á Kömbum var fleytt af Kambanesi yfir Stöðvarfjörð þar sem það fékk nafnið Sólhóll
- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -
Bátabylurinn
Hvort hinn svonefndi Bátabylur átti sér stað vorið 1850 eða árið 1849 get ég ekki sagt með vissu en það sem ég man til hans er þetta. Ekki blöktu hár á höfði, ég geng með mömmu út að fiskiklöppinni, þar fleygja þeir upp fiski úr Spes, faðir minn og Ólafur á Einarsstöðum binda hana svo við klöppina til þess strax og þeir höfðu neytt miðdegisverðar að sækja aðra hleðslu út á Stöðvarfjörðinn.
En þegar þeir voru að stíga í bátinn brast í byl svo snarpan að þeir áttu erfitt með að koma bátnum í naustið. Grimmdarfrost og fannkynngi hélst upphaldslaust í marga daga. Loks þegar veður þetta hætti gerði logn og sást þá frá Gvendarnesi bátur er barst með sjávarfalli. Reyndist þetta vera Morgunnroði, skipaður dugandi mönnum er allir höfðu látið lífið og lágu í bátnum.
Það var mál manna að þeir hefðu haldist við undir skeri á milli Skrúðs og lands. Morgunnroði hafði dekk í fram og afturskut, opinn í miðju, sömuleiðis setubátarnir Fortúna og Berufjörður. Eina skipið sem bjargaðist var þilskipið Bóthildur, sex lesta skip, var formaður hennar Einar á Streiti, tengdafaðir Sveins Pálssonar. Einn af hásetum hennar var Sigurður föðurbróðir minn.
Ég man eftir ýmsu er ég heyrði hann segja föður mínum rétt eftir bylinn. Bóthildur lá til drifs meðan á veðrinu stóð. Urðu skipsmenn því ekki lítið undrandi er þeir sáu Fortúna með segl uppi skjótast fram hjá þeim, það var það seinasta sem til hennar sást. Ekki gátu þeir á Bóthildi eldað sér mat, gerðu þó tilraun til þess, en þeir höfðu skjólið undir þiljum, það hélt í þeim lífinu. Þegar veðrinu létti hafði þá drifið langt í haf. Tók það langan tíma að sigla til lands.
Á öllum þessum bátum voru eftir því sem ég heyrði sagt úrvals menn. Hér tek ég upp sögu sem er ég heyrði Höskuld Bjarnason á Þverhamri segja:
Við skutum út bát fjórir saman og rerum út til flæmskrar fiskiskútu sem lagst hafði innarlega á Breiðdalsvíkinni. Eins og við áttum að venjast tóku Flandrarar vel á móti okkur. Eftir þáðar veitingar undir þiljum stönsuðum við á dekkinu, gengur þá að mér einn skipsmaðurinn, horfir stíft á mig og spyr Heitir þú Höskuldur? Ekki átti ég því að venjast að heyra nafn mitt svona skýrt nefnt af útlendum manni eins og maður þessi gjörði, játa því og spyr hvernig honum sé kunnugt um nafn mitt, af því segir hann, að þú ert svo líkur bróðir þínum Stefáni. Hvar hefur þú séð hann? spyr ég. Tvö ár eru liðin síðan við landsmenn mínir vorum hér undan landi í því versta veðri sem ég hef litið. Það var á öðrum degi bylsins að skip það er ég var háseti á bar að bát sem var að sökkva í bylgjur hafsins. Það eina sem við gátum gert fyrir vesalings skipshöfnina var að kasta út kaðli um leið og okkur bar framhjá bátnum. Þrír náðu haldi á kaðlinum er við skjótlega drógum inn í skipið. Þeir voru Stefán bróðir þinn, Brynjólfur Jónsson og danskur maður sem var kapteinn bátsins. Lét ég í ljós að mér þætti þetta ekki sennilegt: Óhætt er þér að trúa því sem ég segi og því til sönnunar get ég sagt þér að Stefán á hér konu og börn en ekki mun hann hingað leita því hann er giftur og á búgarð í Frakklandi.
Gleymt hef ég hvað hann sagði börnin mörg en rétt sagði Flandrarinn um það. Höskuldur sagðist ekki hafa ástæðu til að rengja þessa sögusögn, spurði manninn hvort hann gæti komið bréfi til bróður síns og játaði hann því, en ekkert hef ég fengið svar upp á bréfið sem ég skrifaði bróðir, sagði Höskuldur.
Þórunn í Snæhvammi var kona Stefáns þessa og Jón maður Guðrúnar Vigfúsdóttur sonur þeirra. Guðrún kona Ólafs Einarssonar var dóttir þeirra en Erlendur Höskuldsson sem ég minntist á í Markland var sonur þess hér oft nefnda Höskuldar. Brynjólfur Jónsson var sonur Guðnýjar á Reyðará í Lóni, hún var systir afa, Brynjólfs á Hlíð í Lóni.
Þetta þótti kynjasaga en sökum rökfærslu hásetans var henni trúað. Yfirleitt þótti það kynlegt að mennirnir skyldu ekki vitja átthaga sinna, sögðu þá sumir að það væri nú ekki svo óskiljanlegt með Stefán því kalt hefði verið með þeim hjónum en hvað Brynjólf snerti væri það ráðgáta.
- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -
Þarna koma sömu skipsnöfn fram á hákarlaskútunum sem fórust frá Djúpavogi og í Hrakningasögu bátsins Hamarsfjarðar til Vestamannaeyja, þ.e. Morgunnroði og Fortúna auk þess nafn þriðju hákarlaskútunnar sem fórst -Berufjörður, en nafn hennar þekkti Guðjón Brynjólfsson ekki í frásögn sinni sem birtist Þjóðasagnasafninu Grímu. Ekki hef ég séð þess getið annarstaðar að allar þessar hákarlaskútur hafi farist í einu og sama veðrinu.
Eins kemur nafn Brynjólfs frá Hlíð í Lóni fram í báðum frásögnunum og ýmis fjölskyldutengsl. Virðast Guðný móðir Guðbrands Erlendssonar og Hildur amma Guðjóns Brynjólfssonar hafa verið systur báðar Brynjólfsdætur frá Hlíð í Lóni. Þarna eru brot úr stórri sögu skútuútgerðar til hákarlaveiða við Ísland varðveitt í þjóðsögum og endurminningum í Vesturheimi.
Meginflokkur: Dægurmál | Aukaflokkur: Landsins-saga | Breytt 9.7.2024 kl. 09:03 | Facebook
Athugasemdir
Ég hef meiri áhuga á LEITINNI AÐ HÁÞROSKUÐU LÍFI Í GEIMNUM
heldur en einhverjum hindurvitnum og kynjasögum:
Það er allt önnur saga:
https://contact.blog.is/blog/contact/month/2024/2/
Dominus Sanctus., 8.7.2024 kl. 16:15
Það er einmitt það Dominus, -gangi þér vel að leita.
Magnús Sigurðsson, 8.7.2024 kl. 21:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.