23.11.2024 | 17:04
Sérviska
Sagt er að sá sem kaupi það sem honum vantar ekki ræni sjálfan sig, sjaldan eiga þessi sannindi betur við en á tímum þegar til er of mikið af öllu öðru en tíma. Þau eru orðin nokkur árin síðan að vistarband kaupaæðisins fór að þvælast um á milli eyrnanna á mér, eða frá því seint á síðustu öld. Það má segja að eitt atvik hafi öðrum fremur kristallað sannindi kaupránsins. En það var þegar góður vinur minn kom eitt sinn í heimsókn. Þessi vinur var, eins og margir af mínum bestu vinum hafa verið í gegnum tíðina, ártugum eldri en ég, því má segja um kynni mín af mörgum minna vina "það ungur nemur, sem gamall temur".
Atvikið sem um ræðir gerðist eitt kvöldið sem vinur minn kom í kaffi og spjall. En þeim ánægjulegu heimsóknum varð ég ósjaldan aðnjótandi á þeim árum. Hann kom venjulega á gamalli Lödu með "fjallstarti", þannig að hann varð að bakka upp í heimkeyrsluna til að Ladan rynni í gang undan brekkunni að heimsókn lokinni. Á laugardeginum fyrir téða heimsókn hafði ég verið að þvo og bóna mynstursteypta heimkeyrsluna, sem rúmaði fjóra bíla. Það hafði farið nokkur tími í að fjarlæga svört dekkjastrik eftir veturlangt fjallstart Lödunnar auk þess sem ég lét nagladekkjarispur fara í mínar fínustu. Vinur minn kom einmitt í heimsókn á meðan á pjattinu stóð svo ég notaði tækifærið og bað hann um að láta Löduna ekki renna í gang eftirleiðis fyrr en hún væri komin út af bílastæðinu mínu og út á götu. Hann tók vel í það eftir að hafa skoðað aðstæður, svo fórum inn í kaffi.
Næst þegar hann kom í heimsókn og hafði bakkað upp í bílastæðið bað hann mig um að koma með sér út á bílaplan og reyna að koma tölu á þau verðmæti sem þar væru. Ég hafði nýlega keypt splunkunýan amerískan eðalvagn auk þess sem þar stóð nýlegur amerískur pikcup. Hann spurði mig hvort ég hefði reiknað út hvað bílarnir á planinu kostuðu og hvort ég hefði ekki áhyggjur af því að þeir rispuðust eins og planið? Ég var tregur til svars, en hann spurði um verð og sá svo um samlagninguna, og að endingu vorum við komnir með milljónir sem slöguðu hátt í hálft húsið.
Þá sagði hann, "hér kem ég á minni 100 þúsund króna Lödu sem ég losa mig við næst þegar hún fær ekki skoðun og kaupi mér þá sennilega aðra full skoðaða á 100 þúsundkall, ég nota hana til að keyra á milli staða rétt eins og þú notar þína eðalvagna, en rétt eins og þú þá get ég ekki keyrt nema einn bíl í einu. Og af því að hann kostar mig lítið þá þarf ég ekki að hafa neinar áhyggjur".
Það er einmitt á svona augnablikum sem það rennur upp fyrir manni hvernig fólk er haft að fífli. Mig hefur aldrei skort skuldir né skotsilfur, en hef ekki alltaf haft hugmyndaflug til að átta mig á hvað þetta tvennt er nátengt skorti á tíma. Ég hafði fram að þessari samlagningu okkar vinanna kappkostað að aka um á nýjum bílum. Eftir þessa opinberun hef ég aldrei keypt nýjan bíl, meir að segja auglýsti ég um tíma (til að trompa vin minn) eftir nothæfum bílum gegn 70 þúsund kr. staðgreiðslu, og kom þá alltaf jafn mikið á óvart hvað góðir bílar buðust.
Þetta samtal okkar vinanna í denn opnaði augu mín fyrir því hversu margs er hægt að fara á mis ef maður metur tímann í peningum og efnislegum gæðum. Ég hafði eitt mörgum árunum að heiman við verkefni sem gáfu vel í aurum til skipta fyrir flottheit, en í staðinn misst af margri gæðastundinni með fjölskyldunni. Smá saman rann upp fyrir mér hversu vandmeðfarið það er að kaupa sér gæðatíma með peningum og hvað miklu auðveldara er að gefa sér þann tíma, það kostar ekki krónu. En þar sem nútímasamfélag er meir og minna byggt upp á metingi mælieininganna, tími og peningar, þá er ekki auðvelt að sleppa af hlaupabrettinu án þess að hrasa og teljast stór skrítinn auli. Varla er vandaminna að fara út á kannt mannlegs samfélags án þess að tapa sjálfum sér og vinunum.
Ég hafði í upphafi hugsað mér að hafa þennan pistil um allt annað, eða um það hvernig er hægt að kíkja út fyrir kassann sem stundum er kallaður The Matrix. Hvernig gamall getur numið í nútímanum það sem ungum var tamt lifa eftir á fyrri tímum. Hversu langt væri hægt að komast inn í afdalinn til að finna sjálfan sig alsælan í vegkantinum tyggjandi njóla. En sú saga verður að bíða betri tíma.
ps. þessi pistill birtist hér á síðunni fyrir rúmum 6 árum síðan, eins og kemur fram í lok hans þá var hann formáli að öðrum sem má lesa hér. Hér fyrir fyrir neðan er myndband þar sem fólk deilir svipaðri reynslu.
Athugasemdir
Lærði það af illri nauðsyn - þegar ég þurfti að mæla hverja krónu í um það bil fjögur ár fyrir rúmum áratug - að ef ég kemst af án þess í dag, þá vantar mig það ekki. Á þessum tíma hætti ég að hringja í fólk að fyrra bragði og þegar t.d. rafmagn og hiti hækkuðu um þrjátíu prósent - með elítuútskýringum - dró ég saman rafnotkun og hita um þrjátíu prósent, sem var kúnst.
Allavega, þá er gott að læra þetta, en vont ef það lærist af nauðsyn á okkar hræsnisfullu velsældartímum. Í dag skil ég ekki fólkið sem veit verðmiða allra hluta en verðmæti einskis, svo vitnað sé í Oscar Wilde, og sóar lífi sínu í að elta glingurlíf svo vitnað sé í Charles Búkowský, eða miklar sig af bergmáli þegar það getur fleygt sér á grúfu í mölina svo ég vitni í vonda tvibbann.
Guðjón E. Hreinberg, 24.11.2024 kl. 21:33
Forgangsröðin var einföld, a) eiga fyrir hudamat b) tóbak fyrir sálarlífið c) pönnukökuvatnsdeig með smjörklípu og mjólk fyrir bumbuna. Einfalt.
Guðjón E. Hreinberg, 24.11.2024 kl. 21:36
Þakka þér fyrir þennan vitnisburð Guðjón, -sem kemur vel inná hvers virði það er að læra kúnst frekar en illa nauðsyn.
Það sem kom mér á óvart er hvað miklu meiri verðmæti fylgja í kaupbæti en maður bjóst við, -og reiknaði ég þó með talsverðu.
Ég hef reyndar verið heppinn með þá sem ég hét tryggði þar til dauðinn aðskilur og að við höfum haft salt í grautinn, börnin í grennd og svo barna-börnin, -allt sem skiptir máli.
Guðs blessun og bestu kveðjur.
Magnús Sigurðsson, 25.11.2024 kl. 05:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.