Já þetta ert þú

Það er margt sem ekki er beinlínis í frásögur færandi. Í sumar keyrði ég yfir Öxi ásamt moggabloggara með meiru og prófessor við Maryland háskóla sem skrifar bækur um Tyrkjaránið, eftir að við höfðum fetað slóð Hundtyrkjans í tvo daga fram og aftur Berufjarðarströndina. Ég beygði inn á þvottaplan N1 á Egilsstöðum til að þvo Dusterinn, sem var hlaðinn aur eftir Axar ferðina.

Þeir ferðafélagar mínir fóru inn í Söluskálann til að fá sér í gogginn á meðan ég skrúbbaði bílinn. Ég gaf manni gætur, sem var að þvo bíl við hliðina, því ekki vildi ég lenda í því sama og um árið þegar við Matthildur mín lentum í vatnsslag við rútubílstjóra. Þessi maður gaf mér gætur og þegar augu okkar mættust sögðu við því sem næst samtímis; -já þetta ert þú.

Þarna var kominn gamall kolleiki úr steypunni og ég spurði hvort hann væri enn þá að byggja hús. -Nei ekki nema þá fyrir sjálfan mig og ættingjana; sagði hann. Við höfðum ekki hist í 30 ár og spjölluðum um stund á meðan við þvoðum bílana.

Þegar þvottinum var lokið og það hillti í bloggarann og rithöfundinn þá kvöddumst við og ég bað að heilsa frænku og bað hann um að skila þakklæti fyrir myndina sem hún sendi mér af langömmu okkar á facebook. -Mundi þá allt í einu eftir vefstólnum hennar langömmu og spurði; -vantar ekki frænku vefstól? -Veistu það gæti bara vel verið; sagði hann.

Undanfarin ár hefur vefstóll Ingibjargar Bjarnadóttir langömmu minnar verið mér hugleikinn, og hefur hann orðið tilefni til þess að ég hef á hann minnst í samtölum við fólk á förnum vegi. Þannig var að Björg amma mín vaðveitti þennan vefstól ásamt rokk móður sinnar, rokk sem er mitt helsta stofustáss.

Vefstóllinn er aftur á móti hreinræktað vinnutæki án allra skreytinga, sem rennismíði með pílátum fylgir, sennilega smíðaður fyrir lítið pláss. Vefstólinn hefur síðan amma og afi skildu við verið varðveittur af frænku minni, sem komin er til efri ára, og hefur lengi haft huga á að koma honum í góðar hendur.

Hvorki safnastofnun, óbyggðasetur né aðrir höfðu séð sér fært að varðveita þennan vefstól. Ingibjörg langamma okkar á vel á annað þúsund afkomendur, ekki neinn þeirra, sem spurður hafði verið, sá sér fært að taka vefstólin að sér, enda kannski lítill skaði þó tapaðist samtíningur af gömlum spýtum.

En gamlar spýtur voru ekki bara spýtur áður fyrr, þær voru mikil verðmæti og geta átt mikla sögu. Langamma var fædd í Viðfirði í 16 systkina hóp, bjó á Vaði í Skriðdal og átti þar sjálf 17 börn með tveimur eiginmönnum, dó í Vallanesi í skjóli ömmu og afa. Vefstóllinn hefur margan ullarþráðinn gert að klæði. Það varð mér ljóst þegar ég las endurminningar sr Magnúsar Blöndal.

Af heimilislífinu á þessum bæ um veturinn er fátt eitt að segja. Sambýlið var svo gott sem best getur hugsast, bæði á karl- og kvenhönd. Að mér teknum voru karlar úti við gegningar gripa myrkranna á milli og fram á vökur. Konur litu varla upp úr tóvinnu, enda veitti ekki af, til þess að halda á sér hita, því ekkert eldfæri eða neins konar hitagjafi var til í bænum, nema ef vera skildi hlóðasteinar frami í eldhúsi. En önnur ástæða var til kappsins við ullarvinnuna.

Á Fljótsdalshéraði klæddust menn á þeim tímum ekki öðru en ullarfötum, og hvert heimili varð að halda við fatnaði heimilismanna sinna. – Þegar fram um eða yfir miðvetur kom, var farið að setja upp vefi af þræði, er konur höfðu spunnið. Spunnu þær þá ívafið jöfnum höndum við þráð í næstu vefi. Allar kvöldvökur skammdegisins kembdu karlmenn og / eða tóku ofan ull eftir ástæðum, til stuðnings tóskapnum.

Þegar dag fór að lengja, hófst vefnaðurinn af sama kappi sem önnur tóvinna, enda þá meira tóm frá gegningum. – Þetta var tóvinna með allt öðru sniði og unnin með miklu meiri alvöru og kappi en ég hafði þekkt á Vestur- eða Suðurlandi. En miklu meiri var þó munur vinnunnar. Ég hafði vanist mosa- eða hellulituðum. Hér voru aftur eingöngu notaðir suðalitirnir, samkembdir í margskonar litbrigðu, mjög smekklegum, allt tvíkembt, nauðhært, svo ekki sást toghár á hinum vandaðri fötum, sparifötunum.

Hallgrímur biskup hafði komið á Héraðið sumarið áður (1890). Sagði hann mér meðal annars að hann hefði aldrei á landi hér séð svo prúðbúið og jafnbúið fólk sem þar, og allt heimaunnin ullarföt, og allir bændur í yfirfrökkum úr því sama. Dáðist hann mjög af þessu.

Konur gengu þar með herðasjöl, þríhyrnur og skakka, er svo var nefnt, heimaunnið og prjónað, með allskonar útprjóni. Allt var þetta úr nauðhærðu þeli, í suðalitunum, samkembt, með svo nákvæmum litasamsetningum (sjatteringum) að hrein meistaraverk voru. (Úrdráttur úr texta um vetur í Þingmúla, af heimilislífi og tóvinnu II bindi bls 142)

Þetta má lesa í Endurminningum sr Magnúsar Bl Jónssonar um veturinn 1891-1892, þegar fjölskyldan var nýflutt úr Reykjavík að Þingmúla í Skriðdal. Þá bjó hann ásamt konu sinni Ingibjörgu Pétursdóttir Eggerz og börnum, félagsbúi í Þingmúlabænum með fólki sem var þar fyrir, en um veturinn var Þingmúlaprestakall óvænt sameinað Vallanesprestakalli. Þannig að í Vallanes fluttu þau vorið 1892. Textinn er mun ýtarlegri um það fólk sem kom við sögu á bænum.

Magnús segir einnig frá því í endurminningum sínum, að seinni kona hans Guðríður Ólafsdóttir Hjaltested hafi einsett sér að verða ekki eftirbátur bændakvenna á Héraði í sínum hannyrðum. Hún lærði af þeim og óf sér sjal sem þótti slíkt snilldarverk að hún tímdi ekki að nota það sjálf. Örlög sjalsins urðu þau að það var sent á sýningu til Reykjavíkur og þaðan til útlanda á aðra sýningu um íslenskt handverk, þar sem það var selt á rúmlega tvöföld árslaun vinnufólks þessa tíma.

Til að gera langa sögu stutta þá sendi frænka mér mynd af vefstólnum frá Vaði í síðustu viku þar sem hún hafði komið honum fyrir innan um gullin sín úr Skriðdal og ég fæ ekki betur séð en að hann sé stofustáss.

Vefstóllinn frá Vaði


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband